14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2299)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur við 1. umr. þessa máls gert allýtarlega grein fyrir skoðunum sínum á því efnahagsástandi, sem nú er ríkjandi í landinu. En það er ekki aðeins, að hæstv. ríkisstj. hafi gert það við þessa umr. Málgögn hennar hafa flutt þann boðskap alllengi að undanförnu, vikum og mánuðum saman, nema bara í vor í kosningunum. Þá var það ekki þessi túlkun á efnahagsmálunum, sem þjóðin fékk að heyra. Þá var það allt annað. Þá voru lesnar fyrir þjóðinni, alveg eins og lesið er upp úr blárri bók, lýsingarnar á hagsældinni, góðu lífskjörunum, verðstöðvuninni, gjaldeyrisvarasjóðnum og svo trausta og örugga grundvellinum undir atvinnulífi þjóðarinnar. Svo þegar hæfilegur tími var liðinn frá kosningunum, var blaðinu flett við, eins og gengur og gerist, þegar menn lesa og farið að lesa hinum megin. En þar stóð allt annað. Þar stóð þetta, sem við heyrum núna um efnahagsástandið.

Innihaldið í túlkun hæstv. ríkisstj. nú er í fáum orðum þetta: Aflabrestur og verðhrun á helztu útflutningsvörum sjávarútvegsins hafa skapað neyðarástand í landinu. Leita verður aftur til 1931 og áranna þar á eftir til þess að finna tímabil, sem sé sambærilegt yfirstandandi tímabili um efnahagserfiðleika. Verkamenn, sjómenn og launamenn yfirleitt hafa fengið meiri hlut af aukningu þjóðarteknanna en aðrir. Og þess vegna verður nú að skera niður lífskjörin með þeirri tillögu hæstv. ríkisstj. að leggja um 750–800 millj. kr. byrðar á landsfólkið bótalaust, þ.e.a.s., það á að afnema verðtryggingu launa, slíta vísitölu kaupgjalds úr sambandi við vísitölu verðlags. Þetta held ég, að að nokkurn veginn aðalinntakið í túlkun hæstv. ríkisstj. á efnahagsástandinu, eins og það er nú.

Nú hefur hæstv. forsrh. (ég ætla, að það hafi verið bann) lagt nokkra áherzlu á, að það sé nauðsynlegt að gera sér sem allra bezta grein fyrir, af hverju þetta ástand stafar. Ég er honum sammála um það. Það er full ástæða til þess. Ef ástæðurnar eru þær, að við getum eitthvað ráðið við þær, á náttúrlega þjóðin að gera það. Ef ástæðurnar eru hins vegar utan að komandi, sem við ráðum ekki við, er erfitt um vik fyrir okkur. En mér skilst þó, að hæstv. ríkisstj. sé búin að gera sér grein fyrir þessu, eiginlega alveg út í æsar. Að hennar dómi eru ástæðurnar tvenns konar. Það er annars vegar aflabresturinn og verðhrunið, en það er hins vegar of há laun í landinu og þau verða þess vegna að lækka, enda er verið að því núna.

Ég vil sérstaklega gera það að umtalsefni, sem hæstv. forsrh. lagði áherzlu á: Af hverju stafa þessir erfiðleikar? Það er fyrsta skilyrðið til þess að geta brugðizt rétt við á eftir. Þessar byrðar, sem nú á að leggja á þjóðina, um 750–800 millj. kr. á einu ári, eru allþungar byrðar. En það, sem er þó einna merkilegast við þetta frv., er, að það á ekki að gera þetta til þess að veita aukinn stuðning atvinnuvegunum, þó að nú eigi að leggja um 19–20 þús. kr. byrðar að meðaltali á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, það á ekki að vera til þess. Þetta er þó að mínum dómi bara fyrsti áfangi, — fyrri áfangi skulum við segja, kannske fyrsti áfangi í þeim ráðstöfunum, sem þarf að gera. Við eigum væntanlega von á öðrum áfanga, áður en langt um líður, þegar loks verður farið að snúa sér að atvinnuvegunum. Hversu miklar byrðar þá verða lagðar á þjóðina til viðbótar þeim, sem nú eru ráðgerðar, um það skal ég engu spá.

Hæstv. ríkisstj. telur, að ein meginástæðan fyrir ástandinu í efnahagsmálum nú sé m.a. aflabrestur. Mér dettur í hug afgreiðsla fjárl. í fyrra. Þá voru stórauknar alls konar uppbætur og niðurgreiðslur fyrir næsta ár, svo að heildarupphæð þeirra var áætluð um 1700–1800 millj. á árinu 1967. Var það vegna aflabrests? Nei, það held ég ekki. Það var enginn aflabrestur orðinn í fyrra. Og þó að hæstv. ríkisstj. sé vitur, hefur hún varla séð það fyrir í desember í fyrra, hvernig mundi aflast 1967. Ekki hafa þær ráðstafanir verið til þess að mæta aflabresti, svo að eitthvað hefur nú bjátað á, áður en aflabresturinn kom til.

Það er öllum ljóst, að aflabrestur hefur orðið á þessu ári, og hann hefur sínar afleiðingar. En þetta er engin nýjung í atvinnulífi Íslendinga, að fiskafli gangi í bylgjum. Það hefur svo verið frá fyrstu tíð, og það mun verða svo áfram. Ég vil nefna sem dæmi, að 1935 var fiskafli landsmanna 16% minni en árið áður, 1941 var fiskaflinn 25% minni en árið áður, 1945 var fiskaflinn 34% minni en árið áður. Svona hafa bylgjurnar gengið. Samt gerðist ekkert neyðarástand í þjóðfélaginu á þessum árum, ekkert hallæri. Þá kom engin till. fram um það að skera niður lífskjörin, og engum held ég, að hafi dottið þá í hug að leggja 19–20 þús. kr. byrðar á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Hæstv. ríkisstj. telur, að það þurfi að leita aftur til 1931 og áranna þar á eftir til þess að fá sambærilegt ástand og nú er í efnahagsmálunum. Það er sjálfsagt farið að fyrnast sitt af hverju, sem gerðist á þessum kreppuárum, 1931 og þar á eftir, fyrir mönnum, þó man ég nú ýmislegt frá þessum tímum, eins og eðlilegt er.

Hvernig voru aflabrögðin þá borið saman við nú? Þetta eiga að vera sambærilegir tímar. Á 8 árum, 1931–1938, var fiskaflinn á ári að meðaltali 351 þús. smál. Hann var minnstur á árinu 1936 301 þús. smál., en mestur á árinu 1933 398 þús. smál., og meðaltalið á þessu 8 ára tímabili, þessu sambærilega tímabili, sem nú er, er 351 þús. smál. Hvernig eru þá aflabrögðin á yfirstandandi tímabili? Við skulum taka 8 ár líka, 1959–1966. Fiskaflinn á ári hverju að meðaltali er þessi 8 ár ekki 351 þús. smál., heldur 872 þús. smál. Minnstur varð fiskaflinn á þessu tímabili 1960, 593 þús. smál., en mestur varð hann í fyrra, 1966, 1240 þús. smál. Fiskaflinn hefur meira en tvöfaldazt síðan 1960. Ætli þetta sé sambærilegt við tímabilið 1931 og árin þar á eftir? En það er fleira að athuga um þessi tvö tímabil, sem hæstv. ríkisstj. hefur kosið sér að bera saman. Á þessum árum, fyrir meira en 30 árum, var aðalútflutningsvara sjávarútvegsins saltfiskur. Þá gerðist það, að saltfiskmarkaðir Íslendinga hrundu bókstaflega í rúst. Þá var beitt hinum furðulegustu aðferðum, m.a. til þess að reyna að selja saltfisk í Miðjarðarhafslöndum, aðferðum, sem ekki er hægt að ræða um enn í dag, — eða ætli enginn muni eftir nafninu Gismondi frá þessum árum? Er þetta sambærilegt við það, sem nú er? Hafa einhverjir markaðir hrunið hjá okkur núna? Nei, það er öðru nær. Þeir hafa aldrei verið Íslendingum jafnhagstæðir í sögu þjóðarinnar og á undanförnum árum. Ég vil nefna eitt enn í samanburði þessara tveggja tímabila. 1931 og á árunum þar á eftir geisaði heimskreppa um löndin, og hún kom sannarlega við atvinnu- og efnahagslíf Íslendinga ekki síður en annarra. Er einhver heimskreppa núna? Ég held ekki. Þegar farið er að bera saman þessi tvö tímabil, þá verð ég að segja: langt er nú seilzt til raka fyrir þessu frv.

En það er sjálfsagt að reyna að leita eftir ástæðunum fyrir því, að efnahagsástandið er svo bágborið sem það er nú. Ég held, að það verði ekki skýrt með því að bera saman þessi tvö tímabil.

Þá kem ég að öðru höfuðatriði í röksemdafærslu hæstv. ríkisstj. Það er verðhrunið á helztu útflutningsvörum sjávarútvegsins. Þar hafa orðið verðlækkanir á sumum tegundum útfluttrar vöru, tilfinnanlegar lækkanir, bæði í fyrra og á yfirstandandi ári, og það skapar erfiðleika, því er ekki að neita. En nú þurfum við ekki beinlínis á því að halda að taka bókstaflega allt, sem hæstv. ríkisstj. segir um þetta eða málgögn stjórnarflokkanna. Við höfum betri heimildir í höndunum. Við höfum verzlunarskýrslurnar, þar sem kemur mjög glögglega fram, hversu mikið verðfall hefur orðið að undanförnu. Um þetta verðhrun skal ég nefna nokkur dæmi frá 5 ára tímabili, þ.e.a.s. árunum 1961–1966. Ég skal nefna 11 helztu tegundir útfluttra sjávarafurða og verðbreytingu á þeim á þessu 5 ára tímabili. Og auðvitað er þetta upp úr verzlunarskýrslunum. Ég skal viðurkenna, að þetta er ekki upp úr Morgunblaðinu eða Alþýðublaðinu, það er bara upp úr verzlunarskýrslunum.

Ísfiskur hefur hækkað í verði um 34.8% á þessum 5 árum. Skreið hefur hækkað í verði um 36.5% á þessum 5 árum. Fryst flök hafa hækkað um 53.3%, frystar rækjur og humar um 61.9%, óverkaður saltfiskur um 70.7%, hvalkjöt og hvalmjöl um 52.4%, saltsíld, sérverkuð, um 40%, fryst síld, ísvarin, um 20%, fiskimjöl og karfamjöl um 53.6%, síldarmjöl og loðnumjöl um 31% og síldarlýsi um 28.3%. Ég vek athygli á því, að innifaldar í þessum verðhækkunum eru allar verðlækkanirnar á s.l. ári. Já, vel hefur þjóðin verið búin undir verðlækkanir að hafa notið þessara verðhækkana allra, sem ég nefndi núna, í ofanálag á aflabrögð.

En það er ekki nema hálfsögð saga, þó að nefndar séu verðhækkanir á helztu útflutningsvörum okkar, ef maður ætlar að sýna rétta mynd af efnahagsástandinu. Þar verður líka að koma til útflutningsmagnið hjá þjóðinni á þessu sama tímabili og á þessum sömu útflutningstegundum. Það er útflutningsmagnið og útflutningsverðið, sem skapar það útflutningsverðmæti, sem sýnir einna réttasta mynd af ástandinu.

En hvernig hefur þá útflutningsverðmæti helztu sjávarafurða breytzt á þessum undanförnu árum, frá 1961–1966? Ég skal taka þessar sömu tegundir, sem ég nefndi. Ísfiskur hefur lækkað í útflutningsverðmæti á þessum 5 árum um 26,7%. Það er samdrátturinn í togaraútgerðinni, sem fyrst og fremst segir þarna til sín. Skreið aftur á móti hefur hækkað í útflutningsverðmæti á þessum árum um 11.8%, fryst flök hafa hækkað um 49.4%, frystar rækjur og humar um 307.6%, óverkaður saltfiskur um 43%, hvalmjöl og hvalkjöt um 30.6%, saltsíld, sérverkuð, um 70.4%, fryst síld, ísvarin, um 134.2%, fiskimjöl og karfamjöl hefur lækkað í verðmæti um 2.3%, síldarmjöl og loðnumjöl hefur hækkað að útflutningsverðmæti um 428.7% og síldarlýsi hefur hækkað um 548.7%.

Þannig er þá myndin af útflutningsverðmætinu á undanförnum 5 árum. Já, vel ætti þjóðin að vera undir það búin að þola einhverja rýrnun á verði og einhverja rýrnun á aflabrögðum. Nú er auðvitað hægt að svara því til, að þó að þetta sé allt rétt, þá afsanni það ekki neitt um verðhrunið, sem nú hefur orðið, af því að verðhrunið hafi orðið á árinu 1967. Það getur að vísu enginn sagt um það nú, hvert endanlegt útflutningsverð verður á sjávarútvegsvörum á þessu ári, á meðan árið er ekki liðið, ekki frekar en um aflabrögðin. En við getum þó borið verðið á fyrra helmingi þessa árs t.d. saman við það meðalverð, sem verið hefur á undanförnum árum, því að ef á að meta rétt verðhækkanir og verðlækkanir eða aflabrest og aflaaukningu, þá skiptir miklu máli, við hvað er miðað. Á að bera aflabrestinn saman við það ár, þegar fiskafli hefur orðið langmestur í sögu þjóðarinnar? Á að bera verðlagið, eins og það er fyrri helming þessa árs, saman við verð eins og það hefur hæst orðið nokkru sinni fyrr? Er nú ekki öllu réttari mynd að bera þetta hvort tveggja saman við það, sem verið hefur að meðaltali nokkur undanfarin ár? Mundu nokkur kalla það neyðarástand, við skulum segja hjá bónda, sem heyjaði eitt árið álíka mikið og hann hefði heyjað undanfarin 5–6 ár eða ef búsafurðirnar væru álíka miklar og þær hefðu verið á undanförnum árum? Mundi nokkurt hallæri vera hjá útgerðarmanni, ef afkoma fiskiskipa hans væri mjög svipuð og hún hefði verið á undanförnum árum, sérstaklega ef það hafa nú verið einhver uppgripaár? Það skiptir ekki svo litlu máli. En ég skal bera saman þessar sömu tegundir útfluttra sjávarafurða, sem ég nefndi, — bera saman verðið á þeim á fyrri helmingi yfirstandandi árs við það, sem verið hefur á þeim að meðaltali 1961–1966.

Ísfiskur er 10.4% hærri í verði á fyrri helmingi yfirstandandi árs en hann var að meðaltali undanfarin 5 ár. Skreið er 3.5% hærri. Fryst flök, sem verðhrunið hefur víst komið mjög við, eru 10.2% hærri fyrri helming þessa árs en var að meðaltali undanfarin 5 ár, frystar rækjur og humar 8,9% hærri, óverkaður saltfiskur 30.8% hærri, hvalkjöt og hvalmjöl 35.2% hærri, saltsíld, sérverkuð, 14% hærri, fryst síld, ísvarin, 9.9% hærri, fiskimjöl og karfamjöl 2.3% hærra, en síldarmjöl og loðnumjöl 0.5% lægra, — þarna er verðhrun, 0.5% lægra á fyrri helmingi þessa árs en að meðaltali á þessum 5 s.l. árum, — og síldarlýsið 2.2% lægra. Þannig held ég að ég hafi gert sæmilega grein fyrir, hversu mikið þetta verðhrun er á helztu útflutningsvörum sjávarafurða. Þrátt fyrir það endurtek ég það, að þær valda verulegum erfiðleikum, þessar verðlækkanir. Það gera þær, þrátt fyrir góðærið að undanförnu, þrátt fyrir það, að þjóðin hefði átt að vera það sterk að geta þolað þetta, því að annað eins hefur hún orðið að þola hér áður.

Eins og kemur fram í þessu yfirliti, sem hér hefur verið gert, eru það 9 tegundir útfluttra sjávarafurða af þeim 11 tegundum, sem ég nefndi, sem eru í hærra verði, sumar í miklu hærra verði á fyrri helmingi yfirstandandi árs en þær hafa verið að meðaltali á undanförnum 5 uppgripaárum. Ein tegundin er ½% lægri og önnur rúmlega 2% lægri. Þetta er þá verðhrunið. Þetta er neyðarástandið, sem frv. er rökstutt með. Ég held, að þetta sýni það, að sveiflurnar, sem nú hafa orðið bæði í aflabrögðum og verðlagi, séu sízt meiri enn sem komið er en stundum hafa gerzt áður fyrr, án þess að valda nokkru neyðarástandi.

En hvernig er þá ástatt hjá helztu atvinnuvegunum núna? Það er víst ekki nein ástæða til að draga fjöður yfir það, að það er alvarlegt, þrátt fyrir undangengin ár með allri þeirra velsæld er ástandið þar alvarlegt. Fjöldamörg fyrirtæki eru að komast í greiðsluþrot. Ýmsum fiskvinnslustöðvum er búið að loka eða er í þann veginn verið að loka. Og hvernig stendur þá á þessu, að höfuðatvinnuvegir Íslendinga þola ekki meiri mótbyr en nú hefur orðið, þola mótbyrinn svo miklu lakar en áður? Ég dreg þær ályktanir af þessu, að höfuðástæðurnar geti ekki verið aflabresturinn eða verðhrun. Það hjálpar til sannarlega og veldur erfiðleikum, en það getur ekki verið höfuðástæðan. Hver er hún þá? Hæstv. ríkisstj. nefnir hana ekki, nema að því leyti sem hún víkur að því óbeint, að það sé vegna of hárra launa hjá verkafólki og launafólki. Ég held, að það þurfi ekki að vera að fara í neinar grafgötur með það, hver ástæðan er. Það veit þjóðin öll. Það er verðbólgan, sem er búin að grafa grunninn undan höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar. Þessa hlið málanna kærir hæstv. ríkisstj. sig ekki um að ræða neitt sérstaklega, ekki a. m. k. ótilneydd. Þó hefur það komið fyrir, að hún hefur ekki komizt hjá því að minnast á verðbólgu. Ég minnist þess, að hæstv. dómsmrh. drap á það við 1. umr. þessa máls, að verðbólgan hefði verið svo mikil á vinstristjórnarárunum t.d., að hún hefði vaxið á 2 mánuðum, bara í júnímánuði og nóvembermánuði 1958, um 35.5%. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn ræðu minni, þegar kaffihlé var gert, að ég ræddi verðbólguna, áhrif hennar á efnahagsmálin, en jafnframt drap ég á það, að hæstv. ríkisstj. ræddi ekki svo mjög um verðbólgu ótilneydd, þótt það hafi komið einstöku sinnum fyrir. En áður en ég vík að því nánar, þykir mér rétt að benda á upphaf nál. meiri hl. hv. fjhn., sem ég kalla æði merkilegt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú stefna í efnahagsmálum, sem fylgt hefur verið frá upphafi stjórnarsamstarfs Alþfl. og Sjálfstfl. 1959, hefur leitt til þess, að vöxtur þjóðarframleiðslu og þjóðartekna hefur verið mjög ör.“

Það er þá stefnan, sem hefur gert það að verkum, að þjóðartekjur og þjóðarframleiðsla hafa vaxið. Það kalla ég enga slaka stefnu, þegar hún getur þetta. Nú vita allir, að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa skapazt af aflabrögðum og háu verðlagi erlendis. En þarna segir, að stefnan hafi komið þessu til leiðar. Mikil dásamleg stefna er þetta! Hún ræður þá við aflabrögðin, stefnan, og hún ræður við verðlagið! Hún bara færir okkur aflann, og hún færir okkur verðlagið! Ef þetta er svona, af hverju er stefnan þá að kippa að sér hendinni með þetta? Af hverju halda þeir ekki bara áfram að láta stefnuna færa okkur þetta, fyrst hún hefur gert það undanfarið?

Ég vék að því, að hæstv. dómsmrh. sagði í ræðu sinni við 1. umr. þessa máls, að verðbólgan á vinstristjórnarárunum hefði vaxið svo t.d., að í júnímánuði og í nóvembermánuði 1958 hafi hún vaxið um 35.5%. (Dómsmrh.: Á ársgrundvelli.) Á hvað? Já, á ársgrundvelli. Nú höfum við í höndunum viðunandi upplýsingar um þetta, þar sem við höfum Hagtíðindin með vísitölu verðlagsins frá þessum árum. Hvað segja þau? Þau segja, að 1. júní 1958 er verðlagsvísitalan 193 stig, en 1. júlí, mánuði seinna, er hún 199 stig. Hún hefur þá hækkað í þessum júnímánuði um 6 stig eða 3.1%. Þá kemur hinn mánuðurinn. Þessi vísitala var 1. nóv. 1958 219 stig, en 1. des. 220 stig. Hún hækkaði í þeim mánuði um 1 stig. Þarna eru þeir komnir, þessir 2 mánuðir, þar sem hækkunin átti að hafa verið. Þessi hækkun í nóv. nemur þá 0.45% eða í þessum tveimur mánuðum til samans 3.55%. Ég sé enga skýringu á þessu dæmi hjá hæstv. ráðh., aðra en þá, að hann hafi bara sett kommuna á vitlausan stað í dæminu. Hann hefur fengið út 355, skellir kommunni fyrir framan aftasta stafinn og fær þannig út 35.5%, en átti að vera 3.55%. (Dómsmrh.: Ég sagði aldrei þetta. Ég sagði, að vísitalan hefði vaxið um 35% á ársgrundvelli.) Ég gætti nú að þessu í ræðunni og þar stendur, að í júnímánuði og í nóvembermánuði 1958 hafi verðbólgan vaxið þetta? (Dómsmrh.: Á ársfjórðungi.) Á ársfjórðungi? (Dómsmrh.: Já.) Það er alveg sama. Það er í þessum tveimur mánuðum. Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur ekki verið að reikna rangt vísvitandi, en það getur komið fyrir á beztu heimilum, að menn setji kommur vitlaust. Já, það eru 3.55%, þessi 35.5%.

Verðbólgustefnan hefur nú fengið að drottna, eins og menn vita, og hún hefur komið mörgum fésýslumanninum frekar vel, mönnum, sem hafa ýmiss konar höndlun með höndum, því er ekki að neita. En þessi stefna er ákaflega dýr, og hún heimtar sitt endurgjald alveg refjalaust, og nú er komið að skuldadögunum. En þá rís spurningin: Hver á að borga hlutfallslega mest? Hæstv. ríkisstj. er búin að svara þessu fyrir sig. Það er verkafólk og launafólk almennt, það á að borga brúsann, það hefur grætt svo. Og hlutfallslega verða þeir að borga mest, sem lægst hafa launin og flesta hafa að fæða og klæða, um það er ekki að villast. Og hæstv. viðskmrh. kom með mjög merkilegar tölur um gróðann hjá launafólki, eins og hér hefur verið drepið á og hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefur svo endurtekið í ræðu sinni, að kaupmáttur tímakaups hafi vaxið frá 1960–1966 um 28%. Mér er ókunnugt um, hvernig þetta hefur verið reiknað eða hver hefur reiknað þetta. Ég er hræddur um, að Efnahagsstofnunin hafi ekki gert það, því að hún hefur reiknað út kaupmátt tímakaups áður og birt opinberlega. Það er einhver ný stofnun sjálfsagt, sem hefur reiknað þetta út. Því síður veit ég hvaða stéttir eða starfshópa í þjóðfélaginu hæstv. ríkisstj. hefur tekið inn í þetta dæmi, hvort þar eru t.d. meðtaldir síldarsjómennirnir, sem höfðu mjög góðar tekjur hér á undanförnum árum, hvort þarna er blandað öllu saman, dagvinnutekjum, eftirvinnu, næturvinnu, helgidagatekjum, yfirborgunum á kaup, styttingu vinnuvikunnar o.s.frv. Það er ómögulegt að finna neitt út úr þessum tölum hæstv. ráðh., nema fá einhverja vitneskju um það, hvernig þær eru fengnar. Ég veit meira að segja ekki, nema þetta sé tekið að einhverju leyti eftir skattframtölum, tekjur manna teknar þar upp, og svo er farið að deila og deila í dagvinnutíma yfir árið, en þá gætu hreinlega verið þarna með tekjur eiginkonunnar og barnanna, því að þær koma þar oft, og þá vandast nú málið, ef svo er. En ég er ekki að segja, að þetta sé, ég veit ekkert um þetta. En eitt veit ég, að ef þetta á að heita kaupmáttur tímakaups verkafólks í dagvinnu skv. kjarasamningum, er það rangt, þá eru það blekkingar.

Eins og hv. 4. þm. Austf. sagði hér áðan, þá hafa verið birtar skýrslur um kaupmátt tímakaups og það nýlega fyrir undanfarin ár, sem reiknaður hefur verið út af kjararannsóknanefnd, og enginn ágreiningur um, að grundvöllur þess reiknings muni vera sá réttasti, sem sú nefnd telur að hægt sé að hafa. Þarna eiga hlut að máli fulltrúar atvinnurekendanna í landinu og Alþýðusamband Íslands. Þessar skýrslur sýna það, að kaupmátturinn hefur svo að segja staðið í stað yfir allt þetta tímabil. Kaupmáttur tímakaups í dagvinnu skv. kjarasamningum hjá einstaka hópum hefur aðeins vaxið, hjá öðrum staðið í stað eða aðeins lækkað. En við eigum auk þess fleiri skýrslur af þessu tagi. Með frv. einu, sem flutt hefur verið hér á Alþingi undanfarin ár, var prentað fylgiskjal, þar sem var greint frá kaupmætti tímakaups í dagvinnu skv. kjarasamningum, reiknað af Torfa Ásgeirssyni hagfræðingi Efnahagsstofnunarinnar. Þar kemur svo að segja alveg það sama út og komið hefur út hjá kjararannsóknanefnd, þó að reikningsaðferðin sé ofurlítið önnur. Þeirri skýrslu mótmælti enginn hér á hæstv. Alþingi. Og það mun enginn maður voga sér að neita því, að kaupmáttur tímakaups í dagvinnu skv. kjarasamningum hefur svo að segja staðið í stað frá 1959. En til þess að dreifa athyglinni er ágætt að blanda saman í eitt dæmi einhvers konar óvenjulegum tekjum, sem sýna alls ekki neitt tímakaup í dagvinnu skv. kjarasamningum. Ég held því, að það sé að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, ef nú á að láta þetta fólk borga verðbólgureikninginn. Það hljóta að vera einhverjir aðrir aðilar í þjóðfélaginu, sem þola það öllu betur. Og verðhækkanirnar, sem hæstv. ríkisstj. er búin að demba yfir þjóðina, eru ekkert smáræði. Verðhækkanirnar á landbúnaðarafurðunum frá því verði, sem var í septemberlok, eru t.d. þessar: Kjöt hækkar um 27%, nýmjólk um 30%, smjör um 66%, ostur um 25% og kartöflur yfir 90%. Það munar um minna. Allt eru þetta daglegar neyzluvörur manna, daglegar neyzluvörur, sem erfiðast verður fyrir þær fjölskyldur að kaupa, þar sem börnin eru flest. Og svo fylgir bann við verðlagsuppbót vegna þessara hækkana. Er nú að undra, þó að mótmælum rigni yfir ríkisstj. vegna þessara ráðstafana? Ég held, að það hafi ekki komið fram, að einn einasti aðili í landinu hafi mælt þessum ráðstöfunum bót, ekki nokkur. Ég hef ekki tekið eftir því, að nokkur einasti maður hafi opinberlega a. m. k. mælt með þessum ráðstöfunum. Útlitið er þá ekki betra en svo fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu máli en það, að hún hafi jafnvel ekki nokkurn til þess að styðja sig í þessu nema 32 hv. þm.

Ég skal ekki að öðru leyti rekja þær hækkanir, sem nú hafa verið ákveðnar eða eru ákomnar, frekar en ég hef gert. Þó ætla ég að víkja að einni aðeins, — það er verst, að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur. Hæstv. ríkisstj, hefur hækkað áfengi og tóbak í verði um 13%. Menn veita því athygli, að hækkunin á þessari vöru er ekki helmingur af því, sem mjólkin og kjötið eru látin hækka. Þetta er ekki nema fimmti parturinn af þeirri hækkun, sem sett er á smjör, og ekki nema sjöundi parturinn af hækkuninni, sem kom á kartöflur. Og hvernig ætli standi á því, að svona er farið mjög vægilega í sakirnar, þegar um áfengið er að ræða? Jú, það kom fram hérna við 1. umr. Hæstv. ríkisstj. er hrædd við, að það kynni að draga úr neyzlunni, ef það verður hækkað meira, — það kynni að draga úr neyzlunni. Hún er hins vegar ekkert hrædd við það, þó að smjör t.d. hækki um 66%, að þá dragi eitthvað úr neyzlunni, — eða þá að hún telur, að það geri miklu minna til. Það var að vísu höfð sú tylliástæða með, að ef hækkunin yrði meiri en þetta, kynni það að ýta undir smygl. Það er nú líka hægt að smygla smjöri. En ég er ákaflega hræddur um, að það verði erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að útiloka smygl með verðlaginu einu, og ef hún ætlaði sér eitthvað að draga úr smygli, þá held ég, að hún verði að lækka áfengið alveg stórkostlega í verði. Það sýnir „Ásmundarútgerðin“, sem við höfum nýlega fréttir af. Þeir menn, sem þar voru að verki, vissu væntanlega ekkert um þessa 13% hækkun, sem stóð til, hún var ekki heldur komin til, þegar þeir lögðu á hafið.

Þetta er ekki stórt atriði, það skal ég játa, en heldur er það ógeðfellt, þ.e.a.s. ekki að hækka áfengið, það var ekkert við það að athuga, en það er ógeðfellt að treysta sér ekki til að hækka það nema um lítið brot af þeim hækkunum, sem er skellt á mestu nauðsynjavörur manna.

Verðstöðvun hefur verið mjög ofarlega á baugi hjá hæstv. ríkisstj. frá því í fyrra að lögin voru um hana sett. Sérstaklega bar mikið á boðskap verðstöðvunarinnar í kosningunum í vor. Nú sýnir það sig, alveg sérstaklega núna, að þessi lög um verðstöðvunina frá í fyrra voru alveg forlátalög. Þau voru svo vel úr garði gerð, lögin, að það gerði ekkert til, þó að þau féllu úr gildi, þau verka fyrir það og jafnvel betur en áður. Það er með þessi lög dálítið líkt og ýmsa mæta menn, þeir eru ekki metnir að verðleikum fyrr en þeir eru dauðir, og lögin eru dauð. Þessi lög höfðu líka þann kost, og það er alveg sérstakt, að meðan þau voru í gildi, var hægt að demba yfir þjóðina verðhækkunum á lífsnauðsynjarnar bara eftir vild og sakaði lögin ekki nokkurn skapaðan hlut, eins og gert var í síðasta mánuði. Það eru ekki allir, sem geta samið svona lög. Í skjóli þessara laga er svo að koma á nokkurs konar verðstöðvunarlögmál í landinu, það sér maður á þessu frv. Þetta verðstöðvunarlögmál virðist vera í höfuðatriðum þannig, það skal vera verðstöðvun í níu mánuði á árinu, en verðhækkanir í þrjá. Við lifum núna þetta 3 mánaða tímabil verðhækkananna, svo fáum við 9 mánaða tímabil verðstöðvunar eftir áramótin. Þannig mun þetta vera hugsað, að það endurtaki sig á hverjum 12 mánuðum, 9 mán. tímabil og 3 mán. tímabil. Þó er ein undantekning frá þessu lögmáli. Það er, ef kosningar fara fram. Þá er reglan dálítið öðruvísi. Þá er verðstöðvun 9 mán. fyrir kosningar, 3 mán. eftir þær, svo verðhækkun 3 mán. og svo koll af kolli. Enginn veit enn þá, hvernig þetta lögmál gefst, því að það er eiginlega engin reynsla komin á þetta enn, en hún kemur sjálfsagt, áður en langt um líður.

Ég skal að lokum víkja að aðeins einum skatti í þessu frv. til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, en það er farmiðaskatturinn. Þessi skattur virðist ekki ætla að verða miklu vinsælli en verðhækkanirnar á matvælunum, eftir því sem mér hefur skilizt. Þó er þessi skattur allt annars eðlis og meinlausari, og ég ætla alls ekkert að jafna honum saman við verðhækkanir á matvælum, þó að ég telji hins vegar, að það hefði þurft að haga honum á annan veg. En í sambandi við þennan skatt, sem ég hef nokkrar áhyggjur af, finnst mér ákaflega hart til þess að vita, ef þessi skattur kynni að verða til þess að binda Flugfélagi Íslands mjög þunga bagga. En það eru mjög miklar líkur á því, að skatturinn verði til þess, að mjög dragi úr flugferðum Íslendinga til útlanda. Og ef það verður svo, bitnar það mjög á Flugfélagi Íslands, því að það hefur flutt svo að segja undantekningarlaust alla þá Íslendinga, sem flugleiðis hafa farið til nágrannalandanna í Evrópu. Verði mikill samdráttur í þessum farþegaflutningum, kemur það mjög illa við Flugfélag Íslands. Ég sagði, að ég teldi þetta allt annars eðlis og meinlausara heldur en hækkanirnar á matvælum, enda er það skiljanlegt, það geta flestir neitað sér um að fara til útlanda, þó að það sé vont að þurfa kannske að gera það, en það neitar sér enginn um að kaupa í matinn. Þrátt fyrir það, þó að sumt mæli með að leggja á skatt af þessu tagi, þá megum við ekki skaða eitt af allra merkustu og þörfustu fyrirtækjum þjóðarinnar í samgöngumálum. Flugfélag Íslands hefur af frábærum myndarskap og fyrirhyggju byggt upp flugsamgöngur, kerfi flugsamgangna innanlands, og hefur alla tíð verið tilbúið til að taka upp fastar áætlunarferðir til hinna ýmsu byggðarlaga í landinu, jafnóðum og flugvellir hafa komizt þar upp. Það er Flugfélaginu fyrst og fremst að þakka, ásamt flugvöllunum, að það hefur bókstaflega orðið bylting í flugsamgöngum okkar hér innanlands. En jafnframt þessu hefur svo Flugfélagið starfrækt utanlandsflugið með ágætum milli Íslands og Evrópulanda. Það vita allir, að innanlandsflugið er ekki gróðavegur, þar mun frekar hafa verið um tap en gróða að ræða. En utanlandsflugið ætla ég, að hafi staðið fyrst og fremst undir innanlandsfluginu. Það væri því illa farið, ef þessi skattur yrði til þess að spilla rekstrarafkomu þessa merka og ágæta fyrirtækis.

S. l. sumar keypti Flugfélag Íslands þotuna Boeing 727, einn glæsilegasta og fullkomnasta farkost, sem þjóðin á. Síðasta Alþingi samþykkti ríkisábyrgð félaginu til handa til að kaupa þotuna, og sú ríkisábyrgð var samþykkt hér á hæstv. Alþingi í einu hljóði. En þar fylgdi böggull skammrifi. Það fylgdi skilyrði þessari ríkisábyrgð. Það fylgdi það skilyrði, að þotan skyldi hafa flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli, en ekki Reykjavíkurflugvelli. Hvorki ég né aðrir gerðu athugasemdir við þetta skilyrði, þegar samþykkt var ríkisábyrgð. Ég leit svo á, að þetta skilyrði væri óhjákvæmilegt af einhverjum tækniástæðum eða öryggisástæðum, og gerði engar athugasemdir við það. Ég hef síðan kynnt mér þetta mál nokkuð, og ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að það séu ekki sjáanlegar nokkrar frambærilegar ástæður fyrir því að leggja þessa kvöð á Flugfélagið, en þessi kvöð mun nema um 10 millj. kr. aukaútgjöldum fyrir félagið á ári, og það munar um minna. Ég óska sérstaklega eftir því, að hæstv. ríkisstj. láti Alþingi í té upplýsingar um, hvers vegna þessi kvöð var lögð á félagið.

Græðir nokkur á því, að það hefur verið gert? Ég hef heyrt þá tilgátu, að Reykjavíkurflugvöllur muni ekki hafa getað fullnægt þotunni, að flugbrautirnar væru ekki nógu sterkar fyrir þotuna eða jafnvel ekki nógu langar. Þetta er hrein ímyndun. Reykjavíkurflugvöllur fullnægir þotunni algjörlega, það hef ég fengið fulla vissu um. Auk þess hefur stærsta braut flugvallarins, norður-suðurbrautin, verið endurbætt stórlega í sumar, þar hefur verið skipt um jarðveg, þar sem þess þurfti með, og nýtt slitlag lagt á alla brautina. Þetta var ekki gert vegna þotunnar, því að hún fær ekki að lenda þarna, heldur vegna hinnar almennu umferðar flugvéla um völlinn. Eftir því sem ég hef bezt fengið að vita, er það hvorki styrkleiki flugbrauta, lengd flugbrauta né nokkrar öryggisástæður, sem valda því, að þessi kvöð hefur verið á félagið lögð. Ég vil því beina því til hæstv. ríkisstj., að þetta atriði verði endurskoðað og aflétt kvöðinni á Flugfélaginu, ef mögulegt er. Og þá væri ekki síður nauðsynlegt að gera það, ef fargjaldaskatturinn á nú að koma í ofanálag, sem kynni að hnekkja afkomu þessa merka og ágæta fyrirtækis, Flugfélags Íslands. Ég vænti þess fastlega, að hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar, því að varla mun nokkur maður vilja viljandi leggja stein í götu þessa þarfa fyrirtækis.