11.03.1968
Neðri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

59. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist ekki geta greitt atkv. með þessu frv., sem hér er um að ræða, á meðan skatturinn væri bundinn við Reykjanesbraut eina. En það vill nú svo til, að Reykjanesbraut er eini steypti vegurinn í landinu, og þess vegna getur ekki verið um skattlagningu á annan veg að ræða heldur en hana enn sem komið er a.m.k. Á s.l. hausti lýsti forsrh. yfir, að ríkisstj. vildi beita sér fyrir því að gera hraðbrautirnar með varanlegu slitlagi, enda yrði lagt á umferðargjald, þegar ákveðnum áföngum væri náð. Það liggur, vitanlega í augum uppi, að það er ekki hægt að leggja umferðargjald, við skulum segja t.d. á Vesturlandsleiðina, þó að það væri komið varanlegt slitlag á veginn upp í Kollafjörð eða eitthvað þannig. Það er ekki heldur hægt, þó að það sé komið eitthvað áleiðis á Austurvegi, en meginhluti leiðarinnar er enn malarvegur holóttur og slæmur. En það liggur fyrir, að það er stefnan, að þegar ákveðnum áföngum er náð, þar sem því verður við komið, verði tekinn tollur af slíkum vegum, og það mundu allir fagna því, sem þess ættu kost að fá þessa góðu vegi, enda þótt yrði að greiða eitthvert umferðargjald fyrir það, því að ég er sannfærður um, að það neitar því enginn, að það sparast stórfé í sliti á ökutækjum, eyðslu á brennsluefni, o.s.frv., þegar góði vegurinn er farinn, miðað við það að fara vonda veginn. Og það er varlega áætlað, varlega útreiknað, að með því gjaldi, sem nú er greitt á Reykjanesbrautinni, sé greiddur aðeins helmingurinn af því, sem þeir spara, sem veginn nota. Þetta hefur ekki verið vefengt, og þess vegna er tollurinn á Reykjanesbrautinni sanngjarn og beinlínis til hagræðis fyrir þá, sem nota veginn mest, að hafa veginn, þótt þeir greiði gjaldið.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Það er ekki við því að búast, að það séu samdar reglur um skattlagningu á aðra vegi, á meðan ekki hefur enn verið hafizt handa um framkvæmdir eða aðrir vegir líkir Reykjanesbrautinni eru ekki til í landinu. Þetta verður vitanlega gert, þegar að því kemur, að slíkir vegir, sambærilegir, eru fyrir hendi, og þá í það ríkum mæli, að það komi til almenningsnota, ekki aðeins einhverjir spottar, lítill hluti af þeirri leið, sem menn þurfa að fara. Veit ég, að hv. þm. hefur áttað sig á þessu. Hann er aðeins að leita að hliðarspori til þess að vera á móti máli, sem hann, svo sanngjarn maður, hefur í hjarta sínu viðurkennt. Og við þessu er ekkert að segja út af fyrir sig.