01.02.1968
Efri deild: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér aðeins örfá orð í sambandi við afgreiðslu þess frv., sem hér er til umræðu, en það er um byggingarsamvinnufélög, sem ég hef flutt ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v.

Þetta er í annað skipti, sem ég flyt frv. um aukna aðstoð við byggingarsamvinnufélögin hér á hv. Alþingi. Í fyrra reiddi þessu frv. þannig af, að því var vísað til n. í hv. Nd., þar sem það sofnaði svefninum langa, og heyrðist ekki meira af því, þótt það væri flutt snemma þings.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. sýnir hins vegar þann manndóm, sem ber að þakka, að vilja afgreiða frv. á einhvern hátt. Og vitanlega eru það þau vinnubrögð, sem ein eru sæmandi, að afgreiða þau mál, sem fram eru borin, og ef menn hafa ekki vilja til að vera með þeim, þá að fella þau. Hér er nú ekki gengið svo harkalega til verks, heldur lagt til að vísa málinu til hæstv. ríkisstj. Auðvitað hefði ég helzt kosið, að þetta frv. hefði náð samþykki hér á þessu hv. þingi, og satt að segja finnst mér öll rök hníga að því, því að hér er í raun og veru aðeins um tvær eða að meginhluta til aðeins um tvær efnisbreytingar frá gildandi lögum að ræða, eins og hv. frsm. n. tók fram.

Annað atriðið er að tryggja sölu á ríkistryggðum skuldabréfum byggingarsamvinnufélaga að upphæð 75 millj. kr. á ári og þar með vil ég nú segja gera byggingarsamvinnufélögin starfhæf, því að allir vitum við, hvernig gengið hefur að koma slíkum ríkistryggðum skuldabréfum í verð, það hefur nánast verið alveg útilokað eftir gildandi lögum, þegar engin skylda er nokkurs staðar til að kaupa þau. Það var dálítil von til að selja þessi ríkistryggðu bréf, á meðan tryggingarfélögin lánuðu kvaðalaust, þau munu hafa keypt nokkuð af slíkum bréfum, en eftir að sú skylda var lögð á tryggingarfélögin að leggja í húsnæðismálastjórn 25% á móti hverju því láni, sem þau afgreiða, hygg ég, að þessi möguleiki hafi einnig alveg lokazt. Afleiðingin hefur þá orðið sú, að þessi bréf hafa ýmist verið óseld og óseljanleg eða gengið kaupum og sölum með gífurlegum afföllum, sem orðið hafa til þess vitanlega að hækka byggingarkostnaðinn. Þessi ómöguleiki að útvega fjármagn til þess að kaupa bréf hefur áreiðanlega háð starfsemi byggingarsamvinnufélaganna alveg gífurlega, eins og hv. frsm. raunar tók fram, og vil ég undirstrika það að sjálfsögðu, sem kemur fram bæði í frv. og hans ræðu, að óhjákvæmilegt verður að leita leiða til þess að finna þetta fjármagn, ef starfsemi byggingarsamvinnufélaganna á að geta skilað þeim árangri, sem annars mundi hægt.

Hitt meginatriði frv. er forgangsréttur til handa byggingarsamvinnufélögum um úthlutun lóða. Hv. frsm. taldi vandkvæði á því að lögfesta slíkan forgangsrétt fyrir byggingarsamvinnufélög. Ég skal viðurkenna, að það getur verið nokkuð erfitt í sumum tilfellum, að segja til um, hver eigi mestan rétt til lóða, þar sem lóðaskortur er, og vitanlega væri æskilegast, að hægt væri að koma málum þannig fyrir, að allir gætu fengið lóðir. En þetta ákvæði settum við flm. í frv., vegna þess að okkur er tjáð, að lóðaúthlutun, a.m.k. hér í Reykjavík, hafi a.m.k. til skamms tíma verið þannig hagað, að byggingarfélögin hafi verið nokkuð afskipt í því, og það finnst okkur ranglátt og óþarft, og við teljum byggingarsamvinnufélögin það þýðingarmikinn aðila í byggingarframkvæmdum landsmanna og borgarbúa, að við svo búið eigi ekki að standa.

Ég held, að það sé öllum ljóst, og ég hef ekki heyrt því mótmælt, að reynslan af byggingarsamvinnufélögum þeim t.d., sem ég nefndi hér við 1. umr., Byggingarfélagi sjómanna og verkamanna í Reykjavík, Byggingarfélagi atvinnubifreiðarstjóra, Byggingarfélagi alþýðu, Byggingarsamvinnufélaginu Framtak, svo að ég nefni einhver, sýni, að þessi leið sé vel fær til þess að lækka byggingarkostnaðinn, en lækkun byggingarkostnaðarins er og verður eitt stærsta viðfangsefnið, sem við er að glíma í okkar málum. Vitanlega ber að vinna að þessari lækkun byggingarkostnaðar með öllum tiltækum ráðum. Ég er alveg samþykkur þessari tilraun, sem verið er að gera í Breiðholti, sem hv. frsm. kannast vel við, og ég óska þess, að hún takist vel. En ég vil bara minna á það og lýsa því sem minni skoðun, að það verði að gera fleira, það verði að reyna fleiri aðferðir til þess að ná þessu sama marki. Byggingarframkvæmdirnar í Breiðholti eru raunar ekki annað en efndir á því margra ára ákvæði, sem vanrækt hefur verið í húsnæðisstjórnarlögunum, að láta fara fram slíkar tilraunabyggingar. Það er vel, að það er nú loksins farið að framkvæma þennan kafla laganna. En ég undirstrika það, að með fleira móti er hægt að ná árangri í þessari baráttu, og minni á, að byggingarsamvinnufélögunum hefur þegar orðið vel ágengt í henni, og þess vegna er ástæða til þess að stuðla að framgangi þeirra, eftir því sem tök eru á. Samtök byggingarmanna hér í Reykjavík hafa nýverið látið samþykkt frá sér fara, þar sem þeir telja sig geta lækkað byggingarkostnaðinn verulega, ef þeir fái nauðsynlega aðstoð, og sú nauðsynlega aðstoð, sem þeir tala um, er það sama og meginefni þessa frv. fjallar um. Það er aukinn aðgangur að fjármagni og aukin eða bætt aðstaða til úthlutunar lóða, svo að það virðist vera, að lóðaskorturinn hafi komið víðar við en hjá byggingarsamvinnufélögunum, og út af fyrir sig er það rétt, sem hv. frsm. sagði um það efni.

Ég skal viðurkenna það, að það er átak að útvega fjármagn til húsnæðismálanna, og okkur er það alveg ljóst, sem flytjum frv., að 75 millj. kr. leysa hér mjög takmarkaðan vanda. Miðað við 300 þús. kr. lán út á hverja íbúð, þá er hér um að tefla einhvers staðar um 200–225 íbúðir á ári, sem gætu notið þessara lána. Og auðvitað er það ekki nóg. En með hliðsjón af því, hversu erfitt er að útvega fjármagn, var boginn ekki spenntur hærra í þessu frv., og allir geta séð, hvílíkur reginmunur væri á því að hafa þó þessa sölu tryggða eða enga, eins og nú standa sakir. Það er þörf á því að útvega meira fjármagn til húsnæðismálanna, eins og glöggt kom fram í umr. hér í sameinuðu þingi ekki alls fyrir löngu. Það er vitanlega aðkallandi að skila byggingarsjóði ríkisins því, sem af honum hefur verið tekið vegna Breiðholtsframkvæmdanna, og það er aðkallandi að tryggja áframhaldandi fjármagn til þeirra framkvæmda. Það er ekki hægt og verður ekki hægt til frambúðar að láta almenna veðlánakerfið standa undir þessum stórframkvæmdum, byggingu 1250 íbúða. Það verður ekki gerlegt, og það var áreiðanlega ekki tilgangur þess samkomulags, sem upphaflega var gert um þær byggingar.

Ég endurtek það, að ég hefði helzt kosið, að frv. hefði náð samþykki nú á þessu þingi, þannig að byggingarsamvinnufélögin gætu á ný sýnt, hvers þau eru megnug, ef búið er að þeim eins og lög gera ráð fyrir. En nú er því borið við, að vegna heildarendurskoðunar, sem yfir standi á húsnæðismálalöggjöfinni, sé eðlilegt að taka ekki afstöðu til málsins, heldur að vísa því til hæstv. ríkisstj. Og ég skal gjarnan játa það, að hv. frsm., 3. landsk., og nokkrir aðrir nm., a.m.k. þeir, sem eru úr sama flokki og ég, báru þessa leið undir okkur flm. og við fyrir okkar leyti höfum eftir atvikum fallizt á hana, fyrst og fremst náttúrlega út frá því sjónarmiði, að hún sé betri en að frv. verði fellt eða endalaust lagt við aðgerðarleysisstjórann. En ég geng að þessari till. í því sama trausti og hv. heilbr.- og félmn. lætur í ljós í nál. á þskj. 245, að þessari endurskoðun verði hraðað og henni lokið á yfirstandandi ári og það legg ég áherzlu á. Þessi endurskoðun er búin að standa yfir lengi. Hún var ráðgerð 1965 eða fyrir 2½ ári, og satt að segja finnst mér það sízt ofmælt, sem hv. frsm. sagði, að það væri ástæða til að fara að vænta niðurstöðu af þessari endurskoðun, og það er vel, að hv. heilbr.- og félmn. hefur notað þetta tækifæri til þess að undirstrika þann vilja sinn, að ekki yrði lengur beðið eftir niðurstöðum þessarar athugunar. Ég geri þetta enn fremur í trausti þess, eins og segir í nál., að vandlega verði könnuð sú reynsla, sem fengizt hefur af starfsemi byggingarsamvinnufélaganna og þætti þeirra í lausn húsnæðisvandamálanna, með það fyrir augum að skapa byggingarsamvinnufélögunum heilbrigðan og eðlilegan starfsvettvang til frambúðar. Ég er sannfærður um, að þegar reynslan af byggingarsamvinnufélögunum verður, eins og hér er lagt til, nákvæmlega skoðuð og borin saman við aðrar aðferðir til byggingar íbúðarhúsa og þáttur byggingarsamvinnufélaganna í lausn húsnæðisvandamálanna sérstaklega dreginn fram, verði niðurstaðan sú, að það muni þykja sjálfsagt, alveg sjálfsagt, að skapa þeim heilbrigðan og eðlilegan starfsvettvang til frambúðar, eins og n. gerir ráð fyrir, og að gallinn þyki þá sá helztur, að það skyldi ekki hafa verið gert miklu fyrr.

Auðvitað er skylt að geta þess, að ekki hafa öll byggingarsamvinnufélög skilað jafngóðum árangri. Það er mér alveg ljóst, að þessi aðferð til þess að byggja tryggir það ekki, að alls konar mistök geti ekki átt sér stað. Þau hafa vissulega gerzt. En ég hygg og byggi það á þeirri reynslu, að vísu takmarkaðri, sem ég hef af þessum félagsskap, að hin séu þó fleiri, þar sem vel hefur til tekizt. Ég er enn þá sáttari við þessa málsmeðferð vegna þess, að hæstv. félmrh. lofaði því í niðurlagi ræðu sinnar við 1. umr. málsins, að frv. skyldi fá, eins og hann sagði, vinsamlega athugun og byggingarsamvinnufélögin mundu koma til greina á sama hátt og aðrir aðilar og aðrar leiðir, þegar kannað væri, hvernig heppilegast yrði að koma byggingarmálunum fyrir til frambúðar.

Út af þeim aths., sem hv. 3. landsk. gerði við frv., skal ég nú ekki eyða löngu máli að tala um þær. Hann tók það fram, að byggingasamvinnufélagalögin væru 16 ára gömul og breytinga þörf. Það er vissulega rétt, og það voru aðallega tvö atriði, sem hann hafði við þessi lög að athuga, og taldi, að mér skildist, að frv. kvæði ekki nægilega skýrt á um lagfæringar í þeim efnum. Fyrra atriðið var um endursölu þessara íbúða, sem byggðar eru á vegum byggingarsamvinnufélaganna. Það er alveg rétt og það vita allir, að lagaákvæðin um forkaupsréttinn og endursöluna hafa lítið verið virt að undanförnu og íbúðir, sem byggingarsamvinnufélögin hafa byggt, hafa gengið kaupum og sölum á svipuðu verði og aðrar íbúðir, sem öðruvísi eru byggðar. En eins og ég minntist á við fyrri umr., er þetta kannske nokkurt vorkunnarmál, meðan aðstoð byggingarsamvinnufélaganna hefur ekki getað verið meiri til fjárútvegunar heldur en raun ber vitni að undanförnu. Og ég tel sjálfsagt, að ef eitthvað svipuð ákvæði verða lögfest eins og hér er gert ráð fyrir, verði þetta eftirlit hert. En ég bendi á það, að bæði í lögunum eins og þau eru nú og því frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því, að þar séu ákvæði um þessa sölu og endursölu, og það, sem fyrst og fremst skortir á, er að framfylgja þeim ákvæðum. Ákvæðin eru fyrir hendi, en framkvæmdin hefur verið eins og hv. þm. lýsti.

Hitt atriðið, sem ég vildi aðeins minnast á, er sá ágalli, sem hann telur vera á lögunum, að félagar geti verið víðar en á einum stað, þannig að íbúðir í byggingarsamvinnufélagi geti verið í mörgum eða jafnvel öllum kaupstöðum landsins laganna vegna. Einnig þetta hygg ég, að sé framkvæmdaatriði. Ég tel, að túlka beri t.d. 13. gr. l. nr. 36 frá 1952, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, á þann veg, að allar íbúðir í sama byggingarfélagi séu a.m.k. á sama tiltekna svæðinu, því að í gr. segir:

„Nú vilja menn stofna byggingarsamvinnufélag, og skulu þeir þá kveðja til fundar á því svæði, sem félaginu er ætlað að ná yfir, og bera málið upp til umræðu og atkv.

Þarna er hiklaust gert ráð fyrir því, að hvert byggingarfélag nái aðeins yfir tiltekið svæði. Það er að vísu ekki tekið fram, að það skuli vera kaupstaður eða sýslufélag, en eitthvert tiltekið svæði. Og þetta er enn þá betur undirstrikað í 18. gr. laganna. Þar er ákvæði um það, að menn fái því aðeins lán hjá félaginu, að þeir uppfylli eftirfarandi skilyrði, eins og þar segir, og b-skilyrðið er svona: „að húsin séu reist á þeim stöðum, sem félagsstjórnin ákveður og samþykktir eru af félmrh., enda útvegi félagsstjórnin leigulóðir“, svo að ég hygg, að einnig þetta atriði sé nokkuð glöggt markað í lögunum. Hitt er vafalaust rétt hjá hv. flm., að framkvæmdin hefur ekki verið sem allra skýlausust og ákveðnust í þessu efni.

Ég vil svo ekki, herra forseti, vera að tefja tímann með lengri ræðu um þetta mál. Ég tel, eins og ég hef sagt, að þetta frv. hafi eftir atvikum fengið viðunandi afgreiðslu, og segi það í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. og sá aðili, sem þessi endurskoðun hefur verið falin, láti nú verða af því að gera hana og að hlutur byggingarsamvinnufélaganna í þeirri endurskoðun verði ekki fyrir borð borinn. Ég þakka svo að endingu hv. heilbr.- og félmn. fyrir þessa afgreiðslu.