29.01.1968
Efri deild: 47. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

102. mál, stuðningur við hlutarráðna fiskimenn

Flm. (Karl Sigurbergsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir og fjallar um sérstakan stuðning við hlutarráðna fiskimenn, er lagt til, að ríkisstj. fái heimild til að verja allt að 50 millj. kr. í þann stuðning á þessu ári. Þegar gengi krónunnar var lækkað rétt fyrir s.l. áramót, lýsti ríkisstj. því yfir, að það væri gert með sérstöku tilliti til þess, hve útflutningsatvinnuvegirnir stæðu höllum fæti, og átti lækkun krónunnar m.a. að hafa þær verkanir, að eigi þyrfti að starfrækja þá atvinnuvegi með styrkjum og uppbótum. Þegar hefur komið í ljós, að þeir útreikningar stóðust ekki dóm reynslunnar. Með ákvörðun fiskverðs á nýbyrjaðri vetrarvertíð var farin sú óhappaleið að innleiða tvenns konar verð á sjávarafla. Það er sérstakt skiptaverð til áhafna fiskiskipanna og annað til útgerðarinnar, sem fram kemur í sérstökum bótum til útvegsins, sem talið er, að nemi allt að 124 millj. kr. Nú standa yfir viðræður um samninga vegna undirmanna á talsverðum hluta fiskveiðiflotans, og mætti ætla, að þessar áðurnefndu ráðstafanir yrðu ekki til að auðvelda samkomulag á þeim vettvangi. Með þessu frv. er ætlazt til, að sjómannastéttin fái einhverja leiðréttingu á því misrétti, sem hún er beitt umfram aðra þegna þjóðfélagsins, því að með gengislækkunarlögunum, eins og ég hef áður tekið fram, var ekki ætlast til, að sjávarútvegurinn þyrfti á styrkjum að halda og hefðu þeir útreikningar staðizt, má ætla, að skiptaverð til sjómanna hefði orðið því hærra sem nemur fjárhæðinni, sem ætluð er til útvegsmanna umfram skiptaverðið. Það eru 124 millj. Einnig ætti frv. að stuðla að því, að samningar tækjust sem fyrst við sjómenn.

Það hefur oft verið ritað og rætt um, að efla beri sjávarútveginn og þá sérstaklega bolfiskveiðarnar með tilliti til hráefnisöflunar fyrir hraðfrystiiðnaðinn. Ég vil að gefnu tilefni benda á þá staðreynd, að hin trausta undirstaða, sem þar þarf til að koma, er ekki fengin fyrr en þannig er búið að sjómannastéttinni, að hún geti sætt sig við þau kjör, sem henni eru boðin fyrir störf sín. Íslenzka þjóðin er stolt af þeirri þróun og þeim árangri, sem náðst hefur í síldveiði tækni hér á landi á undanförnum árum. Sú tæknibylting hefði varla átt sér stað, nema því aðeins að undirstaða væri fyrir hendi, sú trausta undirstaða, að það er valinn maður í hverju rúmi. Mér er ofarlega í huga niðurlæging togaraflota okkar landsmanna og raunveruleg orsök þess hnignunartímabils, sem yfir þann þátt útvegsins hefur dunið. Það eru augljós dæmin. Svo illa var búið að kjarna hinna gömlu og starfsvönu togveiðimanna, að þeir sáu sér ekki fært að hafa ofan af fyrir sér og sínum við þann atvinnuveg og leituðu sér vinnu á öðrum vettvangi, þar sem kjörin voru betri. Ég fullyrði, að nú í dag stæðum við Íslendingar ekki verr að vígi með okkar togaraflota, miðað við aðrar fiskveiðiþjóðir, ef hinn trausti kjarni sjómanna hefði verið kyrr á þeim skipum og ungir og framgjarnir menn laðazt í hópinn. Það leikur varla vafi á því, að sjómannastéttin hefði ekki látið á sér standa að fylgja þróuninni eftir og jafnvel orðið á undan öðrum þjóðum hvað togveiðar snertir, ef aðstæður hefðu verið fyrir hendi. Hinn trausti og starfsvani kjarni leitaði fyrir sér annars staðar um atvinnu, og það hafði þær afleiðingar, að lítt starfsvanir menn og jafnframt sá hópur manna, sem úr gengur, ef nægjanlegt framboð af vinnuafli er á vinnumarkaðnum, komu um borð í okkar togveiðiskip, og þar með hófst niðurlægingin og þeir drógust aftur úr í samkeppninni.

Landganga íslenzkra síldveiðisjómanna á flotanum nú um síðustu áramót hefur ekki getað farið fram hjá neinum, sem fylgjast vill með útgerðarmálum í dag. Þá vakna þær spurningar, hvað er að gerast á síldveiðiflotanum, og hver verður afleiðingin? Ég held, að ég geti svarað þessum spurningum fyrir hönd okkar sjómanna þannig, að megi skilja, þ.e.a.s. ef menn vilja nokkuð skilja. Við göngum í land einfaldlega vegna þess, að kjörin ern ekki þess virði að stunda þennan atvinnuveg við erfið skilyrði fjarri heimilum og vinum og fjarri öllu, sem við köllum í dag menningarsamfélag. Við viljum ekki vera án alls þess, nema því aðeins að við berum meira úr býtum, við eigum kröfu til þess. En hver verður þá afleiðingin? Hún verður sú óhjákvæmilega, að hin raunverulega undirstaða fyrir mikilli sókn og auknum aflafeng hrynur og þar með minnka möguleikarnir til þess að afla gjaldeyristekna fyrir þjóðina á þessum vettvangi.

Það fer ekki fram hjá neinum, sem kemur að landi eftir strangt og erfitt úthald með sína kauptryggingu, lækkaða um fæðiskostnað, sem þá mundi vart vera hærri en sem svaraði 9–10 þús. kr., að jafnvel unglingsstúlkur með einhverja smávegis menntun njóta ekki verri kjara fyrir að sitja á skrifstofu við að svara í síma eða pikka á ritvél með styttri vinnutíma en þeir, sem sjóinn stunda, og þar að auki geta í frítímum sínum notið allra þeirra lystisemda, sem samfélagið hefur að bjóða, og lifað hinu áðurnefnda menningarlífi.

Þessi landganga sjómanna lítur kannske út fyrir að vera út í bláinn, kann einhver að halda, þar sem lítið er um atvinnu í landi. Ég vil í sambandi við þennan líklega skilning á málinu taka það fram, að íslenzkir sjómenn eru ekkert smeykir við að keppa á vinnumarkaðnum. Þeir ganga fyrir um vinnu, hvar sem er, hvar sem dugandi manna er þörf. Hinir linari koma til baka og lenda á veiðiflotanum. Þetta gerðist á togurunum, og þetta gerist líka á bátaflotanum, ef ekkert er að gert.

Það er skylda hv. alþm. að sporna gegn því, að þetta komi fyrir, og að því miðar þetta frv., þó að í litlum mæli sé. Það stuðlar að því, að menn sæki fremur að sjóvinnustörfum en ella væri. Það er ekki svo há upphæð, sem farið er fram á, að eigi sé betra að verja henni strax, áður en í óefni er komið. Of seint verður eftir misheppnaða vertíð vegna skorts á vönu starfsliði að koma saman hér á Alþingi og lögfesta styrki og bætur til sjávarútvegsins vegna lélegrar afkomu og segja svo, eins og oft hefur verið gert á undanförnum árum: Ja, þarna sjáið þið, sjávarútvegurinn getur ekki verið undirstöðuatvinnuvegur til frambúðar. Það þarf að innleiða hér kísilgúr, ál og fleira slíkt.

Það er lagt til með þessu frv., er hér liggur fyrir, að Alþingi bæti fyrir það brot, sem sjómannastéttin var beitt við ákvörðun fiskverðs nú nýlega, er undirstöðu allra samninga hennar við útvegsmenn var kollvarpað. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér kafla úr grg. fulltrúa sjómanna í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins, Tryggva Helgasonar, en hann bar fram, sem kunnugt er, till. um 20% fiskverðshækkun til skiptaverðs. Þar segir hann:

„Hins vegar tel ég, að fiskverð það, er ég legg til að ákveðið verði nú, sé lágmark þess, sem þurfi, til að sjómenn, sem við veiðarnar starfa, geti haft þær tekjur, að viðunandi geti talizt, og yfirleitt gefið kost á sér til að stunda þá atvinnu. Er það atriði um brýna þörf sjómanna, sem að þorskveiðum starfa, fyrir þessa hækkun á fiskverði til skipta m.a. vel staðfest í skýrslum, sem fyrir liggja um meðaltekjur sjómanna á vetrarvertíðum undanfarandi ára, er sýna, að aflahlutir þeirra hafa stöðugt farið lækkandi miðað við meðaltekjur annarra launþega. Tel ég, að meðaltekjur háseta við fiskveiðar þoli ekki einu sinni samanburð við hina allra tekjulægstu:

Ég vil leggja sérstaka áherzlu á, að með því að stuðla að bættum kjörum sjómannastéttarinnar væri verið að leysa frumvandamál útgerðar og fiskvinnslustöðva og þar með þjóðarbúsins í heild, því að sá alvarlegi vandi verður ekki leystur eingöngu á þann hátt að veita uppbætur og styrki til þessara atvinnuvega. Þessir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, sem skapa 90% af öllum útflutningstekjum, krefjast þess, að hvaða stjórn sem í landinu er hverju sinni skilji til fulls, hvaða þýðingu það hefur fyrir allan rekstur, að undirstaðan sé á traustum grunni. Það er ekki úr vegi að minna á, að af hverjum 6 kr., sem skapast í útflutningsverðmætum, renna 2 beint í ríkiskassann í útflutnings- og innflutningstollum. Það gildir 600 þús. kr. í útflutningsverðmætum, 200 þús. í ríkiskassann. Það hefur margur spilað í rýrara happdrætti.

Á undanförnum árum hefur verið talsverð eftirspurn eftir íslenzkum sjómönnum utanlands frá, og sú eftirspurn hefur nú aukizt allverulega. Þessu hefur ekkl verið haldið mikið á lofti, vegna þess að sjómenn hafa ekki sinnt því fram að þessum tíma. En nú eru menn farnir að ræða þessi tilboð sín á milli, ekki einn og einn, heldur í hópum. Ef þetta hefur farið fram hjá hv. alþm., bið ég þá að hafa í huga, að það kunna fleiri en læknar og verkfræðingar að vera eftirsóttir erlendis. Það þarf sérþekkingu til fleiri starfa. Hér er nauðsynlegt að sporna við í tíma. Ég fullyrði, að ríkisstj., sem leyfir sér að álíta, að almennt atvinnuleysi í landi komi til með að bjarga sjávarútveginum til frambúðar, hafi ekki neinn siðferðilegan rétt til að stjórna málum þjóðarinnar framvegis.

Herra forseti. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.