16.04.1968
Neðri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

5. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar. Það var flutt nokkuð snemma á þinginu. N. leitaði umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga um málið og fékk umsögn þess. Í umsögninni kemur það fram, að stjórn Sambandsins telur það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, að atvinnurekendum verði greidd einhver þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda hjá starfsfólki sínu. Hins vegar telur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, að málið þyrfti meiri athugunar við og undirbúnings, áður en það væri afgreitt sem lög. Ég hygg, að stjórn Sambandsins telji m.a., að gert sé ráð fyrir of hárri prósentu í frv. Nú hefur nokkuð verið hert á skyldum aðilanna til þess að standa skil á opinberum gjöldum sinna starfsmanna, og það ýtir undir það fremur en hitt, að ákvæði um þetta séu tekin til endurskoðunar og að einhver þóknun verði greidd. En fjhn. þessarar d. gat fyrir sitt leyti fallizt á skilning stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga á þessu máli, að það þyrfti að íhuga það allt nokkru nánar. Og einnig þótti n. það styðja þess skoðun, að það er nú verið að vinna að þessum málum og undirbúa breytt innheimtufyrirkomulag. Og með tilliti til þess enn fremur lagði n. til, að í trausti þess, að við þá endurskoðun verði einnig það atriði, sem þetta frv. fjallar um, tekið til athugunar, verði frv. vísað til ríkisstj.