16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Eysteinn Jónsson [frh.] :

Herra forseti. Það kom skýrt fram í gær, hvert er aðalefni þessa frv., sem sé að almenningur eigi að taka á sig brotalaust og bótalaust 750–800 millj. í verðhækkunum á nauðsynjum og sköttum, en þetta fé skuli ganga til þess að jafna halla ríkissjóðs, án þess að málefni atvinnuveganna séu þar með á nokkurn hátt leyst.

Það vekur á hinn bóginn athygli, að ráðizt er í þetta án þess, að fram hafi farið nokkur ýtarleg endurskoðun á ríkisbúskapnum sjálfum, rekstri ríkissjóðs, hvort ekki væri mögulegt að beita þar meiri ráðdeild og koma í framkvæmd skynsamlegum sparnaðarráðstöfunum, áður en gripið er til neyðarúrræða af þessu tagi. Mundi þó margur álita með tilliti til þess, hverju hér er stefnt að, að slíkt væri ekki ófyrirsynju, því að landsmönnum er yfir höfuð nokkuð kunnugt um það ráðdeildarleysi og einstaka bruðl, sem þróazt hefur á undanförnum árum í sjálfum ríkisrekstrinum. Nær vitanlega engri átt að ráðast í annað eins og þetta, án þess að slík endurskoðun hafi farið fram áður og allt sé gert, sem unnt er, til þess að auka ráðdeild á þessu sviði. Á þetta vil ég leggja mjög mikla áherzlu. En jafnframt vil ég svo benda á það, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. í gær og kannske vakti einna mesta athygli af því, sem hann sagði, að gera mætti ráð fyrir því, að aðrar ráðstafanir yrðu að sigla hér í kjölfarið, ráðstafanir vegna sjálfra atvinnuveganna. Hæstv. forsrh. hafði mjög skýra fyrirvara um, að slíkt væri ekki ólíklegt, enda vitum við, að ástand atvinnuveganna er þannig, að það er óhugsandi annað en til slíks komi. M. ö. o. er hugsunin sú, að þetta sé aðeins fyrsta skrefið, en eftir sé meira en lítill böggull, sennilega þá af svipuðu tagi, síðar. Og það er eitt af aðalatriðunum í sambandi við þetta mál, að það leysir ekkert. Þó að í því séu þungar byrðar og mönnum séu greidd þung högg með því, sem til stendur, leysir það ekkert þann stórfellda vanda, sem við verðum að horfast í augu við.

Ég vil benda á, að það er ekki hægt að slíta þetta í sundur, og það mun hefna sín, ef það verður reynt á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. virðist hugsa sér, heldur verður að horfast í augu við þetta vandamál í heild. Nú er það auðséð, að um þetta eru mjög skiptar skoðanir, því að hæstv. ríkisstj. segir í raun og veru eða hæstv. forsrh. fyrir hennar hönd: Það á að byrja á þessu frv. — Það á sem sé að byrja á þessari kjaraskerðingu að hans dómi strax og jafna halla ríkissjóðs með því. En þá er viðurkennt, að eftir eru málefni atvinnuveganna og þau hljóti að koma á eftir. Síðan segir hæstv. forsrh.: Stefnan í atvinnumálum og efnahagsmálum hefur verið rétt í meginatriðum og engar verulegar bætur hægt að fá eða úrlausnir með því að breyta henni. — Ég hygg, að það fari ekkert á milli mála, að þetta er í raun og veru afstaða hæstv. ríkisstj. og þau vinnubrögð, sem hún vill viðhafa.

En við segjum: Vandinn er mikill, en það verður að byrja á byrjuninni og taka málefni sjálfra atvinnuveganna fram fyrir og horfast í augu við vandann í heild, en ekki slíta út úr einstök atriði á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. vill gera. Og það verður að breyta grundvallarstefnunni í efnahags- og atvinnumálum. Það er undirstaða þess, að þær neyðarráðstafanir, sem kann að vera nauðsynlegt að grípa til, beri í raun og veru nokkurn árangur. Kjaramálin verður að leysa í framhaldi af þessu, en ekki ráðast í kjaraskerðingu af þessu tagi, sem hér er gert ráð fyrir, og slíta þau mál úr sambandi við önnur efni.

Það er líka ágreiningur um það, af hverju vandinn stafar, og kemur hann að sjálfsögðu fram í mismunandi skoðunum á því, hvernig vinna skuli að málinu. Við höldum því sem sé fram, að vandinn stafi að verulegu leyti af því, hvernig búið hefur verið að atvinnuvegunum, og af rangri stefnu og það sé því ekki til neins, eins og ég sagði áðan, að fást við þetta nema ganga í rótina. En hæstv. forsrh. segir: Það hefur í öllum aðalatriðum verið fylgt réttri stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum og ekki hægt að leysa neitt með því að breyta henni. Sem sé, hæstv. forsrh. heldur því fram, að það sé ekki hægt að búa betur en gert hefur verið á þjóðarbúinu, það sé ekki hægt að finna neitt að búskaparlaginu. Vandinn stafi ekki af því. heldur sé þetta allt af óviðráðanlegum ástæðum. Það veltur mikið á því að sjálfsögðu, hvort við höfum rétt fyrir okkur í þessu eða hæstv. ríkisstj., því að það er ekkert smávægilegt að gera sér grein fyrir því, hvort á búskaparháttunum hafa verið stórfelldir ágallar, sem hægt væri að laga og hjálpa þannig til þess að komast út úr þeim vanda, sem við erum nú komnir í.

Ég minntist ofurlítið á þetta í fyrri hluta minnar ræðu, en ég skal fara ofurlítið nánar út í þetta vegna þess, hve þetta er þýðingarmikið atriði. Ég benti á, að ríkisstj. hefur ekkert ráðið við verðbólguna. Verðlag í landinu og framleiðslukostnaður hefur vaxið hröðum skrefum, miklu örar en í nokkru öðru nálægu landi. Með þessu er búið að færa allt íslenzkt atvinnulíf úr skorðum. Þetta læzt hæstv. ríkisstj. ekki sjá. Verðbólguþróun hefur verið hér á undanförnum árum um það bil tvöfalt hraðari en hún var, áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við: Vitanlega koma hér margar ástæður til greina, sem ég skal koma að síðar, en ein aðalástæðan er vitaskuld sú, að hæstv. ríkisstj. hefur harðneitað að hafa nokkra stjórn á fjárfestingunni í landinu. Við höfum í raun og veru í því eins og í nálega flestum öðrum efnum búið við algert stjórnleysi.

Þetta er einn veigamikill liður í því, hvernig tekizt hefur í baráttunni við verðbólguna með þeim afleiðingum fyrir íslenzkt atvinnulíf, sem nú blasa við. Og ég endurtek í þessu sambandi það, sem kom hér fram í gær og hefur komið fram áður, að þó að verðfallið á útflutningsafurðunum, einkum í sumum greinum, sé mjög tilfinnanlegt, er verð yfirleitt að jafnaði sennilega heldur betra, hagstæðara en það var, þegar hæstv. ríkisstj. tók við og fór að framkvæma sína stefnu. Ef hæstv. ríkisstj. hefði því getað efnt það loforð sitt að hafa hemil á verðbólgunni, sem var undirstöðuloforð af hennar hendi og fyrsta boðorðið í hennar stefnuskrá, ef hún hefði getað staðið við það, hefði íslenzkt atvinnulíf staðið vel að vígi til þess að mæta þeim áföllum, sem nú hafa orðið. En það er nú öðru nær en svo hafi tekizt, heldur hefur allt verið fært í kaf með verðbólguflóðinu, sem yfir hefur dunið, en hæstv. ríkisstj. hefur verið úrræðalaus í því að stemma stigu við þeim vanda. Þess vegna er það eitt höfuðatriði í sambandi við þær ráðstafanir, sem nú þarf að gera, að finna haldbetri ráð gegn verðbólgunni, ná skynsamlegri og fastari tökum á stjórn efnahagsmálanna en verið hefur undanfarið, og kem ég að því ofurlítið síðar.

Ég nefndi það líka í gær, að þær aðferðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur reynt til þess að vega á móti ofþenslu í þjóðarbúinu, hafa reynzt lamandi og skaðlegar fyrir atvinnulífið og þá ekki sízt sú stefna, sem upp hefur verið tekin og framkvæmd í lánamálum, þ.e.a.s. peningapólitíkin, sem hefur verkað eins og eitur í þessu sambandi. Skal ég ekki endurtaka það, sem ég sagði hér í gær um það, en mun koma með nokkur dæmi um það, hvernig þessi þróun hefur orðið.

Þá hefur það einkennt stefnu ríkisstj., að hún hefur gersamlega neitað að hafa nokkra forustu um uppbyggingu í atvinnulífinu. Það sýnir m.a. dæmið um það, hvernig farið hefur með togaraútgerðina, sem ég nefndi í gær. Á sömu árum og aðrar þjóðir hér í grennd við okkur hafa byggt upp nýja togaraflota og iðnað í sambandi við þann rekstur, svo að sá fiskur ryðst inn á markaðinn til keppni við okkar afurðir, hefur ríkisstj. hér setið aðgerðalaus og horft upp á það, að togaraflotinn hefur grotnað niður og er nú aðeins orðinn svipur hjá sjón. Í stað þess að hefjast handa um öflugar framkvæmdir í þessu máli í samráði við þá, sem þar hafa bezt vit á, eins og annars staðar hefur verið gert hefur hér algerlega verið látið dankast. Ég vil einnig nefna, hvernig farið hefur um þorskveiðiflotann hér. Ríkisstj. hefur algerlega skellt skollaeyrunum við öllum skynsamlegum uppástungum, sem fram hafa komið um það að gera ráðstafanir til þess að fyrirbyggja, að þorskveiðiflotinn gengi stöðugt úr sér, og hafa forgöngu um framkvæmdir til þess að endurnýja þennan flota, m.a. til þess að sjá hraðfrystiiðnaðinum fyrir hráefni. Hæstv. ríkisstj. hefur algerlega skellt skollaeyrunum við öllu, sem gengið hefur í þessa átt, með þeim afleiðingum, sem nú blasa við í hráefnisskorti frystihúsanna og erfiðleikum þeirra með reksturinn, sem ekki stafar að neinu smávægilegu leyti af hráefnisskorti. Og þetta er vegna þess, hvernig búið hefur verið að þessum útvegi. Svo purkunarlaus var hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi, að hún lagði meira að segja sérstakar álögur á bátaútveginn til þess að standa undir hallanum af rekstri gömlu togaranna. Það voru hennar úrræði í vandamálum togaraútgerðarinnar og bátaútvegsins.

Till., sem fram hafa komið hvað eftir annað, meira að segja sumar frá stjórnskipuðum mönnum, til þess að ráða bót á vandamálum þorskveiðiflotans og þar með frystihúsanna á undanförnum árum, hafa verið hreinlega hunzaðar, og er skemmst að minnast í því sambandi á það, að fundur Landssambands ísl. útvegsmanna minnti rækilega á það, hvernig farið var með síðustu till., sem komu fram í þessu sambandi.

Þannig hefur verið búið að atvinnulífinu. Þannig hefur ríkt algert stjórnleysi og látið eins og þessi vandamál væru ekki til. Það hefur verið látið eins og þessi vandamál væru ekki til. Síðan er rokið upp á elleftu stundu, þegar stjórnin er raunverulega sprungin á öllu saman, allt er komið í strand, þá er rokið upp á síðustu stundu og sagt: Búskaparlagið er alveg í lagi, það hefur allt verið gert, sem í mannlegum mætti stendur, til þess að stjórna þessu skynsamlega, það er ekki um það að efast. Það þarf ekkert að endurskoða hjá okkur. Þar er allt í lagi. Það hefur allt verið gert eins vel og hægt var. Það er bara bull að vera að tala um, að það þurfi að endurskoða nokkuð í þessu tilliti eða skoða ástandið ofan í rótina. Vandkvæðin stafa bara af því, að það hefur fallið verð á síldarlýsi og öðrum afurðum. Stjórnin hefur allt í eins góðu lagi og verið getur, og þannig hefur það verið og verður áfram, því er óhætt að treysta. Það, sem þarf að gera, er, að almenningur taki á sig 750–800 millj., til þess að hægt sé að halda áfram í bili útborgunum fyrir ríkissjóð, og síðan kemur hitt á eftir, sem snertir atvinnulífið og sjálfan aðalskellinn, því að það er ekki svo sem eins og þessar 750–800 millj. eigi að fara upp í tap atvinnulífsins. Þær eiga að fara til þess, að ríkissjóður geti haldið áfram að borga út. Síðan kemur hitt á eftir. Þetta vinnulag segja þeir að sé hið eina, sem kemur til greina, og það þurfi ekkert að skoða. Þeir einu, sem þurfa að endurskoða, eru þeir, sem taka laun. Almenningur verður að endurskoða sitt heimilishald, en ríkisstj. þarf þess ekki, ekki ríkisbúskapinn, ekki stefnuna í atvinnumálum, ekki stefnuna í efnahagsmálum, þar er allt í lagi. Þetta er boðskapur þeirrar ríkisstj., sem nú situr með þetta allt saman algerlega í strandi og háði kosningabaráttuna á s.l. vori á þeim grundvelli, að allt stæði á traustum grunni. Verðstöðvunarstefnan væri komin í framkvæmd og hefði leyst vandann og það væri kosið um að halda þessari verðstöðvunarstefnu áfram.

Ég hef aðeins nefnt örfáa þætti í sambandi við atvinnumálin. En ég vil nefna hérna aðeins nokkur dæmi um það fleiri en ég hef gert, hvernig þessi atvinnumálastefna og peningamálastefna hefur komið niður fyrir atvinnulífið. Ég nefni aðeins örfá einstök atriði af mýmörgum, sem mætti nefna í þessu sambandi.

Það er gefið út hér rit, sem heitir Tímarit iðnaðarmanna. Í 1. hefti þessa árgangs af þessu riti er rætt um ýmis málefni iðnaðarins og ýmis einstök fyrirtæki í landinu. Það er rætt m.a. um fyrirtæki, sem heitir Bílasmiðjan, og því er lýst þar, hvernig nokkrir menn hafa af miklum myndarskap efnt til þessa fyrirtækis og ætli sér að halda þessum rekstri áfram, ef skilyrði verði til þess. Ég ætla ekki að lesa þessa grein, en ég ætla að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, eina mgr., sem sýnir ofurlítið, hvernig þessi lánastefna hæstv. ríkisstj., sem ég hef verið að lýsa, hefur komið niður í sambandi við þetta fyrirtæki. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað Sameinuðu bílasmiðjuna snertir, er mjög vafasamt, hvort eigendur hennar telja ástæðu til að brjótast áfram sömu braut og hingað til, ef enginn skilningur verður sýndur á þörfum fyrirtækisins, þegar svo mikið er í húfi.“ Það er í sambandi við uppbyggingu fyrirtækisins, sem þeir sýna fram á, að verði að eiga sér stað, annaðhvort að byggja fyrirtækið meira út eða hætta. Síðan segir: „Varðandi þetta atriði er t.d. rétt að minnast á, að eigendur fyrirtækisins, 40 talsins, starfa allir við það, og fyrirtækinu hefði ekki vaxið fiskur um hrygg eins og raun ber vitni, ef upprunalegu eigendurnir 6 hefðu ekki lagt allt sitt í að vinna að því sem mest og koma því á sem traustastan grundvöll. Eins og fyrirtækið er í dag, kostar það 15.3 millj. kr., en eina lánið, sem það hefur fengið, nemur 2.6 millj. frá iðnlánasjóði. Í Noregi mundi slíkt fyrirtæki hafa fengið 80% stofnkostnaðar að láni, en auk þess hefði það fengið að láni allt að 50% að ársrekstrarútgjöldum sem rekstrarfé.“ Þetta er það, sem þeir hafa að segja um þetta.

Enn fremur er meira um þessi efni. Þeir nefna, að það sé verið að bjóða út strætisvagna fyrir Reykjavíkurborg og það hafi borizt mörg tilboð. Síðan segja þeir:

„Tilboð þessa íslenzka fyrirtækis mun vera með þeim lægstu, en að einu leyti stendur það höllum fæti gagnvart erlendu keppinautunum. Þeir geta boðið allt að 7 ára lán. Slíka aðstöðu hefur Bílasmiðjan ekki. Hér mundi skipta afar miklu máli, að ríkisvaldið veitti aðstoð og gerði íslenzka fyrirtækinu kleift að bjóða sams konar lánafyrirgreiðslu.“

Þannig hefur lánastefnan, sem fylgt hefur verið, komið fram hjá þessu fyrirtæki, og þetta er lítið dæmi. Svona er þetta yfirleitt alls staðar því að lánasamdrátturinn, sem framkvæmdur hefur verið, hefur fyrst og fremst komið niður á atvinnulífinu.

Það hefur mikið verið talað hér um stálskipasmiði og talsvert gert í því sambandi á undanförnum árum. Og í þessu sama hefti af Tímariti iðnaðarmanna er rætt um þetta efni og þar segir m.a.: „Hér þarf ríkisvaldið að gera ráðstafanir til þess, að fótunum sé ekki kippt undan þessari iðngrein, áður en hún hefur náð nægum þroska til þess að standa á eigin fótum, og stórauka þarf lánsfyrirgreiðslu við stöðvarnar með lægri vöxtum og betri kjörum en nú eru í boði. Athugandi er, að fiskveiðasjóður taki erlend lán til þess að fjármagna smíði skipa í innlendum stöðvum, a.m.k. að einhverjum hluta.“ Það er búið að sýna fram á, að lánakjör þau, sem þess konar fyrirtæki eiga við að búa erlendis, eru ekki á nokkurn hátt sambærileg við það, sem hér tíðkast í iðnaðinum, og samkeppni nálega útilokuð, nema breytt sé um lánapólitík.

Þá vil ég gjarnan segja mönnum, hvernig ástatt er í þessum efnum á Austurlandi, þar sem atvinnurekstur hefur byggzt upp hröðum skrefum í sambandi við aukna síldarsöltun og síldarbræðslu. Þar hafa komið á laggirnar margar síldarverkunarstöðvar, en þær hafa nálega engan aðgang átt að stofnlánum og nú síðast ekki einu sinni að rekstrarlánum, því að eitt af þeim úrræðum, sem hæstv. ríkisstj. greip til framan af þessu ári, þegar fór að breytast verðlag á útflutningsvörum erlendis og gert var ráð fyrir minni umsetningu, var sem sé að herða enn meira að í lánapólitíkinni en nokkru sinni áður hafði verið gert. Þá var því bætt ofan á það, sem fyrir var, að þessar stöðvar á Austurlandi áttu engan aðgang að rekstrarlánum. Í allt sumar hefur verið unnið að því að reyna að bæta úr þessu og þá sérstaklega með það fyrir augum, að þessar stöðvar verða að leggja í verulega fjárfestingu, ef á að vera hægt að taka á móti síldinni nú í haust, síldinni, sem allir bíða eftir með öndina í hálsinum og þjóðarbúskapurinn á að byggjast á. Það er ekki hægt að salta þessa síld úti, eftir að komið er haust og kominn er vetur. Og það er ekki einu sinni nóg að byggja yfir söltunarrennurnar og fólkið, sem er að salta, heldur verður einnig að koma upp húsum fyrir síldina, eftir að hún hefur verið söltuð, því að hún verkast ekki, þegar komin eru frost, og framleiðslan stöðvast því og getur eyðilagzt. En hvernig sem farið hefur verið að og hversu miklu liði sem boðið hefur verið út í allt sumar til þess að reyna að fá fyrirgreiðslu í þessu efni, hefur hún ekki fengizt. Afleiðingin er svo sú, að ýmsar af síldarsöltunarstöðvunum á Austurlandi hafa ekki getað komið sér upp þeirri aðstöðu, sem þarf til þess að salta síld, þegar kominn er vetur. Og það mun þýða stórkostlegt framleiðslutjón, gífurlegt framleiðslutjón, eins og nú horfir með síldveiðarnar. Og þó máttu menn vita það eftir spám síldarsérfræðinganna, fiskifræðinganna, að síldin mundi koma í haust einmitt að Austurlandinu og það mundi þurfa að nýta hana þar, eftir að komið var fram á vetur. Ef hér hefði verið ríkisstj., sem hefði stjórnað skynsamlega og skilið þessi mál, hefði verið unnið að því af alúð í allt sumar með þessum framleiðendum á Austurlandi að búa allt sem bezt í haginn til þess að taka á móti síldinni í haust, þannig að ekkert færi til spillis. En þetta er aðeins lítið dæmi um það stjórnleysi og það tómlæti, sem ríkt hefur í málefnum atvinnuveganna og við súpum nú seyðið af.

Í þessu sambandi get ég t.d. líka minnzt á, að vitanlega hefur þurft að byggja upp margs konar þjónustufyrirtæki fyrir útgerðina á Austurlandi í sambandi við þá miklu breytingu, sem orðið hefur þar, þar sem nálega allur bátafloti landsmanna, sem síldveiðar stundar, hefur haft þar athvarf sitt á sumrum nú undanfarið og fram á vetur. Þar hefur þurft að koma upp netagerðum og margs konar öðrum þjónustufyrirtækjum fyrir útgerðina. Hvernig hefur svo verið búið að þessum atvinnurekstri og þessari uppbyggingu? Ég þekki t.d. eina netagerð, sem hefur orðið að byggja yfir sig, því að það er ekki hægt að vinna úti við síldarnætur, þegar komið er fram á haust og fram á vetur, það er óhugsandi. Hefur þarna orðið að leggja í 5–6 millj. kr. kostnað, en fengizt stofnlán í kringum 1.3 millj. kr. Dregur fyrirtækið svo á eftir sér skuldahalann og hefur nálega ekkert rekstrarfé, og menn geta ímyndað sér, hvort þetta muni vera hagfellt fyrir reksturinn og hagfellt fyrir þá þjónustu, sem þarf að inna af hendi fyrir flotann. Þetta er aðeins lítið dæmi um þá vitleysu, sem viðgengst, og þá algeru ringulreið, sem ríkir í atvinnulífinu vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í blindni í lánamálum landsins og öðrum efnum.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á einn búhnykk, sem hæstv. ríkisstj. hefur fundið upp og snertir landbúnaðinn, lánamálin til landbúnaðarins, en það er, að stofnlánadeildir landbúnaðarins voru þvingaðar til þess að taka upp þá stefnu að lána aðeins til einnar framkvæmdar í senn á hverju búi. Þetta var ein ráðstöfunin, sem gerð var. Vegna þess að stjórnin gafst upp við að útvega fjármagn til stofnlána í landbúnaðinum, þá var stofulánadeildin þvinguð til þess að taka upp þessa stefnu. Menn sjá svo hér um bil, hve viturlegt þetta er, en á hinn bóginn alveg einkennandi fyrir það, sem hefur verið að gerast í hverjum krók og hverjum kima í okkar þjóðarbúi undanfarið. Ef byggt er fjárhús og hlaða, sem menn vilja auðvitað byggja samtímis og í einu lagi, eins og allir heilvita menn skilja, því að það er hagfelldast, þá hefur verið lánað út á annaðhvort fjárhúsið eða hlöðuna. Og þetta er náttúrlega fyrst og fremst gert í því skyni að reyna að koma í veg fyrir of mikla fjárfestingu í þessari grein, þvinga menn með fjármagnsskorti til þess að byggja fjárhúsið fyrst og hlöðuna á eftir, eða fjósið fyrst og hlöðuna á eftir o.s.frv. Þetta er einkennandi fyrir þá vitleysu, sem hefur orðið afleiðingin af algeru stjórnleysi í fjárfestingarmálum. Hæstv. ríkisstj. og hennar menn hafa ætlað sér að stjórna þjóðarbúinu með ráðstöfunum í peningamálum einum saman, með einum saman ráðstöfunum í peningamálum, með því að passa það, að ekki færu of miklir peningar út úr bankakerfinu. Þetta hefur átt að vera hagstjórnartækið. En að það hvarfli að þessum aðilum, að það muni vera skynsamlegt að miða útlánapólitík bankanna og peningamagnið, sem er í umferð, við þarfir atvinnulífsins fyrir rekstrarfé, nei, það kemur ekki til, að hvarflað hafi að þeim, að það væri skynsamlegt að láta slíkt ráða útlánastefnunni. Þó stendur í lögum um Seðlabankann, og það er ein af hans skyldum að sjá um, að það sé í umferð hæfilegt peningamagn til þess að sjá um rekstrarfjárþarfir framleiðslunnar. Það er beinlínis ein af skyldum Seðlabankans. Það hefur eingöngu verið miðað við einhverjar formúlur, sem hafa verið búnar til á hné sér um það, hve mikið ætti að vera til af peningum. Ég minntist á það hér í gær og skal ekki endurtaka það nú, að þessi peningapólitík hefur auðvitað alls ekki leitt til þess að stöðva verðbólguna, eins og ég hef margtekið fram, en hún hefur á hinn bóginn verkað eins og eitur í atvinnulífinu.

Í sambandi við þessi mál get ég ekki stillt mig um að minna á það einu sinni enn, að það hefur ekki skort aðvaranir í þessu efni frá samtökum framleiðenda. M. a. rakst ég á hér alveg nýlega eina aðvörunina enn frá sölusamtökum hraðfrystihúsanna, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í blaðinu Frost:

„Aldrei er of oft lögð áherzla á það, að það verður að endurskoða lánamál hraðfrystihúsanna hið allra fyrsta með það fyrir augum, að í þeim efnum búi íslenzkur hraðfrystiiðnaður við sambærileg kjör og erlendir keppinautar.“

Það er alveg sama, hvar litið er. Það er alls staðar þetta sama, en hæstv. ríkisstj. skellir skollaeyrunum við því öllu saman. Það er líka angi af þessum sama hugsunarhætti og þessari sömu stefnu, þegar hæstv. fjmrh. kom hér fram á Alþ. og lýsti því yfir, að það væri ekki fjárhagsgrundvöllur fyrir því að nota stóru vegavinnuvélarnar og þess vegna yrði að hætta við lagningu varanlegra vega. Þegar Keflavíkurvegurinn var búinn, uppgötvuðu þeir frá þessu sama sjónarmiði, sem ég hef hér verið að lýsa, að þær yrðu að liggja, vélarnar, það væri ekki hægt að halda áfram að leggja vegina, af því að það vantaði fjárhagsgrundvöll fyrir því. Hvernig hugsa þessir menn? Er ekki skynsamlegt að nota þessar vélar og setja það peningamagn í umferð, sem þarf til þess, að þær geti gengið? Það eru örfáir menn, sem vinna við vélarnar, en þær geta leyst stórkostleg verkefni. En vélarnar eru stöðvaðar, af því að það vantar fjárhagsgrundvöll til þess að reka þær! Það vantar fjárhagsgrundvöll fyrir því að nota þær, og þeim er lagt, en menn halda áfram að eyðileggja bílana sína á vegunum, hrista þá sundur, níða þá niður, og þjóðarbúinu blæðir. En þetta er talið gott búskaparlag. Það sé engin ástæða til þess að endurskoða þetta. Það sé allt í lagi. Einhver einhvers staðar í apparatinu hefur ákveðið, að t.d. endurkaup í Seðlabankanum verði að vera svona, þau megi ekki nema meiru út á afurðirnar. Einhver hefur einhvers staðar komizt að þessari niðurstöðu. Hvort menn hafa fengið þá vitrun í draumi eða hvernig hún er fengin, veit maður ekki, eða hvort þetta er tilviljun. Ég veit ekki, eftir hvaða leiðum svona niðurstaða er fengin, sem síðan á að miða allt við. En að það sé hugsanlegt að miða peningapólitíkina við það, hvað skynsamlegt er að aðhafast í landinu, það kemur ekki til mála, hvað skynsamlegt er að gera, hvernig skynsamlegt er að nota vinnuaflið og það vélaafl, sem hægt er að hafa ráð á. Svo er okkur sagt, að það auki svo og svo mikið verðbólguna, ef það væru nú t.d. eitthvað aukin útlán úr Seðlabankanum, t.d. til þess að vegavinnuvélarnar gætu verið í gangi, það muni hafa svo vond áhrif á verðbólguna. En við sjáum nokkurn veginn, hvernig farið hefur um verðbólguna, þótt þeirra aðferðir hafi verið notaðar.

Þá get ég ekki stillt mig um að minnast á eitt atriði í viðbót úr tímariti, sem heitir Iðnaðarmál, og það er í eins konar leiðara í 1. og 2. hefti 1967. Þetta er ekki langt. Ég ætla að lesa úr þessu ofurlítið, með leyfi hæstv. forseta, en þetta, sem hér stendur, segir mikla sögu um það, hvernig stjórnin er á okkar atvinnumálum og okkar þjóðarbúi. Með leyfi hæstv. forseta stendur hér, og fyrirsögnin er: Hægfara framfaramál:

„Samkv. lögum er Iðnaðarmálastofnun Íslands ætlað forustuhlutverk hér á landi í stöðlunarmálum. Tilgangur stöðlunar er, eins og flestum er kunnugt, að setja samræmdar reglur um stærðir, gerðir og gæði ýmiss konar varnings, um prófunaraðferðir, um samskiptihagsmuni, aðallega í viðskiptalífinu, um merkjatákn ýmiss konar o.s.frv. í þeim tilgangi að takmarka fjölbreytileik og auðvelda viðskipti í hagkvæmnisskyni. Það verður að viðurkennast, að óhóflegur seinagangur hefur orðið á setningu staðla hér á landi, og fer ekki á milli mála, að það hefur orðið dýrt spaug, t.d. í sambandi við þróun byggingariðnaðarins. Nægir að benda á sem dæmi, að varla er byggt svo hús, að ekki þurfi að gera sérteikningar af öllum gluggum, panta gler eftir sérmáli o.s.frv. Það skeður ósjaldan, að starfsmenn IMSÍ (þ. e. Iðnaðarmálastofnunar Íslands) þurfi að útskýra fyrir aðilum, sem skynja, hvert stórmál hér er um að ræða, hverju þessi seinagangur sætir. Virðist því ekki úr vegi að skýra á þessum vettvangi frá orsökinni. Hún er einfaldlega sú, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekizt að ráða verkfræðing að stofnuninni á þeim launakjörum, sem tilskilin eru samkv. launastiga opinberra starfsmanna, til þess að helga sig stöðlunarmálum. Hefur staðið við svo búið síðan á miðju ári 1961, en þá neyddist stofnunin til að leggja á hilluna allmörg verkefni, sem að var unnið um þær mundir, öll á sviði byggingariðnaðar. Stöðlun er umfangsmikil og tímafrek starfsemi, sem verður að byggjast upp á traustum og varanlegum grundvelli. Það er því skilyrði, að stuðzt sé við haldgóða, fræðilega þekkingu og raunhæfa reynslu sérfræðinga, sem geta helgað sig verkefninu. Þar til tekst að skapa nægilega álitleg skilyrði fyrir hæfa starfskrafta til þess að sinna þessu sérhæfða verkefni, sem stöðlun er, er bætt við að íslenzkum stöðlum muni fara hægt fjölgandi.“

Síðan kemur, og það leyfi ég mér að biðja menn að hlusta vel á: „Hvert tjón hlýzt af drætti og seinagangi stöðlunar, má e. t. v. meta út frá þeirri forsendu, að Þjóðverjar telja, að stöðlun í byggingariðnaði geti haft í för með sér allt að 40% sparnað.“

Undir stendur S. B., sem ég hygg að sé framkvæmdastjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands.

Ég veit ekki, hvort menn hafa nokkra tilhneigingu til þess að ómerkja orð þessa manns, sem hefur verið falið þetta trúnaðarstarf, en hann segir, að þessi trassaskapur og vesaldómur að hafa ekki ráðið verkfræðing í 6 ár til þess að sinna þessu verkefni sé svo alvarlegur, að Þjóðverjar telji, að stöðlun geti haft í för með sér allt að 40% sparnað í byggingariðnaðinum. Um minna mundi muna. En þetta sýnir hér um bil, hvernig stjórnin er í okkar þjóðarbúskap og með hvaða myndarskap eða hitt þó heldur er tekið á hinum þýðingarmestu málum, því að sannleikurinn er auðvitað sá, að það er ekki hægt að leysa vanda atvinnulífsins til frambúðar né kjaramál hér, nema unnt sé að ná nýjum tökum á íbúðarhúsabyggingunum. En hér upplýsir framkvstj. þessarar ríkisstofnunar, sem að þessu þýðingarmikla verkefni vinnur, að þarna hefur ekkert verið gert í 6 ár, vegna þess að stjórnin hefur ekki haft myndarskap til þess að leysa það mál að ráða einn eða fleiri verkfræðinga, hefur sett fyrir sig einhverjar kreddur í launamálum. Er nú ekki von, að ríkisstj., sem stendur á þennan hátt að málum, geri einfaldlega kröfur til þegnanna um það, að þeir taki sig á og endurskoði sinn rekstur, taki á sig allt, sem taka þarf, og segi jafnframt, að ekkert þurfi að skoða og engu að breyta í þeirri stefnu, sem hún hefur framfylgt.

Sannleikurinn er sá, að við höfum búið við upplausn í þessum efnum og stjórnleysi á undanförnum árum, og þegar þessi dæmi eru skoðuð og mýmörg, sem mætti taka um það, hvernig þessi mál hafa farið úr hendi, sannfærast vitanlega allir skynsamir menn um, að það væri hægt að vinna stórvirki með því að breyta um stefnu, ganga í kjarna þessara mála og taka upp nýja stefnu í fjárfestingarmálum, atvinnu- og peningamálum. Það er ekkert ábyrgðarleysi að gera ráð fyrir því, ég legg áherzlu á, að það er alls ekkert ábyrgðarleysi að gera ráð fyrir því, að á þann hátt mætti leysa mjög mikið af þeim vanda, sem við nú stöndum frammi fyrir.

En það þarf að sjálfsögðu stórfelld átök til stuðnings atvinnulífinu, það þarf að breyta algerlega um vinnuaðferðir. Í stað þess afskiptaleysis og stjórnleysis, sem ríkt hefur, verður að koma jákvæð stefna, sem byggist á því, eins og ég hef marg-margtekið fram undanfarin ár, að taka upp kröftugt og varanlegt samstarf ríkisvaldsins og einstaklingsframtaksins í öllum aðalgreinum þjóðarbúsins og ekkert síður í þjónustugreinunum, eins og íbúðarmálum og öðru slíku. Og síðan verður að nota ríkisvaldið og nota peningastofnanirnar til þess að skjóta nýjum stoðum undir atvinnulífið. Þetta á við bæði í iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði, íbúðarmálum og öðrum höfuðgreinum þjóðarbúsins, og ég hika ekkert við að fullyrða, að það er lífsnauðsyn að taka verulegan hluta af gjaldeyrissjóðnum í þágu þessarar uppbyggingar og þessarar endurreisnar, áður en síðasta pundið eða síðasti dollarinn verður borgaður fyrir tertubotna.

Það, sem ég er að segja um þetta, hef ég ekki fundið upp. Ég er að ræða um leiðir, sem víða eru farnar, þar sem sæmilega er stjórnað, sem víða eru farnar að meira eða minna leyti. Og eftir þessum leiðum hefur víða tekizt að komast hjá skaðlegri verðbólgu, einmitt eftir þessum leiðum: Með því að taka upp áætlunarbúskap, sem er byggður á þessum undirstöðum, sem ég hef verið að rekja, og með stjórn á fjárfestingunni og forustu og samstarfi í atvinnumálum af þessu tagi, sem ég hef minnzt á. Einmitt með þessum aðferðum hefur tekizt í mörgum löndum að halda verðbólguvextinum innan hóflegra takmarka, m.a. í viðskiptalöndunum í kringum okkur. Dæmin eru ólygnust um þetta, t.d. á Norðurlöndum, og í þessum löndum hefur tekizt að láta tímakaupið, kaupgjaldið, hækka smátt og smátt miðað við vaxandi þjóðartekjur. Það væri rétt fyrir menn að bera þetta saman við þá þróun,sem er hér hjá okkur.

Það er alveg víst, að ýmsar af þeim þjóðum, sem hafa náð að stjórna þessum málum farsællega, hafa ekki á undanförnum árum búið við jafnhagstæð skilyrði á margan hátt og við. En hér er okkur ætlað að trúa því, að hversu skynsamlega sem farið væri að, sé ekki hægt að koma því svo fyrir, að íslenzkir atvinnuvegir geti greitt þau laun, að menn geti lifað af dagkaupinu. Okkur er ætlað að trúa því, að það séu ekki til peningar til þess að hagnýta skynsamlega framfaramöguleika og alls ekki nein leið til þess, að þau fyrirtæki geti fengið rekstrarfé, sem afkomu okkar er þó ætlað að byggjast á. Þá er líka verið að telja okkur trú um, að við höfum ekki ráð á því að byggja skóla eins og þarf, við höfum ekki ráð á því að byggja spítala og við höfum ekki ráð á því að leggja vegi og ekki einu sinni ráð á því að nota þær stórvirku vegavinnuvélar, sem til eru í landinu, eins og ég gat um áðan. Okkur er sagt, að nú verði að fara að skera niður og herða ólina og fyrsta skrefið sé þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég tel mig hafa sýnt fram á, að það verður að taka algerlega nýja stefnu. Hitt er svo annað mál, að það er vitanlegt, að núv. hæstv. ríkisstj. getur ekki haft forustu fyrir því að taka slíka stefnu, því að hún er trúlaus á, að það sé til nokkur önnur leið en sú, sem hún hefur reynt með þeim árangri, sem fyrir liggur. Og hún játar, að hún sé trúlaus á það, hún játar það. Hún heldur því fram gegnum þykkt og þunnt, að það verði að fara sömu leiðina áfram og nota sömu úrræðin.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, sem ég hef sagt áður í þessari ræðu, að ég legg megináherzlu á, að ríkisstj. geri annaðhvort að taka þetta frv. til baka eða leggja því við akkeri, en í staðinn snúi menn sér að því að leysa málefni atvinnulífsins og kjaramálin síðan í framhaldi af því. En til þess að farsæl vinnubrögð geti komið til greina í því sambandi, er fyrsta atriðið, að þessi ríkisstj. víki, að hún segi af sér, enda hefði hún að sjálfsögðu átt að gera það í stað þess að leggja fram frv., sem hér liggur fyrir. Henni var skylt að gera það. Það var siðferðileg skylda hennar að gera það, vegna þess að hún hefur ekkert umboð til þess að leggja inn á þá kjaraskerðingarbraut, sem hún nú hugsar sér að byrja að feta. Það kjörfylgi, sem stjórnarflokkarnir fengu í vor, var miðað við, að hér yrði áfram framkvæmd verðstöðvunarstefna. Því var beinlínis lofað í kosningunum, og hæstv. ríkisstj. hefur enga heimild til þess að fara þveröfugt að við það, sem hún hét í kosningunum. Hæstv. forsrh. var að tala um, að það hefði verið vilji þjóðarinnar í vor, að stjórnin héldi áfram að starfa, og stjórnarflokkarnir hafi fengið meiri hl. Ég skal ekkert fullyrða þetta. Það virtist eftir kosningaúrslitunum, að svo væri. En ég fullyrði, að þetta er ekki vilji þjóðarinnar núna. Ég fullyrði, að það er vilji meiri hl. þjóðarinnar núna, að stjórnin fari frá.