16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. vék hér í ræðu sinni áðan að tveimur atriðum, sem mig langar til að gera hér nokkuð að umræðuefni af þeirri ástæðu. Annars vegar var fsp. frá honum, sem hann beindi til mín og óskaði eftir, að ég svaraði hér í umr., ef ég hefði aðstöðu til, varðandi nýju vísitöluna dg ræddi um hana nokkuð í því tilefni efnislega. Það hefur verið útbýtt hér á Alþ. í dag fsp. frá hv. þm. um þetta efni, sem ég að sjálfsögðu hefði svarað á sínum tíma, en ég hef ekkert á móti því að gera það nú. Hann óskaði gjarnan eftir því, ef svar fengist við því hér í umr.

Hann kvað hafa gengið mjög illa að fá upplýsingar um þessa vísitölu og hefði raunar verið synjað um upplýsingar um einstök atriði varðandi hana, er hann hefði spurt eftir því fyrir nokkru. Ég tel ekki, að það hafi verið neitt óeðlilegt, þó að það hefði verið synjað slíkra upplýsinga. Þetta mál var í rauninni óafgert. Þessi vísitala, eins og menn vita, var reiknuð út samkv. samkomulagi, sem gert var við verkalýðssamtökin 1964. Þá var ákveðið að láta fara fram nýja athugun miðað við neyzluvenjur almennings, eins og þær væru taldar hafa breytzt, því að gamla vísitalan var augljóslega orðin mjög úrelt og grundvöllur hennar, og var ákveðið, að þetta skyldi unnið af kauplagsnefnd með aðstoð hagstofunnar. Meðan ekki var tekin nein ákvörðun um það, hvað yrði um þessa vísitölu eða hvað við hana yrði gert, var ekki talin ástæða að hefja neinar opinberar umr. um hana og ekki talið heppilegt á neinn hátt, og af þeim sökum voru ekki gefnar út neinar sérstakar upplýsingar um málið. Það er rétt, að það voru reiknaðar breytingar af kauplagsnefnd í fróðleiksskyni, en ekki vegna þess, að það hefði neina efnislega þýðingu varðandi kaupgreiðslur eða aðra viðmiðun við vísitölu, þar sem þessi vísitala hafði ekki verið lögfest. En það vitanlega breytir eðli málsins, þegar nú hefur verið ákveðið að lögfesta þessa vísitölu, og það má vel segja, að það hefði átt að prenta þennan grundvöll sem fskj. með frv. Ég skal á engan hátt andmæla því. Það hefur ekki verið ætlunin að fela neitt í þessu efni, og vitanlega geta bæði þm. og að sjálfsögðu n. þingsins, sem fá þetta mál til meðferðar, fengið allar þær upplýsingar varðandi vísitöluna, sem til staðar eru. Svo sem hv. síðasti ræðumaður gat hér um, voru honum látnar í té þær upplýsingar, sem hann bað um varðandi vísitöluna á þessu stigi málsins. Og ég tel sjálfsagt og raunar útilokað að leyna þeim upplýsingum fyrir Alþ., enda þjónar það engu. Hitt er, eins og ég áðan sagði, vafasamt mál að vera að hefja umr. um slíkar athuganir, meðan þær eru á umræðustigi. Verkalýðshreyfingin hafði ekki gert upp hug sinn um það, hvort hún óskaði eftir því að lögfesta þessa vísitölu eða ekki, það er rétt. Það hefur ekki staðið á ríkisstj. að fá hana lögfesta. Það var rætt um það þegar í fyrravetur, þegar vísitalan var tilbúin, hvort ekki væri rétt, að hún yrði innleidd, og af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hefur ekki verið látin í ljós nein ákveðin skoðun um það, hvorki neikvætt né jákvætt, sem kannske er ekki von, vegna þess að það er mikið vafamál, hvernig þessi vísitala kemur til með að líta út og hvaða áhrif hún hefur hverju sinni. Hitt er engum efa undirorpið, að hún er miklu réttari mælikvarði á neyzlugrundvöllinn og neyzluvenjurnar, eins og það er í dag.

Varðandi fsp. sjálfa skal ég upplýsa það, að það var byrjað að reikna grunninn frá febrúarmánuði 1966, þá var byrjað að reikna vísitöluna eftir þessum nýja vísitölugrundvelli til fróðleiks eingöngu, og það hefur verið lokið útreikningi frá 1. febr. 1966 til 1. maí 1967. Lengra er þeim útreikningi ekki komið. Það er búið að safna gögnum yfir síðasta ársfjórðung, en það er ekki búið að vinna úr þeim gögnum enn þá. En frá 1. febr. 1966 til 1. maí 1967 hefði þessi vísitala hækkað um 7.1%. Til samanburðar má geta þess, að núgildandi vísitala hefur hækkað á þessu stigi um 6.5%, þannig að miðað við þennan tíma er sjáanlegt, að nýja vísitalan hefði á engan hátt reynzt launþegum óhagstæðari en sú gamla. Hitt er annað mál, að þetta dæmi kann að koma öðruvísi út nú, vegna þess að það er rétt, sem hér hefur komið fram, að vissar vörutegundir vega meira í gamla grundvellinum heldur en nýja, þannig að það er ekki víst, að þetta dæmi komi alltaf eins út. Nú er því haldið fram, að ástæðan til þess, að það sé lagt til að lögfesta nýju vísitöluna nú, sé að auðvelda þessar nýju efnahagsráðstafanir og sé í rauninni þarna verið að koma aftan að launþegum og taka upp einhverjar blekkingar í framtíðinni, sem geri mögulegt að halda frekar í horfinu. Ég held, að það sé ákaflega erfitt fyrir nokkurn mann að segja í dag, hvort þetta hefur nokkra þýðingu í þessa átt, — ákaflega erfitt. Það þótti tvímælalaust rétt, úr því að þessi vísitala liggur fyrir, að hún yrði lögfest og notuð sem grundvöllur. Þar sem ákveðið er að festa grundvöllinn í 100 og byggja síðan á þessum vísitölugrundvelli, þá var það aðeins eðlileg aðgerð af hálfu ríkisstj., að því er okkur fannst, að miða þá við þá vísitöluna, sem síðast hefur verið reiknuð og talin er vera eðlilegust viðmiðun. En þessi nýja vísitala hefur bæði kosti og galla frá sjónarmiði stjórnvalda og launþega. Það er miklu fleira, sem hefur áhrif á þessa vísitölu heldur en vísitöluna núna. Og það er m.a. eitt, sem menn kannske mættu hafa í huga, sem álíta að þetta sé eitthvert tilræði við launþegasamtökin, að nýju vísitöluna er í rauninni ógerlegt að greiða niður, vegna þess að hvert vísitölustig kostar óhemjufé, það kostar á annað hundrað millj., ef á að greiða niður hvert vísitölustig, vegna þess einmitt að skiptingin er á allt annan veg. Búvörurnar vega ekki nálægt því eins mikið í nýju vísitölunni og þeirri gömlu, þannig að það væri ekki hægt að hafa þær aðferðir, sem sumir telja hæpnar og hafa talið og það síðast hv. fyrirspyrjandi, að þessi aðferð væri notuð til þess að ná af mönnum með nokkrum brögðum, að greiða niður, og ylli því, að kaupið lækkaði í rauninni mun meira en sem svaraði því, sem þetta kostaði ríkissjóðinn. Og það má til sanns vegar færa. En einmitt út frá þessum sjónarhóli held ég, að það sé ekki hægt að segja, að ríkisstj. sé með þessu að auðvelda sér einhvern eftirleik í þessu máli. Mér finnst sjálfsagt, að þetta mál sé skoðað fullkomlega niður í kjölinn, og ég veit ekkert, hvort það verður talið svo mikið grundvallaratriði af hálfu ríkisstj., að það þurfi endilega að halda fast við það, ef verkalýðshreyfingin telur það vera sér eitthvert sérstakt tilræði að innleiða þessa nýju vísitölu. Við höfum alls ekki litið svo á og það er ekki hugsun okkar með þessum tillögum.

Hitt atriðið, sem ég vildi gera hér sérstaklega að umtalsefni, voru ummæli hv. þm. um skattarannsóknirnar og orð hans, sem hnigu í þá átt, að ríkisstj. mundi hafa sett eitthvað fótinn fyrir þessar rannsóknir og hefði ekki mikinn áhuga á, að þeim yrði fram haldið. Það má vafalaust deila á núv. ríkisstj. fyrir marga hluti, enda hefur það verið óspart gert, en varðandi þetta efni held ég, að verði ekki á hana deilt. Það er staðreynd, að það er í fyrsta skipti í tíð núv. ríkisstj., sem hafa verið gerðar kerfisbundnar ráðstafanir til þess að uppræta skattsvik, og fyrstu róttæku aðgerðirnar í því sambandi hafa séð dagsins ljós þessi síðustu árin, frá því að skattrannsóknadeildin tók til starfa á árinu 1964. Og það má kannske þykja tíðindum sæta, að sá dómur, sem hv. þm. vitnaði í í skattsvikamáli, mun vera sá fyrsti, sem upp er kveðinn, og hygg ég þó, að enginn láti sér til hugar koma, að skattsvik séu ný bóla hér á Íslandi. Þau hafa áreiðanlega átt sér miklu lengri aldur en tíð núv. ríkisstj. Þau eru gamalkunn, og m.a. er það eitt, sem hefur valdið erfiðleikum í sambandi við skattamálin nú, að menn telja, að það hafi verið gengið of harkalega til verks með hliðsjón af því, að þetta hafi verið búið að láta líðast í áratugi. Að vísu var þetta alltaf bannað, það vita allir, og við því lagðar refsingar, en þessum refsingum var aldrei beitt.

Engu að síður var skattrannsóknadeildin sett á laggirnar, og ég vil, að það liggi hér alveg skýrt fyrir, að það hefur engin tilraun verið gerð til þess að hindra starfsemi hennar á einn né neinn hátt. Það er rétt hjá hv. þm., að til forstöðu þeirrar deildar valdist hinn prýðilegasti maður, og það hefur verið mikið happ, að hann valdist til þessarar forustu vegna sinna hæfileika og sinnar sérstæðu menntunar, því að það var mikið vandamál að leggja grundvöllinn að þessu starfi, þar sem um algert brautryðjendastarf var að ræða. Ástæðan til þess, að hann hætti þessum störfum, er á engan hátt neinn ágreiningur milli hans og rn. eða mín sem fjmrh., enda hefur það skýrt komið fram. Menn geta hætt störfum af ýmsum ástæðum, og það er engum efa bundið, að það var ekki neitt sældarstarf í litlu þjóðfélagi að fást við mál eins og þessi. En það fór hins vegar svo, að þrátt fyrir ítrekuð tilmæli mín taldi skattrannsóknastjóri sér ekki mögulegt eða fært að halda starfi sínu áfram. Ég lagði áherzlu á það, að ég mundi beita mér fyrir lagabreytingum, ef þyrfti, ef það yrði til þess að gera það mögulegt, að hann sæti áfram í sínu starfi og vildi áfram gegna því. Hann taldi það ekki geta breytt neinu um sína ákvörðun. Að öðru leyti tel ég ekki viðeigandi hér að fara að ræða um okkar viðskipti í þessum efnum, en eins og ég sagði, heftu. það legið skýrt fyrir, að það hefur enginn ágreiningur átt sér stað, og þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram, vegna þess að því hefur verið haldið fram og það nú síðast af hv. 6. þm. Reykv., að afsögn skattrannsóknastjóra bendi til þess, að honum hafi verið settir einhverjir erfiðir starfskostir eða starfsskilyrði, og jafnframt á það bent, að starfsmenn skattrannsóknadeildarinnar hafi sagt upp störfum um leið. Það er rétt, að þeir gerðu það, en það var af allt öðrum ástæðum, þó að vissu leyti tengt afsögn Guðmundar Skaftasonar að því leyti, að a.m.k. einn eða tveir þessara manna sögðu upp vegna þess, að þeir höfðu farið í þessi störf til þess að afla sér réttinda sem löggiltir endurskoðendur, og meðan þeir vissu ekki, hvort væntanlegur skattrannsóknastjóri uppfyllti þau skilyrði, að þeir gætu áfram stundað nám sitt hjá honum, vildu þeir hafa opna leið til að fara.

Til allrar gæfu hefur fengizt nýr maður til þess að gegna þessu starfi, sem að vísu er engin reynsla af enn þá, en er reyndur endurskoðandi, og ég geri mér beztu vonir um, að hann, geti tekið þar við, sem Guðmundur Skaftason hætti, og aukið, en ekki minnkað það starf sem þarna er um að ræða, því að ég tek undir það með hv. 6. þm. Reykv., að hér er um hið þýðingarmesta mál að ræða. Það er engum efa bundið, að það eru auðvitað stórfelld skattsvik í landinu, bæði í tekjuskatti og vafalaust verulegt undanskot í söluskatti, sem nú er verið að gera sératakar athuganir til að kanna. En ég er ósköp hræddur um, að það sé hæpið að ávísa á það fé til þess að leysa það fjárlagadæmi, sem hér er við að stríða. Það er ásetningur okkar að halda þessum athugunum áfram, sem hafnar hafa verið nú síðustu árin í sambandi við skattamálin, og reyna að koma þeim í eðlilegt horf.

Það er rétt og skiljanlegt, að þjóðfélagsborgararnir krefjist þess, að það sé látið réttlæti yfir alla ganga í þessum efnum. Það var reynt að víkja að því hér áðan, að það mundi hafa verið sérstaklega erfitt að fást við þá stóru, og var naumast öðruvísi hægt að skilja það en það hefði verið haldið yfir þeim hlífiskildi. Það er mikill misskilningur. Það hefur engin viðleitni verið í þá átt. En hitt get ég sagt, að það eru miklu minni ástæður til að halda, að stór fyrirtæki svíki undan skatti, heldur en lítil, og það er vegna þess einfaldlega, að þeirra bókhald er svo flókið og þar eru svo margir menn, sem koma við sögu, að það er skoðun skattayfirvalda, að það séu miklu minni líkur til þess, að þar eigi sér stað skattsvik. Það hefur vissulega komið til álita einnig um hin stærstu fyrirtæki, hvort þar væri ástæða til þess að gera sérstakar aðgerðir, og hafa farið fram athuganir á þessum málum. Við skulum gera okkur grein fyrir, að það, sem hefur komið fram í dagsljósið, er fyrst og fremst þar, sem hafa fundizt sakir á menn, þannig að menn mega ekki taka það sem hlutfall um skattsvik á Íslandi, þó að það séu teknir 22 af 23, eins og sagt var í upphaflegri skýrslunni, sem birt var. En það merkir auðvitað ekki, að það sé hlutfallið á milli skattsvika og réttra framtala, heldur eru ótalmargir aðrir, sem hafa verið kannaðir, og kemur þá á daginn, að ekki þykir ástæða til nánari rannsóknar.

Hv. þm. sagði og að því er mér skildist sem nokkra vísbendingu enn um, að hér væri farið að draga í land, að það hefði aðeins verið birt ein skýrsla um árangur af starfi skattarannsóknadeildarinnar. Hún var upphaflega birt að tilhlutan rn. vegna umr., sem þá voru í blöðum um starfsemi skattarannsóknadeildarinnar, að það heyrðist lítið frá henni. M. a. hygg ég, að það hafi komið fram ábending um það frá blaði hv. þm. Ég taldi sjálfsagt, að slík grg. yrði birt. Síðan hefur það verið venja mín, bæði í fyrra og mun einnig verða nú, að birta grg. um þetta í fjárlagaræðu, og það er ekki ætlunin að leyna einu né neinu í þeim efnum.

Þetta vildi ég nú láta koma hér fram vegna þess, að ég tel, að hér sé um ákaflega þýðingarmikið mál að ræða og nauðsynlegt, að fólk trúi því, að það sé ekki verið að draga úr þeirri starfsemi, sem sett var í gang á þessu sviði og ég er hv. þm. gersamlega sammála um að þarf að halda áfram af fullum krafti. Það er auðvitað hægt að gera þetta tortryggilegt, ef menn vilja, en þá getum við, sem að þessum málum stöndum, engan veginn varið okkur fyrir því, og það verður þá að ráðast, hvort menn trúa þeim fullyrðingum eða ekki. En þetta er sem sagt kjarni málsins og það rétta í málinu, sem ég hef hér sagt.

Hv. þm. minntist á eitt atriði enn. Hann sagði, að Danir hefðu tekið upp verðaukaskattinn til þess að forðast m.a. undanskot á söluskatti, að breyta því kerfi. Þetta er nú ekki rétt. Ástæðurnar til þess, að verðaukaskatturinn var tekinn upp í Danmörku, eru af allt öðrum toga spunnar, og Danir höfðu alls ekki söluskattinn í því formi, sem við höfum hann, þannig að undanskot á söluskatti þar var í rauninni ekki heldur fyrir hendi, því að það var heildsöluskattur, sem þeir höfðu, en ekki smásöluskattur, eins og við höfum hér. Hitt er annað mál, sem er nauðsynlegt fyrir menn að íhuga hér, ef eru uppi hugmyndir um það að taka upp verðaukaskattinn, — við höfum fylgzt vel með því máli hér, — að verðaukaskatturinn leggst fyrst og fremst á neyzlu almennings. Fyrirtækin borga yfirleitt ekki þann skatt. Og ástæðan til þess m.a., að Danir taka upp þennan skatt, er, að þetta skattkerfi er gildandi í Efnahagsbandalagslöndunum, og þeir telja sér óumflýjanlegt, ef þeir gerast aðilar að Efnahagsbandalaginu, að skapa dönskum framleiðsluatvinnuvegum, sérstaklega dönskum iðnaði, þann skattalétti, sem leiðir af því að taka upp verðaukaskattinn. Svíar hafa verið með þetta lengi í athugun, og starfsbróðir minn þar sagði við mig, þegar ég spurði hann að því, hvernig stæði á því, að þeir hefðu ekki innleitt þennan skatt, að það stæði í þeim að taka 1600 millj. sænskra kr. af fyrirtækjunum og leggja það á almenning, sem mundi leiða af þessari skattaálagningu, þannig að hér er um mál að ræða, sem þarf vitanlega að skoða miklu betur, og hingað til höfum við a. m. k. verið í miklum vafa um það, hvort þetta væri heppilegt eða ekki.

Þar sem fjárlagaumr. eru nú á næsta leiti, tel ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða sérstaklega þetta frv., sem hér liggur fyrir, þó að það sé að vísu rétt, að það er veigamikill þáttur í fjárlagaafgreiðslunni og leiðir af þeim ráðstöfunum, sem hefur orðið að gera til þess að jafna hallann á fjárl. Það hefur auðvitað margt komið hér fram, sem væri fróðlegt að minnast á. Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh. hafa rætt það ýtarlega. Kjarni málsins er ljós og raunar ekki umdeildur, að það vantar 750 millj. kr. til þess að jafna halla á fjárl. Það er að vísu fordæmi fyrir því, að þessum vanda hafi verið mætt á annan hátt en ríkisstj. nú gerir. Honum var mætt, hliðstæðum vanda, í tíð vinstri stjórnarinnar með því að leggja fjárlagafrv. fyrir Alþ. með raunverulega stórfelldum halla og með þeim rökstuðningi, að ríkisstj. hefði ekki haft tíma til þess eða aðstöðu til þess að bera sig saman við stuðningsmenn sína um úrræði til þess að leysa þennan vanda, og þess vegna yrði að varpa því á herðar Alþingis. Við deildum á þær aðferðir, sem þá voru hafðar og ég tel fjarri öllu lagi, að ríkisstj. geti komið sér undan vandanum með því að varpa honum þannig yfir á herðar Alþingis, þó að það sé að vísu þess hlutverk að lokum að taka endanlegar ákvarðanir. Við töldum útilokað með öllu að leggja fjárlagafrv. fyrir Alþ. án þess að gera ákveðnar till. um það, hvernig ætti að jafna þennan halla. Eins og því hefur verið lýst af hálfu ríkisstj. er það svo annað mál, að við höfum ekki með þessu endilega haldið því fram, að þetta væru þau einu réttu úrræði og alls ekki gæti annað komið til mála. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir nauðsyn þess, að sem breiðust samstaða gæti orðið um lausn þessa vanda. En til þess að sú samstaða geti orðið, verða auðvitað þeir, sem eru andvígir okkar till., að játa þær forsendur, sem hlýtur að verða að byggja á, sem sé að þessi vandi er fyrir hendi og fram hjá honum verður með engu móti komizt með óljósum fullyrðingum og vafningum. Þetta er tvímælalaust vandinn, sem við eigum við að stríða í dag, og spurningin er þessi aðeins, hvernig á að mæta honum og það með ákveðnum úrræðum. Það er ekkert gagn fyrir þjóðina að heyra óljósar fullyrðingar og bollaleggingar, sem ekki eiga sér stoð í neinum veruleika. Það er hægt að hafa gagn af því að rökræða vandann og koma með ákveðnar leiðir aðrar, sem hugsanlegar væru og sjálfsagt er þá að taka til athugunar. Það er auðvitað algerlega óviðunandi og í rauninni sjálfsögð krafa, sem bæði þjóð og þing hlýtur að gera til sinnar ríkisstj., að hún leggi fram sínar ákveðnu till., hvað sem mönnum svo sýnist um þær að öðru leyti. Og þetta er skylda, sem ég tel að ríkisstj. hafi ekki brugðizt og það sé ekki hægt að saka hana fyrir það, þó að hún leggi þessar till. sínar fram. Það er tvímælalaust hennar skylda.

Hvort svo með þessu er ráðizt sérstaklega á launþega og hina efnaminni í þjóðfélaginu og farnar hinar verstu leiðir, íhaldsúrræði og annað þess konar, sem minnzt hefur verið á í þessum umr., það er auðvitað fróðlegt að gera sér grein fyrir því og nauðsynlegt. En menn geta náttúrlega ekki í senn haldið því fram, sem er auðvitað staðreynd, að þjóðartekjur hafi vaxið meira en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar, að allur atvinnurekstur sé í kaldakoli og þar af leiðandi sé þjóðartekjurnar ekki að finna þar og að hagur almennings hafi ekki batnað neitt og þar af leiðandi hafi hann ekki fengið þessar þjóðartekjur. Einhvers staðar hlýtur þetta fé að vera, fram hjá því verður aldrei komizt. Og þegar talað er um það, að með þessum till. ríkisstj. sé verið að hlífa hinum efnameiri, en samtímis haldið fram í hinu orðinu, að nú sé svo búið að öllum atvinnurekstri í landinu, að bæði iðnaður, sjávarútvegur og landbúnaður séu svo hart leiknir, að það þurfi stórfelldar aðgerðir þeim til handa, a. m. k. sjávarútveginum og raunar einnig iðnaðinum, hvar eru þá þessir efnameiri, sem haldið hefur verið hlífiskildi yfir og hafa dregið til sín allt þetta fé? Almenningur hlýtur að gera kröfu til, að menn á Alþ. ræði þetta og geri skilmerkilega grein fyrir því.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að það er vandi okkar í dag og það má kannske saka ríkisstj. fyrir að hafa ekki staðið betur í ístaðinu að þessu leyti, — vandi okkar í dag er sá, að við höfum dreift út öllum þjóðartekjunum, jafnóðum og þær hafa skapazt. Það má segja með réttu, að það hafi verið óeðlilega hátt verðlag á sjávarafurðum núna síðustu 2 árin og hefði verið gætt fyllsta aðhalds í því og skynsemi, hefði ekki átt að dreifa úr þessu fé. Þá hefði átt að leggja það til hliðar, til þess að atvinnuvegirnir gætu mætt verðfallinu, þegar það kæmi, og það er ekkert vit í að fara að miða lífsvenjur sínar við þessar háu tekjur. Því miður hefur þetta ekki gerzt. Það hefur ekki tekizt að halda í þetta fé, og sannast sagna hefur ekki borið á stuðningi af hálfu hv. stjórnarandstæðinga eða aðfinnslum frá þeirra hendi um það, að ríkissj. skyldi ekki gera ráðstafanir til að halda þessu fé til hliðar, nema síður sé.

Þetta er ástæðan fyrir þeim vanda, sem við stöndum andspænis í dag. Við höfum deilt þessu fé upp. Við höfum hagað lífsvenjum okkar í samræmi við þessar auknu tekjur, og þess vegna auðvitað verður það tilfinnanlegt, sem við erum að gera í dag. Hefðum við haldið þessu til hliðar, verðhækkunum síðustu 2–3 ára, stæðu auðvitað atvinnuvegirnir allt öðruvísi að vígi, en þá hefði fólk ekki heldur getað notið þessara hlunninda, sem leitt hefur af dreifingu þessarar hækkunar teknanna. Um þetta má auðvitað endalaust ræða, en þetta hygg ég, að sé kjarni þess vanda, sem við eigum við að glíma, og það er svo mikið í húfi fyrir þjóðina nú að mæta þessum vandamálum á réttan hátt, að það gagnar lítið, þó að við förum að bera sakir hver á annan í því efni að hafa haldið illa á málum.

Það er auðvitað ekkert einstakt nú í dag, ef maður hirðir um það að fara að rekja fortíðina, að það sé lagt til að skerða vísitölu. Það var upphaf vinstri stjórnarinnar, fyrsta ráðstöfunin, að skerða vísitölu, og síðasta ráðstöfun hennar var till. um stórfellda skerðingu vísitölu, og skyldi maður þó halda, að það hafi ekki stafað af slæmri stjórn, eins og haldið er fram, að nú stafi þessi skerðing vísitölu eingöngu af slæmri stjórn, og vinstri stjórnin bjó sannarlega ekki við neitt slæmt árferði. Það var bezta árferði, sem komið hafði þá, árið sem hún fór frá völdum. Þetta má auðvitað á benda, og þetta veit öll þjóðin. En það gagnar lítið að vera að karpa um þetta, það leysir ekki vandann, heldur að horfast í augu við hann, eins og hann blasir við. Við getum skemmt okkur við að saka hver annan um að hafa haldið óskynsamlega á málum á þessum og þessum tímabilum. En það, sem þjóðin þarf í dag, er skynsamleg úrræði og eins breið samstaða og hægt er til þess að leysa þann vanda, sem augljóslega stafar ekki af verkum neinnar ríkisstj., heldur af óviðráðanlegum ástæðum, stafar af þeim vanda, sem verðfall og aflabrestur hefur skapað. Þessi vandi er ekki svo stórfelldur, miðað við þá aðstöðu, sem við höfum í dag, að við komumst ekki yfir hann með þokkalegu móti. En hann getur orðið okkur þungt áfall, ef við bregðumst ekki við vandanum með réttum hætti.