29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2187)

102. mál, stuðningur við hlutarráðna fiskimenn

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Það verður að játast, að þetta er nú eitt af höfðinglegri frv., sem lögð hafa verið fyrir Alþ., — að halda mönnum 50 millj. kr. veizlu í allmarga mánuði. Það minnir á og fer jafnvel fram úr höfðingsskap forfeðra vorra, svo sem hann var mestur í fornum sögum. En með tilliti til þess bága ástands, sem nú er í fjármálum þjóðarinnar, hefur meiri hl. sjútvn. ekki treyst sér til að eiga hlut að þessu veizluhaldi að þessu sinni og hefur því lagt til, að frv. verði fellt. — Einn nm. var fjarstaddur, þegar frv. var afgr. í n., hefur hann að sjálfsögðu óbundnar hendur, og annar nm. hefur skilað séráliti.