11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr því sem orðið er, en ég vil hins vegar ekki liggja undir því, sem hér hefur verið sagt af hv. 6. þm. Sunnl., að ég hafi sýnt vanrækslu í störfum sem dómsmrh. í sambandi við framkvæmd kosningalaganna með því að skera ekki úr um og taka mér dómaravaldið á milli yfirkjörstjórnar og landskjörstjórnar. Hann talaði um, að ég hefði átt að hlutast til um það, að sett væri á kjörseðlana ákveðin, — ja, við skulum segja grg. fyrir afstöðu landskjörstjórnar o.s.frv. En um þetta eru bara alveg skýr ákvæði í 42. gr., að yfirkjörstjórnirnar eiga að auglýsa listana og með þeim listabókstöfum, sem þær hafa ákveðið, og síðan eru ákvæði í 52. gr. og 53. gr., þar sem er beinlínis sagt, hvernig kjörseðlarnir skuli vera útbúnir. Alþ. hefur með löggjöf ákveðið, að svona skuli þetta vera, og viðkomandi aðili, yfirkjörstjórnir, skuli sjá um, að þetta sé svona, og það er ekki dómsmrn., sem prentar þessa seðla. Það stendur á öðrum stað, að það láti kjörstjórnum í té eyðublöð og annað undir seðlana, pappírinn, sem prentað er á.

En ég tel miklu máli skipta, að menn geri sér grein fyrir þessu, að sú skoðun mín sé rétt, að dómsmrh. hefði farið út fyrir sín embættismörk, ef hann hefði gripið hér inn í, vegna þess að ég tel það mjög vafasamt og reyndar hættulegt, að það verði álitið af Alþ., að pólitískur dómsmrh. hafi samkv. löggjöfinni slíkt vald til þess að setja einhverjar klásúlur inn á kjörseðla. Og ég held, að þegar við förum að endurskoða kosningalöggjöfina, þurfum við hreinlega að athuga þetta, að það geti ekki undir nokkrum kringumstæðum skeð, að dómsmrh. geti haft vald til þess að segja við yfirkjörstjórnirnar, sem eiga að ákveða kjörseðlana: Þið skuluð setja þessa klásúlu á kjörseðlana!

En hitt er svo annað mál í þessu sambandi, að dómsmrn. hlutaðist til um og teygði sig eins langt og við álitum, að rétt væri, til þess að koma áleiðis, svo sem verða mætti, þeim ágreiningi, sem var á milli kjörstjórnanna. Það var í samráði við rn., að þegar kjörfundurinn var auglýstur af yfirkjörstjórn hér í Reykjavík, þá var getið álits landskjörstjórnar og dómsmrn. hlutaðist til um það, að utanrrn. sendi öllum sendiráðum, þar sem utankjörstaðakosning fer fram, grg. um þann ágreining, sem væri á milli landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar, svo að þeir, sem kæmu þar að kjósa, vissu um hann og það færi ekki á milli mála, að þeir hefðu sömu vitneskju að þessu leyti eins og ætla varð, að allur almenningur hefði hérna heima.

Ég veit það, að hv. 9. þm. Reykv., sem fór fram á það við mig, að ég hlutaðist til að að setja einhverjar ákveðnar skýringar á kjörseðlana, hafði færa lögfræðinga fyrir sig, og við áttum viðræður saman og ég taldi, eftir að ég hafði svarað honum með því bréfi, sem ég vitnaði í áðan, og síðan urðu ekki meiri umr. um þetta, að það hefði verið gagnkvæmur skilningur milli lögfræðinga hv. 9. þm. Reykv. og mín, að það væri ekki hægt að ganga lengra heldur en við gerðum í þessu sambandi. En hér er hins vegar um mjög veigamikið atriði að ræða og er rétt, að það komi fram, eins og ég sagði áðan, ef á að breyta ellegar verður breytt kosningalögunum, að menn fari ekki í grafgötur um það, hvar dómsmrh, getur gripið inn í í þessu sambandi.

Ég vil svo aðeins ljúka mínu máli í þessum umr. með því að árétta það, sem reyndar hefur margsinnis komið fram. Magnús Kjartansson, sem er 1. maður listans í Reykjavík, og hans umboðsmenn segja það, að ef einhver stjórnmálaflokkur á Alþ. léti tilleiðast að samþykkja slíkt, þ.e. að atkv. lista Hannibals Valdimarssonar teldust til Alþb., yrðu afleiðingarnar alger ringulreið um framboð. Ætlar nú Magnús Kjartansson að fara að gera þetta? Og það er a.m.k. hann og hans menn, sem sögðu líka, að það jafngilti því að afnema stjórnmálaflokkana á Íslandi að greiða hér atkv. á Alþ. með kjörbréfi því, sem Steingrímur Pálsson hefur upp á vasann. Þetta eru þeirra orð. En það getur verið, eins og hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði, að hann sé ekki í þessari sömu sök. En svona loddaraskapur, eins og hér á sér stað í jafnviðkvæmum og mikilvægum málum, verður auðvitað að leiðast fram í dagsljósið hér á Alþ. og menn komast ekki hjá því, þó að hv. 6. þm. Reykv. sé tvisvar sinnum búinn að kvarta undan, að um þetta sé málfundur hér á Alþ. Á Alþ. eru nefnilega haldnir nokkuð margir málfundir, og fólkið hefur gott af því, kannske til þess að kynnast þessum þm. svolítið betur, að þeir yrðu fleiri og hann kæmi þá oftar fram í dagsljósið, eins og hann er klæddur, en ekki með þeim hætti, sem átt hefur sér stað í sambandi við það mál, sem við höfum nú verið að ræða.