12.03.1968
Efri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

60. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Enda þótt sjútvn. gæti ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, sé ég ástæðu til þess að þakka samnm. mínum í n. fyrir það í fyrsta lagi að hafa lagt nokkra vinnu í að athuga þetta mál og hafa afgr. málið. Það kann nú að virðast svo, að það sé ekki sérstaklega þakkarvert, þó að n. afgreiði á síðari hluta þings mál, sem til hennar er vísað allsnemma á þingi. En við könnumst ákaflega vel við þau vinnubrögð, sem hér hafa tíðkazt og það í vaxandi mæli á seinni tímum, þó að þau eigi gamlar rætur, að mál, sem þm. stjórnarandstöðunnar flytja, hversu snemma á þingi sem er og hversu merk mál sem eru, eru gjarnan látin liggja í n, allan þingtímann og ekki afgreidd. Þetta er ósiður, sem æskilegt væri að hægt yrði að losna við í þinghaldinu, og ég sé þess vegna sérstaka ástæðu til að flytja meðnm. mínum í sjútvn., einnig þeim, sem voru mér ekki sammála um afgreiðslu málsins, þakkir fyrir að hafa afgreitt það, og ég vil mega vænta þess, að það sé vottur um breytt og bætt vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu mála.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, varð n. ekki sammála um það, hvernig ætti að afgreiða þetta mál. Hins vegar var í rauninni hið bezta samkomulag um, að mikil nauðsyn væri á verulegum auknum aðgerðum í sambandi við það að byggja upp tækniaðstoð fyrir sjávarútveginn. Menn viðurkenndu allir í n., að þau mál væru of skammt á veg komin. Meiri hl. taldi hins vegar, að það væru ekki rök fyrir því að svo stöddu a.m.k. að setja á fót nýja stofnun til að sinna þessum málum, og leggur til, að með tilliti til þess byrjunarstarfs, sem hafið er hjá Fiskifélaginu í þessum efnum, verði frv. að þessu sinni a.m.k. vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Minni hl. taldi hins vegar, að hér væri um svo stórt og veigamikið mál að ræða, að það yrði að taka miklu fastari tökum en gert hefur verið til þessa og það væri tæplega við því að búast, að á vegum Fiskifélagsins yrði þessum málum sinnt svo alhliða sem þörf væri á, a.m.k. ekki nema þá því aðeins að Fiskifélaginu væri gert það kleift, sennilega þá með nýrri löggjöf, a.m.k. með verulegum fjárveitingum til þeirra starfa.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um verkefni þau, sem liggja fyrir í sambandi við tæknirannsóknir fyrir sjávarútveginn. Bæði er allýtarlega að því vikið í grg. fyrir þessu frv., og sömuleiðis ræddi ég það nokkuð ýtarlega í framsöguræðu minni fyrir frv. hér í haust. En í stuttu máli teljum við flm. og sömuleiðis við, sem skipum minni hl. n., að hér sé um svo viðamikið verkefni að ræða, hér séu svo miklir fjármunir oft og tíðum í húfi, að það verði ekki fullt gagn af tæknistuðningi við sjávarútveginn, nema tiltölulega sjálfstæð stofnun, sem hefði yfir verulegu fjármagni að ráða, tæki þessi mál öll sérstaklega í sínar hendur eða hefði a.m.k. yfirumsjón með þeim. Vissulega mætti vel hugsa sér til að mynda að fela Fiskifélagi Íslands og Hafrannsóknastofnuninni tiltekna hluta þeirra verkefna, sem um ræðir í þessu frv., en það er ekki við því að búast, að þessar stofnanir eða aðrar, sem fyrir eru, taki að sér slík verkefni í stórum stíl án þess að fá aukið fjármagn og bætta aðstöðu til að sinna þeim. Ég tel, að hér sé um svo stórt mál að ræða, hér sé um að ræða í mörgum tilfellum svo stórar fjárhæðir, sem ýmist gætu sparazt eða komið inn í þjóðarbúið á annan hátt fyrir tilstuðlan tæknistofnunar, að það sé ekkert áhorfsmál að verja nokkrum fjármunum nú hið allra fyrsta til þess að koma slíkri stofnun á fót. Þetta töldum við flm. og við í minni hl. í sjútvn. líklegast til verulegs árangurs í þessu efni. Og ástæðan er, eins og ég sagði, að verkefnin, sem bíða í þessum efnum, eru svo margvísleg, þau eru svo stór í sniðum og svo fjölþætt, hér eru svo miklir fjármunir í húfi, að við teljum, að það hljóti að margborga sig þjóðhagslega séð að leggja rækt við að kom upp sjálfstæðri stofnun til þess að sinna þessum margvíslegu verkefnum.

Ég vil aðeins í sambandi við þetta mál rifja það upp, hver þau verkefni eru, sem við flm. frv. leggjum sérstaka áherzlu á, að sinnt verði af tæknistofnun sjávarútvegsins, ef sett yrði á laggirnar.

Það er í fyrsta lagi að hafa eftirlit með fiskiskipunum sjálfum, stærð þeirra og gerð, og í því efni að afla upplýsinga um reynslu okkar sjálfra og annarra þjóða í sambandi við stærð og gerð fiskiskipa. Í þessu efni hafa útgerðarmenn orðið að þreifa sig áfram, oft með ærnum kostnaði, þar sem m.a. er um tiltölulega einfalda hluti að ræða eins og skýrsluöflun og upplýsingastarfsemi bæði innanlands og utan, hún hefur öll verið í molum í þessu efni.

Í öðru lagi þyrfti slík tæknistofnun að fjalla um sjálf tækin, sem í skipunum eru, bæði öryggistæki, fiskleitartæki o.s.frv., og hafa forsagnir um kaup á þeim og meðferð þeirra.

Í þriðja lagi eru það hin margvíslegu veiðarfæri, þar sem miklar og stórfelldar breytingar verða með hverju ári, stöðugt koma fram ný efni, sem notuð eru í veiðarfæri, og jafnvel nýjar gerðir veiðarfæra. Þarna er um að ræða stöðugar breytingar, og vissulega þarf einhver tiltekin stofnun að hafa það sérstaka hlutverk að fylgjast þarna með, prófa nýjungar, innlendar og erlendar, og gefa ýmsar upplýsingar um það, hvað talið er að henti hér, og jafnvel hafa uppi tilraunir með ný veiðarfæri eða nýjar gerðir af veiðarfærum. Þá koma og fram, bæði innanlands og utan, alltaf öðru hverju nýjar hugmyndir og uppgötvanir í sambandi við sjósóknina og við það að ná fiskinum á land, og hér þarf einnig að vera til staðar stofnun til þess bæði að hagnýta erlendar uppgötvanir, prófa þær við íslenzkar aðstæður og einnig prófa íslenzkar hugmyndir í sambandi við veiðitækni. Ég læt nægja að benda á þessi atriði, en skal ekki fara nánar út í það.

Það ætti að vera ljóst af því, sem nú er sagt, að hér er um geysistór verkefni að ræða og miklar fjárhæðir, og þess er vitanlega ekki að vænta, að á mjög skömmum tíma verði hægt að koma upp stofnun, sem sinnti öllum þessum verkefnum til fullrar hlítar. En ég hygg, að það sé meira en tími til kominn að sinna þeim málum meira en gert hefur verið og hefjast handa um að sameina þessar rannsóknir hjá einum aðila. Það gæti vissulega sparað mikið fjármagn og komið í veg fyrir margvísleg mistök.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þetta efni, þótt margt megi í rauninni fleira um það segja. Ég vil að síðustu leggja á það áherzlu, að þetta er stórt mál, og ég tel, að í framtíðinni geti ekki verið um aðra lausn þess að ræða, sem fullnægjandi sé, heldur en þá, að sérstök stofnun, sem telji það sitt verkefni fyrst og fremst að sinna þessum málum, hafi þau með höndum. Hitt er annað mál, að með auknum fjárveitingum og bættri aðstöðu mætti sjálfsagt til bráðabirgða gera eitthvað allverulegt að gagni með því að efla til að mynda Fiskifélagið og Hafrannsóknastofnunina til þess að sinna tilteknum hluta þessara verkefna meira en þær hafa gert, og vissulega er ég ekki andvígur því. En það er alveg ljóst, að til þess að eitthvað raunhæft verði aðhafzt í þessum málum, sem um munar, þarf aukna fjármuni til þeirra og bætt skipulag frá því, sem nú er, en þar er tvímælalaust um að ræða fjármuni, sem ættu að skila sér fljótlega og það margfaldlega.

Ég vona, að með flutningi þessa frv. hafi a.m.k. verið hægt að vekja áhuga á því og minna á það, að hér er um stórmál að ræða, sem þolir ekki langa bið, ef við eigum ekki enn að verða fyrir stórtjóni vegna skorts á upplýsinga- og rannsóknastarfsemi á þessu mikilvæga sviði. Við höfum þegar tapað tvímælalaust mjög miklum fjármunum við það að hafa ekki sinnt þessum málum betur en gert hefur verið, og spurningin er nú sú, hversu miklu við ætlum að tapa enn með því að bíða að hefjast myndarlega handa. Það þyrfti að vera sem allra minnst úr þessu. Og ég er ekki í neinum vafa um, að með því að samþykkja þetta frv. mundi málinu bezt borgið.