18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Magnús Hjartarson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. varð skapfátt um stund í ræðu sinni hér í gær. Hann sagði, að ég hefði hagað máli mínu af stráksskap og leikaraskap og haft í hyggju að stríða honum og valið orð mín af útsmoginni illkvittni, ef ég tók rétt eftir. Það er mikill misskilningur, að mér hafi verið nokkur stríðni í hug, þegar ég flutti mál mitt hér í gær og þaðan af síður illkvittni eða leikaraskapur. Ég talaði af fullri alvöru og færði málefnaleg rök fyrir skoðunum mínum, hvort sem hæstv. forsrh. er sammála þeim eða ekki. Það atriði í ræðu minni, sem gekk auðsjáanlega næst hæstv. ráðh., var mjög alvarlegur áfellisdómur vegna þess, að hann hefði einhliða brotið júnísamkomulagið frá 1964 með því frv., sem hér liggur fyrir, það samkomulag, sem síðan hefur verið hornsteinn alla kjarasamninga á Íslandi. Það var einnig ætlun mín, að hæstv. ráðh. fyndi, að ég tel hann eiga skilið mjög þunga siðferðilega dóma vegna þessa athæfis. Og hæstv. ráðh. fékk að heyra það síðar í umr. í gær, að hliðstæður dómur var kveðinn upp af hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni, en hann var nánasti viðsemjandi hæstv. ráðh., þegar gengið var frá júnísamkomulaginu.

Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um það, að við eigum ekki að gera okkur leik að því að bera svikabrigsl hver upp á annan, þótt við heyrum til andstæðum stjórnmálaflokkum. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa getað unnið saman, og ég tel, að þjóðfélagi okkar sé þannig háttað, að þeir verði að geta unnið saman, þegar þjóðfélagsaðstæður eru slíkar, að þess sé þörf. En þá þarf líka að vera unnt að treysta því, að menn standi við fyrirheit sín um grundvallaratriði. Menn verða að geta borið trúnaðartraust hver til annars. Ég tel, að hæstv. forsrh. hafi með því að rifta júnísamkomulaginu einhliða brugðizt þeim trúnaði, sem óhjákvæmilegur er til þess að tryggja samvinnu ólíkra flokka eða samvinnu verkalýðssamtakanna og ríkisvaldsins. Það eitt eru mjög alvarleg stjórnmálatíðindi, hvað sem líður öðrum þáttum þessa máls.

Mér virtist einnig, að hæstv. forsrh. fyndi það sjálfur, að málstaður hans er afar veikur að því er þetta atriði varðar. Hann viðhafði ekki aðeins þau ummæli, sem ég tilfærði áðan, hann sagði einnig, að ég væri smámenni og níðhöggur. Jafnlífsreyndur maður og hæstv. ráðh., Bjarni Benediktsson, bregst ekki þannig við, þótt hann telji sig verða fyrir stríðni eða illkvittni, ekki þótt hann telji sig verða fyrir röngu ámæli. Þannig bregðast viðkvæmir menn við, þegar komið er við auman blett á þeim, þegar þeir finna sjálfir, að þeir verðskulda þá dóma, sem kveðnir eru upp yfir þeim.

Ég skal viðurkenna það, að um leið og hæstv. ráðh. lét uppi þessi viðkvæmu styggðaryrði í minn garð, tók ég að festa meiri trúnað á, að hugur kynni að geta fylgt máli í umtali hans um viðræður og samninga, jafnt við verkalýðshreyfinguna og stjórnarandstöðuna. Á það mun nú væntanlega reyna á næstunni, hvort sá hugur fylgir máli, en ég vil minna hæstv. forsrh. á það, að það er aðeins eitt atriði í þessu lagafrv., sem er samningsbundið við verkalýðsfélögin, og það er atriðið um kauptryggingu, vísitölutryggingu á laun. Það er samningsatriði, sem ákveðið var 1964 og hefur staðið síðan, en á að rifta nú. Og það er af þessum ástæðum, sem sakir eru bornar á hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, að júnísamkomulagið hafi verið tímabundið, og hann vitnaði í ummæli sín, þegar verðtrygging á kaup var lögfest, þess efnis, að hann teldi þau lög því aðeins standast, að tiltekin skilyrði önnur væru uppfyllt. Mér hefur aldrei dottið í hug að vefengja, að hæstv. ríkisstj. gæti eins og aðrir losað sig frá samningum, sem hún kann að hafa gert, ef hún telur nauðsynlegt. En sú aðferð ein er sæmileg að segja slíkum samningum upp með hæfilegum fyrirvara, t.d. ekki skemmri fyrirvara en tíðkast við gerð kjarasamninga. Ég vil minna á það, að á síðasta ári kom hæstv. ríkisstj. upp sérstakri stofnun til þess að geta rætt og samið við samtök launafólks, atvinnurekendur og stjórnarandstöðuna einmitt um vandamál af þessu tagi. Þessi stofnun nefnist Hagráð og lög um hana voru samþ. 2. maí í fyrra. Þar segir svo í 17. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Stofna skal Hagráð, er sé vettvangur, þar sem fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka geti haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum hverju sinni.“

Það hefði verið augljós lagaskylda hæstv. ríkisstj. að láta Hagráð fjalla um þau stórfelldu vandamál, sem við erum að ræða um, og þar hefði verið tilvalið tækifæri fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að fá það samráð og þá samvinnu við samtök launafólks og stjórnarandstöðu, sem ríkisstj. kveður sig nú hafa hug á. En Hagráð hefur ekki verið kvatt saman til fundar mánuðum saman og meira en það. Mér er kunnugt um, að einstakir hagráðsmenn hafa farið fram á fund í ráðinu á þessu hausti til þess að fjalla um vandamál atvinnuveganna, en við þeim óskum hefur verið þverskallazt. Óskin um samráð og samvinnu er ákaflega síðborin, en við skulum vona, að engu að síður sé með henni nægilegt lífsmark.

Ekki veit ég, hvers vegna hæstv. viðskmrh. tók dæmi af því, hvað ég mundi gera, ef ég væri forstjóri fyrirtækis, t.d. bæjarútgerðar, og tekjur fyrirtækisins drægjust saman, eða ef ég fengi snögglega minni tekjur til heimilishalds míns, hvort ég mundi þá ekki sníða mér stakk eftir vexti. Ég hef öldungis ekki haldið því fram, að ekkert þurfi að gera í íslenzku þjóðfélagi, öllu fremur hið gagnstæða. Árum saman höfum við Alþb.-menn gagnrýnt stefnu ríkisstj. og bent á, að hún væri að leiða þjóðina út í alvarlega ófæru. Þetta kom afar greinilega fram í kosningunum í sumar. Þá var það stjórnarliðið, sem klifaði á þeim boðskap, að öll vandamál þjóðfélagsins væru leyst. Það vorum við Alþb.-menn, sem vöruðum þjóðina við því, að stjórnarliðið mundi einmitt ráðast í aðgerðir hliðstæðar þeim, sem nú á að gera. Við höfum ekki verið óraunsæir, heldur raunsæir í mati okkar og till. Við höfum einmitt lagt til, að þjóðin sniði sér stakk eftir vexti. En við mótmælum því, að sá stakkur sé einvörðungu látinu þrengjast að þeim, sem lægstar tekjur hafa í þjóðfélaginu.

Hæstv. viðskmrh. ítrekaði einnig hér í ræðustóli þá fyrri frásögn sína, að þessar álögur ríkisstj. hafi verið samþ. einróma í miðstjórn Alþfl. Mér hefði verið mikil forvitni á því að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þetta sé í raun og veru svo. Hafa þessar till. nokkurn tíma verið lagðar fyrir miðstjórn Alþfl? Hæstv. ráðh. er því miður ekki viðstaddur hér, en vera má, að einhverjir af flokksbræðrum hans geti svarað þessari spurningu. En ástæðan til þess, að ég ber hana fram, er sú, að einn af kunnustu forustumönnum Alþfl., miðstjórnarmaður og að því er ég hygg framkvæmdastjórnarmaður, Jón Sigurðsson, hefur margsinnis undanfarna daga lýst eindreginni andstöðu við þessar till. Hann gerði það sem aðili að samþykkt A. S. Í. áður en till. komu fram, hann gerði það sem aðili að sjómannaráðstefnu og hann gerði það seinast í viðtali við Þjóðviljann, sem birtist í blaðinu í morgun. Og ég vildi gjarnan lesa upp kafla úr ummælum Jóns Sigurðssonar, eins helzta forustumanns Alþfl., með leyfi hæstv. forseta. Jón Sigurðsson segir þar:

„Mér finnst hins vegar þessar álögur koma þungt niður á tekjulægstu launþegunum í landinu, ekki sízt hjá barnmörgum fjölskyldum á slíku framfæri, fyrir utan hvernig slíkar álögur leggjast á gamalmenni með ellistyrkinn, sjúklinga eða örorkufólk. Ég hef ætíð verið á móti nefsköttum í þessu formi, þar sem ekki er tekið tillit til aðstæðna, og mér finnst verkalýðshreyfingin ekki geta samþ. fyrir sitt leyti slíkar álögur. Slíkt hefur líka ætíð verið afstaða Alþfl. á liðnum árum.“

Ég ítreka þessa spurningu mína: Hafa þessar álögur, eins og þær eru lagðar hérna fyrir Alþ., verið samþ. í miðstjórn Alþfl.?

Ég hafði mikið gaman af því, þegar hæstv. viðskmrh. fór að tala um tölur. Um leið og hann fer að tala um tölur, verða öll vandamál svo yndislega einföld og auðskilin. Með svo sem tveimur tölum getur hæstv. ráðh. sannað svo til hvað sem er. Og hann hefur alveg sérstakt dálæti á meðaltölum. Í gær bjó hann t.d. til einn meðaltalsmann úr öllum verkamönnum og öllum iðnaðarmönnum á Íslandi. Og þennan meðaltalsmann lét hann hafa í kaup vegið meðaltal af öllum hugsanlegum kauptöxtum í dagvinnu, eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu að meðtalinni styttingu vinnutíma og lengingu orlofs. Og síðan sannaði hæstv. ráðh., að þessi meðaltalsmaður með meðaltalskaupið hefði notið svo og svo mikillar hækkunar á kaupmætti tímakaupsins og áhrifin af aðgerðunum nú yrðu svo og svo lítil. Ekki skal ég draga í efa, að reikningslistir af þessu tagi geti gefið vissar upplýsingar, ef menn halda sig innan þeirra marka, sem heimilt er, og draga ekki af þeim of víðtækar ályktanir.

Ég ætlaði mér að segja hæstv. ráðh. sögu af manni, sem trúði of fast á meðaltal. Það var hagfróður maður og átti heima í Svíþjóð. Einhverju sinni fór hann í gönguferð um hérað, sem hann þekkti ekki og hafði tekið með sér ferðabók til þess að rata. Hann kom að löngu vatni og mjóu og sá, að hann þurfti að taka á sig mikinn krók, ef hann fylgdi bakkanum. Hann tók því upp ferðabókina og gáði í hana og sjá, þar stóð skýrum stöfum, að vatnið væri aðeins 20 cm djúpt að meðaltali. Ferðalangurinn var alls hugar feginn, hoppaði fram af bakkanum, sökk á bólakaf og hefur ekki sézt síðan. Samt er ekkert vafamál, að talan í ferðabókinni var nákvæmlega rétt, vatnið var aðeins 20 cm djúpt að meðaltali.

Haldi hæstv. ráðh. áfram að trúa í blindni á meðaltöl og draga jafnvíðtækar ályktanir af meðaltölum sínum og hann gerði hér í gær, óttast ég, að illa kunni að fara fyrir honum í þeim langdregna stöðupolli, sem nefnist íslenzk pólitík.

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýr og málefnaleg svör við fsp. mínum og aths. Ég hefði samt viljað fá meira að vita um nýju vísitöluna. Hæstv. ráðh. greindi aðeins frá því, hvernig hún hefði breytzt frá 1. febr. 1966 til 1. maí í ár. Eins og ég gat um í ræðu minni í gær, var mér forvitni á að vita, hvernig hún hefði breytzt á hinu svokallaða verðstöðvunartímabili. Það hefði gefið nokkra vísbendingu um það, að hve miklu leyti þar var um sýndarleik að ræða, eins og ég rakti nokkuð í ræðu minni í gær. En væntanlega greinir hæstv. ráðh. frá þessum staðreyndum, þegar búið er að reikna vísitöluna lengra fram en til maímánaðar í ár.

Mér þótti býsna fróðlegt að heyra hæstv. ráðh. greina frá því, að niðurgreiðslur hefðu orðið óframkvæmanlegar með öllu, ef nýja vísitalan hefði verið í gildi. Það kostaði á annað hundrað millj. að greiða niður hvert vísitölustig samkv. henni. Þar sem vísitölurnar tvær hafa breytzt ámóta mikið að undanförnu, hefði hin svokallaða verðstöðvun kostað nær milljarð kr. í stað þeirra 410 millj., sem ríkisstj. komst af með samkv. gömlu vísitölunni. Þau 33 stig, sem ríkisstj. borgaði niður til skamms tíma, kostuðu ríkisstj. 950 millj. kr. á ári samkv. gömlu vísitölunni. Samkv. þeirri nýju hefði það kostað á þriðja milljarð kr. Þessar staðreyndir sýna, að það er sízt ofmælt, sem ég sagði í ræðu minni um niðurgreiðslurnar og hvernig þær hafa verið vísvitandi notaðar til þess að skekkja myndina af raunverulegum kaupmætti launa. Ég vil taka það skýrt fram, að það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., þegar hann telur, að ég hafi gagnrýnt þá till., að nýja vísitalan verði tekin upp. Ég tel hana miklum mun nákvæmari og réttari mælikvarða en þá gömlu, þótt það sé vissulega rétt hjá hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni, að hitt er álitamál, hvernig ber að hafa grundvöll kaupgjaldsvísitölu. Hitt gagnrýndi ég og gagnrýni enn, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að vitna í gömlu vísitöluna, þegar hún greinir frá því, hvað niðurgreiðslurnar hafi haft mikil áhrif, en í nýju vísitöluna, þegar hún þarf að sanna, hvað afnám niðurgreiðslna hafi lítil áhrif. Þar er um að ræða gersamlega ósæmilegar talnablekkingar.

Hæstv. fjmrh. staðfesti frásagnir mínar um starfsemi skattrannsóknadeildar og vanda þeirrar stofnunar, eftir að forstöðumaðurinn og þrír samverkamenn hans sögðu upp störfum sínum á þessu ári. Mér var sízt í huga að væna hæstv. ráðh. um það, að hann hefði brugðið fæti fyrir starfsemi þeirrar stofnunar. En þótt hæstv. ráðh. sé röggsamur húsbóndi í rn. sínu, er hann ekki einn um hituna. Hæstv. ráðh. hefur vafalaust spurnir af því ekki síður en ég, að háð hefur verið langvinn og harðvítug barátta gegn starfsemi skattrannsóknadeildar af valdamiklum aðilum í þjóðfélaginu, aðilum, sem hafa mikil áhrif, ekki sízt innan Sjálfstfl., einmitt þeim, sem mest óttast starfsemi þeirrar stofnunar. Það er meira að segja talið, að ólgan meðal fésýslumanna út af þessu máli hafi verið ein af ástæðunum til þess, að fyrirrennari hæstv. ráðh. Magnúsar Jónssonar valdi sér hægari sess úti í Kaupmannahöfn. Hæstv. ráðh. gat ekki heldur komið með neina skýringu á því, hvers vegna hinn dugmikli forstöðumaður deildarinnar hætti störfum þrátt fyrir þrábeiðni ráðh., aðra en þá, að verkefnið væri erfitt og óvinsælt í svona litlu þjóðfélagi. Virðast mér þau ummæli hæstv. ráðh. vera staðfesting á því, að forstöðumaðurinn hafi orðið fyrir svo miklum örðugleikum í starfi sínu, að hann hafi talið aðstöðu sína algerlega óviðunandi. Ég tel það mikið alvörumál, að svo hefur til tekizt, einmitt vegna þess að hinar takmörkuðu rannsóknir, sem deildin hefur framkvæmt allt til þessa, eru óræk staðfesting þess, hversu stórfelld skattsvikin eru. Ég staðhæfði í ræðu minni í gær, að þar væri um að ræða upphæðir, sem nema mörgum hundruðum millj. kr. á ári, og hæstv. fjmrh. vefengdi ekki þá niðurstöðu. En þá er mér spurn: Er það nokkur hemja að ætla með stórfelldum álögum á hversdagslegustu matvæli launafólks að hirða þær upphæðir sem forréttindamenn ræna undan skatti? Er ekki einsætt, að hæstv. ríkisstj. ber að tryggja skattrannsóknadeildinni aukinn liðskost og stórbætta vinnuaðstöðu til þess að innheimta þær fjárfúlgur, sem þegar hafa verið lagðar á, jafnframt því sem gerðar væru þær lagabreytingar, sem gera söluskattsþjófnað óframkvæmanlegan.

Í lok ræðu sinnar í gær vék hæstv. fjmrh. nokkrum orðum að þeim almennu sjónarmiðum, sem borið hefur á góma í þessum umr., og spurði m. a., hvar gróðann væri að finna, þar sem kunnugt væri, að atvinnurekendur og launamenn kvörtuðu hvorir í kapp við aðra. En því fer mjög fjarri, að allir hafi haft ástæðu til þess að kvarta eða hafi kvartað á Íslandi á undanförnum árum. Ég hlustaði til að mynda ekki alls fyrir löngu á viðtal við mjög kunnan kaupsýslumann í ríkisútvarpinu, þar sem hann greindi frá því sérstaklega, hversu ánægjulegt hefði verið að starfrækja þvílíkan atvinnurekstur á Íslandi á undanförnum árum, þá hefði verið gullöld og gleðitíð. Um það atriði er raunin ólygnust, verzlunarhallirnar miklu, sem risið hafa hver annarri veglegri í höfuðborginni og dregið til sín hundruð og aftur hundruð millj. kr. Þar er um að ræða óvefengjanlega gróðasöfnun, sem hæstv. ríkisstj. hefur samt engan hug á að skattleggja. Samt er hin þjóðfélagslega sóun í þessum atvinnurekstri vafalaust miklum mun meiri. Þar er um að ræða óhemjulega yfirfjárfestingu og stórfellda sóun á vinnuafli. Þar er haldið uppi kerfi, sem er margfalt kostnaðarsamara en það þyrfti að vera. Hæstv. viðskmrh. hefur greint frá því, hvernig verzlun og kaupsýsla og bólgin bankastarfsemi hafa á undanförnum árum dregið til sín stærstan hlut af vinnuafli þjóðarinnar. Ríkisstj., sem leyfir sér að nefna framleiðni í sambandi við þær ráðstafanir, sem hér eru til umr., hefði sannarlega átt að beina athygli sinni að sóuninni og framleiðniskortinum í hvers kyns þjónustustarfsemi og verzlun. Þar fara auk gróða einstakra aðila í súginn árlega verðmæti, sem nema vafalaust mun hærri upphæðum en sú fúlga, sem hæstv. ríkisstj. telur sig þurfa til þess að jafna halla fjárlaganna.