23.10.1967
Neðri deild: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

5. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til, að þegar notaðar eru heimildir í lögum til þess að fyrirskipa atvinnurekendum að innheimta opinber gjöld hjá fólki, sem hjá þeim vinnur, skuli greiða þeim þóknun fyrir innheimtuna. Þeir hafa aldrei fengið neina borgun fyrir þá vinnu og áhættu, sem þessu fylgir. Það er mjög ranglátt að leggja slíkar kvaðir á vissa aðila í þjóðfélaginu, án þess að nokkur greiðsla komi fyrir, þegar aðrir, sem vinna í þágu hins opinbera, fá fulla greiðslu fyrir sín störf. Slíkan ójöfnuð þarf að kveða niður, og í því skyni er þetta frv. borið fram.

Segja má, að fleiri leiðir mætti fara en þá, sem hér er bent á, til þess að koma hér á jöfnuði. Þá mætti nema úr lögum heimildina til að fyrirskipa atvinnurekendum að innheimta skattana hjá starfsfólki sínu. Þá mundu opinberir, launaðir starfsmenn innheimta þessa skatta eins og aðra. Hugsanlegt væri líka að fá aðra einstaklinga og fyrirtæki í þjóðfélaginu til að vinna við skattheimtu eða annað hjá ríki og sveitarfélögum án endurgjalds og koma þannig á jöfnuði. Það mætti hugsa sér, að hæstv. fjmrh. kallaði á sinn fund menn úr ýmsum stéttum, t.d. verkamenn, sjómenn, bændur, iðnaðarmenn, skrifstofu- og verzlunarmenn, kennara, lækna, hjúkrunarkonur, lögfræðinga, presta o. fl., og þegar þessi hópur væri saman kominn ávarpaði fjmrh. fólkið efnislega á þessa leið: Jæja, gott fólk. Hér eru nokkrir skattreikningar, sem ég ætla að biðja ykkur að innheimta fyrir mig og skila fénu til tollstjóra eða sýslumanns. Ég vona, að þið getið gert þetta í ykkar tómstundum, og ekki er ætlazt til, að þið fáið borgun fyrir þetta snatt, því að nú eru erfiðir tímar. Það hefur orðið verðfall á smjöri og lýsi, og nú ríður á að spara, spara og koma öllum rekstri sem haganlegast fyrir, enda höfum við í ríkisstj. komið á fót hagsýslustofnun. Og hann Geir, sem gegnir oddvitastörfum hér í höfuðstaðnum, ætlar líka að fá sjálfboðaliða til að innheimta útsvör og aðra skatta fyrir hreppsnefndina, fyrirgefið þið, borgarstjórnina, ætlaði ég að segja, og ef okkur Geir tekst þetta, getum við lagt niður okkar sameignarfyrirtæki, Gjaldheimtuna, og sparað mikið, því að rekstur hennar kostar mikla peninga.

Hvernig mundi söfnuðurinn svo svara ráðh.? Halda menn, að allir svöruðu þar einum rómi: Já, já, Magnús minn. Það er sjálfsagt að gera þetta fyrir þig? Ég veit það ekki. En hitt veit ég, að þó að tækist að koma slíku á, mun það hafa nokkurn aðdraganda, og á meðan þetta er ekki komið til framkvæmda, tel ég alveg sjálfsagt að greiða atvinnurekendum sanngjarnlega fyrir vinnu við skattheimtu eins og öðrum, sem að því vinna.

Ég er hissa á því, hvað lítið hefur borið á kvörtunum atvinnurekenda yfir þeim kvöðum, sem hér hafa verið á þá lagðar. Allmargir þeirra eru í félagi, sem nefnist Vinnuveitendasambandið, og ég minnist þess ekki að hafa heyrt hósta frá því félagi út af þessari meðferð á félagsmönnum. Þetta bendir til þess, að atvinnurekendur séu mörgum öðrum hógværari og sérstaklega hollir og hlýðnir yfirvöldunum. „Sælir eru hógværir, því að þeir munu landið erfa,“ stendur í Fjallræðunni. En þrátt fyrir það tel ég rangt að níðast á hógværum mönnum. Þeir eiga ekki að gjalda þess, þó að þeir gangi ekki eins hart eftir borgun fyrir unnin verk og sumir aðrir. Þeir eru launa verðir ekki síður fyrir það.

Helztu atvinnugreinar okkar eiga um þessar mundir við verulega erfiðleika að etja, en það er öllum kunnugt. Fyrir Alþingi liggur nú stjfrv. um efnahagsaðgerðir. Einn kafli þess er um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Ég lasta þann kafla ekki út af fyrir sig, en þetta mun vera sami rétturinn, sem hæstv. stjórn bar hér á borð á síðasta þingi. Ég tel, að fyrsta skrefið, sem stíga ætti í þá átt að breyta rétt við atvinnuvegina, væri að borga atvinnurekendum, jafnt einstaklingum sem félögum, sanngjarnlega fyrir þau störf, sem þeim er fyrirskipað að vinna í opinberra þágu. Og það er margt fleira, sem á þá er lagt án endurgjalds, en að innheimta skatta. Stöðugt er verið að heimta af þeim skýrslugerðir um ýmiss konar efni til afnota fyrir yfirvöldin eða nefndir á þeirra vegum. Þetta kostar mikla vinnu og er dýrt, því að starfsmannahald og skrifstofurekstur kostar mikið fé, og ég tel algerlega ósæmilegt að leggja slíkar kvaðir á einstaka menn eða fyrirtæki, án þess að greiðsla komi fyrir. Þessa vinnu á að borga því verði, sem hún raunverulega kostar, annars eru vissir aðilar beittir ranglæti, sem ekki á að una.

Ef frv. mitt, sem hér liggur fyrir, verður samþ., mætti skoða það sem byrjunarskref í þá átt að borga atvinnurekendum eins og öðrum þá vinnu, sem þeir leggja fram fyrir hið opinbera. Um það ættu tæpast að geta orðið deilur, að þetta sé rétt að gera. Eins og segir í niðurlagi grg. með frv., getur verið álitamál, hvort þóknunin fyrir skattheimtuna er hæfilega ákveðin í frvgr. Það er til athugunar fyrir þá þn., sem væntanlega fær málið til meðferðar.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og fjhn.