18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði í rauninni ekki ætlað að taka til máls aftur við þessa umr., því að ég geri ráð fyrir því, að nægileg tækifæri gefist síðar til þess að ræða þau efni, sem hér hefur borið á góma, síðar á hv. Alþ., hvað sem verður nú um meðferð þessa frv. En það var þó örfátt í ræðu hæstv. dómsmrh., sem gefur mér tilefni til að segja fáein orð. Mér fannst ræða hans vera mjög óvönduð, því að hann gerði mér upp ýmislegt, sem ég hafði alls ekki sagt, og svaraði því, og við þann málflutning kann ég afar illa. Mér finnst, að slíkt ætti ekki að eiga sér stað. M. a. sagði hæstv. ráðh., að ég hefði sagt, að vandinn væri enginn og ekkert þyrfti að gera. Þetta eru alger öfugmæli. Ég hef þvert á móti lagt áherzlu á, að vandinn væri mikill og margt þyrfti að gera, og ætla ekki að fara að endurtaka það hér, sem ég hef áður sagt um það efni, en aðeins leiðrétta þessa rangfærslu hjá hæstv. ráðh.

Það var auðheyrt, að hæstv. ráðh. var heldur illa við þau dæmi, sem ég hafði fært fram til þess að sýna, að lánastefna ríkisstj. væri mjög óheppileg fyrir atvinnulífið. Ég nefndi nokkur dæmi, og hann minntist á tvö þeirra, sem hann taldi mjög illa valin, og hann sagði raunar, að það, sem ég hefði haft eftir tímariti iðnaðarmanna um málefni Bílasmiðjunnar væri marklaust, og ég held, að hann hafi kallað það fleipur. Mér finnst þetta mjög harður dómur um þetta tímarit iðnaðarmanna, og ég trúi því ekki, að það eigi skilið þennan vitnisburð frá iðnmrh., ég trúi því ekki. Það, sem ég upplýsti, var úr þessu riti, sem sé um það, að umrætt fyrirtæki hefði lagt í stofnkostnað upp á 15.3 millj. kr., en eina lánið, sem það hefði fengið í þessu skyni, hefði verið 2½ millj. Ráðh. mótmælti þessu í raun og veru ekki, en sagði aðeins, að ritið færi með fleipur.

Ráðh. gaf í skyn, að ég hefði talað um eymdarfyrirtæki. Þetta er hreinasta fjarstæða og undur, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að viðhafa slík orð. Ég sagði ekkert í þá átt. Ég ýjaði ekki í þá átt að gera lítið úr fyrirtækinu, heldur þvert á móti, enda er mér vel kunnugt um það, þó að hæstv. ráðh. haldi, að ég kunni ekki deili á því, að hér er um mjög myndarlegt fyrirtæki að ræða.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að einmitt þetta fyrirtæki hafði þurft að leita til sjálfrar ríkisstj. til þess að koma viðskiptum sínum áleiðis. Hvað sannar þetta? Það sannar það, sem ég sagði, að sú almenna lánastefna er þannig, leikur fyrirtækin þannig, að ef þau eiga að koma viðskiptum sínum eitthvað verulega áleiðis, verða þau að leita sérstaklega til yfirvaldanna. Þetta er einmitt ein sönnun enn fyrir því, að það er rétt, sem ég hef haldið fram, að þessi málefni þyrfti að endurskoða frá rótum í öllum aðalgreinum, vegna þess að það er ekki aðeins þetta fyrirtæki, sem þyrfti á sérstakri fyrirgreiðslu ríkisstj. að halda til þess að sjá málum sínum borgið, heldur eru þau mýmörg. En þetta fyrirtæki virðist hafa átt því láni að fagna að fá sérstaka fyrirgreiðslu, sem öðrum fyrirtækjum er ekki veitt, og þetta sýnir, að það var réttmætt, sem ég benti á. En þetta hefur gerzt síðan tímarit iðnaðarmanna gerði þessi mál að umræðuefni.

Alveg það sama er að segja um stálskipasmíðina. Það, sem ég sagði um hana, var upp úr þessu sama riti, og ég efast ekkert um, að það er alveg rétt, enda kom það fram hjá hæstv. ráðh., að þar hefur þurft á sérstakri meðferð að halda, til þess að málefni þessa iðnaðar gætu fengið nokkra þróun. Og það stendur vitanlega alveg ómótmælt, sem þeir lögðu áherzlu á í þessari grein og ég benti á, að það yrði að gera ráðstafanir til þess að stórauka lánsfyrirgreiðslu þessara stöðva með lægri vöxtum og betri kjörum en nú eru í boði, ef vel ætti að fara.

Hæstv. ráðh. minntist á þriðja atriðið og gerði það á þann hátt, að það er dálítið táknrænt einmitt fyrir það, sem ég tel, að eigi mikinn þátt í því, hversu ömurlega hefur gengið, og það var um stöðlunina. Hann gerði eiginlega grín að stöðluninni, hafði hana í flimtingum og það starf, sem að því lýtur. Hann sagði, að það væri undarlegt, að ég skyldi gera mikið úr þessu, því að það, sem hér hefði skeð, væri það, að það hefði tafizt að gefa út fyrirmæli um lestur prófarka og stærð á umslögum, og manni heyrðist á hæstv. ráðh., að það væri svo sem ekki skaði skeður, þó að einhver dráttur yrði á slíku, og bæri ekki neinn sérstakan vott um lélega stjórn á málefnum iðnaðarins eða á grundvallarmálum atvinnulífsins.

Þannig talaði hæstv. ráðh. um þetta, og þetta heyrðu hv. þm. í dag, hvernig hann tekur á þessu. En hvað var það, sem ég upplýsti? Var það þetta? Ég leyfi mér að benda á það aftur, hvað það var, sem ég upplýsti. Ég upplýsti, að forstöðumaður þessarar stofnunar, sem heyrir undir rn. þessa hæstv. ráðh., segir, að stöðlun hafi torveldazt mjög, og hann segir: „Virðist ekki úr vegi að skýra á þessum vettvangi frá orsökinni. Hún er einfaldlega sú, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekizt að ráða verkfræðinga til stofnunarinnar á þeim launakjörum, sem tilskilin eru samkv. launastiga opinberra starfsmanna, til þess að helga sig stöðlunarmálunum. Hefur staðið við svo búið síðan á miðju ári 1961, en þá neyddist stofnunin til að leggja á hilluna allmörg verkefni, sem að var unnið um þær mundir, öll á sviði byggingariðnaðar.“ Og síðan segir þessi forstöðumaður þessarar stofnunar: „Hvort tjón hlýzt af drætti og seinagangi stöðlunar, má e. t. v. meta út frá þeirri forsendu, að Þjóðverjar telja, að stöðlun í byggingariðnaði geti haft í för með sér allt að 40% sparnað.“

Þetta segir forstöðumaður þessarar ríkisstofnunar, sem heyrir undir ráðh. En hann kemur hér, hæstv. ráðh., og hefur störf þessarar stofnunar í flimtingum og segir að efni til, að það sé ekki svo sem mikill skaði skeður, þó að það hafi dregizt eitthvað að ákveða pappírsstærðir og fyrirkomulag prófarkalesturs. Þetta er kannske ekki svo lítið dæmi um, hvernig hlýtur að fara, þegar þeir, sem með stjórn þessara mála fara, hugsa eins og hæstv. ráðh. gerir og sést á því sem hann lætur sér nú um munn fara. Hér er þó sannarlega ekki um neitt smámál að ræða, og myndarskapurinn er þessi, að það hefur ekki tekizt að leysa úr því síðan 1961 að fá sérfróðan starfsmann að stofnuninni. En verkefnið segir sjálfur forstöðumaðurinn, að sé þannig, að Þjóðverjar telji, að í byggingariðnaðinum geti það, ef vel tekst, munað allt að 40% af byggingarkostnaði, en byggingarkostnaður á Íslandi er eitthvert erfiðasta vandamál þjóðarinnar. En ráðh., sem á að sjá um þessi mál, kemur hér og talar eins og hann gerði í dag. Þetta mundi ég leyfa mér að kalla hneyksli.

Ég skal svo ekki framlengja hér þær almennu umr., sem hafa orðið um þetta frv. Ég vil aðeins benda á eitt enn, sem hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. öllum, og það er þetta, að verðbólgan hér stafi af því, að þjóðartekjunum hafi verið dreift, eins og menn sjá á því, að kaupgjald hafi hækkað mikið umfram framleiðslukostnað. Sannleikurinn er á hinn bóginn sá, og það er auðvitað aðalatriði þessa máls, að ef við lítum í nálæg lönd, hefur kaupmáttur tímakaups þar áreiðanlega vaxið meira en hér hjá okkur. En verðlag hefur hækkað miklu minna í þessum löndum og framleiðslukostnaður. Kaupmáttur tímakaups hefur sem sé áreiðanlega vaxið miklu meira. Þetta er vegna þess, að í þessum löndum hefur verið minni verðbólga og því meiri dreifing þjóðartekna eu hér til almennings. Auðvitað er það ekki leiðin til þess að dreifa þjóðartekjunum að magna verðbólgu. Meginhlutinn af þeim framleiðslukostnaðarhækkunum, sem orðið hafa hér og hækkuðum launum í krónutölu er vegna verðbólgunnar. En raunverulegur vöxtur tímakaupsins er mjög lítill, raunveruleg aukning kaupmáttar tímakaupsins er mjög lítil. Ef stjórninni hefði tekizt það, sem hún sagðist ætla sér, þegar hún tók við, að koma hér á stöðugu verðlagi, því að það var hennar fyrsta boðorð, og að stöðva verðbólguna, hefði tímakaup hér ekki þurft að hækka neitt í áttina við það, sem orðið hefur að krónutali, til þess að dreifa þjóðartekjunum skynsamlega. Meginhlutinn af hækkuninni á kaupinu hér er því vegna verðbólgunnar, afleiðing af verðbólgunni. Þetta sýnir, að bezti grundvöllurinn til dreifingar á þjóðartekjunum, er sá, að hafa hemil á verðbólguþróun og kaupið geti hækkað nokkuð jöfnum skrefum. Það er þetta, sem gerzt hefur víða í kringum okkur, en hér hefur þeim mistekizt algerlega. Þetta snýr því alveg öfugt við það, sem hæstv. ráðh. vilja vera láta.