16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Magnús Hjartarson:

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir frv. þessu í gær, ræddi hann aðallega um vanda atvinnuveganna og þjóðarbúsins, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar mundu lækka í ár eftir einstæðar mettekjur síðustu ára og búast mætti við því, að þjóðartekjurnar lækkuðu um nokkra hundraðshluta, og sparaði hæstv. forsrh. hvergi svarta litinn í lýsingum sínum. Voru þær lýsingar í algerri andstöðu við þær rósrauðu glansmyndir, sem þessi sami hæstv. ráðh. og flokkur hann drógu upp fyrir kosningarnar í sumar, þegar því var hátíðlega heitið, að stjórnarflokkarnir mundu ef þeir héldu völdum, halda óbreyttu gengi og óbreyttu verðlagi í landinu og tryggja batnandi lífskjör launafólks.

Þessar gagnstæðu lýsingar stafa ekki af því, að síðan kosið var hafi gerzt neinir þeir atburðir, sem réttlæti svo alger umskipti. Ástæðan er einvörðungu óheiðarleiki í málflutningi, bæði fyrir kosningar og nú. Ég tel ekki ástæðu til þess, að umr. um frv. það, sem hér liggur fyrir, breytist í almennar stjórnmálaumr., þótt hæstv. forsrh. legði málið þannig fyrir. Þó þykir mér rétt að minna á örfáar meginstaðreyndir í tilefni af ræðu hans.

Þótt vissulega hafi orðið mikið verðfall á ýmsum útflutningsvörum okkar í samanburði við það metverð, sem við höfum notið um skeið, er hitt engu að síður staðreynd, að meðalverð útflutningsafurðanna er nú hærra en það var, þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum. Enda þótt hæstv. forsrh. tali mikið um erfið aflabrögð í ár, er það staðreynd, að horfur eru á, að þetta ár verði eitt af betri aflaárum í sögu þjóðarinnar. Að þjóðarbúinu steðjar því enginn sá vandi, sem hæstv. ríkisstj. taldi sig ekki geta leyst, þegar hún tók við völdum, og taldi sig raunar hafa leyst til hlítar með gengislækkunum sínum og viðreisnarkerfi. Vandi ríkisstj. ætti raunar að vera þeim mun minni sem hún hefur seinustu árin notið mestu velgengni í sögu þjóðarinnar. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa vaxið örar en í flestum löndum öðrum, og við höfum notið svo hagstæðra viðskiptakjara, að okkur hafa ár eftir ár áskotnazt milljarðar kr. af þeim ástæðum einum, án þess að við höfum þurft að leggja nokkuð á móti.

Snemma á þessu ári klifaði Morgunblaðið, mál gegn hæstv. forsrh., á því, að Íslendingar væru nú komnir í hóp fjáðustu þjóða heims, væru í 4. sæti að því er varðar þjóðartekjur á mann, á eftir Bandaríkjunum, Svíþjóð og olíuríkinu Kuwait. Þótt verðlag á útflutningsvörum okkar hafi nú um sinn þokazt í átt við það, sem það var í upphafi viðreisnar, ætti þetta fjáða þjóðfélag sannarlega ekki að þurfa að ráðast sérstaklega á tekjulægstu þegna sína, allra sízt þar sem það er alkunn staðreynd, að dagvinnutekjur eru hér lægri en í nokkru nállegu þjóðfélagi með hliðstæðan efnahag.

Þótt engum detti í hug að vefengja, að verðlækkanirnar séu stórfellt vandamál, er langstærsti vandinn efnahagsstefna ríkisstj. Meðan allt lék í lyndi, gróf hún undan útflutningsatvinnuvegunum með óðaverðbólgustefnu sinni, svo að þeir voru komnir í þrot og urðu að hirða sívaxandi upphæðir úr ríkissjóði, áður en kom að nokkrum verðlækkunum á afurðum okkar. Þegar á síðasta ári, meðan verðlag var enn þá hátt, var augljóst að stefna hæstv. ríkisstj. fékk ekki staðizt við íslenzkar aðstæður. Það markaðsþjóðfélag, sem hún ætlaði að festa í sessi hérlendis, braut í bága við sjálfar undirstöður efnahagskerfisins. Engu að síður heldur ríkisstj, enn fast við stefnu sína. Meginástæðan til þess, að nú er sótt að launafólki af fullkomnu tillitsleysi, er sú, að ríkisstj. vill halda áfram því sóunar- og spillingarkerfi, sem mótað hefur allt efnahagslífið, innflutning, fjárfestingu og hvers konar rekstur. Hæstv. ríkisstj. hefur hvorki að sakast við erlenda markaði né duttlunga sjávardýra, hún hefur við sig eina að sakast.

En eins og ég sagði áðan, fjallar það frv., sem hér liggur fyrir, engan veginn um þann vanda atvinnuveganna, sem hæstv. forsrh. gerði að umtalsefni. Það snýst einvörðungu um það viðfangsefni hæstv. ríkisstj. að láta tekjur og gjöld standast á í fjárl. Frv. felur ekki í sér nein ný bjargráð á sviði atvinnumála, engar ráðstafanir til að firra atvinnuleysi og neyð, sem hæstv. forsrh. talaði svo fjálglega um. Öllu heldur er þetta frv. sönnun þess, að á því sviði er ekki um neina stefnu að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj.

Það, sem í þessu frv. felst, er aðeins mjög stórfelldar og ranglátar álögur á launafólk til þess að standa undir fjárlagaútgjöldum, sem eru komin yfir 6000 millj. kr. Ég mun því fyrst og fremst ræða það efni, sem hér á að vera til umr., ákvæði frv. sjálfs og þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt í sambandi við þær. En áður en ég vík að efnahagsatriðum þessara ráðstafana, vil ég vekja athygli á atriði, sem er mjög veigamikið og afdrifaríkt. Þessar nýju ráðstafanir marka ný tímamót í samskiptum ríkisstj. og verkalýðssamtakanna. Í þeim samskiptum urðu, sem kunnugt er, fræg kaflaskil í júní 1964. Fram að þeim tíma hafði viðreisnarstjórnin reynt að beita verkalýðssamtökin valdboði og hörku. Kjarasamningar, sem gerðir voru 1961, voru ógiltir með nýrri gengislækkun. Haustið 1963 var hið háa Alþ. látið fjalla um lagafrv., sem bannaði eðlilega starfsemi verkalýðssamtakanna og var komið allt að endanlegri samþykkt, þegar stjórnarvöldin glúpnuðu fyrir mjög einbeittri andstöðu verkafólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Upp úr þeim átökum þróaðist sú nýja stefna, sem kennd hefur verið við júní 1964 og stjórnarblöðin hafa einatt gumað af. Þau hafa talið ríkisstj. það til verðleika, að hún hafi haft náið samstarf við verkalýðshreyfinguna síðan, og hæstv. forsrh. lagði meira að segja á sig í nokkur ár að leika það hlutverk, sem honum mun einna fjarskyldast, reyna að birtast þjóðinni sem mildur landsfaðir og mannasættir í deilum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda.

Meginatriðið í júnísamkomulaginu 1964 var ákvæðið um kaupgjaldsvísitölu. Með því endurheimtu launamenn mjög veigamikil þjóðfélagsleg réttindi, og þau ákvæði hafa síðan verið traustasti hornsteinn allra kjarasamninga, sem gerðir hafa verið í landinu. En með þeim ráðstöfunum, sem þegar eru komnar til framkvæmda og koma eiga til framkvæmda á næstunni, er ríkisstj, að svíkja júnísamkomulagið, hún er einhliða að rifta öllum kjarasamningum á Íslandi, hún ætlar að hafa af launafólki 15 umsamin vísitölustig. Og ríkisstj. hafði ekki einu sinni þann hátt á, sem óhjákvæmilegur er talinn í heiðarlegum samskiptum manna, að segja júnísamkomulaginu upp, að tilkynna verkalýðssamtökunum það, sem til stæði, með hæfilegum fyrirvara og taka upp viðræður og samráð. Ríkisstj. faldi fyrirætlanir sínar fram til hinztu stundar. Hæstv. forsrh. kvaddi til sín stjórn Alþýðusambands Íslands örfáum klukkustundum áður en hann flutti boðskap sinn hér á þingi og nokkrum klukkustundum eftir að fyrsta verðhækkunarskriðan var dunin á þjóðinni. Framferði af slíku tagi er ósæmilegt og verðskuldar þunga dóma. Hitt er svo augljóst mál, að eftir þessa reynslu verður verkalýðshreyfingin að tryggja sér meira öryggi en ein saman ráðherraloforð, næst þegar hún kann að gera samninga við stjórnarvöldin. En slíkir samningar eru auðsjáanlega ekki á dagskrá hjá ríkisstj. um þessar mundir. Hún hefur tekið upp þá fyrri afstöðu sína að reyna að beita verkalýðshreyfinguna valdboði, og verkalýðshreyfingin hefur tilkynnt, að því verði ekki unað. Því blasa nú við okkur örlagarík þáttaskil, ef þetta frv. verður samþ.

Að vísu stóð hæstv. forsrh. hér í ræðustólnum í gær og reyndi enn að leika hlutverk hins sanngjarna landsföður. Hann ítrekaði með mörgum tilbrigðum, að hann væri vissulega reiðubúinn til samninga við verkalýðshreyfinguna áfram, það kæmi vel til mála að breyta einu og öðru í áformum ríkisstj. Hann sagði, að þær stórfelldu verðhækkanir, sem þegar eru komnar til framkvæmda, væru í rauninni aðeins tilboð til verkalýðshreyfingarinnar. Hann væri til viðtals um að breyta þeim álögum, ef aðrir kostir byðust. Þetta er sú samningsaðstaða, sem hæstv. forsrh. vill hafa. Hann vill ekki ræða við verkalýðshreyfinguna fyrir fram. Hann vill ekki semja við hana á jafnréttisgrundvelli. Hann vill fyrst tryggja sér valdið og ekki aðeins sýna það, heldur beita því, eins og þegar hefur gerzt með verðhækkunum á hversdagslegustu neyzluvörum. Þá heldur hæstv. ráðherra, að hann hafi tryggt sér yfirburði í hvers konar samningum og viðræðum við launafólk. Þetta er sú herstjórnarlist, sem byggð er á valdinu, þar sem sá öflugi býður hinum máttarminni samninga í skjóli yfirburða sinna, að hann geti keypt af sér einn kost með því að fallast á annan. En þessi valdstefna hæstv. ráðherra er leikaraskapur. Hann hefur ekki það vald, sem hann þykist hafa. Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur áður sannað honum, að hún lætur ekki setja sér neina lítillækkandi kosti.

Eigi að taka þessi óljósu tilboð hæstv. forsrh. alvarlega, ber honum einnig að gera grein fyrir því, hvað í tilboðunum felst. Hvað er hann í raun og veru að bjóða? Í hverju eru samningsatriðin milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. fólgin? Niðurgreiðslurnar eru ekki samningsatriði. Verkalýðshreyfingin vefengir á engan hátt rétt stjórnarvalda til þess að greiða niður vöruverð eða hætta því. Eftir að hin svokallaða verðstöðvunarstefna var tekin upp í fyrrahaust, hækkaði almennt verðlag um 12 vísitölustig. Ríkisstj. vó þær verðhækkanir upp á pappírnum með því að greiða niður valdar vörutegundir. Verkalýðshreyfingin fór ekki fram á þær niðurgreiðslur, enda voru þær þannig framkvæmdar, að þær fölsuðu vísitöluna stórlega og skertu raunverulegt kaup verkafólks, eins og ég mun rekja síðar. Það er ekki brot á neinum samningum við verkalýðshreyfinguna, þótt ríkisstj. hafi nú hætt þessum niðurgreiðslum sínum, það er hins vegar brot á verðstöðvunarlögum, sem áttu að gilda til loka þessa mánaðar. Það er ekki heldur neitt brot á samningum við verkalýðshreyfinguna, þótt stjórnarvöldin ákveði að hækka hitaveitugjöld, sjúkrasamlagsgjöld, tryggingariðgjöld, póst, síma, hljóðvarp, sjónvarp, ferðalög til útlanda, fasteignaskatta, brennivín og tóbak. Verkalýðshreyfingin getur ekki hermt upp á hæstv. ríkisstj. neinar vanefndir af þeim ástæðum. Samningsatriðið milli verkalýðshreyfingarinnar og hæstv. ríkisstj. er eitt og aðeins eitt, ákvæðið um vísitölutrygginguna á kaup. Ef ríkisstj. ákveður að velta enn einni óðaverðbólguskriðu yfir þjóðina, getur verkalýðshreyfingin aðeins hermt upp á hana eitt loforð, loforðið, að verðbólgan skuli bætt með vísitölugreiðslum á kaupið. En það er einnig drengskaparloforð, gefið hátíðlega af hæstv. forsrh. í júní 1964. Ber að skilja tilboð hæstv. forsrh. svo, að hann sé reiðubúinn til samninga um að standa við þetta loforð sitt? Eða vill hann fá verkalýðshreyfinguna til að fallast á, að hann megi svíkja loforð sitt, eftir að hann er búinn að því? Þetta er það einfalda atriði, sem hæstv. ráðh. þarf að gera grein fyrir, skýrt og skilmerkilega.

Ég sagði áðan, að niðurgreiðslur hæstv. ríkisstj. á hinu svokallaða verðstöðvunartímabili hefðu haft þann tilgang að skerða raunverulegt kaup launamanna og með þeim hefði hæstv. ríkisstj. verið að sniðganga júnísamkomulagið á markvissan hátt. Aðferð ríkisstj. hefur verið sú að nota veilur í sjálfum vísitölugrundvellinum til þess að hafa af launafólki hluta af þeim launauppbótum, sem fólust í júnísamkomulaginu. Landbúnaðarvörur hafa sem kunnugt er mikil áhrif á núverandi vísitölugrundvöll. Það er tiltölulega ódýrt að halda vísitölunni í skefjum með því að greiða niður verð á búvörum. Hafi orðið almenn verðhækkun í landinu, getur ríkisstj. vegið hana upp með því að endurgreiða hluta hennar í lækkuðu verði á kjöti, mjólk eða kartöflum. Þetta hefur verið meginuppistaðan í hinni svokölluðu verðstöðvun. Erfitt er að gera sér grein fyrir því, hversu mikla fjármuni ríkisstj. hefur haft af launafólki með þessari hagræðingu á vísitölunni, m.a. vegna þess, að nýja vísitalan, sú sem ætlunin er að lögfesta með þessu frv., hefur alls ekki verið birt, þótt hún hafi verið reiknuð út ársfjórðungslega síðan snemma á árinu 1966. En með því að bera saman vísitölurnar tvær hefði verið hægt að fá býsna fróðlegar vísbendingar um þessi atriði. Mér þykir rétt að greina frá því í þessu sambandi, að fyrir nokkrum vikum fór ég þess á leit við hagstofustjóra, að hann skýrði mér frá því, hvernig nýja vísitalan hefði breytzt á þessu svokallaða verðstöðvunartímabili. Nokkrum dögum síðar greindi hagstofustjóri mér frá því, að hann teldi sér sem embættismanni óheimilt að skýra mér frá þessum staðreyndum og væri það einnig afstaða kauplagsnefndar. Það er auðvitað algjörlega fráleit afstaða hjá stjórnarvöldunum að dylja þessar staðreyndir fyrir alþingismönnum og öðrum, og því hef ég lagt hér fram á hinu háa Alþingi fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um þessi atriði En mér þykir rétt að fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann svari þessum spurningum nú þegar í sambandi við 1. umr. um þessi mál. Mér þykir það raunar furðuleg vinnubrögð að ætlast til þess, að Alþingi Íslendinga lögfesti nýjan vísitölugrundvöll, án þess að grundvöllurinn sé prentaður með frumvarpinu sem fylgiskjal.

Hins vegar má fá nokkrar almennar hugmyndir um þær falsanir á verðlagi, sem felast í niðurgreiðslunum, með öðru móti. Kostnaður ríkisstj. af því að greiða niður hvert vísitölustig hefur verið um 30 millj. kr. Þar sem framfærsluvísitalan er nú 195 stig, kostar það því ríkissjóð um 60 millj. kr. að koma í veg fyrir 1% hækkun á kaupgjaldi. Erfitt er að meta, hversu mikil öll launafúlgan í landinu er, en maður fer allavega ekki með neinar ýkjur með því að meta hana á 12–15 milljarða kr. Sé miðað við þá tölu, mundi 1% hækkun á kaupgjaldi færa launafólki í heild 120–150 millj. kr. Það hefur sem sé kostað ríkissjóð 60 millj. kr. að koma í veg fyrir, að kaup hækkaði um 120–150 millj. Launafólk hefur bótalaust verið svikið um sömu upphæð og niðurgreiðslunum nemur og vel það. Síðan hin svokallaða verðstöðvunarstefna hófst, hafa niðurgreiðslurnar verið auknar um 12 vísitölustig. Samkvæmt þessum tölum hafa launamenn því orðið að leggja á sig bótalaust á því tímabili um eða yfir 400 millj. kr. Það er sú undirstaða, sem síðan á að bæta nær 800 millj, kr. kaupráni ofan á samkv. þessu frv.

Raunar eru vísitölufalsanir ríkisstj. viðurkenndar á ákaflega skýran hátt í grg. með þessu frv., sem hér liggur fyrir. En þar segir svo á bls. 8 og 9, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt núgildandi vísitölugrundvöllur hafi þannig reynzt allréttur mælikvarði á heildarverðbreytingar undanfarinna ára, gildir allt öðru máli um þær breytingar, sem nú eru ráðgerðar. Þessar breytingar eru fyrst og fremst fólgnar í lækkun niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum og verulegri verðhækkun þeirra afurða, sem af lækkun niðurgreiðslnanna leiðir. Sökum þess, að landbúnaðarafurðir eru hlutfallslega miklu þyngri í núgildandi vísitölugrundvelli en svarar til þeirra neyzluvenja, sem nú eru ríkjandi meðal launþega, eru þessar verðbreytingar of hátt metnar í núgildandi grundvellir hinn bóginn má gera ráð fyrir, að þær séu nokkurn veginn rétt metnar samkvæmt nýja grundvellinum.“

Ríkisstj. segir sem sé berum orðum, að núgildandi vísitala hafi verið ágæt, meðan verið var að auka niðurgreiðslurnar, því að þá höfðu þær svo blessunarlega mikil áhrif til lækkunar. Grundvöllurinn sé hins vegar ótækur, þegar dregið sé úr niðurgreiðslunum. Þá skipti allt öðru máli, þá hækki vísitalan allt of mikið og því sé nauðsynlegt að nota nýjan grundvöll við slíkar aðstæður. Þetta er kaldrifjuð viðurkenning á óheiðarleika í samskiptum við launafólk.

Fróðlegt er að gefa því gaum, hvers eðlis þær álögur eru, sem felast í frumvarpi og framkvæmdum ríkisstj. þessa dagana. Það hefur í orði verið ríkjandi stefna á Íslandi um alllangt skeið, að opinberar álögur bæri að leggja á menn eftir efnum og ástæðum, þótt mikill misbrestur hafi einatt orðið á framkvæmdinni. Sú var tíð, að allverulegur hluti af tekjum ríkissjóðs var fenginn með stighækkandi tekju- og eignasköttum, en þessi hluti hefur sífellt farið minnkandi um skeið, og munar þar ekki minnst um handarverk hæstv. ríkisstj. Sú stjórn tók í staðinn upp mjög stórfelldan söluskatt og rökstuddi hann m.a. með því, að einnig hann legðist á fólk eftir efnum og ástæðum, menn ykju neyzlu sína með bættum efnahag. Sú kenning á nokkurn rétt á sér innan þröngra takmarka. En hvernig er því varið með þær álögur, sem nú hafa komið til framkvæmda og koma til framkvæmda nú á næstunni: hækkun á mjólk og mjólkurafurðum, kjöti, kjötvörum og kartöflum, allt frá þriðjungi og upp undir 100%, hækkun á farmiðum til útlanda, áfengi og tóbaki, pósti og síma, hljóðvarpi og sjónvarpi, almannatryggingagjöldum, sjúkrasamlagsgjöldum og hitaveitu? Ekki borða menn meira af dilkakjöti, þótt þeir hafi rúman efnahag. Ekki auka menn við sig mjólkurdrykkju og kartöfluát, þótt þeir hafi háar tekjur. Öllu heldur mun mega segja, að fólk með góðan efnahag auki fjölbreytni í mataræði sínu og dragi úr þessum þjóðlegu neyzluvörum. Vörur þær, sem stjórnarvöldin snarhækka, eru vafalaust mest notaðar á heimilum láglaunafólks og erfiðisvinnumanna. Á þá eru lagðar þyngstar byrðar, ekki hlutfallslega, heldur í krónum og aurum. En fyrst og fremst jafngilda þessar álögur hreinum nefsköttum, og t.d. hin stórfellda mjólkurhækkun sér fyrir því, að enginn sleppur, frá börnum í vöggu til gamalmenna.

Sama máli gegnir um flestar aðrar af hinum nýju álögum: sjúkrasamlagsgjöld, tryggingaiðgjöld, hitaveitu, hljóðvarp, sjónvarp. Allt eru þetta nefskattar, sem mönnum er gert að bera án tillits til efnahags, og sama hugsunin er í allri skattheimtunni. Þeir, sem til útlanda fara, eiga að greiða sömu upphæð, hvort sem þeir skreppa til nágrannalanda eða fara í lúxusferðir umhverfis hnöttinn. Við hækkun á eignarskatti af fasteignum er ekki gerður neinn eðlismunur á venjulegu íbúðarhúsnæði og lúxusvillum eða verzlunarhöllum. Með skattheimtu af þessu tagi er verið að hverfa aftur til löngu liðinna tíma, meðan Sjálfstfl. hét enn þá Íhaldsflokkur og nefskattar þóttu sjálfsögð stefna. Ég held, að jafneindregin afturhaldssjónarmið við álögugerð hafi ekki komið fram á Íslandi áratugum saman. Fjáröflunarstefna af þessu tagi mundi ekki þykja frambærileg í nokkru nágrannalandi okkar um þessar mundir.

Ég undrast ekki svo mjög, þótt ráðamenn Sjálfstfl. séu nú að hverfa til hinnar fornu nefskattastefnu íhaldsins. Þess hefur séð merki, eftir að hæstv. forsrh. tók við forustu þess flokks, að hann vildi sveigja flokk sinn frá þeim sósíaldemókratísku viðhorfum, sem Ólafur Thors innrætti honum um skeið. En ég verð að játa, að hin skilyrðislausa aðild Alþfl. að þessum ráðstöfunum vakti undrun mína.

Í kosningunum í sumar tapaði Sjálfstfl. verulegu fylgi, einkanlega hér í Reykjavík, í kjördæmi hæstv. forsrh. Alþfl. jók hins vegar fylgi sitt allmyndarlega, ekki sízt í Reykjavík. Ein meginástæðan til þess, að innbyrðisaðstaða stjórnarflokkanna breyttist á þennan hátt, er vafalaust sú, að Alþfl. hélt því fram, að hann hefði gætt hinna félagslegu sjónarmiða í stjórnarsamstarfinu, hann væri málsvari hinna afskiptu og tekjulágu, hann mildaði hina hörðu peningapólitík viðreisnarinnar í þágu almennings. Tap Sjálfstfl. annars vegar og sigur Alþfl. hins vegar styrkti að sjálfsögðu mjög stöðu Alþfl.-ráðh. innan ríkisstj. Nú gafst þeim tækifæri til að sveigja stjórnarstefnuna nær þeim hugmyndum, sem boðaðar eru í stefnuskrá flokksins. Enginn efi er á því, að fylgismenn Alþfl. ætluðust til slíkra verka af ráðh. sínum, ekki sízt það nýja fylgi, sem flokknum bættist í kosningunum. En nú sjá menn árangurinn: afturhaldssamari fjáröflunarstefnu en dæmi eru um hérlendis áratugum saman, afturhvarf til gamla nefskattafyrirkomulagsins, sem brautryðjendur Alþfl. börðust gegn af hvað mestri einbeitni. Samkv. þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. er nú að framkvæma, skyldi maður ætla, að Sjálfstfl. hefði unnið yfirburðasigur í kosningunum í sumar, en Alþfl. hefði orðið svo vesæll, að hann skrimti aðeins sem próventukarl á höfuðbóli íhaldsins.

Mér er spurn, og ég vænti þess, að málsvarar alþfl. svari þeim spurningum: Hvar sjást áhrif Alþfl. í þessum svokölluðu efnahagsráðstöfunum? Hverju komu ráðh. Alþfl. sérstaklega til leiðar í samræmi við boðskap sinn um félagslega stefnu? Er það e.t.v. í sambandi við tryggingarnar, þar sem breytingarnar eru fólgnar í því einu, að iðgjöld til trygginga og sjúkrasamlaga hækka til muna, en viðskiptavinir trygginganna eiga að bera bótalaust stórfelldar hækkanir á þeim hversdagslegu matvælum, sem halda lífinu í tekjulægsta fólki. á Íslandi?

Hæstv. viðskmrh. hefur raunar þegar lýst yfir því, að þessar efnahagsráðstafanir með nefskattasniði séu einhver mesti gleðiatburður, sem gerzt hafi í sögu Alþfl. S. l. föstudag spurði blaðamaður Alþýðublaðsins hann, hvort þessar álögur hefðu verið samþykktar einróma í miðstjórn Alþfl. Og svar hæstv. ráðh. var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þau rúmlega 25 ár, sem ég hef nú starfað í Alþfl., hefur einhugur í flokknum aldrei verið meiri. Er þetta eitthvað annað heldur en ástandið á Alþb.-heimilinu. Ekki þykir mér ólíklegt, að þeir Alþb.-menn, sem áður voru í Alþfl., sjái nú, að það var misráðið að yfirgefa Alþfl., hvort sem þeir treysta sér til að snúa við eða ekki.“

Hæstv. ráðh. telur sem sé, að Alþfl. hafi nú loksins fundið ráðið til þess að hefja sig yfir þann ágreining, sem hefur staðið flokknum fyrir þrifum áratugum saman, og töfralyfið er sú einfalda ráðstöfun að hækka brýnustu matvæli með nefskattafyrirkomulagi meira en dæmi eru til í sögu þjóðarinnar. Þegar sú stefna kemur til framkvæmda, skilja allir Alþfl.-menn, hve ágreiningurinn er léttvægur í samanburði við framkvæmd hugsjónanna. Og hæstv. ráðh. gerir sér vonir um, að þegar þeir menn, sem hafa verið reknir úr Alþfl. á undanförnum áratugum eða hafa sagt skilið við hann, taki að kaupa mjólk og kjöt og kartöflur á nýja Alþfl.-verðinu, skilji þeir loksina villu sinna vega og hverfi heim sem iðrandi syndarar.

Víst lýsa þessi ummæli hæstv. ráðh. mikilli sigurgleði. En ég hygg, að það ljúfa andrúmsloft, sem ráðh. finnur umlykja sig, sé ekki frá Alþfl. komið, heldur frá aðalfundi Verzlunarráðs Íslands, þar sem hæstv. ráðh. kynnti þessar ráðstafanir af mikilli ánægju. Ég tel ekkert vafamál, að þar hafi verið fullur einhugur um það, að stefna Alþfl.- ráðh. væri rétt. Hitt vita allir, að bilið á milli ráðh.-Alþfl. og launafólksins í Alþfl. hefur stöðugt verið að breikka á undanförnum árum. Um langt skeið hefur tekizt í verkalýðssamtökunum góð og vaxandi samvinna milli Alþfl.-manna og Alþb.-manna, m.a. í hörðum átökum við hæstv. núv. ríkisstj. Það er þegar komið fram, að forustumenn Alþfl. í verkalýðshreyfingunni meta þær stórfelldu árásir á lífskjörin, sem nú koma til framkvæmda, á hliðstæðan hátt og Alþb.-menn. Þeir hafa þegar tekið þátt í yfirlýsingum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar um, að slíkum árásum verði ekki unað, þ. á m. á sjómannaráðstefnu þeirri, sem Sjómannasambandið boðaði til nú um helgina. Og vel mætti hæstv. viðskmrh. leiða hugann að því þingi, sem Samband ungra jafnaðarmanna hélt hér á síðasta ári, og ályktunum, sem þar voru gerðar. Áhugi á sósíalistískum úrræðum og sósíalistískri baráttu hefur á undanförnum árum verið að glæðast mjög meðal yngri manna í Alþfl. Og ég hygg, að hæstv. ráðh. eigi eftir að reka sig á það, að í þeim hópi er ranglát skattheimta ekki talin gleðiefni, ekki sá endanlegi sigur Alþfl., sem ráðh. telur, að bundið hafi endi á allar deilur og ágreining. Mér þykir vissulega allt benda til þess, að fólkið í Alþfl. og Alþb. muni halda áfram að jafna forn ágreiningsefni sín, en sú eining verður ekki sameiginleg gleði yfir fráleitri skattheimtu, heldur sameiginleg barátta gegn henni og þeim forustumönnum, sem nota völd og kosningasigra til að bregðast einföldustu grundvallarstefnuatriðum flokksins.

Hæstv. viðskmrh. sagði í ræðu sinni á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands, að þjóðartekjur mundu trúlega dragast saman í ár um 4–5% á mann. Hinar nýju álögur ríkisstj. mundu nema 4–5% kjaraskerðingu samkv. nýju vísitölunni, þeirri sem ríkisstj. vill nú nota. Þessar tölur sanni, að ríkisstj. sé aðeins að skipta réttlátlega niður á þegnana þeirri minnkun á sameiginlegum aflafeng, sem sé óumflýjanleg staðreynd. En slíkir talnareikningar á blaði eru afar fjarri veruleikanum sjálfum. Ef afli minnkar eða verðlag á útflutningsvörum okkar lækkar, hefur það bein og tafarlaus áhrif á atvinnuvegina og afkomu þess fólks, sem þar vinnur, án nokkurrar milligöngu ríkisstj. Lækkun á verði fiskafurða og síldarafurða birtist þegar í stað í lækkuðu kaupi sjómanna. Samdráttur hjá atvinnufyrirtækjum kemur þegar í stað fram í minni vinnu og lækkuðum ráðstöfunartekjum verkafólks. Þau kreppumerki, sem hafa einkennt efnahagslíf Íslendinga um eins árs skeið og vel það, hafa þegar höggvið stór skörð í ráðstöfunartekjur verkafólks, miklu stærri skörð en þau 4–5%, sem hæstv. ráðh. talar um. Það hefur dregið úr eftirvinnu, næturvinnu, helgidagavinnu og yfirborgunum, en í slíkar greiðslur hefur verkafólk sótt mjög verulegan hluta af tekjum sínum, sumir allt að því helming. Í ályktun, sem Félag járniðnaðarmanna hefur sent hinu háa Alþ., er m.a. talið, að tekjur þeirrar stéttar hafi nú þegar skerzt um 25–30% vegna samdráttar á atvinnu, og fjölmargar aðrar starfsstéttir kunna að greina frá hliðstæðri þróun. Meðal verkafólks er mikill og rökstuddur uggur um það, að þessi samdráttur eigi eftir að magnast svo, að mönnum verði ætlað að lifa á dagvinnu einni saman eða búa jafnvel við atvinnuskort. Við þessar aðstæður er það sannarlega hvorki verkefni ríkisstj.Alþ. að leggja á ráðin um það, hvernig verkafólki verði gert að bera sinn hlut af 4–5% lækkun á þjóðartekjum, heldur hvernig koma eigi í veg fyrir, að sú skerðing leggist margföld á launafólk, að ranglæti í tekjuskiptingu stóraukist.

Það vandamál er nú að komast á dagskrá á ómótstæðilegan hátt hjá verkalýðshreyfingunni að tryggja launafólki viðunandi heildartekjur fyrir dagvinnu eina saman. En það er staðreynd, sem allir viðurkenna, að launafólk getur ekki lifað af dagvinnutekjum sínum. Gerbreyting á því sviði er engin óraunsæ skýjaborg. Þjóðartekjur hafa á undanförnum árum hækkað tífalt meir en þeirri lækkun nemur, sem spáð er í ár, og alþjóðlegar skýrslur herma, eins og ég sagði áðan, að Ísland sé í hópi fjáðustu þjóðfélaga í heimi. Við eigum að geta tryggt launafólki sómasamlegar ráðstöfunartekjur fyrir eina saman dagvinnu, ekki síður en þau þjóðfélög umhverfis okkur, sem standa á svipuðu efnahagsstigi. Einmitt þegar kreppir að, ætti að vera sérstakt verkefni stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðssamtaka að koma þeirri skipan á launamál, sem sjálfsögð er talin í nútímaþjóðfélögum umhverfis okkur, í stað þess að unnið sé að því að magna ranglætið og skerða stórlega hinn rýra kaupmátt dagvinnutekna, eins og gera á með þessu frv. og öðrum þeim ráðstöfunum, sem nú hafa dunið yfir.

En hvað eigum við þá að gera? spyrja hæstv. ráðh, og málgögn þeirra. Hver er stefna stjórnarandstöðunnar önnur en gagnrýni og niðurrif? Hvernig vilja stjórnarandstæðingar láta brúa bilið milli tekna og gjalda í fjárlögum? Hvar á að taka þau hundruð millj., sem vantar, til þess að jöfnuður náist?

Nú eru fjárl. ekkert einangrað fyrirbæri í þjóðlífinu, og það dæmi, sem ríkisstj. leggur fyrir Alþ., er afleiðing af stefnu hennar á undanförnum árum, óðaverðbólgu, ofvexti í þjónustustarfsemi og kaupsýslu, hnignun útflutningsatvinnuvega og iðnaðar, óskynsamlegri verðbólgufjárfestingu, spákaupmennsku og öðrum viðreisnarfyrirbærum. Við viðurkennum ekki, að sjálft dæmi ríkisstj. sé neinn óhjákvæmilegur atburður. Það er fyrst og fremst sjálfskaparviti. Við Alþb.-menn höfum bent á það árum saman, að þannig mundi fara. Við höfum gagnrýnt stefnu ríkisstj. og bent á allt önnur úrræði. Lausn okkar er fólgin í þeirri baráttu, sem hér hefur verið háð, síðan viðreisnarstefnan hófst, í þeim till., sem við höfum flutt. Samt skal ég fúslega benda hæstv. ríkisstj. á, að hún gat hæglega leyst hið heimatilbúna dæmi sitt á allt annan hátt en þann að níðast sérstaklega á launastéttunum. Raunar gæti hvert skólabarn bent hæstv. ríkisstj. á skattheimtuleiðir, sem eru miklu réttlátari en nefskattar, og ef hæstv. viðskmrh. gengi hér í nokkrar verzlanir, mundu blasa við honum vörutegundir, sem fyrr bæri að hækka en brýnustu neyzluvörur, allt frá dönskum tertubotnum og kexi til lúxusbifreiða.

En ég skal benda hæstv. ríkisstj. á eina sérstaka tekjuleið, sem er nærtæk og réttlát. Þar á ég við ráðstafanir til að uppræta skattsvik á Íslandi. Fyrir nokkrum dögum var kaupmaður einu dæmdur fyrir skattsvik. Hann hafði m.a. reynzt sekur um að hafa vantalið viðskipti sín til söluskattsframtals um rúmar 10 millj. kr. og stungið söluskatti af þeirri upphæð í sinn vasa. Fyrir dómstólunum er nú annað mál, þar sem einn lítill sælgætisframleiðandi í Reykjavík er ákærður fyrir að hafa stungið undan söluskatti, sem nam hvorki meira né minna en 7 millj. kr. Þessi mál eru eftirhreytur af starfsemi sérstakrar skattrannsóknadeildar, sem sett var á laggirnar 1964. Til hennar valdist dugmikill forstöðumaður, og hann hófst þegar handa um að kanna verkefni sitt. Deild þessi birti eina opinbera skýrslu um athafnir sínar, og þar var tvennt, sem vakti sérstaka athygli. Í fyrsta lagi reyndist furðuhá hlutfallstala brotlegra í hópi þeirra, sem rannsakaðir höfðu verið. Og í annan stað reyndust fjársvik þeirra mjög há, enda þótt hér væri aðeins um að ræða minni háttar kaupsýslumenn.

Í þeirri einu skýrslu, sem birt var, var greint frá því, að tekizt hefði að endurheimta svikna skatta, sem námu 35–40 millj. kr., allt frá minni háttar kaupsýslumönnum. Og brotin voru ekki sízt í því fólgin, að kaupsýslumennirnir höfðu stungið í eigin vasa söluskatti, sem þeir höfðu þegar innheimt hjá almenningi. Fljótlega tók það að vekja athygli, að rannsóknin virtist fyrst og fremst beinast að aðilum, sem ekki áttu neinn öflugan pólitískan bakhjarl í þjóðfélaginu, en meiri háttar kaupsýslumenn, hinir stóru og voldugu, virtust ekki þurfa að óttast slíkar rannsóknir. Á sama tíma tók það að kvisast, að forstöðumaður skattrannsóknadeildar væri mjög óánægður með starfsaðstöðu sína, hann teldi sig ekki fá þau vinnuskilyrði, sem óhjákvæmileg væru. Hann rækist á mjög annarlegar torfærur, um leið og hann tæki að nálgast hina miklu og voldugu kaupsýslumenn. Svo fór, að skattrannsóknastjóri sagði upp starfi sínu og ásamt honum 3 af 4 fulltrúum í deildinni. Síðan hefur verið næsta hljótt um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar.

Ég tel, að hinar mjög svo takmörkuðu athuganir skattrannsóknadeildar hafi sannað, að skattsvik eru hér ákaflega stórfellt fjármálafyrirbæri. Sömu staðreynd getur raunar hver maður lesið út úr skattaskýrslum, úr framtölum kaupsýslumanna um innheimtan söluskatt, úr skýrslum hagstofunnar um tekjuskiptingu milli starfsstétta samkv. framtölum þeirra sjálfra. Raunar eru fjársvikin stórfelldari en hér er vikið að. Um langt skeið hefur t.d. verið í rannsókn mál eins lítils innflytjanda, sem sagður er hafa falsað faktúrur um milljónaupphæðir til þess að hafa fé af ríkissjóði, og sömuleiðis eins lítils útflytjanda, sem sakaður er um hliðstætt atferli. Ég tel engum vafa bundið, að skattsvik og söluskattsþjófnaður og annar hliðstæður fjárdráttur nemi hundruðum millj. kr. á ári hverju, og svo að menn ætli ekki, að þetta séu neinar ýkjur úr mér, vil ég minna á, að hæstv. viðskmrh. komst að sömu niðurstöðu fyrir nokkrum árum. Aðeins heiðarleg innheimta á lögboðnum gjöldum hefði fært ríkissjóði meginhlutann af þeirri upphæð, sem hann segir sig skorta til þess að ná saman endum á fjárlögum.

Danir gerðu í ár breytingu á söluskattskerfi sinu, m.a. í þeim tilgangi að gera söluskattsþjófnað óframkvæmanlegan. Hefði ekki verið nær fyrir ríkisstj. Íslands að gera hliðstæðar ráðstafanir í stað þess að leggja byrðarnar á launafólk, sem er í senn sligað af verðbólgu og purkunarlausri fjárplógsstarfsemi?

Þær stórfelldu álögur, sem hér eru til umr., eru eins og ég hef rakið, til marks um afar afturhaldssama skattheimtustefnu. Þær leggjast þyngst á þá, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, m.a. á þá, sem þegar hafa fengið að kenna á samdrættinum af margföldum þunga. Þær hlífa gersamlega fjárplógsmönnum og gróðasöfnurum, þ. á m. þeim, sem hirða miklar fjárfúlgur ófrjálsri hendi ár eftir ár. Samt munu stjórnvöldin vænta þess, að almenningur láti sér nægja möglið eitt. Fyrir því er löng reynsla, að Íslendingar hafa mikið langlundargeð, og oft hafa landsmenn sætt sig við rangláta skattheimtu, ef fólk hefur talið, að fjármunirnir færu til að leysa brýn vandamál. En hér er ekki einu sinni um það að ræða, að verið sé að leysa þau vandamál, sem brýnust eru. Hinar nýju álögur koma, eins og ég sagði áðan, aðeins lagi á bókhald ríkissjóðs, svo að tekjur og gjöld standist á. Þetta frv. snertir á engan hátt þann stórfellda vanda, sem hvarvetna blasir við í þjóðfélaginu sjálfu, í efnahagsmálum og atvinnumálum. Enda þótt III. kafli frv. fjalli um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, er þar ekkert að finna annað en framlengingu á gömlum uppbótum. Í grg. sjálfri segir:

Ríkisstj. telur hins vegar ekki tímabært að gera nú till. um nýjar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins.“

Þarna er það sem sé boðað og sömuleiðis í framsöguræðu hæstv. forsrh., að bandormur sá, sem hér liggur á borðum þm., kunni að lengjast til muna eftir skamman tíma, þá komi nýjar álögur á almenning, e.t.v. enn frekara afnám á niðurgreiðslum á mjólk og kjöti, ellegar hækkun á söluskatti þeim, sem nú þegar er ærin tekjulind fyrir fjárplógsmenn. Samt mun enn meiri ástæða til að óttast, að ráðstafanir ríkisstj. í þágu þjóðlegra atvinnuvega verði takmarkaðar og árangurslitlar. Ríkisstj. hefur látið sjávarútveg og fiskiðnað drabbast niður á valdaskeiði sínu. Þann tíma, sem Alþfl. hefur farið með stjórn sjávarútvegsmála, hefur togurum fækkað um 2/3. Sá hluti bátaflotans, sem aflar hráefnis handa fiskvinnslustöðvunum, hefur dregizt stórlega saman. Sumar hinna fullkomnustu fiskvinnslustöðva landsmanna eru nú lokaðar. Allt hefur þetta gerzt á mestu veitiárum, sem þjóðin hefur lifað. Margt bendir til þess, að ráðh. ætli að gráta það þurrum tárum, þótt þessi þróun verði mun hraðari, þegar við örðugleika er að etja. Af mörgum ummælum, þ. á m. í hásætisræðu hæstv. forsrh., má marka það, að framtíðarhugmyndir ríkisstj. séu einvörðungu bundnar við erlenda fjárfestingu á Íslandi, hraðari alúminframkvæmdir, sjóefnavinnslu á vegum útlendinga, olíuhreinsun á vegum Standard Oil og vafalaust erlend fyrirtæki í fiskiðnaði og jafnvel fiskveiðum. Allt bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. ætli að hagnýta þá erfiðleika, sem hún auglýsir hvað mest, til þess annars vegar að breyta tekjuskiptingunni á Íslandi launastéttunum í óhag, eins og gert er með þessu frv., og hins vegar að breyta sjálfri gerð efnahagslífsins þannig, að erlendir aðilar verði æ umsvifameiri á því sviði. Hæstv. ríkisstj. getur því ekki með nokkrum rétti skírskotað til sanngirni og þegnskapar og þjóðhollustu eða annarra loflegra eiginleika, sem síður er að nefna í sambandi við nýja skattheimtu. Þegnskapur og þjóðhollusta er það eitt að hnekkja þessum stórfelldu og ranglátu árásum á lífskjör almennings og þeirri háskalegu framtíðarstefnu, sem í þeim felst. Ég veit, að það mun ekki gerast hér á hinu háa Alþingi. Sameinað stjórnarlið mun eflaust reiðubúið til þess að samþykkja þetta frv. En utan þingsalanna er til það afl, sem getur hnekkt þessari árás, launafólkið sjálft. Andstaðan við þessar ranglátu ráðstafanir nær langt inn í raðir stjórnarflokkanna sjálfra, og ef launafólk stendur saman án tillits til stjórnmálaskoðana, er það sterkasta þjóðfélagsafl á Íslandi, miklu sterkara en sú gjaldþrota ríkisstj., sem hér reiðir hátt til höggs.

Það eru ekki ýkjamörg ár síðan núv. ríkisstj. guggnaði á því að láta samþykkja árásarfrv. gegn verkalýðssamtökunum vegna þess, hversu öflug og víðtæk andstaðan var. Þeir atburðir geta endurtekið sig — og þeir þurfa að endurtaka sig. Þar eru ekki aðeins í húfi lífskjör launafólks og sómi verkalýðshreyfingarinnar, sem samningar höfðu verið brotnir á, heldur og sjálf heildarstefnan í efnahagsmálum og atvinnumálum.