27.02.1968
Neðri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2238)

48. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Jónas Pétursson) :

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu hv. frsm. meiri hl. landbn., varð hún ekki sammála um afgreiðslu þessa máls frá n., og veit ég það að vísu, að það kemur ekki hv. alþm. hér neitt á óvart. Við, sem skipum minni hl., leggjum til, að frv. verði samþ. með einni breytingu, sem prentuð er á þskj. 274. Það er aðeins rakið í nál. minni hl. hverra umsagna var leitað af hálfu n., hverjar bárust og hvað þær innihéldu. Enn fremur, eins og raunar hv. frsm. meiri hl. hefur nokkuð rakið, kvaddi n. á sinn fund veiðistjóra, og enn fremur komu á fund n. tveir stjórnarnefndarmenn Loðdýrs hf., af því að þeir óskuðu eftir því að fá að mæta hjá n. Og þessir aðilar gáfu ýmsar mikilsverðar upplýsingar, sem hv. frsm. meiri hl. hefur nokkuð vikið að, og ég skal ekki bæta þar miklu við.

Veiðistjóri er sá maðurinn, sem bezt hefur fylgzt með, hvernig villiminkurinn íslenzki hefur hagað sér á undanförnum árum og hvernig hefur gengið með útrýmingu hans, og þykir mér rétt að víkja örlítið að því, enda þótt ég vilji undirstrika það, að það er í raun og veru ekki mikið atriði í sambandi við þetta mál. Það verður að halda áfram að vinna gegn útbreiðslu villiminksins á sama hátt, hvort sem minkarækt verður leyfð hér eða ekki. En hann gaf okkur þær upplýsingar, að hann hefði 10 ára reynslu yfir að ráða um útrýmingu minksins og útbreiðsla hans væri nú um mest allt land, þ.e.a.s. hann er kominn um Vestfjarðakjálkann, Suðurlandið austur að Skeiðarársandi og um Norðurland allt og Austurland, allt til Vopnafjarðar. Það hefur að vísu gerzt núna á síðustu árum, að hann hefur breiðzt austur fyrir Jökulsá á Fjöllum. Og á síðustu árum hafa verið unnin þetta tæp 3000 dýr á ári, t.d. 1966 voru þau um 2900. Það er mikið um villimink í Árnessýslu, um Snæfellsnes norðanvert, og hvað viðkomu minksins snertir gaf hann upplýsingar um það, að það væru mjög algengar minkafjölskyldur með 5–6 dýrum. En eitt þótti mér athyglisvert, sem kom fram í hans máli, og sérstaklega vegna þess, að ein af þeim rökum, sem dr. Finnur Guðmundsson hefur haft gegn minkaeldi hér, voru einmitt hættan á því, að við blöndun á nýrri tegund, nýinnfluttum dýrum, kynni veiðibræði minksins að verða miklu meiri í fyrstu. Hann hefur haldið því fram, að minkurinn væri nú að færast í það horf að samhæfast landinu eða náttúrunni, eins og sagt er, og drepa aðeins eftir þörfum. En veiðistjóri taldi, að sín reynsla stríddi á móti þessu, það væri enn algengt að sjá t.d. við veiðivötn eða þar, sem minkur kæmist í æðarvarp, að hann dræpi í stórum stíl, þannig að þessi veiðináttúra villiminksins virðist vera hin sama enn eins og hún var, þegar hann slapp hér, voru einmitt hættan á því, að við blöndun á vegna þess, að mér finnst þetta stangast algerlega á við þau rök, sem dr. Finnur Guðmundsson hefur m.a. haft gegn því, að ný afbrigði minks yrðu flutt inn, af því stafaði hætta á aukinni drápshneigð við blöndunina.

Annars vil ég segja það, að það er ekki þetta, sem skiptir máli í sambandi við þetta frv., og ég hef jafnan af því að þetta hefur oft verið hér til umr. áður, lagt á það áherzlu, að við mættum ekki láta afstöðu okkar til villiminksins hafa áhrif á það, hvort við leggjum út í að reyna að hafa hér ábatasama atvinnugrein af minkaeldi. Ég fylgdi þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum, þegar ég talaði fyrir því hér snemma á þinginu, og ég ætla ekki að fara að endurtaka neitt af því. Þó vil ég aðeins enn minna á það, að við stöndum frammi fyrir því, Íslendingar, þar sem þjóðinni fer ört fjölgandi, að við þurfum að standa vel á verði um það að finna hæfileg viðfangsefni og leita eftir nýjum atvinnugreinum til þess að halda uppi atvinnu og framleiðslu fyrir ört vaxandi þjóð. Og með hliðsjón af því, sem ég m.a. dró fram hér við umr., þegar ég talaði fyrir málinu, að Ísland er eina landið af 23 ríkjum, sem eru umhverfis Norðurpólinn, sem ekki hefur minkaeldi. Þetta segir sína sögu, og það sannar það, að einmitt veðurfarsskilyrðin, landfræðilegu skilyrðin eru sérstaklega hagstæð hér.

Ég dró það einnig fram, að við, sem höfum beitt okkur fyrir þessu máli, hefðum engar ævintýralegar hugmyndir um gróða af þessari atvinnugrein. Hitt er trú okkar, að hún geti verið ábatasöm og sé vel til þess fallin að verða einn liður í vaxandi framleiðslu, sem þessi þjóð þarf að skila, eftir því sem fólkinu fjölgar. Og enn vil ég minna á eitt, sem í mínum huga er mjög mikilvægt. Þetta er kjörið viðfangsefni víðs vegar um landið. Það er einn þáttur í því að styðja byggðirnar kringum allt land og ekki sízt þó á norðanverðu landinu, því að eftir því sem veðrátta er þurrviðrasamari, eftir því er veðráttan hagstæðari minkaeldinu.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, víkja að örfáum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann sagði t.d., að hér væri ekki lagt til að taka upp nýja atvinnugrein. Ég vildi nú samt sem áður halda því fram, að svo væri, því að sú reynsla, sem komin var, þegar minkaeldi var bannað, var svo lítil, að það var ekki hægt að segja, að þar væri komið fram svar við því, hversu ábatasamt þetta er. En ég verð jafnframt að segja það, að ég hef það eftir góðum heimildum, frá mönnum, sem þá voru enn með minkaeldi, að þeir voru komnir upp á lagið með það að hafa ábata af minkaeldinu.

Hv. frsm. gerði einnig ýmsar aths. við þetta frv. og hefur nú reyndar gert það áður, þótti það stutt, óljóst og það væri treyst á reglugerðir o.s.frv. Ég tel út af fyrir sig mikinn kost á lögum, að þau séu stutt. Hitt er að vísu miklu verra, ef þau eru óljós. En ég held, að það verði ekki sagt um þetta mál. Og að því leyti sem hann sagði, að það væri treyst á reglugerðir, er það ekkert sérstakt í þessu efni. Það eru yfirleitt gefnar út reglugerðir með lögum, og það er margra dómur, þeirra sem um þetta mál hafa fjallað, að það sé heppilegri háttur að hafa þau ákvæði í reglugerð, sem kveða á um allt hið smærra að því er snertir útbúnað minkabúanna og þess háttar

Það er rétt, að stjórnarnefndarmenn Loðdýrs hf. minntust á Íslending frá Kanada, sem hér hafði verið á ferð, sem væri mikill áhugamaður og kunnáttumaður um loðdýraeldi, og þeir sögðu frá því, að hann hefði boðið fram alla þá aðstoð, sem hann mætti, við það, ef við legðum út í eldi minka. Og það er einnig rétt, sem hv. frsm. skýrði frá, að okkur var sagt frá músinni, sem þeir náðu í Þingvallasveitinni, og ég er ekki viss um, að það sé nein ástæða til að brosa að því, það má vafalaust draga ályktanir af því, hvernig feldur loðdýranna er, — það má draga ályktanir af því, hversu hagstætt veðurfarið er einmitt til framleiðslu skinnanna. Og ég vil vekja athygli á einu enn, sem kom fram hjá þessum mönnum, að einn af höfuðkostum íslenzks veðráttufars til loðskinnaframleiðslu væri einmitt það, hversu lítið svið, lítið hitasvið væri hér, — eftir því sem væri meiri sveifla frá hitatoppi og til þess, sem frost gæti orðið mest, eftir því væri það veðurfar óhagstæðara.

Sem sagt, allar upplýsingar, sem við höfum fengið hvað veðurfar snertir, segja, að hér séu sérstaklega hagstæð skilyrði einmitt fyrir slíka atvinnugrein sem loðdýraeldið er.

Þá vil ég aðeins koma að einu atriði enn, sem kemur líka fram í nál. hv. meiri hl. Það er um það, að þetta frv. opni leiðir fyrir ræktun nýrra og fleiri loðdýrategunda. Ég held, að þetta sé nú alger misskilningur. Eftir því sem ég veit bezt, eru þau lög, sem nú eru í gildi, þannig, að þau hanna aðeins eldi minka. Hitt er rétt, að það eru ákvæði í öðrum lögum um það, hvers þarf að gæta, þegar innflutningur lifandi dýra fer fram. Og þau eru jafnt í gildi eftir samþykkt þessa frv. eins og þau eru nú í dag.

Hv. frsm. lét í ljós von um það, að Alþ. bæri gæfu til að fara þá leið, sem þeir leggja hér til, þ.e.a.s. vísa þessu frv. til ríkisstj. Hann lét einnig í það skína, að hann vonaðist til þess, að þar með færi jarðarför þess fram. Um það skal ég ekkert segja. En ég vil hins vegar láta í ljós þá von mína, að enda þótt ég sé fullkominn stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., þá óska ég eftir því, að þetta Alþ. afgreiði sjálft málið með því að samþykkja frv, og þá með þeirri breytingu, sem minni hl. n. leggur til, að gerð verði á því, og prentuð er á þskj. 274.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi. Ég vil bara enn undirstrika það, að ég vonast til þess, að menn líti á þetta mál með fullkomnu raunsæi og láti ekki kannske heldur ónotalegar tilfinningar til villiminksins hafa áhrif á það, hvernig menn greiða atkv. um þetta mál.