25.11.1967
Neðri deild: 26. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

59. mál, vegalög

Flm. (Valtýr Guðjónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., fjallar um það að fella úr gildi heimild í vegalögum frá 1963, en sú heimild hefur verið notuð til þess að innheimta vegaskatt af Reykjanesbraut. Frv. fjallar líka um það að fella úr gildi reglugerð frá 18. okt. 1965, sem er um sama efni og í áframhaldi af ákvæðum frv. Þessi skattur hefur verið innheimtur síðan Reykjanesbraut var opnuð til umferðar haustið 1965, og heimildin, sem hér er um að ræða og lagt er til að fella niður, gerir ráð fyrir því, að ráðh. megi innheimta vegaskatt af einstökum vegum og brúm. Hv. alþm. munu á sínum tíma yfirleitt hafa orðið sammála um að hafa þessa heimild í lögunum, eins og þeir voru sammála um þessi vegalög í heild, er mér sagt. Og meiningin hefur sjálfsagt verið að nota heimildina í tekjuöflunarskyni, þegar tímar liðu og áætlanir um varanlega vegagerð um fjölfarna vegi næðu fram að ganga. Mér þykir hins vegar ekki líklegt, að fyrir þm. almennt hafi vakað það að beita skattheimtu þessari á eitt hérað út af fyrir sig, a.m.k. trúi ég því ekki, að þm. Reykjaneskjördæmis hefðu ekki gert fyrirvara um sitt samþykki, ef þá hefði grunað, að heimildin mundi einmitt lenda á þessu héraði alveg sér.

Á Alþ 1965–6 flutti Jón Skaftason, hv. 2. þm. Reykn., brtt. við lögin út af þessu atriði, þar sem þetta vald, sem ráðherra er gefið um skattheimtu af Reykjanesbraut, skyldi tekið af honum og afhent Alþ. sjálfu. Þessi breyting náði ekki fram að ganga, og þykir nú þess vegna rétt að reyna á það, hvort hv. Alþ. hefur þótt of skammt gengið um málið og það mundi heldur kannske kjósa að taka þessa heimild algerlega burt.

Það þótti að vonum mikil samgöngubót, þegar Reykjarnesbrautin var lögð og hún tekin í notkun, og það álit var ekki sízt á Suðurnesjum og það meðal þeirra manna, sem þessa umferðaræð þurftu að nota. Þessir aðilar höfðu mörg undanfarin ár orðið að nota mjög slæman veg, svo að vægilega sé að orði komizt, eða algerlega ófæran með köflum, og það var á almannavitorði og á orði haft. Einn af orðheppnum þjóðarleiðtogum kallaði þennan veg Ódáðahraun íslenzkra vega af þessum sökum, og honum mátti vera það vel kunnugt, þar sem hann hafði verið þm. í Reykjaneskjördæmi lengur en nokkur annar. Hann beitti sér líka fyrir því, að þessi bót yrði á ráðin og nýr vegur lagður.

Vegurinn vestur um Reykjanes varð í síðasta stríði ein fjölfarnasta leið landsins og hefur verið það síðan. Nú var gerð hins eldri vegar að vísu ekki lakari en gengur og gerist um vegi annars staðar um landið. Þetta var sæmilega undirbyggður malarvegur og gat því jafnan verið fær, meðan um ofnotkun hans var ekki að ræða. En raunin varð svo sú, að þegar fjölmenni óx á þessu svæði við sunnanverðan Faxaflóa, dugði hann ekki lengur. Þessi nýja vegagerð var því raunverulega alveg óhjákvæmileg, bæði vegna nokkuð örrar fólksfjölgunar á þessu svæði landsins og líka vegna þess stórbúskapar, sem ríkið sjálft hefur rekið á Keflavíkurflugvelli síðan um stríð. Fjölmenni það, sem nota þarf veginn, stafar því bæði af þéttbýli við sunnanverðan Faxaflóa og líka af beinum aðgerðum ríkisins í sambandi við varnarmál landsins, að ógleymdri þeirri mikilvægu samgöngumiðstöð, sem Keflavíkurflugvöllur er og hefur verið undanfarin ár.

Það mátti þess vegna segja, að það væri ekkert eðlilegra en bætt væri fyrir ofnotkun malarvegarins vestur Reykjanesskagann með nýjum vegi og það þótt hann kostaði ærið fé. Það hlaut að fara um þetta eins og um aðra vegarkafla á landinu, að það hlýtur að liða að því, að það þurfi að endurbæta þá eða gera þá færa, þegar að því kemur, að notkunin er orðin svo mikil, að þeir verða ófærir í þeirri gerð, sem þeir eru. Framkvæmdin var því alveg jafnsjálfsögð og nauðsynleg eins og það að bora fjöll til þess að losna við ófærur af snjó eða smíða nýja brú yfir Rangá.

Þessi framkvæmd var áformuð og undirbyggð, áður en lögfest var sú hugmynd, að skattleggja skyldi umferð um einstaka vegi og brýr, þegar tímar líða. Þó að margt megi um þessa hugmynd segja, sem ég gat um, þá getur vel skeð, að þessi hugmynd geti staðizt í einhverjum tilfellum, þar sem ekki hagar þannig til, að af verði sérsköttun á tiltekinn og innikróaðan landshluta og fólk, sem þar býr, en þannig hagar til um Reykjanes. Þegar til þess kom, að Reykjanesbrautin var opnuð til umferðar, þótti mönnum að sjálfsögðu stórt spor stigið fram á við í vegamálum landsins, og við, sem eigum heima á Suðurnesjum, fögnuðum mjög mikið yfir því, að þessi framkvæmd var gerð, þó að við hins vegar vitum það, að þessi braut er ófullgerð enn þá í báða enda. En mitt í þessum fögnuði, sem raunverulega ríkti, brá mönnum dálítið í brún, þegar þeir gerðu sér grein fyrir því, að það var alvara með skattinn, fyrst og fremst vegna algers einsdæmis um slíka sérsköttun og þá líka vegna þess, hve augljós þörf var á greiðum samgöngum við héraðið, ekki sízt fyrir ríkið sjálft, sem hefur með höndum, eins og ég sagði, rekstur mikinn þar syðra, sem nánast er óhugsanlegur til frambúðar, nema samgönguleiðin þangað væri bætt frá því, sem var, og þjóðin þá firrt þeirri skömm, sem var af algerlega ófærum vegi þangað.

Vegaskatturinn reyndist þess vegna ill sending um Suðurnes, enda var honum mótmælt kröftuglega, þegar alvaran var ljós, og áttu menn að vísu dálítið erfitt með að trúa því, að hinni yfirlætislausu heimild í vegalögum um innheimtu umferðargjalds af einstökum vegum og brúm yrði beitt strax við fyrstu tilraun þjóðarinnar til þess að leggja sæmilega fullkominn vegarkafla, og þá um leið áttu menn erfitt með að skilja það, þegar ríkið sjálft þurfti raunverulega á samgöngubótinni að halda. En heimildin var til og sjálfsagt nokkur freisting að beita henni þarna á vissan hátt, hefur legið nokkuð vel við höggi, og fór þetta svipað því og segir í fornum spjöllum, er Þorgeir Hávarsson þurfti að stilla sig nokkuð um notkun axarinnar, þegar hann sá beran háls liggja vel við.

Mótmæli gegn þessum vegaskatti bárust frá, að ég held, flestum sveitarstjórnum á Suðurnesjum til samgmrn. og mörgum fleirum, og viðtöl við ráðuneytið fóru fram um það, að þessum skatti mætti víkja frá. Það var haldinn stórfundur í Keflavík, sá stærsti, sem haldinn hefur verið á Suðurnesjum. En ekkert hefur dugað. Bygging sú við veginn, rétt sunnan við Straum, þar sem skattheimtuathöfnin átti að fara fram, sprakk í loft upp kvöldið áður en átti að taka hana í notkun, og að því er sumir halda fyrir atbeina æðri máttarvalda, því að enn í dag hefur enginn borgari verið fundinn sekur um skemmdarverk á því mannvirki.

Það er staðreynd, að það hefur ekkert dugað til að snúa hug hæstv. ríkisstj. eða hæstv. samgmrh., sem hefur með þessi mál að gera, frá því að nota þessa veggjaldsheimild út í æsar til að sérskatta vegfarendur um Suðurnes umfram aðra landsmenn. Ég hef því ekki að þessari reynslu fenginni trú á því, að þessari skattheimtu létti, fyrr en hreinlega er búið að nema burt heimildina, og lagabreyting sú, sem hér um ræðir, gengur í þá átt. Þyki nauðsyn bera til þess síðar meir að innheimta sérstakan vegatoll í hinu litla landi okkar í viðbót við mjög ríflega sköttun á alla umferð í landinu, sköttun, sem gefur af sér meira fé en það, sem notað er til vegagerðar á ári hverju, getur Alþ. alltaf ákveðið að taka þetta upp aftur. En ég hef hins vegar ekki trú á, að til þess komi nokkurn tíma, þar sem líklega hvergi hagar þannig til, að það verði hægt vegna kostnaðar við innheimtu nema á þessum stað, á Reykjanesbraut, enda tel ég hitt miklu eðlilegri aðferð, að fé til samgöngubóta sé safnað á þeim almenna vettvangi af umferðinni í heild, eins og gert hefur verið, en ekki með sérsköttun, allra sízt þegar þannig hagar til, að hún lendir á einstöku héraði og einstaklingunum þar sérstaklega.

Ég hef nokkuð drepið á ástæðurnar fyrir því, að ég tel einsætt, að hætta skuli innheimtu vegatolls á Reykjanesbraut, og í því sambandi vísa ég til grg. með frv. Ég hef bent á, að vegatollurinn er sérskattur á þá leið, sem Suðurnesjamenn fara og aðrir þeir, sem þar eiga leið, á menn, sem alls ekki komast hjá því að hlíta þessari skuld, nema þeir haldi sig innan héraðs síns og fari hvergi. Þetta stappar nærri því, að líta megi á skattheimtu þessa sem brot á meginreglu, sem er í grundvallarlögum ríkisins, um það, að allir skuli hafa sem jafnastan rétt fyrir lögunum og ekki sízt skattalögunum. Vegfarendur um héraðið eru þess vegna settir skör lægra en aðrir þjóðfélagsþegnar með því að gera þeim að inna af hendi reiðufé til ríkis umfram aðra, ef þeir þurfa og vilja bregða sér út fyrir túngarðinn. Þá er á hitt að líta líka, að þessi vegatollur er fjárhagslegur baggi fyrir einstaklinga og fyrirtæki, sem mikið þurfa að nota veginn. Atvinnurekstur á þessu svæði kemst ekki hjá því að hafa samband við aðalhöfn landsins, auk hins, að til höfuðborgarinnar verða auðvitað margir að sækja þaðan að sunnan eins og úr öðrum áttum. Þeir, sem ekki hafa atvinnustöð sína sömu megin við tollhliðið og þeir búa, verða daglega að gjalda fyrir það sérstaklega að komast á vinnustað. Þannig hagar til um fjölda manns, sem á ekki heima á tollsvæðinu, en vinnur þar. Þar er t.d. um nokkuð stóra starfshópa af Keflavíkurflugvelli að ræða.

Ef um það væri að ræða, að um Reykjanesbrautina færu ekki neinir menn í neinum erindum, heldur í erindisleysu, þannig að hún væri ekkert annað en lúxusbraut, óháð daglegum þörfum fólksins, gegndi auðvitað öðru máli um það, þótt hún væri notuð sem skattstofa. En nú er því ekki að heilsa. Reykjanesbraut gegnir sama hlutverki og aðrir vegir um landið. Þeir eru allir gerðir vegna þarfa einstaklinga, einstakra byggðarlaga og allrar þjóðarinnar, og verður því auðvitað augljóst, að hún gegnir alveg fullkomnu hlutverki, hún er ekki nein sérstök lúxusbraut.

Allar þær brautir og vegir, sem þegar hafa verið lagðir um landið, hafa kostað mikið fé. Það er gott til þess að vita, að miklu fé er varið árlega í slíka hluti. Það er hins vegar langt frá því, að nægilega hratt sé unnið og á nægilega fullkominn hátt. Reykjanesbrautin hefur þess vegna enga sérstöðu aðra en þá að vera fyrsta fullkomna akbraut landsins, en margar slíkar eiga vonandi eftir að koma, þegar tímar liða og fé til framkvæmda. Ég held, að það liggi hins vegar algerlega ljóst fyrir, að þær framkvæmdir verða aldrei unnar fyrir fé, sem fást mundi af umferðarskatti eða vegagjaldi, það getur aldrei numið neinu að ráði og líklega ekki meira en sem svarar kannske helmingi af vöxtum af stofnkostnaði árlega. Þetta er nokkurn veginn augljóst. Íslendingar eru ekki milljónaþjóð, og bifreiðafjöldinn er takmarkaður, sem um er að ræða, að geti farið í umferðina.

Nú segja auðvitað þeir, sem. gert hafa þessa skattheimtu að nokkurs konar þjóðfélagshugsjón, að það yrði nú aldeilis skarð fyrir skildi um tekjur vegasjóðs og ríkissjóðs, þegar umferðarskattur af Reykjanesbraut yrði aflagður, og víst er það góðra gjalda vert að sjá hag þessara stofnana sem allra bezt borgið. En hæstv. ríkisstj. og Alþ. eru að minni hyggju allúrræðagóð um þá hluti, og þess vegna ætti ekki að vera nein hætta á hruni, þótt vegatollur á Reykjanesbraut yrði felldur niður. Þó er því ekki að neita, að óðum þrengist auðvitað um útvegun á nýjum skattstofnum, og möguleikar til þess að bæta á þá, sem fyrir eru, fara ekki vaxandi, eins og nú horfir. En þá er líka önnur aðferð til. Það er gömul íslenzk aðferð. Það er sú aðferð að taka upp meiri sparnað, ef verulega hallast á, eins og mig grunar, að haldið verði fram, þegar sérsköttun á vegfarendur Reykjanesbrautar verður látin falla niður, og ef afleiðingin af þessu verður reiknuð svo alvarleg, að hún kunni að hafa örlagarík áhrif á sjálft efnahagskerfið, sem við erum alltaf að tala um, þá er auðvitað nauðsynlegt að benda á róttækar aðgerðir á móti í sparnaðarátt. En slíkar aðgerðir hlytu að verða því alvarlegri sem tekjurýrnunin verður þungbærari í augum þeirra, sem við skattheimtuna vilja halda. Mundi t.d. duga í þessu sambandi að leggja til, að þingmönnum yrði fækkað niður í 30 og ráðh. niður í 3, sýslumönnum og bæjarfógetum niður í 8, svo að fátt sé nefnt, sem hugsanlegt væri að taka til bragðs? En þetta ætti að sjálfsögðu að gera betur en vega á móti niðurfellingunni, og um leið er ég ekki frá því, að þessi hugmynd um sparnað mundi koma sér nokkuð vel, eins og sakir standa núna.

Afnám þeirrar sérsköttunar, sem fram hefur farið á vegfarendur um Reykjanesbraut allan sólarhringinn síðustu missiri, jafnt á jólum sem páskum, er réttlætismál, fyrst og fremst gagnvart heimamönnum um Suðurnes, enda vænti ég þess, að málið njóti nægjanlegs skilnings hér í hv. Alþ., til þess að skattheimtu þessari megi létta.

Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og samgmn.