11.03.1968
Neðri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

59. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Í vetur var flutt hér í þessari hv. þd. frv. til l., sem fól í sér breytingu á núverandi vegal., á þeim l., sem gilda nú um vegamál, og var till. hv. flm., Valtýs Guðjónssonar, fólgin í því, að hætt skyldi að innheimta umferðargjald af bifreiðum, sem ekið er um hina nýju Reykjanesbraut, en eins og hv. alþm. er kunnugt, var ráðh. heimilað með einróma samþykki Alþ. í 95. gr. vegal. að láta innheimta þetta gjald, og hefur það verið gert, frá því að brautin var opnuð til umferðar.

Samgmn. hefur fjallað um þetta mál á fundi sínum, og leggur meiri hluti n. til, að frv. verði fellt. Það er ekki með sanngirni hægt að krefja menn um það, að þeir fallist á það sjónarmið, að með þessari gjaldtöku sé verið að valda Suðurnesjamönnum búsifjum. Þvert á móti búa þeir nú einir allra landsmanna enn sem komið er við frábærlega góð samgönguskilyrði. Það er ljóst og er í eðli sínu einfalt mál, að forsendur þessarar gjaldtöku eru fyrst og fremst fólgnar í því að afla fjár til greiðslu kostnaðar við vegagerðina, og eftir því sem ég hef fengið upplýst, mun skuldin á veginum verða núna um 260 millj. kr., og er það þá eftir þá breytingu, sem varð á skráningu ísl. kr. í vetur, en að öðru leyti má segja, að forsendur gjaldtökunnar séu að sjálfsögðu fólgnar í þeim sparnaði, sem verður á ökutækjum, á eldsneyti og tíma fyrir þann vegfaranda, sem um þennan nýja og góða veg fer, og fyrir þau hlunnindi er þetta gjald einnig greitt. Menn sjá það nú æ betur, bæði á Suðurnesjum og annars staðar, og ýmsir þeir, sem áður voru andvígir þessari gjaldtöku, hafa nú fallizt á réttmæti hennar, fallizt á, að það sé eðlilegt og réttmætt, að þetta gjald sé tekið.

Gildi þessarar nýju, varanlegu brautar er að sjálfsögðu fyrst og fremst fólgið í því að vera bein samgöngubót á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, en hún hefur líka annað gildi, hún verður okkur fyrirmynd og hvatning um vegagerð í framtíðinni, og hún veitir dýrmæta reynslu. Þessi vegagerð, sem þarna hefur verið framkvæmd, sýnir einnig, að Íslendingar búa yfir nægilegri tæknilegri þekkingu og verkmenningu til þess að leysa slíkt stórvirki af höndum sem þessi vegagerð er. Því verður ekki heldur trúað, að Suðurnesjamenn telji, að varanlegri vegagerð hér á landi sé lokið, þegar þeir einir allra landsmanna hafa fengið góðan veg. Þvert á móti fjölgar þeim stöðugt þar syðra, sem sjá og skilja, að hér er aðeins um fyrsta áfanga að ræða, og þorri Suðurnesjamanna mun reiðubúinn til þess að leggja sitt af mörkum, til þess að aðrir landsmenn megi einnig verða aðnjótandi sams konar framfara og fríðinda eins og þeir. Fram að þessu — og það verður sjálfsagt víða þannig enn um sinn — höfum við Íslendingar fyrst og fremst lagt á það áherzlu að gera fært á milli landahluta og innan byggðarlaga, að menn komist leiðar sinnar, en í dag krefst almenningsálitið þess, að við látum ekki aðeins við það eitt sitja, að unnt sé að komast á milli staða í landinu, heldur eru það óskir almennings, að helztu og fjölförnustu leiðir í landinu verði gerðar greiðfærari og lagðar varanlegu slitlagi.

Við höfum nú séð, að landsmenn kunna að gera slíka vegi. Hinn meginþátturinn í þessu efni er sá, að þeir fjármunir séu fyrir hendi, sem til þess þarf að leggja vegina. Ein augljós forsenda þess að ráða við þann fjárhagslega vanda er þá a.m.k. sú að rýra ekki tekjur vegasjóðs, eins og umrætt frv. stefnir að. Þvert á móti þarf að leita aukinna tekna fyrir vegasjóðinn.

Ég vil að lokum benda á þá staðreynd, að kostnaður, þ.e.a.s. afborganir og vextir og raunar annar kostnaður við hina nýju Reykjanesbraut, mun verða um 54 millj. kr. á árinu 1968, og samkvæmt upplýsingum, sem stjórnarráðið hefur veitt mér, er gert ráð fyrir því, að tekjur af þessum vegagjöldum, sem tekin eru, muni á þessu ári verða nettó um 14 millj. kr. Ef þær tekjur tapast verður trúlega minna hægt að gera í samgöngum annarra landshluta. Erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, er það alsiða, mjög algengt a.m.k., að það er tekið sérstak gjald af hraðbrautum, sem spara fé manna, spara ökutæki manna og spara tíma manna, sem ekki er minnst virði, og þetta þykir þar mjög eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun. Ég hef ekki heyrt þess getið, að almennar deilur hafi risið þar um slíkt mál. Ef þetta er rétt þar, þá má nærri geta, að í okkar stóra, en strjálbýla landi er auðvitað enn brýnni nauðsyn, enn meiri þörf á slíkri gjaldtöku, þar sem hægt er að koma henni við, en það er, eins og menn vita, aðeins enn sem komið er ein hraðbraut í landinu, Reykjanesbrautin. Menn sjá nú og skilja, að þeim fjármunum, sem við verjum til slíkra samgöngubóta, er vel varið. En góð og skynsamleg fjárfesting er ekki neinn munaður, heldur umfram allt arðbær. Það er arðbær fjárfesting, bæði í fjárhagslegum og menningarlegum skilningi. Á grundvelli þessara sjónarmiða, herra forseti, leggur meiri bl. samgmn. til, að frv. á þskj. 71 verði fellt.