27.02.1968
Neðri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

48. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. 2. þm. Vestf. til hamingju með jómfrúarræðu hans, sem var ýtarleg og leiddi í ljós, að hann hefur mikið um þessi mál hugsað, og er alltaf ánægjulegt að heyra málflutning, sem á góðum undirbúningi byggist. En samt verð ég að segja, að mér þótti fyrsta skref hans heldur varhugavert, þegar hann lýsti því yfir, að andstaðan gegn minkaeldi væri tilfinningamál og tilfinningamál væru leiðinleg mál. Ég benti á það í framsögu minni, að nál. meiri hl. væri hóflegt í alla staði og byggðist eingöngu á röksemdum, enda þótt þetta mál væri mörgum tilfinningamál. Ég tel enn, að svo sé, og við höfum flutt okkar mál á þann hátt, en samt sem áður fyrirverð ég mig ekki fyrir það, að mér er þetta eins og mörgum öðrum nokkurt tilfinningamál. Við skulum ekki gleyma því, að tilfinningar eiga sér orsakir og orsakirnar geta verið málefnalegar, jafnvel þótt tilfinningarnar verði mismunandi sterkar hjá þeim, sem þær hafa. Við skulum ekki gleyma því, að tilfinningar eru mannlegar staðreyndir. Þær eiga jafnmikinn rétt á sér eins og hvað annað. Það getur verið, að áður en langt líður verði sá heimur, sem við lifum í, orðinn þannig, að allir hlutir verði reiknaðir út í tölum, kannske í tölvum, en tilfinningar komi þar hvergi nærri. Ég vona, að það verði ekki fyrr en eftir minn dag, sem þau vísindi yfirtaka alla hluti, því að tilfinningarnar eru krydd lífsins, og það eru tilfinningarnar fyrir því, sem í umhverfi okkar er og fyrir lífsbaráttu okkar, sem gefa lífinu gildi.

Við höfum sterka tilfinningu fyrir okkar landi. Er sú tilfinning leiðinleg? Við höfum sterka tilfinningu fyrir náttúru landsins. Er sú tilfinning leiðinleg? (Gripið fram í.) Við skulum reyna að hafa bæði skynsemina og tilfinningarnar í veganesti, þegar við göngum um sali þingsins og gegnum skyldustörfum okkar, en hinir praktískari menn ættu að temja sér að gera ekki of lítið úr mannlegum tilfinningum.

Hv. þm. sagði, að löggjafaratriði væru engin sáluhjálp. Ef til vill er hægt að velja betri stað til að tilkynna þetta heldur en hér á hv. þingi, þar sem lög eru samin og 60 menn sitja með það hlutverk að setja þjóðinni lög. En ég vil benda á það, að reglugerðir eru settar á grundvelli laga. Þar eru heimildirnar og fyrirskipanirnar um, að reglugerðirnar skuli gefnar út. Ef lög eru loðin og óljós, er minni von um, að reglugerðirnar verði skýrar og ljósar og að þær verði nákvæmar. Ef hins vegar lög eru ýtarleg og setja ákveðnar reglur, er miklu hægara að vita, hvernig þær reglugerðir muni verða, sem ráðh. gefa út og þar sem kveðið verður á um framkvæmd hlutanna og útfærslu aðalatriða í ótal smáatriðum.

Hv. þm. sagði, að ef enginn minkur væri í landinu, væri viðhorfið allt annað. Hvernig var viðhorfið á árunum rétt fyrir 1930? Þá var enginn villiminkur í landinu. En þá reis þessi sami draugur, freistingin að taka upp þennan arðvænlega atvinnuveg, og Alþingi féll fyrir þeirri freistingu. Það var ákveðið að gera tilraun. M. ö. o. það var ekki annað viðhorf í þá tíð, er villiminkur var ekki í landinu.

Hv. þm. fullyrti, að strokuminkar væru auðveiddir. En hvað sýnir reynslan? Voru þeir það, þegar minkur sá slapp út, sem núverandi minkastofn er af kominn? Það þýðir ekki að segja að eilífu, að reynslan sé einskis virði, af því að menn hafi ekki kunnað neitt eða skilið neitt eða getað neitt áður fyrr. Það getur vel verið, að tilraunin hafi á sínum tíma verið gerð af vanbúnaði. En þegar búið er að dreifa minkabúum um allt land, eins og hv. 5. þm. Austf. lýsti, og þetta á að vera til dundurs á hverri höfn, er ég hræddur um, að það gæti komið fyrir, að aðgæzlan, að þekkingin, að aðstaðan til þess að elta hvern mink, sem sleppur, yrði ekki alveg eins og þá menn dreymir, sem sjá þennan atvinnuveg aðeins í mynd hinna fögru stórbúa, sem hafa verið teiknuð fyrir þá. Reynslan sýnir, að strokuminkurinn í heild er ekki svo auðveiddur, að hann geti ekki náð fótfestu í heilu landi og orðið að tugþúsundastofni, sem ekki var til áður.

Hv. þm. sagði, að af þessum sökum gæti strokuminkurinn ekki haft neina umtalsverða þýðingu. Hvað gerðist 1930–50? Er það ekki umtalsverð þýðing, að strokuminkur varð upphaf að minkastofninum, sem nú er í landinu, og gæti ekkert slíkt gerzt aftur við hverja höfn um allt land, þar sem dundað væri við að rækta mink?

Styðjendur þessa frv. leggja á það mikla áherzlu, að Ísland sé eina landið á norðurhveli jarðar, sem hafi ekki skilið sinn vitjunartíma og tekið upp minkaeldi. Ég hef því miður ekki haft aðstöðu til þess að sannprófa þetta, en vil aðeins segja í þessu sambandi, að hér eins og á öllum öðrum sviðum gefur sú staðreynd, að við erum eyland, okkur nokkra sérstöðu. Og það er á ærið mörgum sviðum, þar sem við höfum aðra aðstöðu en aðrar þjóðir, jafnvel aðra aðstöðu en allar aðrar þjóðir. Og við höfum hingað til ekki verið feimnir við að gera okkur grein fyrir þessari sérstöðu. Við höfum hingað til bent öðrum á hana og látið hana verða okkur leiðarljós, sem oft væri ástæða til að fara eftir. Það er allt önnur aðstaða hvað varðar náttúru Norðurlanda, Bandaríkjanna, Kanada, Rússland, þar sem villidýr svipuð minknum eru í auðugu dýralífi. En við höfum verið einangrað eyland um aldir, sennilega um tugi þúsunda ára, og þessi einangrun er höfuðeinkenni á náttúru okkar allri. Við höfum brennt okkur hvað eftir annað á því að reyna að blanda blóði við umhverfið. Sauðfjársjúkdómar, minkaplága, — hvað þurfum við að brenna okkur oft?

Hv. þm. gerði ýtarlega grein fyrir því, að minkaeldið væri mikilvæg atvinnugrein erlendis, og það er alveg rétt. Það er lítill vandi að lesa tölur um erlenda atvinnuvegi, sem milljónaþjóðir stunda, og fá út hluti, sem okkur virðast á okkar mælikvarða vera ærið myndarlegir og miklir. En það er ekki þar með sagt, að samanburðurinn sé sanngjarn. Það er á fleiri sviðum en þessu, þar sem aðrir hafa gert sér stóra og góða atvinnuvegi úr tækifærum, sem eru lakari en við höfum. Hvað segja menn um niðursuðuiðnað?

Megum við fá tölur um það, hvað hann er gífurlegur atvinnuvegur á Norðurlöndum? Hvernig stendur á því, að okkur hefur ekki tekizt betur en raun ber vitni á því sviði? Þegar menn eru að bera hér á borð hluti eins og 3 millj. minkaskinna, er það eins og tala um hundruð þúsundir tonna af niðursuðuvörum. Við erum búnir að læra af reynslunni, að við gerum ekki slíka hluti án þess að gera okkur nánari grein fyrir því, hvað við erum að tala um, í smáatriðum. En þarna er stór atvinnuvegur erlendis, sem við höfum betri skilyrði til þess að stunda heldur en flestar aðrar þjóðir. Ef menn hafa stórfé til að setja í nýjar atvinnugreinar, hví ekki að setja það í niðursuðu, sem hefur ekki í för með sér hætturnar, sem nýtt minkaeldi mundi hafa? Ég ætti kannske enn frekar að nefna fiskirækt. Fiskirækt er stór atvinnuvegur víða úti í heimi, og væru tekin saman nokkur lönd, er ég sannfærður um, að það yrðu himinháar tölur í gjaldeyri, sem mætti nefna í því sambandi. Eru mörg lönd í veröldinni, sem hafa betri aðstöðu til fiskiræktar en við? Því segi ég, að ef menn hafa stórfé til að leggja í nýjar atvinnugreinar, hví efla þeir ekki fiskirækt?

Ég kvartaði undan því í framsöguræðu minni, að það lægi ekkert fyrir af áætlunum annað en örfáar lauslegar tölur, sem n. gat fengið munnlega. En eftir þeim tölum, sem fulltrúar frá Loðdýr hf. nefndu, t.d. um áætlaðan byggingarkostnað á því búi, sem þeir höfðu í huga og síðan þessar skýjaborgir um 2–3 millj. skinna, sýndist mér á fundinum, ég get ekki flutt um þetta tölur, af því að við fengum þær ekki svo nákvæmar, að fjárfestingin, sem þyrfti til þess að koma upp aðstöðu til að framleiða svo mikinn skinnafjölda, væri sennilega á þriðja þús. millj. M. ö. o.: það er hægt að tala og láta sig dreyma um framleiðsluna, en menn verða að gera sér grein fyrir því, að jafnvel minkarækt er ekki kostnaðarlaus með öllu, ég tala nú ekki um, ef hv. flm. ætla að standa við loforð sín um, að það verði eins rammbyggilega búið um hverja skepnu og þarf að vera: Og ég get ekki betur séð en þarna mundi vera um að ræða stórfellda fjárfestingu. Væri gaman að vita, hvaða fjármunir eiga að renna til þessa nýja atvinnuvegar, því að þá kynni Alþ. og aðrir að vilja gera sér grein fyrir, hvort ekki væri til einhver enn öruggari leið í þeim atvinnuvegum, sem við eigum fyrir, að nota svo stórar fjárupphæðir.

Það er rétt hjá hv. þm., að við gerum okkur lítil verðmæti úr úrgangi bæði frystihúsa og sláturhúsa. En það er alrangt að halda, að það sé ekki hægt að nýta þennan úrgang á annan hátt en að hafa villidýr til að éta hann, búa til lifandi sorptunnur við hverja höfn. Vísindin hafa gert mikið í því að reyna að finna hagkvæmari leiðir til þess að hagnýta úrgang, og ég er sannfærður um, að við höfum ekki, t.d. í sjávarútvegi okkar, haft aðstöðu til þess að taka það mál upp á nægilega sterkan hátt, hvernig við getum hagnýtt okkur þá fremstu tækni, sem til er nú í heiminum, til þess að nýta úrganginn. Ég er því sannfærður um, að við eigum að geta hagnýtt þennan úrgang hvort eð er miklu meira en við gerum nú. Til þess eru margar aðrar og miklu skaplegri leiðir heldur en sú, sem hér er verið að tala um.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa lengra mál um málið að sinni. Mönnum hefur orðið tíðrætt um músina á Þingvöllum. Ég vil skora eindregið á Nd. hv. Alþ. að láta það nú gerast í fyrsta skiptið í sögunni, að mús drepi mink.