14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal fyllilega taka þá áminningu hæstv. landbrh. til greina að vanda málflutning minn. En þá finnst mér einnig, að ég megi gera þá kröfu til hæstv. landbrh., að hann vandi sinn málflutning. En á það hefur oft og einatt skort. Og ég held, að í þeirri ræðu, er hæstv. ráðh. flutti hér áðan, hafi hann ekki haft þetta í huga.

Það var alveg rétt hjá hæstv. ráðh., er hann sagði, „að bændur vita, hvað að þeim snýr“. Þetta er alveg hárrétt. Bændur vita náttúrlega manna bezt, hvað að þeim snýr, og ég held, að ég hafi rakið hugsunarhátt bænda og hvað að þeim snýr rétt í minni ræðu. Og þó að hæstv. landbrh. væri hér að tala um skýrslu á bls. 125 og 126 í árbók landbúnaðarins fyrir árið 1966, haggar það engu varðendi minn málflutning. Og ef hæstv. ráðh. hefur hugsað sér, að á tímabilinu frá 1950–1960 höfum við framsóknarmenn verið alls ráðandi, bæði varðandi landbúnaðinn og annað, þá vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að hann sat í hæstv. ríkisstj. í nokkur ár á því tímabili. Að vísu fór hann ekki með landbúnaðarmálin. Mig minnir, að hann væri viðskmrh., og ég held, að enda þótt Framsfl. hafi átt aðild að ríkisstj. á öllu því tímabili, hafi Sjálfstfl. haft sitt að segja um málefni þjóðarinnar á því tímabili engu síður en hinu síðara. Ég vil minna á það, að á því tímabili, sem framsóknarmenn voru í ríkisstj. og sjálfstæðismenn ekki, þegar vinstri stjórnin sat að völdum, var undirbúin sú löggjöf, sem ég ætla, að hafi orðið bjargvættur bændastéttarinnar síðan núv. ríkisstj. kom til valda, þ.e. viðbótarjarðræktarframlagið, sem fjöldi bænda nýtur nú og var lögfest á stjórnartíma vinstri stjórnarinnar. Það er framlagið, sem Landnám ríkisins greiðir, og ég efast mjög um, að slíkt hefði nokkurn tíma komið til mála hjá þeim forráðamönnum, sem nú þykjast vera miklir málsvarar bændastéttarinnar.

En til þess að undirstrika betur það, sem ég sagði áðan um afkomu bænda, sem er grundvallaratriði í dag fyrir bændastéttina, vil ég minna á skýrslu, sem er birt í búnaðarblaðinu Frey, 19. tbl. þ.á., og ég vænti, að hæstv. landbrh. hafi lesið það og kynnt sér, því að hann er æðsti forsvarsmaður bændanna, og ég geri ráð fyrir, að hann reyni að kynna sér málin og finna það bezta út úr þeim. Og þar stendur í þeirri skýrslu, með leyfi hæstv. forseta frá aðalfundi Stéttarsambands bænda í sumar:

Á framhaldsfundinum í vetur var stjórn stéttarsambandsins falið að afla upplýsinga um skuldir bænda. Stjórnin leitaði eftir samvinnu við Hagstofu Íslands um öflun þessara gagna og leyfði hagstofustjóri notkun á landbúnaðarúrtaki hagstofunnar til þess. Skuldir voru skrifaðar upp hjá bændum sem hér segir:

Úr Suðurlandskjördæmi, þar sem áhrifa hæstv. landbrh. gætir mest, var tekið úrtak hjá 117 bændum, og meðaltalsskuldir hjá þeim eru 339 þús. kr. eða þó nokkuð yfir meðalskuldir hvers bónda í landinu. Í Vesturlandskjördæmi var úrtakið 82 bændur með 251 þús. kr. skuld, í Vestfjarðakjördæmi 39 bændur með 178 þús. kr. skuld, á Norðurlandi v. 99 bændur með 255 þús. kr. meðalskuld, Norðurlandi e. 72 bændur með 243 þús. kr. meðalskuld og á Austurlandi 58 bændur með 247 þús. kr. meðalskuld. Alls eru það 467 bændur, sem úrtakið sýnir, og meðaltalsskuldin hjá þessum bændum er 266 þús. kr., en þar er metið í kjördæmi hæstv. landbrh., eins og á fleiri sviðum.

Flokkun á skuldum er þannig, að samkv. þessu úrtaki skulda 85% bænda undir 500 þús. kr., 13% á bilinu 500 þús. og upp í 1 millj. og 2% yfir 1 millj. En það, sem vekur mesta eftirtekt í þessari skýrslu, er það, að tæp 39% af lánum eru í stofnlánadeild landbúnaðarins. Við skulum segja, að þegar veðdeildin kemur þar við, sé þetta kannske um eða yfir 40%. En þetta haggar ekki þeirri staðreynd, að lausaskuldir bænda eru um 60%. Lausaskuldirnar eru álíka háar nú prósentvís og föstu lánin voru fyrir 10 árum af heildarskuldum. Þetta gefur auga leið, hvernig hefur farið í afkomu bændastéttarinnar og lánamálum landbúnaðarins. Það skal viðurkennt, að það var mjög þarft verk og kom sér vel fyrir marga bændur, þegar lausaskuldum bænda var breytt í föst lán á sínum tíma og stofnlánadeild landbúnaðarins stofnsett um svipað leyti, en þá hélt hæstv. landbrh. því fram og sömuleiðis hæstv, fjmrh., sem var nú aðallagasmiðurinn þarna, að ég held, a.m.k. að því er varðar búvörugjaldið, þá héldu þeir því hiklaust fram, að um ófyrirsjáanlega framtíð mundu ekki myndast lausaskuldir í landbúnaðinum. Svo vel væri nú búið að lánakjörum landbúnaðarins, að lausaskuldir mundu ekki vaxa frá því sem orðið var, og verða miklu minni með hverju árinu, sem liði. Ég vil minna á, að staðreyndin er hér allt önnur en haldið var fram. Það þýðir ekki að vefengja þessi gögn, því að þetta er staðreyndin, og ég veit, að bændur vita vel, hvað að þeim snýr í þessum efnum.

Ég ætla svo ekki að tefja þetta mál meir. Ég held nú líka, að ég hafi ekki tafið það eins mikið og hæstv. frummælandi, hæstv. landbrh.