01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2208)

58. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. þetta með fyrirvara, og ástæðan til þess, að ég hef fyrirvara við undirritun undir nál., er sú, að ég tel, að þeim málum., sem hér er um rætt, því eftirliti með skipasmíði, sem um er rætt í þessu frv., sé engan veginn þannig fyrir komið nú í dag, að viðunandi sé, og hefði af mörgum ástæðum talið eðlilegt að samþykkja frv. í meginatriðum eins og það var lagt fram. Hins vegar má segja, að þegar stjórn þeirrar stofnunar, sem frv. gerir ráð fyrir að leggja þessar skyldur á herðar, stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands, bendir á annan aðila til þess að vinna verkið, sé e.t.v. hæpið að samþykkja, að Fiskveiðasjóður taki þetta verkefni að sér, þar sem megi þá búast við, að ekki sé e.t.v. fyrir hendi sá áhugi þar, sem nauðsynlegur er, til þess að verulegur árangur verði.

Í hinni rökstuddu dagskrá segir á þá leið, að þar sem Fiskifélag Íslands hafi þegar komið á fót tæknideild, skuli þessu máli vísað frá. En þar segir einnig, og það vil ég alveg sérstaklega undirstrika, að nauðsyn beri til, að þessi tæknideild verði efld, til þess að hún geti sinnt þessu verkefni á þann hátt, sem nauðsynlegur er. Og það er mála sannast, að þar sem Fiskifélagið hefur þegar sýnt góðan vilja á því að vinna að lausn þessa máls, en þar er í rauninni enn ekki um annað að ræða en lítinn vísi að tæknideild og hann þarf vissulega að efla, og þetta mál kemst ekki í æskilegt horf, fyrr en það verður gert, þá er vitanlega ekki höfuðatriði, hvaða stofnun eða aðili það er, sem framkvæmir það nauðsynjaverk, sem frv. þetta ræðir um. Höfuðatriðið er, að það verði gert og þeirri stofnun sem það verður þá falið, verði gert kleift að vinna verkið á sómasamlegan hátt.