13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil út af ummælum frsm. meiri hl. n., þegar hann minntist á fóðurbætismálin, leyfa mér að taka undir það, að þrátt fyrir samþykkt þessa frv. er þar stórt mál óleyst. Hvort tveggja er, að árferði hefur verið eins og það hefur verið og heyskapur lítill, og af þeim orsökum verður nú mjög mikil fóðurbætisnotkun í sumum landshlutum og hefur beinlínis verið hvatt til þess og heitið aðstoð til þess að fóðra á slíkan hátt, og annað hitt, að enda þótt þetta frv. verði að lögum, eru þær hækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins, sem þar um ræðir, eingöngu bundnar við þann hluta þeirra, sem tekinn er inn í verðlagsgrundvöllinn, en þar vantar því miður mjög mikið á, að eðlilega sé talið að okkar dómi.

Við höfum ekki getað orðið sammála í landbn. um þetta mál. Að vísu eru allir nm. sammála um þau meginatriði frv., að verðhækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins vegna gengislækkunarinnar skuli koma inn í verðlag landbúnaðarvara 1. jan., og eins hitt, að gengishagnað af framleiðslu landbúnaðarins á þessu ári skuli nota til þarfa landbúnaðarins. Um þetta erum við alveg sammála í nefndinni. En eins og hv. þdm. sjá, leggur minni hl. til að umorða báðar meginmálsgr. frv., og kemur það hér fram á þskj. 138. Mun ég nú skýra með nokkrum orðum ástæðurnar fyrir því, að við leggjum þetta til.

Það stendur enn yfir verðlagning landbúnaðarvara, og átti henni þó að vera lokið 1. sept. Þessi mikli dráttur er auðvitað með öllu óhafandi og er útilokað, að við það verði unað framvegis, að þannig gangi til. Af þessum sökum, bæði hversu dregizt hefur og eins hinu, hversu til hefur tekizt um niðurstöðu í yfirn., en hún hefur nú fyrir nokkru fellt sinn dóm um verðlagsgrundvöll, þó ekki sé búið að reikna út dreifingarkostnað og álagningu, þá teljum við það ófýsilegt og raunar óhyggilegt að fela sömu aðilum meðferð þessa máls, og við sjáum ekki, að það sé heldur nein nauðsyn í sjálfu sér.

Ég verð að víkja nokkrum orðum að verðlagningarmálunum og verðlagningunni nú í haust, til þess að leiða nokkru nánari rök að þessum niðurstöðum okkar í minni hl. landbn.

Framleiðsluráðslögunum var breytt fyrir skömmu og þá m.a. tekið upp í 4. gr. l. ákvæði um það, að þegar fundin eru laun bónda í verðlagsgrundvelli, skuli tilfæra ársvinnutíma og meta hann til verðs, meta vinnuna til verðs á sama hátt eða með hliðsjón af kaupgjaldi annarra vinnandi stétta. Við verðlagninguna 1966, sem fram fór aðeins nokkrum mánuðum eftir að þessi l. voru sett, lágu mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir um vinnutímann. Þeirri verðlagningu var lokið með samningum og í þeim samningum var ákveðin 10.8% hækkun á verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, og þar til viðbótar fengust gerðar ýmsar ráðstafanir til hagsbóta fyrir landbúnaðinn. En varðandi vinnutíma bóndans og vinnuliðinn, þá varð að samkomulagi í samninganefndinni að reikna vinnuliðinn ekki að þessu sinni eftir hinum nýju ákvæðum, þar sem nálega engar upplýsingar lægju fyrir um málið af þeim ástæðum, að aðeins voru, eins og ég sagði áðan, liðnir örfáir mánuðir síðan lagabreyt. var gerð. Það var fallizt á þetta og um þetta varð samkomulag í samninganefndinni. Þegar samið var, verðlagt var þá, sem var að vísu ekki á réttum degi, en þó nokkuð nærri því, lá ekki fyrir tekjuúrtak það, sem áður hafði verið notað til að finna kaupgjaldsliðinn. Það lá ekki fyrir, það var komið nokkuð langt með að vinna það, en fullbúið var það ekki.

Hins vegar lágu fyrir upplýsingar um taxtabreytingar á undangengnum mánuðum. Og samkv. upplýsingum frá þeim stofnunum, sem um þessi mál fjölluðu, leit út fyrir, að þetta færi nokkuð saman, taxtahækkanir og hækkanir á tekjum viðmiðunarstéttanna, og með hliðsjón af þessum upplýsingum var um þetta atriði samið 1966. Nú er ekki samið í haust og málin fara til yfirnefndar. Þá gerist það í yfirn., að hin nýju ákvæði framleiðsluráðslaganna um að tilfæra ársvinnutíma á búinu eru alveg lögð til hliðar, þó gegn eindregnum mótmælum fulltrúa framleiðenda í verðlagningunni. Nú horfði þó málið allt öðruvísi við en var fyrir einu ári, því að á þeim tíma hafði verið unnið ötullega að vinnumælingum og hafin búreikningagerð með nýju sniði og gagnasöfnun í gegnum þá um þessi atriði. En þetta var allt lagt til hliðar og ákveðið, gegn mótmælum fulltrúa framleiðenda, að hafa þessi lagaákvæði, nýju ákvæðin í 4. gr., að engu.

En hvernig var þá þessi liður í verðlagsgrundvellinum fundinn í ár, og hver var niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú, að hann skyldi standa óbreyttur. Þessi meðferð á launaliðnum, sem er langstærsti liðurinn í kostnaði búrekstrarins, og sá, sem þar af leiðandi hefur langmest áhrif á verðlagið, gefur tilefni til margvíslegra spurninga. Hvers vegna er engin tilraun gerð til þess að meta fengnar upplýsingar, engin tilraun gerð til þess? Lögin leyfa þó ekkert frávik. Og í þetta sinn horfir allt öðruvísi við en árið áður að því leyti, að þá verður samkomulag, þá er samið um málið, en nú er vikið frá ákvæðum l. gegn eindregnum mótmælum. Það var gerð breyt. á framleiðsluráðsl. fyrir nokkrum dögum, eins og allir hv. þdm. muna. Það var gerð breyting á l., meðan verið var að vinna að þessum málum. Hvers vegna var þá ekki sett bráðabirgðaákvæði inn í l. varðandi launaliðinn, til þess að hægt væri að fara með hann lögum samkvæmt, fyrst l. var breytt á annað borð.

Nei, það er ómögulegt að komast fram hjá því, að þessi málsmeðferð er ákaflega einkennileg. Það er óskað eftir þeirri breyt. á l., að verðlagning gildi til eins árs, og málið er lagt hér fyrir á hv. Alþ. í báðum d. af viðkomandi ráðh., eins og venja er, og það fylgir grg. frv. En hvorki í ræðu hæstv. ráðh. né í grg. kemur nokkuð fram, sem bendir til þess, að það eigi ekki að nota, ekki að styðjast við ákvæði 2. mgr. 4. gr. l. Ekki eitt orð. Þess er getið, að vinnumælingar séu skemmra á veg komnar en æskilegt sé og þess er getið, að aðrar upplýsingar um þetta séu af skornum skammti. Þess vegna sé ekki rétt að binda verðlagið til tveggja ára. En um hitt, að alls ekki eigi að hlíta lagaákvæðinu, kemur ekkert fram. Stjórn stéttarsambandsins skrifaði bréf út af þessu máli, þegar óskað var eftir þessari breyt. á l., að verðlagningin gilti til eins árs, og felst hún á það fyrir sitt leyti og rökstyður breyt. á þann hátt, að mikil óvissa sé í efnahagsmálum. Í því bréfi, sem ég að vísu hef ekki við höndina, mun ekkert hafa verið fjallað um gögnin og gagnasöfnunina.

Ég, sem hef starfað að þessum verðlagsmálum sem einn af þremur fulltrúum framleiðenda í Sexmannanefnd, sagði hér nokkur orð við meðferð þessa máls um daginn, og ég sagði þá m.a. orðrétt: „En ég vil hins vegar taka það skýrt fram, sem raunar er kannske óþarfi, það liggur alveg í hlutarins eðli, að við álítum, að það efni, sem fyrir hendi er varðandi þennan lið, þær upplýsingar séu það veigamiklar, að ekki komi annað til mála en að byggja verðlagninguna núna, sem væntanlega verður til eins árs, á þeim upplýsingum, svo langt sem þær ná .“

Ég segi það enn, mér virðist þessi málsmeðferð mjög óeðlileg. Fyrst breyta átti framleiðsluráðslögunum af meintri nauðsyn um að víkja frá þeim ákvæðum l., að þau verði gerð til tveggja ára, samkv. 7. gr. þeirra, var það að mínum dómi alveg sjálfsagt að breyta þeim einnig varðandi það frávik um ársvinnutíma bóndans, sem meiri hluti yfirdómsins, yfirn., taldi nauðsynlegt að gera. En þetta var sem sagt ekki gert, og þá verður manni enn að spyrja: Hvers vegna þá ekki að nota gamla lagið við ákvörðun á kaupgjaldsliðnum, þann hátt, sem hafði verið notaður árum saman og var að nokkru leyti stuðzt við 1966, þó að ekki væru þá, eins og ég gat um áðan, komnar fram endanlegar tölur um tekjur viðmiðunarstéttanna? Hvers vegna ekki að nota þennan hátt? Því að enda þótt 2. mgr. 4. gr. framleiðsluráðsl. væri breytt og tekin upp ákvæði um vinnutíma, stendur eftir sem áður í 1. mgr. 4. gr.: „Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“

Í annan stað segir í 8. gr. sömu l., 1. mgr.: „Hagstofa Íslands skal fyrir 15. ágúst ár hvert afla fullnægjandi gagna handa Sexmannanefnd um framleiðslukostnað landbúnaðarvara og um afurðamagn, svo og um tekjur vinnandi stétta á undangengnu ári, sbr. ákv. 4. gr.“ (sem ég las áðan).

Það er svo augljóst sem verða má samhengið milli þessara tveggja lagagreina, að það virðist ekkert vera eðlilegra og sjálfsagðara, eftir að meiri hl. yfirn. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að óframkvæmanleg séu ákvæði 2. mgr. 4. gr., en að taka upp þessa viðmiðun, sem þarna er vikið að í 1. mgr. þessara tveggja lagagr., sem ég hef hér lesið. En þetta er ekki gert, heldur er það ákveðið, að launaliðurinn í verðlagsgrundvellinum, það kaupgjald sem bóndanum er ætlað, standi óbreyttur. (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar. Ég vil spyrja, hvort hann treysti sér til þess að ljúka máli sínu á tiltölulega stuttum tíma eða hvort hann vilji fresta ræðu sinni. Áformað er að fresta fundi til kl. 5. Hv. þm. gerir hlé á ræðu sinni.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar fundi var frestað áðan, hafði ég vikið nokkuð að þeim niðurstöðum yfirdóms, að launaliður bóndans skuli standa óbreyttur, og á hvern hátt þær niðurstöður voru fundnar. Nú vil ég spyrja: Hvernig rímar þetta við 1. mgr. 4. gr. l. um, að bændur skuli hafa sömu tekjur og aðrar vinnandi stéttir? Um tekjur viðmiðunarstéttanna árið 1966 liggja nú fyrir upplýsingar, fundnar á hinn venjulega hátt. Og ef úrtakið er tekið í heild, er það 243700 kr., en ef sleppt er sjómönnum og uppmælingarmönnum, verða tekjur þessara stétta samt, eftir að þær hafa verið framreiknaðar til ársins í haust, eins og gert var áður á meðan þetta úrtak var notað til að finna og ákvarða launaliðinn, þannig framreiknaðar eru þær að slepptum sjómönnum og uppmælingarmönnum 243500 kr., en í verðgrundvellinum eru laun bóndans hin sömu og þau voru ákveðin í fyrra 198358 kr. Hér er alla vega, hvernig sem á þetta mál er litið, mjög mikið ósamræmi. Og það er skoðun okkar, fulltrúa framleiðenda, sem að þessum málum höfum unnið, að með þessu sé beinlínis brotin 4. gr. framleiðsluráðslaganna.

Ég vil einnig í þessu sambandi vekja athygli á öðru atriði í niðurstöðum yfirnefndarinnar. Til þess að bóndinn raunverulega fái það kaup, sem honum er ætlað í grundvelli og nú er, eins og ég áðan nefndi, rúmlega 198 þús. kr., þurfa auðvitað aðrir kostnaðarliðir grundvallarins að vera rétt og eðlilega metnir. En hvernig skyldi því vera háttað nú að þessu sinni? Meðferðin á þeim liðum var einnig sú, að þeir eru nálega allir ákveðnir óbreyttir frá því, sem var í fyrra. Um þá liði liggja þó fyrir upplýsingar, í fyrsta lagi á sama hátt og áður hefur verið aflað til margra ára og reynt að vega og meta í samningum eða í yfirdómi, og til viðbótar raunar enn frekari upplýsingar en áður lágu fyrir. Og þær upplýsingar allar hníga að því, að í þessum liðum sé stórlega vantalið. Í úrtaki hagstofunnar um þessi efni segir t.d., að kjarnfóðurkaupin á grundvallarbúinu 1966 hafi numið 46 þús. kr., en inn í grundvöllinn eru teknar 27600 kr., og svona er þetta um aðra liði fleiri, og ekki sízt þá stærstu, eins og áburðarliðinn, sem er 38 þús. kr. í þessu úrtaki hagstofunnar, en 27 þús. rúmar í grundvelli. Og aðrar upplýsingar, sem aflað hefur verið af búreikningaskrifstofunni og af Stéttarsambandi bænda, benda allar til mjög líkrar niðurstöðu. En þessi atriði eru meðhöndluð þannig, og það er beinlínis tekið fram í grg. fyrir yfirdómi, að það sé alveg látið vera að gera tilraun til að meta þessa liði upp að nýju, að undanskildum einum, vaxtakostnaði, og þá aðeins einum hluta hans.

Einnig þetta teljum við vitanlega óhæfileg vinnubrögð. Við hefðum sjálfsagt ekki verið ánægðir með niðurstöður í mati yfirnefndar, þó að í það hefði verið farið, en þá kastar þó fyrst tólfunum, þegar gögn eru hreinlega lögð til hliðar og ekki gerð tilraun til að meta þau. Og þetta þýðir, að það er líka óhugsandi, að þau laun, sem bændum eru ákveðin í grundvelli og eru þó miklu lægri en viðmiðunarstéttirnar virðast hafa haft, náist þegar á það er litið, hversu þessir liðir eru vantaldir. Og af þessum sökum, sem ég hef hér rakið, finnst okkur það ekkert fýsilegt að beina meðferð þeirra útreikninga, sem fram eiga að fara samkv. 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, í þennan sama farveg, og af þessum ástæðum viljum við freista þess að fá nánari ákvæði inn í 1. gr., nánari ákvæði um það, hvernig með þessi mál skuli farið, og einnig ákvæði, sem leiða til þess, að meðferð málsins fari í annan farveg en áður.

Með umorðun á 1. gr. er sem sagt lagt til, að hagstofunni sé falið að reikna út hækkanir á rekstrarvörunum alveg hliðstætt því, sem henni hefur um langt árabil verið falið að reikna út breyt. á verðlagi, þegar ekki er sagt upp, og síðan sé framleiðsluráði falið að færa þessar hækkanir inn í grundvöllinn, inn í verðlagið. Hér er sem sagt sleppt aðild Sexmannanefndar og þá gert ráð fyrir því, að eftir að hagstofan er búin að reikna og meta hækkanirnar, sé ekki annað en hreint reikningsdæmi að færa þær inn í verðlagið.

Nú vill svo til, að þessi meðferð mála, ef samþ. yrði, væri ekkert einsdæmi, því að fyrir þessu er þvert á móti glöggt fordæmi. Þetta er sem allra líkast því að vera sama meðferð og höfð var á þessum málum undir líkum kringumstæðum, áður en framleiðsluráðslögunum var breytt 1960, en hins vegar er þetta, og það auðvitað viðurkennum við í minni hl., frávik frá því skipulagi, sem verið hefur, að allur verðlagsútreikningur gangi í gegnum Sexmannanefnd, og það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir um það, hvort rétt sé að gera þetta frávik, hvort sú ástæða, sem ég hef greint, sé næg til að gera það. En sennilega er þetta a.m.k. eina leiðin til þess, að verkið verði unnið á tilsettum tíma, því að þó sett séu inn í lögin ákvæði um það, að öllu skuli lokið fyrir tiltekinn dag, hvort sem það verður 20. des. eða 23., skilst mér, að ekki sé hægt að vænta þess, að það verði neitt haldbetra ákvæði en það, sem nú er í framleiðsluráðslögunum um, að verðleggja skuli fyrir 1. sept.

Þá má minna á það aðeins, til frekari rökstuðnings fyrir því, að það sé ekkert óeðlilegt að gera frávik á þennan hátt, það er oft gert og var núna seinast gert í sambandi við önnur verðlagsmál, að það er sett upp ný verðlagsnefnd, sem á að starfa ákveðinn, afmarkaðan tíma, eitt ár, og hér er sem sagt lagt til, að þetta einstaka atriði verði meðhöndlað afbrigðilega.

Þá vil ég aðeins víkja að 2. gr. frv. Það kom fram hjá frsm. meiri hl., að samkomulag hefði verið um þá gr. á milli ríkisstj. og forustumanna bænda. Það er rétt, að ráðh. hefur sýnt okkur, sem höfum verið í verðlagsmálunum, þetta mál áður en það var lagt hér fram, og hann hefur fengið gerðar lagfæringar á einstökum atriðum þess fyrir okkar beiðni. Ég vil ekki draga neina fjöður yfir það, og það er eðlilegt, að það komi hér fram. En hins vegar hef ég algerlega óbundnar hendur í þessu máli og ég mun hafa skýrt honum frá því, að svo kynni að fara, að ég óskaði frekari breytinga, og ég vona, að það sé allt á hreinu okkar á milli um það. Og við nánari athugun á 2. gr. virðist mér og okkur, sem minni hl. skipa, það mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt að kveða nokkru nánar á um það í l., hversu fara skuli með gengishagnað landbúnaðarins væntanlegan, heldur en gert er í gr., eins og hún er í frv. Það væri einnig, að mér skilst, alveg í samræmi við 4. gr. l. um gengismálið, en þar segir svo: „Fé, sem á reikninginn kemur (þar ræðir um gengishagnaðinn), skal með sérstökum lögum ráðstafað í þágu þeirra atvinnuvega, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði.“ Og þá virðist ekkert óeðlilegt við það, að tekið sé fram í l. í stórum dráttum, til hvers eigi að verja fénu. Það gefur einnig undir fótinn með það að taka þetta beinlínis fram í l., að frá því greinir í niðurlagi á grg. yfirnefndarinnar, að yfirnefndinni voru flutt þau skilaboð frá ríkisstj., að ákveðið hefði verið, að allur gengishagnaður af landbúnaðarvöru rynni til landbúnaðarins, fyrst og fremst til verðuppbótar á ull og gærum af framleiðslu verðlagsársins 1967/68. Verð á nefndum framleiðsluvörum var ákveðið með tilliti til þessa atriðis. Það er þess vegna síður en svo neitt óeðlilegt við það, þó staðfest sé í þessum væntanlegu lögum það, sem í raun og veru nú þegar er fyrirhugað, að nota gengishagnaðinn til verðuppbóta á landbúnaðarvörurnar.

Ég hef í sambandi við þetta mál hér vikið nokkuð að yfirdómnum og að þeirri grg., sem honum fylgir. Þessi yfirdómur hefur að vísu ekki verið birtur enn í blöðum, að ég hygg. Hins vegar hefur, síðan Sexmannanefnd vann út tekjulið verðlagsgrundvallarins, grundvöllurinn sjálfur verið sendur út til sláturleyfishafa og annarra, sem beint þurfa um málið að fjalla í framhaldi af verðlagningunni, og vissulega er hér ekki heldur um neitt leyniplagg að ræða, eins og hæstv. ráðh. tók fram á dögunum. Og með tilliti til þess, sem hann þá sagði einnig, að eðlilegt væri, að landbn. fengi aðgang að þessu plaggi, þá finnst mér ekki óeðlilegt, þótt til þess sé vitnað í sambandi við umræður um þetta mál hér, sem beint snertir verðlagningu búvara. Ég hef rætt einmitt um verðlagninguna í haust og meðferð málsins, vegna þess að mér finnst það skipta máli fyrir framkvæmd þá, sem nú á að fara að gera, hversu tekizt hefur til um alla málsmeðferð á þessu hausti, og það, sem gerzt hefur nú, sá dráttur, sem orðið hefur, og sú niðurstaða, sem fengizt hefur, er í raun og veru undirstaða þess og rökstuðningur að því, að við viljum freista að fá þetta mál hér í annan farveg.

Ég vil enn árétta það, að ég tel það alveg óviðunandi ástand, að verðlagning landbúnaðarvara geti dregizt úr hömlu á þann hátt, sem nú hefur orðið. Þetta getur haft í för með sér verulegan skaða og jafnvel mikinn skaða fyrir bændastéttina. Þetta er mjög óhagkvæmt fyrir þau fyrirtæki bændanna, sem verzla með þessar vörur, og á þeim tímum, þegar verðlag fer hækkandi, getur þessi dráttur leitt til þess, að bændur beinlínis tapi, í krónum talið, á því að vera búnir að selja framleiðslu á gömlu verði svo og svo mörgum vikum og jafnvel mánuðum áður en verðlagt er. Venjulega hefur verið gert ráð fyrir þessum drætti og verð þess, sem óselt er, hefur verið hækkað nokkuð af þeim sökum, en það má gjarnan koma fram hér, að þessu atriði, skaðanum, sem verður af drætti á verðlagningu, hefur verið hreyft núna í Sexmannanefnd og hefur verið tekið þvert fyrir það að viðurkenna hann.

Ég held, að þeir verði margir meðal bænda, sem verða sammála um það nú, að ákvæði framleiðsluráðslaganna um það, að bændur skuli hafa sömu tekjur og aðrar vinnandi stéttir, hafi reynzt okkur næsta haldlaust að þessu sinni og bændasamtökin hljóti því að mótmæla þeim málalokum, sem orðið hafa. Og ég held, satt að segja, að samtök bænda hljóti að beita sér fyrir því á næstunni, að verðlagsmálin í heild verði tekin til gaumgæfilegrar endurskoðunar og athugunar um leið og raunar ýmis fleiri atriði varðandi skipulag framleiðslunnar og marga aðra þætti landbúnaðarmálanna verða endurskoðuð.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar. Minni hl. landbn. þessarar hv. d. leggur það til, að frv. verði samþ. með þeim umorðunum á meginmálsgreinum þess, sem minni hl. hefur sett fram á þingskjali.