31.10.1967
Efri deild: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Flm. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma í það að gera ræðu hæstv. félmrh. að umtalsefni. Hann hóf mál sitt á því að segja, að ég hefði mjög hallað réttu máli í fyrri ræðu minni. Satt að segja og mér til mikillar ánægju fannst mér nú, að þegar átti að fara að nefna dæmin um það, væru þau ekki eins stórkostleg og vænta hefði mátt eftir þessum inngangi. En það er sjálfsagt að reyna að standa fyrir máli sínu og leiðrétta þá þau ummæli, sem helzt gætu verið undirrót slíks dóms af hendi hæstv. ráðh.

Hann talaði um það, að ég hefði gert vanrækslu húsnæðismálastjórnar til þess að framkvæma kaflann um lækkun á byggingarkostnaði sérstaklega ranglega að umtalsefni. Og hann vildi nefna nokkur dæmi um það, að tilburðir hefðu verið uppi hafðir í þá átt að framkvæma lögin að þessu leyti. Og ef ég hef tekið rétt eftir, var það aðallega tvennt, sem hann minnti á. Það var í fyrsta lagi það, að húsnæðismálastjórn hefði lagt til teikningar. Það væri algengt orðið og algengast, að a.m.k. utan Reykjavíkur og stærri staða væri byggt samkv. teikningum húsnæðismálastjórnar. Þetta er vissulega alveg rétt, og þetta er til mikilla bóta. Hvað mikið það lækkar byggingarkostnaðinn, skal ég ósagt láta, en þetta er einn af þeim 12 liðum, sem lögin telja upp, og þetta er einn af þeim liðum eða sá eini liður, held ég, sem ég nefndi einmitt, sem hefði verið framkvæmdur. Ég tók það alveg sérstaklega fram, þegar ég las upp þennan lið úr 2, gr. laganna, að á þessu sviði hefði talsvert verið gert, svo að ekki hef ég þá farið rangt með það. Hann sagði, að það væru eftirlitsmenn starfandi á vegum húsnæðismálastjórnar til þess að fylgjast með því, að rétt væri byggt, og ég skal fúslega viðurkenna, að það sé einnig til bóta. En að öðru leyti fannst mér ekki fara mikið fyrir því starfi, sem hv. húsnæðismálastjórn um skeið undir forustu hæstv. núv. félmrh. hefur lagt af mörkum í þessari baráttu og til framkvæmda á 2. gr. umræddra laga. Þessi lagasetning er nú orðin 10 ára gömul, og fjöldi þeirra liða, sem ekki hafa verið framkvæmdir og ekkert verið teljandi reynt að framkvæma, er miklu meiri en þeirra liða, sem framkvæmdir hafa verið að einhverju eða öllu leyti, svo að þótt það kunni að vera, sem ég skal fyllilega fallast á, að mér hafi láðst að geta um eitthvað af störfum húsnæðismálastjórnar í þessa átt, stendur þó hitt óhaggað, að ég hygg að miklu fleira er þar ógert. Hæstv. ráðh. viðurkenndi þetta líka, og hann kom með ástæðuna til þess, að þetta hefði verið ógert, það var fjármagnsskortur. Ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum vorum við einu sinni sem oftar að ræða þessi mál og þá barst það sama í tal, og ég viðurkenndi það þá og skal fúslega viðurkenna það enn, að mér dettur ekki í hug að halda það, að það hafi verið fyrir vanrækslu, fyrir trassaskap þessara ágætu fulltrúa fólksins í Húsnæðismálastofnuninni, sem ekki hafi verið gert meira að því en raun ber vitni að framkvæma þessi ákvæði um lækkun byggingarkostnaðar. Það stafar fyrst og fremst af fjármagnsskorti. Það stafar af því, að það fjármagn, sem þessi sjóður hefur haft til ráðstöfunar, hefur ævinlega verið svo takmarkað, að þegar nm. hafa séð þörf húsbyggjenda fyrir lánsfé, hafa þeir látið þessar ráðstafanir mæta afgangi, og ég skal gjarnan undirstrika það einu sinni enn, sem ég hef oft gert áður, að það er fyrst og fremst af þessum ástæðum, sem framkvæmd laganna hefur dregizt. En þetta er misskilningur. Ég leyfi mér líka að benda á, að það verður meira úr því fjármagni, sem Húsnæðismálastofnunin ver til þess að gera þessar ráðstafanir, þær sem að gagni mega koma, heldur en þó að hægt sé að lána þeim fjárhæðum meira til húsbygginga almennt. Og það er fyrst og fremst það, sem ég hef leyft mér að gagnrýna, bæði nú og áður, og mun gera, þangað til veruleg breyting verður á því.

Hæstv. ráðh. gat um það, að komið hefðu nýir tekjustofnar til og þess vegna væri hægt að gera áður óþekktar ráðstafanir til lækkunar byggingarkostnaði. Það er rétt, að fjármagn byggingarsjóðs hefur talsvert verið aukið með hækkun skyldusparnaðarins, með launaskattinum, og e.t.v. á einhverja fleiri vegu, sem ég man ekki í svipinn, en þó ekki meira en svo; eins og ég gat um áðan, að til þess að geta staðið undir og veitt lán til framkvæmdanna í Breiðholti hefur þurft að skerða fjármagn byggingarsjóðs til almennra útlána á þann hátt, sem ég gerði áðan grein fyrir, að það eru 800 umsóknir 15. marz, sem ekki er sinnt, 600 umsóknum verður þá að vísa fram á næsta ár, og síðan 15. marz hefur, að því er ég bezt veit, ekki verið gerð einu sinni talning á því, hversu margar umsóknir hafa borizt og ekki hefur verið hægt að sinna.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið krafa verkalýðsfélaganna, að sérstök n. væri sett á laggirnar til þess að hafa með höndum framkvæmdirnar í Breiðholti. Ég talaði ekkert um það, hver hefði ráðið því, að þessi tilhögun var viðhöfð. Ég sagði ekki heldur, að ég sæi ástæðu til þess að gagnrýna hana. Ég benti aðeins á það, að Húsnæðismálastofnun hefði verið til og hennar hlutverk væri nokkuð það sama og framkvæmdanefndin er núna að vinna að. Og ég segi það og endurtek það, að mér finnst það undarleg ráðstöfun að þurfa að setja á stofn nýtt ráð eða nýja nefnd til þess að framkvæma það, sem öðrum aðila er með lögum skylt að gera, frá hverjum sem sú krafa kemur.

Það er misskilningur hæstv. ráðh., að ég hafi minnzt á 20 millj. kr. framlagið 1945 til þess að sýna fram á það, hvað byggingarkostnaðurinn hafi hækkað. Það segir vissulega sína sögu um það, hvað byggingarkostnaðurinn hefur hækkað á þessum tíma. En ég dró þessa tölu fram til þess að sýna það, hversu ljós mönnum hefði verið sú nauðsyn þá þegar að auka fjármagn byggingarsamvinnufélaga með þessum hætti og hversu miklu meiri stórhugur hefði sýnt sig í þeirri till. heldur en þó þeirri, sem ég er hér að tala fyrir. En það er vissulega alveg rétt, að þetta segir náttúrlega sína sögu um hækkun byggingarkostnaðarins. En auðvitað þarf að geta fleiri atriða, ef menn ætla að fara að bera það saman, hvort það sé svo miklu tiltölulega dýrara að byggja núna eða þá. Það lá ekki í mínum orðum, og ég leiðrétti það, ef einhver hefur misskilið það, eins og hæstv. ráðh. virtist hafa gert.

Ég skal ekki vera að lengja þessar umr. Ég tel ekki ástæðu til þess. En ég endurtek það, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu og eins og hæstv. ráðh. undirstrikaði, að það er ástæða til þess að fagna því, ef byggingarmeistarar hér í borginni hafa aðstöðu til þess að byggja ódýrara en þeir hafa gert með því að bindast samtökum og með því að eiga von á opinberri aðstoð til þess að geta hrundið því í framkvæmd. Ég er líka mjög ánægður með það og bind talsverðar vonir við það, að tilraunin í Breiðholti gefi góða raun, þó að ég geti vissulega tekið undir þær áhyggjur með hæstv. ráðh., að það sé ekki víst, að árangurinn verði eins og allir hefðu óskað, a.m.k. ekki í fyrstu lotu. En ég skal enda þessi fáu orð með því að minna á það einu sinni enn, að við hlið þessara ráðstafana, við hliðina á samtökum byggingarmeistara, við hliðina á tilraunum ríkissjóðs eða ríkisvaldsins til þess að lækka byggingarkostnaðinn starfa hér félagsmálasamtök, sem hafa sýnt það, að þau hafa getað lækkað byggingarkostnaðinn, byggt ódýrar en margir aðrir, byggingarsamvinnufélögin, og það er til þess að styðja þá viðleitni, sem þetta frv. er lagt fram.