23.11.1967
Efri deild: 19. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

58. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. það frv., sem hér er til 1. umr., snertir mjög merkilegt og yfirgripsmikið mál, sem full ástæða er til að gefa rækilega gaum. Ég tel ástæðu til að vekja á því athygli til viðbótar við það, sem hv. flm. hefur þegar gert, að hér er hreyft mjög brýnu stórmáli.

Það er enginn efi á því, að ef við ætlum ekki að dragast stórlega aftur úr, og verða eftirbátar annarra í sambandi við sjávarútveg, hljóta tæknirannsóknir og tækniaðstoð að verða mjög mikill og vaxandi liður í uppbyggingu íslenzks sjávarútvegs. Það má í rauninni heita furðulegt, að þetta mál, tæknileg aðstoð til handa íslenzkum sjávarútvegi, skuli ekki vera í rauninni komið á neinn teljandi rekspöl enn í dag. Það er furðulegt, þegar tillit er tekið til þess, hversu mikil fiskveiðiþjóð við höfum verið og verðum væntanlega í framtíðinni. Það er furðulegt með tilliti til þess, að á undanförnum árum og áratugum hefur verið tími mikillar uppbyggingar og mikilla tækniframfara í sambandi við fiskveiðar almennt og hér hjá okkur sömuleiðis, að þessi mikilvægi þáttur, tæknileg aðstoð á margvíslegu sviði sjávarútveginum til handa, skuli hafa legið og liggja enn svo mjög eftir sem raun ber vitni. Hér hefði vissulega verið mikil þörf á, að sérstök tæknistofnun hefði fengið að þróast á umliðnum árum.

Hefði til að mynda í lok síðustu styrjaldar, þegar við fórum að endurnýja okkar skipaflota, bæði togaraflotann og fiskiskipaflotann að öðru leyti, verið sett á laggirnar slík tæknistofnun og fengið að þróast með eðlilegum hætti, þori ég að fullyrða, að við hefðum fyrir tilverknað þeirrar stofnunar sparað milljónatugi og hagnazt beint og óbeint um hundrað millj. á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Það er þess vegna orðið næsta brýnt og meira en það, það er orðið knýjandi nauðsyn, vil ég segja, að þessum málum sé sinnt af fullri alvöru og það verði nú tekið föstum tökum að koma hér upp sem fullkomnastri tækniþjónustu fyrir sjávarútveginn. Ef við aðeins lítum á það, hvernig landbúnaðurinn hefur byggt upp margvíslega þjónustustarfsemi í sínum greinum, margvísleg störf ráðunauta í sambandi við hinar ýmsu greinar landbúnaðar, gegnir það vissulega, eins og ég sagði, mikilli furðu, hvað sjávarútvegurinn hefur legið eftir í þessu tilliti. Þetta hafa að vísu ýmsir séð á undanförnum árum, og slíku máli sem þessu hefur svo sem verið hreyft áður, en því miður hefur það ekki borið nægilegan eða æskilegan árangur fram til þessa.

Í sambandi við þessi mál vil ég leyfa mér að minna á það, að ég hef á allmörgum undanförnum þingum hreyft þessu stóra máli á einn eða annan hátt. Á þinginu 1963 flutti ég þáltill. um, að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um tæknistofnun sjávarútvegsins, sem hefði þessi verkefni, sem hér um ræðir, og raunar öllu víðtækari en lagt er til með þessu frv. Ég endurflutti þessa þáltill. á þinginu 1964. En í hvorugt skiptið hlaut till. afgreiðslu. Því miður fékk þetta mál helzt til daufar undirtektir hér á hv. Alþingi með tilliti til þess, hversu mikilvægt það er. Þó vil ég geta þess, að þáverandi fiskimálastjóri, sem þá var einnig alþm., tók mjög eindregið undir það í sambandi við umr. um þetta mál, annaðhvort á þingi 1963 eða 1964, að það væri orðin full nauðsyn á löggjöf í sambandi við tækniaðstoð til handa sjávarútveginum. En að öðru leyti varð ég fyrir verulegum vonbrigðum að því er snerti undirtektir hv. alþm. og þá sérstaklega hv. stjórnarþm. og hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál þá.

Þegar lög um rannsóknir í þágu sjávarútvegsins voru hér til lokaafgreiðslu á þinginu 1965, freistaði ég þess að fá inn í þá löggjöf ákvæði um stofnun sérstakrar tæknideildar til handa sjávarútveginum. Það fékkst ekki fram. Hins vegar var sett inn í þá löggjöf ákvæði þess efnis að eitt af verkefnum Hafrannsóknastofnunarinnar skyldi vera það að veita vissa, takmarkaða tæknilega aðstoð í sambandi við fiskiskip og veiðarfæri og annað, sem snertir útbúnað fiskiskipa. Það hefur því miður ekki orðið mjög mikill árangur af þessu enn þá. Þó er kominn vísir að slíku starfi hjá Hafrannsóknastofnuninni, en eftir því sem mér er tjáð, mun það aðeins vera einn tæknimenntaður maður, sem hefur verið tiltölulega nýlega ráðinn til þess að sinna þessu mjög stóra og fjölbreytta verkefni, og þó að það sé að sjálfsögðu góðra gjalda vert og muni bera einhvern árangur, er það vitanlega langt um of lítið og hlýtur að ná ákaflega skammt. Þess vegna er það mjög brýnt, að hér sé komið á ýtarlegri löggjöf um þessi efni og þau verði í framtíðinni tekin verulega föstum tökum.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt um það, hvernig hefur dregizt úr hömlu hjá okkur að skipa þessum málum á þann eðlilega og nauðsynlega hátt fyrir sjávarútveginn, fagna ég því frv., sem hér er til umræðu. Ég fagna því, að ungur hv. alþm. úr liði stjórnarflokkanna, maður, sem hefur þekkingu á sjávarútvegsmálum og fæst sjálfur við útgerð og veit þess vegna, hvernig skórinn kreppir í þessu efni, — fagna því, að hann skuli nú hreyfa þessu máli á myndarlegan hátt að ýmsu leyti og hafa lagt hér fram frv., sem á að geta bætt úr í þessu sambandi.

Vitanlega getur það verið fullkomið álitamál, á hvern hátt á að bæta úr því ófremdarástandi, sem ríkt hefur og ríkir enn í sambandi við tækniaðstoð sjávarútveginum til handa. Það getur verið fullkomið álitamál, hvernig á að byggja upp slíka starfsemi og hvort það er eðlilegast og réttast að tengja hana við fiskveiðasjóð, eins og lagt er til í þessu frv., eða hvort hitt væri líklegra til árangurs, þegar fram í sækti a.m.k., að um væri að ræða sjálfstæða rannsóknarstofnun, byggða upp á hliðstæðan hátt og aðrar rannsóknar- og upplýsingastofnanir atvinnuveganna eru byggðar upp. En það er mín skoðun, að það sé heppilegasta leiðin, og það legg ég þess vegna til í frv., sem nú hefur verið nýlega útbýtt og ég flyt ásamt hv. 6. þm. Sunnl.

Að sjálfsögðu mundi sérstök tæknideild við fiskveiðasjóð, eins og lagt er til í þessu frv. að sett verði á stofn, geta bætt verulega um frá því ástandi, sem nú ríkir í þessum efnum. Að vísu varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum að því er snerti þá tölu, sem hv. frsm. nefndi, að vísu orðaði hann það þannig, að sér þætti ekki mikið, þótt fiskveiðasjóður legði til þessarar starfsemi 800 þús. kr. á ári. Ef það ætti að vera aðaltekjustofn eða hið eina rekstrarfé slíkrar stofnunar, þykir mér þetta allt of lítil upphæð, og þó að rétt sé, að slík starfsemi sem þessi þarf vitanlega að þróast og á að geta vaxið,finnst mér þarna allt of rólega af stað farið vegna þess, hversu þörfin er brýn, hversu verkefnið er stórfellt og hversu þarna er, eins og hv. frsm. lýsti glögglega, um gífurlegar fjárhæðir að ræða, sem hugsanlegt væri og alveg öruggt væri, að gætu ýmist sparazt með hagkvæmari vinnubrögðum, hagkvæmari innkaupum og fyrirkomulagi eða beinlínis komið inn í þjóðarbúið og til sjávarútvegsins með auknum aflabrögðum. Ég hefði þess vegna talið, að verkefnið væri það stórt, og nauðsynin væri það brýn, að þarna þyrfti verulega miklu meira fjármagn að koma til, jafnvel þegar í byrjun, ef árangur ætti að verða nægur og skjótur og slík tæknistofnun gæti byggt sig eðlilega upp á tiltölulega skömmum tíma. En eins og ég vék að áðan, tel ég það engan veginn aðalatriði þessa máls, á hvern hátt slík stofnun sem þessi, sem fyrir okkur báðum vakir, bæði hv. flm. þessa frv. og mér, verður byggð upp eða af hvaða aðila hún yrði byggð upp, heldur er aðalatriðið vitanlega hitt, að slík stofnun komist sem allra fyrst á fót og að hún geti með árangri farið að takast á við þau margþættu og stóru verkefni, sem hennar bíða.

Hv. flm. frv. gaf hér fróðlega skýrslu um innflutning fiskiskipa nú nokkur undanfarin ár, þar sem í ljós kom, sem raunar allir vissu, að hér var um gífurlegar fjárhæðir að ræða. Fiskiskip hafa verið flutt inn til landsins fyrir ekki aðeins tugi, heldur hundruð milljóna flest árin nú allmörg undanfarin ár. Þessu til viðbótar kemur svo það, að við flytjum að sjálfsögðu inn margvísleg veiðarfæri á hverju ári, ekki fyrir tugi, heldur vafalaust fyrir hundrað milljónir eða hundruð milljóna, því að þar er um gífurlegar fjárupphæðir að ræða í sambandi við hina stóru og dýru herpinætur síldveiðiskipanna og margt fleira. Og síðast, en ekki sízt eru það hin margvíslegu tæki, fiskleitartæki og önnur þau tæki, sem eru jafnframt flutt inn. Bæði fylgja þau að sjálfsögðu nýjum skipum, en svo hefur þróunin verið svo ör í þeim efnum, að menn hafa talið, ef þeir hafa viljað fylgjast með, óhjákvæmilegt að endurnýja þessi tæki býsna ört, jafnvel þegar um tiltölulega ung tæki hefur verið að ræða, þegar önnur nýrri og fullkomnari hafa komið á markaðinn. Það er þess vegna alveg ljóst, að tæknistofnunar, eins og við hugsuðum okkur hana í rauninni, að ég hygg báðir, ég og hv. flm., hennar bíða geysilega stór og mikilvæg verkefni. Nú hlýtur að vera hér fyrir höndum, ef allt þróaðist eðlilega, á næstu árum mjög veruleg uppbygging ákveðinna þátta fiskiskipaflotans, þeirra fiskiskipategunda, sem hafa orðið mjög út undan í uppbyggingu síðari ára, þ.e.a.s. endurnýjun togaraflotans hlýtur að verða verkefni næstu ára og endurnýjun þess vélbátaflota, sem fyrst og fremst fiskar fyrir hraðfrystihús og aðrar fiskverkunarstöðvar, þ.e.a.s. þess bátaflota, sem aðallega stundar bolfiskveiðar. Vitanlega er það hárrétt, sem kom greinilega fram í framsöguræðu hv. flm., að stöðugt eru að koma upp nýjungar að því er varðar veiðarfæri og alls konar tækniútbúnað veiðiskipa, og það eru stór og mörg verkefni vissulega á komandi árum að fylgjast með í þeirri þróun og hagnýta það bezta úr henni við íslenzkar aðstæður.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál. En ég endurtek það, sem ég áður sagði, að ég fagna því, að þetta frv. er fram komið, og þó alveg sérstaklega þeim áhuga, sem það lýsir, áhuga hv. flm. og skilningi hans á því, að hér er stórmál á ferðinni. Og hver sem niðurstaðan verður að því er snertir fyrirkomulag slíkrar stofnunar sem fyrir okkur vakir, vænti ég þess, að þetta mál í heild, hugmyndin um að koma hér upp tækniþjónustu sem allra víðtækastri fyrir sjávarútveginn, fái nú góða áheyrn hér á hv. Alþingi, að þetta mál í heild verði tekið til rækilegrar og myndarlegrar meðferðar og afgreitt á viðhlítandi hátt.