29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

39. mál, togarakaup ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Við umr. um þetta frv. hér fyrr gafst mér kostur á að skýra ýmislegt af því, sem ríkisstj. hefði haft á prjónunum um þessi mál, hefði þess vegna haldið, að óþarfi væri að endurtaka ýmislegt af því hér aftur, sem virðist þó vera nauðsynlegt, þegar hliðsjón er höfð af ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Reykn. Ég skýrði þá frá tilraunum rn. til þess að fá hingað leigðan togara, eins og hann minntist réttilega á, að haft hefði verið í huga að koma hingað til landsins, en þess reyndist þá ekki kostur nema á einum stað og það á þeim árstíma, sem íslenzkir togaramenn töldu, að gæti ekki gefið okkur neina nýja reynslu, þ.e.a.s. mánuðunum júlí og ágúst. Það var ástæðan til þess eftir mjög ýtarlega leit að slíku skipi, að ekkert varð úr þessari tilraun.

Hv. þm. lagði sérstaka áherzlu á það og vildi nánast láta skilja orð sín svo, að hinn takmarkaði skilningur, sem hann taldi vera innan ríkisstj. um þessi mál, hefði dregið málið á langinn og tafið jafnvel fyrir nefndarstörfum. Ég vil nota þetta tækifæri hér til þess að mótmæla þessu eindregið. Ríkisstj. hefur lagt á það áherzlu, að n. hraðaði svo störfum sínum sem kostur væri, og heimildir til lántöku í þessu efni verða aldrei nein fyrirstaða til framkvæmda í þessu máli. Þeirra væri hægt að afla með stuttum fyrirvara, enda hefur aldrei staðið á því, að alþm. samþykktu slíkar heimildir, og frv. hv. þm. er að því leyti algerlega óþarft og kemur ekki til með að flýta neitt fyrir framgangi þessa máls. Það er, að því er ég bezt veit og hef fylgzt með, mjög skynsamlega að málum staðið í þeirri n., sem að undirbúningi málsins vinnur, og hún er, eins og þm. viðurkenndi, skipuð valinkunnum mönnum, sem hafa góða reynslu í þessum efnum, bæði hvað útgerðina sjálfa snertir og byggingu skipanna. Ég efast þess vegna ekki um, að þeir, sem n. skipa, leggja í senn áherzlu á það að hraða störfum sínum og þó umfram allt að gera svo vel úr garði sínar till., að í þeim verði það hald, sem nauðsynlegt er til úrbóta í þessum málum.

Ég skal, af því að þm. minntist á það, ítreka bæði persónulegan áhuga minn á því, að málið fái sem skjótastan endi, af því að ég tel þetta mjög mikilsvert þjóðfélagslegt vandamál, sem við þurfum að leysa, og mjög mikilvægt fyrir íslenzka atvinnuvegi, að hæfileg endurnýjun eigi sér stað í þessari mikilvægu atvinnugrein, — þá skal ég á ný undirstrika þennan áhuga minn og ríkisstj. allrar um þessi mál, og það er alveg út í bláinn sagt, þegar látið er að því liggja, að ríkisstj. hafi á einn eða annan hátt dregið úr störfum þessarar nefndar.