29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

39. mál, togarakaup ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, var ég fjarstaddur, þegar þetta mál var afgreitt í sjútvn. Afstaða mín til þessa máls liggur því ekki fyrir í nál. Ég vil láta það koma hér fram, að ég mun greiða atkv. með frv. Að vísu má segja, að till. af hálfu meiri hl. n. um að vísa málinu til ríkisstj. feli í sér jákvæðar undirtektir við málið, og með tilliti til þess, að upplýst er, að n. er að athuga það, má segja, að það sé verjandi að afgreiða málið á þann hátt á þessu stigi að láta við það sitja að vísa því til stjórnarinnar. En ég tel nú fyrir mitt leyti ekki vanþörf á því að herða á ríkisstj. í þessu efni og mun því greiða atkv. með frv.