29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

102. mál, stuðningur við hlutarráðna fiskimenn

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef skilað séráliti um þetta frv., og það er að finna á þskj. 439 og skal ég í aðalatriðum vísa til þess, sem þar segir.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um það, að hér væri í þessu frv. lagt til að halda eina mikils háttar veizlu, og átti þar við það, að hér er farið fram á tiltekinn stuðning við hlutarsjómenn. Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að þetta frv. hafi verið flutt með sérstöku tilliti til þess, að þegar gengisbreyting var gerð, þá var m.a. ákveðið, að hið opinbera — ríkið — tæki verulegan hluta af þeim gengishagnaði, sem yrði bæði af sjávarútvegi, sérstaklega sjávarútvegi, og öðrum útflutningsatvinnuvegum á tilteknu tímabili og ráðstafaði því síðan á ýmsan hátt. Og ég verð nú að halda því fram, að það hafi ekki verið nein goðgá, þó að mönnum dytti í hug, að sjómannastéttin, þeir sem standa þó undir verðmætasköpuninni ekki síður en aðrir menn, fengi eitthvað af þessum gengismismun, sem ríkið hefði verið að ráðstafa. En þar að auki er hér tvímælalaust um að ræða spurningu um það, hvað eigi að gera til þess að tryggja sjómenn á skipaflotann.

Ég hygg, að það liggi alveg ljóst fyrir nú í dag, að það standi þannig, að því er varðar aðildarútgerð á komandi vertíð, að öllu óbreyttu og án alveg sérstakra ráðstafana, að þá fæst hvorki mannskapur á skipin né útgerðarmenn treysti sér til þess að gera þau út. Það mun liggja nokkuð ljóst fyrir, að talið er, að bræðslusíldarverð verði þrátt fyrir gengisbreytinguna til muna lægra en það var í fyrra, og það mun vera alveg víst, að ef ekki verða gerðar einhverjar sératakar ráðstafanir í sambandi víð þau mál, þá verður hvorki um það að ræða, að útgerðarmenn treysti sér til þess að gera út á síldveiðar við óbreyttar aðstæður né að sjómenn treysti sér til þess að fara til að mynda út á reginhaf og vera þar meira en hálft árið og eiga von á því að fá til muna minna fyrir hvert síldarmál heldur en þeir fengu í fyrra. Það gæti verið liður í því að liðka til um þetta mál, ef þetta frv. fengist samþykkt.