16.11.1967
Efri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

38. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Mál það, sem ég flyt hér, er endurflutt. Flutti það á síðasta þingi Helgi Bergs, þáv. 6. þm. Sunnl.

Þar sem ég hygg, að flestir dm. séu nokkuð kunnugir þessu máli, mun ég ekki ræða ýtarlega um það, en drepa aðeins á örfá atriði.

Eins og kunnugt er, voru á árinu 1964 samþ. hér á Alþingi lög um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum. Það þótti að sjálfsögðu eðlilegt, að einmitt á þeim stað væri staðsettur skóli til fiskimannaprófs, enda gengu þau greiðlega í gegn. En í l. var ákvæði um það, að bæjarsjóður Vestmannaeyja greiddi kostnað við stofnun skólans og rekstur, og um þetta atriði var þegar í upphafi nokkur ágreiningur, sem er enn, og þess vegna er þetta frv. flutt.

Það töldu margir, að ríkinu bæri að greiða þennan kostnað, eins og kostnað við aðra þætti sjómannafræðslunnar. Enn fremur töldu margir, að það væri óeðlilegt að notfæra sér áhuga Vestmannaeyinga með þessum hætti — áhuga þeirra á þessum skóla — og velta kostnaði að verulegu leyti yfir á þá. Skylt er að geta þess, að ríkið hefur veitt nokkurn styrk, og mér skilst, að hann sé hækkandi með ári hverju, en þó er það svo, að Vestmannaeyjabær ber höfuðþungann af kostnaði við skólann. Á s.l. ári voru svo samþykkt lög um stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, þar sem námstilhögun við þann skóla skyldi vera sams konar og í fiskimannadeild hér við stýrimannaskólann í Reykjavík. Var bæði þarft og sjálfsagt að koma þeim ákvæðum fram. En að öðru leyti fékkst ekki breyting á löggjöfinni varðandi greiðslu kostnaðar. Þrátt fyrir þann styrk, sem fæst úr ríkissjóði til þess að standa undir allsherjarkostnaði við þennan skóla, þá, eins og ég sagði áður, er þetta þungur baggi fyrir Vestmannaeyjakaupstað. Við erum flestir kunnugir því, að Vestmannaeyjabær hefur í mörg horn að líta að því er varðar miklar fjárgreiðslur, hinar stórfelldu aðgerðir t.d. í vatnsveitumálum Vestmanneyinga hljóti að kosta stórfé, og því vissulega þess vegna ástæða til þess að hlaupa þarna undir bagga. Það er ekki um stóra fjárhæð að ræða. Ég hygg, að kostnaður alls á árinu 1966 við stýrimannaskólann hafi reynzt um 1 milljón kr., þar af hafi svo ríkið greitt nokkur hundruð þús. í styrk.

Þó að þetta, eins og ég segi, sé ekki stór fjárhæð, sem Vestmannaeyjabær þarf þannig að greiða, á okkar mælikvarða almennt, er það nú svo, að Vestmannaeyjabæ mundi um þetta muna verulega. Þess vegna þykist ég vita það, að margir þm. munu líta eins og ég á þetta mál, ef þeir íhuga það nánar, og telja, að hér sé um sanngirnismál að ræða að því er Vestmannaeyjabæ varðar. Og með hliðsjón af því og í fullu trausti þess, að dm. sjái allir hið sama og ég þykist greina í þessu máli, vil ég vænta velvilja og skilnings við frv., þannig að það megi ganga fram nú á þessu þingi.

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að ræða frekar þetta mál á þessu stigi, en vil óska þess, að því verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og væntanlega til sjútvn.