14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ef ræða skal vandamál, verðum við að byrja á að mynda okkur raunhæfar skoðanir um hlutina, sem við ætlum að fást við, því að annars verður vandinn ekki leystur. Ástandið er þannig í dag, að yfirvinna hefur minnkað hjá launþegum yfirleitt og yfirborganir hafa að mestu leyti horfið. Sjómenn koma núna af vertíðinni, meginþorri þeirra hefur ekki nema sem svarar tryggingu. Við þurfum því ekki að blekkja okkur á því, að kaupgeta almennings í landinu eða þeirra, sem ekki hafa föst laun, sé ekki mun minni en venjulega. Það er þess vegna ekkert undrunarefni, þegar nýjum sköttum er bætt á, jafnmiklum og gert er beint og óbeint með þessum ráðstöfunum, að um þá sé talað og óánægja myndist hjá þeim, sem eiga að greiða þá. Og það er gert ráð fyrir, að þetta nemi um 750 millj. kr. alls, lækkaðar niðurgreiðslur og nýir skattar. Og ef reiknað er með, að þjóðin sé 200 þús., þá nemur þetta sem svarar 3750 kr. á hvern einstakling eða 18750 kr. á 5 manna fjölskyldu. Og nú er ekki þannig, að þjóðin hafi greitt litla skatta fyrir, þeir voru orðnir allháir áður, og heildarskattarnir nema núna skv. fjárlagafrv. um 6 milljörðum. Ef það er reiknað á hvert nef, nemur það um 30 þús. á einstakling eða 150 þús. á 5 manna fjölskyldu. Nú er það vitanlegt, að það borga ekki allir jafnt, en þjóðin þarf þó að borga þetta. Það er sumt af þessum sköttum lagt á reksturinn og atvinnuvegina, en gjaldþol þeirra verður eðlilega minna, eftir því sem þeir eru meira skattpíndir. En það leysir út af fyrir sig engan vanda að deila um þetta. Við þurfum að sjá leiðir til að leysa málin, og þá brá nú svo við, að ríkisstj. óskaði eftir við launþegana, að þeir kæmu með einhverjar tillögur. En ríkisstj. er bara ekki vön að gera þetta. Yfirleitt hefur aldrei verið tekið eftir því, sem stjórnarandstaðan hefur sagt. Má vera, að það hafi verið misviturt, — ég skal ekkert halda því fram, að það hafi allt verið af viti, sem stjórnarandstæðingar hafa slegið fram í efnahagsmálum, — en það hefur yfirleitt aldrei verið á það hlustað.

Ég hef oft bent hér á ýmislegt, sem ég álít að hefði mátt fara öðruvísi og hægt væri að spara, en aldrei verið hlustað á það. Og í seinni tíð hef ég hætt þessu. Nú, ég hef raunar ekki verið beðinn um það, en af því að ríkisstj. óskaði eftir því að fá einhverjar tillögur um það, hvaða leiðir aðrar hægt væri að fara, þá skal ég nefna nokkur atriði, sem mér hefur dottið í hug.

Ég skal taka það fram í byrjun, að ég álít þá leið, sem ríkisstj. ætlar að fara, illfæra, ég vil ekki segja ófæra. Við heyrum það hér hjá þeim, sem telja sig málsvara vinnustéttanna, sem eru ekki einn flokkur frekar en annar satt að segja, því að launafólkinu er skipt í alla flokka, að þeir bóta verkfalli hér, ef frv. verður samþykkt. Nú er það ekki þannig, að í þessu frv. felist óskapleg skattaaukning. Aðalatriðið er það, að þar eru gerðar ráðstafanir um aukin útgjöld, án þess að vísitalan hækki, sem þeir telja brot á júnísamkomulaginu fræga. Og ég verð að viðurkenna það, að ég tel líka, að það sé brotið blað í þeim samningum. Ég hef raunar aldrei haft neinar sérstakar mætur á þeim samningum, ég skal játa það, en ég hefði álitið rétt af ríkisstj. samt, — það má vera, að hún hafi gert það, áður en hún lagði þetta frv. fram, — að ræða um þetta við þá menn, sem hún gerði samkomulagið við, júnísamkomulagið. Ég skal ekki fullyrða, hvort það hefur verið gert, en samkomulag hefur a. m. k. ekki náðst. Nú er vitanlega ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. spyrji þessa aðila að því, hvað þeir vilji þá gera. Og ég álit, að þeir ættu einhverju að svara viðvíkjandi því. Málið verður að leysa, við sjáum það sjálf. Það er engin lausn á málinu að hækka skatta og fara svo í verkfall, lækka svo gengi, fara svo kannske aftur í verkfall og lækka svo aftur gengið. Nú vitum við, að gengið er rangt skráð, og vandinn væri í raun og veru ekki mikill, ef þyrfti ekkert að leysa nema þetta. En þetta er bara byrjunin. Og ef á að leysa byrjunina á þann hátt að skapa verkföll og vinnustöðvun í landinu, getur eftirleikurinn orðið erfiður.

Við vitum, að fyrr og síðar hefur mönnum yfirsézt, og það er ekkert mannlegt, sem getur orðið án yfirsjóna. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. 1. þm. Reykn. tók fram hér áðan, að fjármálastjórn ríkisstj. væri með þeim ágætum, að hún væri óumdeilanleg, þeir væru yfir allt mannlegt hafnir, þannig að þetta væri allt gott og ekki ástæða til að finna að neinu. Ég get ekki tekið undir þetta. Við getum farið langt aftur í tímann og bent á yfirsjónir, sem gerðar hafa verið í fjármálum hér á landi. Eignakönnunin fyrsta var t.d. glappaskot. Menn ruku til og eyddu fé sínu í allt mögulegt. Það er sennilega eitt vitlausasta verk, sem gert hefur verið. Alþingi í raun og veru lýsti því yfir á eftir, því að skömmu seinna voru samþykkt lög um, að ef menn vildu eiga sparifé, þá þyrftu þeir ekki að telja það fram. Stóreignaskatturinn var líka vitleysa, — þetta gerðist áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, — því að þar voru þeir menn skattlagðir, sem ekki voru berir fyrir, atvinnurekendur, sem voru að basla við að festa fé sitt og gátu ekki falið það. Þetta var yfirleitt ekki greitt, og eftir ótal málaferli náðist einhver lítill hluti af þessu. Þetta sjáum við eftir á, og var raunar hægt að sjá það strax, að þetta var vitleysa. Gengislækkunin 1960 var of mikil. Ég benti á það þá. Þeir komu á of mikilli skriðu, verðsveiflan var of mikil, fólkið hætti að spara, kjaraskerðingin var of mikil, það hlaut að leiða af sér kauphækkun, sem kom 1961, þá var gengið aftur fellt.

Vaxtahækkunin er með verri vitleysum, sem gerðar hafa verið. Hún átti að vera til þess, að sparifé ykist í landinu, en það hefur aldrei verið meiri ákafi í að eyða peningum heldur en síðan þetta var gert. Fólkið treystir ekki verðgildi peninganna, og verðfall peninganna varð meira en nam vöxtunum. Þess vegna náði vaxtahækkunin ekki markmiði sínu. En hún hefur átt mikinn þátt í að auka verðbólguna í landinu, bæði hvað snertir iðnað og útgerð og jafnvel landbúnað líka. Þetta fer allt í gengið. Báturinn, sem kostar 10 millj. kr., verður að borga 250 þús. meira í ár í vexti, þó að maður sleppi dráttarvöxtunum, heldur en hann þurfti. 20 millj. kr. bátar ½ millj. meira. Ef hægt væri að höggva skarð í þetta með afborgunum, myndaðist vonin um að geta staðið í skilum. Nú er það þannig með útvegsmenn, að það er vitað mál, að þeir geta alls ekki borgað, hvorki vexti né afborganir, í haust. Og þegar hesturinn leggst undir of þungum höggum, reynir hann ekkert að bjarga sér.

Auk þess hefur hverjum skattinum verið bætt ofan á annan á þessa atvinnuvegi, það er hlaðið á þá sköttum. Ég taldi upp 25 skatta á útgerðinni í fyrra hér og gleymdi þó einum, það er söluskattur á tryggingagjöldunum af bátunum. Tryggingafélögin eru þannig leikin, að þau geta ekki borgað tjónabæturnar, bara geta það ekki. Þannig er nú fjármálastjórnin, sem 1. þm. Reykn. segir að sé óaðfinnanleg á allan hátt. Ég efast um, að það hafi komið fyrir áður, jafnvel í kreppunni, að tryggingafélög hafi ekki getað borgað tjónabætur, en þannig er ástandið í dag. Og svo eru þessi tryggingagjöld skattlögð með 7½% söluskatti, sem lendir beint á einstaklingunum, því að á mörgum bátum eru tryggingagjöldin orðin svo há, að útgerðarmaðurinn og útgerðarfélögin verða að borga sjálf hluta af því, því að það er takmarkað, sem þessi sameiginlegi sjóður borgar.

Annað atriði er skipulagslaus fjárfesting, sem hefur verið hér og hefur verið okkur mjög skaðleg. Það má bara benda á síldarverksmiðjurnar hálfkláruðu á Austfjörðum. Það má benda á það, að það er alltaf verið að kaupa ný og ný skip, rándýr, þó að sérfræðingar okkar spái því, að síldaraflinn fari minnkandi. Það vita það allir, sem hafa vit á útgerð, að það verður ekki ágóðavænlegt að sækja norður á Svalbarða síld og koma með hana í hálfgerðri klessu í land. Sama er að segja um frystihúsin, það hefur verið skipulagslaust, og það raunar áður en þessi stjórn tók við, ekki nógu vel skipulagt, og það er hrein vitleysa að ætla að reka óþarflega mörg frystihús, þau eru það dýr í rekstri. Og á þeim stöðum, þar sem erfiðust er aðstaðan, þá verður ríkið helzt að taka eitt frystihús á viðkomandi stað og sjá um rekstur á því. Það er gersamlega útilokað að fá menn til að leggja upp aflann, nema tryggt sé að fá hann borgaðan. Fólkið flýr þessa staði, og þeir leggjast þá meira og minna í auðn, ef ekki er nein fiskvinnslustöð, sem getur greitt aflann, og ef útgerðarmennirnir eiga ekki tryggt að fá hann greiddan. Þess vegna getur það átt sér stað, að það sé, þó að ég sé ekkert að halda sérstaklega upp á ríkisrekstur, — það er t.d. á Siglufirði rekið af ríkinu, rekið af síldarverksmiðjunum frystihús, og þess vegna er það rekið og þess vegna treysta menn sér til þess að leggja þar upp, og það eru fleiri staðir, þar sem ríkið þyrfti vafalaust að taka að sér rekstur frystihúsanna. Þetta er svona á öllum sviðum. Þetta er svona í iðnaði líka. Ef einhver maður setur upp iðngrein, þá er annar maður viss með að setja hana upp við hliðina eða skammt frá, þannig að það er keppt um þennan takmarkaða markað sem til er í landinu. Þetta þarf vitanlega að skipuleggja líka. Ef til vill er einhver vísir að þessu, byrjað að hugsa um þetta og skipuleggja þetta núna, en það er bara of seint, þó að það megi segja betra seint en aldrei. Iðnaðinn þarf vitanlega að skipuleggja, ekki sízt ef hann er eingöngu fyrir innanlandsmarkað, eins og er í flestum greinum hjá okkur, þegar útveginum er sleppt. Það má segja um landbúnaðinn líka, hann er ekki nógu vel skipulagður. Það er í raun og veru ekkert vit í því að skipuleggja ekki framleiðsluna. Við þurfum að miða þetta við þarfir þjóðarinnar og við möguleikana á að afsetja það, og þannig mætti lengi telja.

En ef við komum nú að þessum vanda, sem þarf að leysa í dag, þá er það, það, hvernig á að jafna fjárlögin, þannig að það verði ekki halli á þeim. Og þá sé ég ekki nema eina leið, — ég tel þessa leið ófæra, sem ríkisstj. ætlar að fara, eða illfæra, vægast sagt, — og það er það, að ríkisstj. verður að lækka útgjöld ríkisins. Við skulum segja, að það sé einhver atvinnurekandi, hann lifir hátt með sína fjölskyldu, og svo minnka tekjur hans, hann kemur til fólksins, sem vinnur hjá honum, t.d. nokkurra launþega, og segir við þá: Öll sú tekjuskerðing, sem ég verð fyrir, þið verðið að taka hana á ykkur, ég spara ekkert við mig eða mína fjölskyldu. — Vitanlega yrði það fólk ekki ánægt. Það er ósköp eðlilegt, á meðan þjóðin finnur, að ekki er reynt að spara á neinu sviði neitt að gagni, að þá sé hún ósköp óánægð að bæta þessum byrðum á sitt bak, þegar illa stendur á eins og núna, að það hefur stórdregið úr launatekjum þeirra, sem eiga að lifa á tímakaupi sínu eða mánaðartryggingu eins og sjómennirnir. Það er ekkert óeðlilegt, að fólkið fari fram á, að eitthvað sé reynt að spara í ríkisrekstrinum. Og ég held, að ríkisstj. hefði átt að eyða sumrinu í að brjóta heilann um, hvað hægt væri að gera á því sviði, en ekki að skipa einhverjum undirmönnum sínum að semja nýtt frv. finna einhver ráð, til þess að þessi eyðsla geti haldizt.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ríkisstj. sjálf hafi nú skrifað þetta frv. eða fundið út allt þetta, sem gera á, því að það er þarna eitt atriði, sem er af talsverðu viti, í þessum till, öllum saman, — þeir hafa þess vegna einhvern góðan koll einhvers staðar í fjölskyldunni, — og það er þessi farmiðaskattur, hvernig honum er fyrir komið. Satt að segja er það sá skattur, sem ég get helzt verið með af þessu öllu saman. Sannleikurinn er sá, að við vorum farin að lifa um efni fram. Það var meira en ríkisbúskapurinn, það var talsverður hluti af þjóðinni. Það var eytt meira í ferðalág til útlanda en nam öllum tekjum af saltsíld í landinu, og þó hefur sennilega aldrei komið fram töluvert mikið af því, sem eytt hefur verið, ekki á neinum skýrslum. Og Íslendingar voru kunnastir í stórverzlunum erlendis fyrir óhemjueyðslu. Og kaupmennirnir sögðu: Nú verðum við að taka það fram, sem við eigum, nú eru Íslendingar að koma. — Við vorum orðnir frægir fyrir eyðslu. Það er allt vel um það að fólkið ferðist, en það þarf bara að vera geta til þess að borga. Ég er ekki að segja, að það sé hent miklum peningum í óþarfa, því að maður getur sagt, að þetta sé allt heldur til bóta, en það verður bara að vera hægt að greiða það. Það má vera, að það sé ekki hrein vitleysa, þessir 6 milljarðar, neitt af því, sem eytt er, það sé þarft og gott á vissan hátt. En það þarf bara að vera geta til þess, og við þurfum ekki að ímynda okkur, þó að þessi vandi sé leystur, að byrðunum sé lokið, sem þarf að hlaða á fólkið. Gengið er rangskráð eða var, — ég hef athugað það með mönnum, sem höfðu vit á því, voru inni í atvinnurekstri talsvert, í fyrravetur, og þá álitum við, að það væri rangskráð um ca. 30%, og ekki hefur það minnkað síðan, því að þegar farið er að borga með öllum útflutningsvörum, þá er gengið rangt. Það þýðir ekkert að blekkja sig. 400 millj. a. m. k. fyrir utan ábyrgðir og allt slíkt var borgað í fyrra með útflutningnum, og það þarf miklu meira núna, því að frystihúsin eru að gefast upp. Það er óhjákvæmilegt að reka frystihúsin á hagkvæmari hátt en gert er.

Það er hægt að benda á mörg mistök í fjármálastjórninni, sem geri fólkið óánægt. Það er t.d. hægt að benda á gjaldeyriseftirlitið. Hvernig í ósköpunum getur það skeð, að einn útflytjandi geti látið hverfa tugi milljóna, þannig að ekki sé gerð grein fyrir því? Hvers konar eftirlit er þetta hjá bönkunum í gjaldeyrismálum? Þeir líta betur eftir því, þegar þeir eru að lána okkur, eitt eða tvö hundruð þúsund í það að reka bátana, þá þurfum við að veðsetja aleiguna. Einhver sterkustu útgerðarfyrirtæki eða fiskvinnslustöðvar í landinu ráða við fyrir þetta, fyrir svona töp.

Það er talsvert erfitt verk að benda á einstök atriði, sem hægt væri að spara. Ég skal benda á nokkur. Vitanlega má alltaf um það deila. Ég hef farið yfir fjárlögin, en fyrir mann, sem ekki hefur aðstöðu til þess að kynna sér þetta alveg ofan í kjölinn, þá er erfitt náttúrlega að taka einstakar stofnanir og benda á: Þennan starfsmann er hægt að spara o.s.frv. Til þess þarf maður að vera alveg gjörkunnugur því. En ég álít, að það sé hægt að spara á flestum liðum fjárlaganna, ef það er tekið verulega föstum tökum. Vitanlega er ómögulegt að spara, án þess að það komi við einhvern. Það má vel vera, þar sem eru fleiri en einn flokkur, sem ráða, að það sé erfitt að komast að samkomulagi. En það er þó færari leið heldur en sú að skella þessu á bak launþeganna, öllum þeim byrðum, sem gert er með þessum ráðstöfunum og gera verður síðar. Hv. 4. þm. Austf. benti hér á nokkur atriði, en út af fyrir sig kom hann ekki með atriði, sem ráða úrslitum, en nokkur þeirra áttu fullan rétt á sér, eins og að spara eitthvað í sendiráðunum. Ég skal bara benda hér á bílaeign ríkisins í bænum. Ég er alveg sannfærður um, að það mætti spara mikið fé, ef það væri höfð sérstök bílastöð, hún þyrfti ekki að vera sérstaklega stór, sameiginlegir bílar fyrir alla starfsmenn ríkisins, jafnvel ráðherrana líka, sem þyrftu að nota bíla, allar ríkisstofnanirnar. Það mætti spara stórfé á því. Það mætti fækka bílunum og fækka mönnunum. Má vera, að það sé ekki eins þægilegt fyrir þessa aðila eins og hafa bílstjóra bíðandi eftir sér með bílinn, en ódýrara yrði það fyrir þjóðina. Ég er alveg sannfærður um, að það mætti spara eitthvað af starfsliði í stjórnarráðinu. Ég held, að það sé farið ósköp rólega þar að sumu. Ef byrjað væri efst, þá mundi fólkið taka eftir því og yrði fúsara að leggja einhverjar byrðar á sig. En fólkið talar um ferðalög ráðherranna og ýmsa óþarfaeyðslu. Jafnvel þó að það nemi ekki þeim upphæðum, að það eitt skipti miklu máli, þá er þetta fordæmi, sem getur haft sina þýðingu viðvíkjandi skoðunum fólksins.

Einn af hæstu útgjaldaliðunum er skólakerfið og menntamálin. Við vitum, að það þarf að mennta fólkið, það er allt vel um það, en ég er sannfærður um, að það mætti spara mikið fé með því að skipuleggja þessi mál miklu betur en gert er og haga náminu þannig, að það yrði praktískara en það er núna. Ég held t.d., að menntaskólanámið hjá okkur sé alls ekki praktískt. Ég held, að það séu lærð of mörg tungumál, það væri nóg að læra tungumál einnar stórþjóðar og hafa þar frjálst val, og menntaskólinn sé jafnvel of langur. Skólafólkið er orðið þreytt, jafnvel þegar það kemur úr menntaskólanum, og þar sem er langskólanám í háskólanum, þá eru þetta orðnir uppgefnir menn í mörgu tilviki. Enda skulum við taka eftir því, að það eru ekki langskólagengnu mennirnir, sem bera uppi þjóðfélagið í dag. Þeir bera ekki þungann af atvinnurekstrinum og öðru slíku. Þetta eru orðnir þreyttir menn, og það sem verra er: Það er verið að prédika, að sem flestir þurfi að verða stúdentar, og miða menningu þjóðar við sem flesta stúdenta. En stúdentsmenntun er ekki sérstaklega praktísk menntun. Við þurfum að hafa hagnýta menntun. Við þurfum vitanlega að hafa almenna menntun, en við þurfum líka að leggja áherzlu á að hafa hana hagnýta og koma skólakerfinu þannig fyrir, að það verði sem ódýrast. Það er t.d. ekkert vit í því með landsprófið að dreifa því eins og gert er. Það þarf að hafa fleiri saman og þá betri kennara þar. Það er staðreynd, að það eru margir nemendur, sem ekki ná landsprófi, bara af því að það er ekki nógu góð kennsla, og af því m.a. kemur, að það er mjög misjafnt, hvað margir ná landsprófi í hinum einstöku skólum í prósentum talið. Tvímælalaust er það að mestu leyti kennslunni að kenna. Við skulum ekkert vera að blekkja okkur á þessu, að í skólakerfinu gætum við stórsparað peninga, ef við rækjum það á hagnýtari hátt. Fólkið náttúrlega þarf að mennta sig, en það þarf að fá sanna menntun, en ekki einhvern páfagaukslærdóm.

Fjölskyldubætur með tveimur börnum væri hægt að afnema án þess að þrengja kosti þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna. Eins og réttilega hefur verið tekið fram, kemur það, sem gert er með þessum verðhækkunum á lífsnauðsynjum, þyngst á stærstu fjölskyldurnar. Á þann hátt væri hægt að spara talsvert á annað hundrað millj. Og ef launþegar hafa viðunanlega vinnu og viðunanlegt kaup, er engum heilbrigðum manni vorkunn að sjá fyrir tveimur börnum, og það hafa menn getað fram að þessu. Það á þá eftir að verða verra en það er, ef það er ekki hægt. Og það verðum við að athuga með allri þessari skattpíningu á þjóðina, að það er aldrei alheimt í þessu kerfi að innheimta skatta og greiða svo aftur stórar fjárhæðir. Það tapast þá alltaf eitthvað í leiðinni og til þeirra kannske, sem sízt hafa þörf fyrir það.

Það er ekki nema takmarkað, sem hægt er að innheimta af sköttum. Og þið verðið að gera ykkur það ljóst, að 1965 gat þjóðin greitt þessa skatta, en í ár, þegar kreppir að með atvinnu og verðið lækkar á útflutningsafurðum, þá er ekki hægt að innheimta svona mikla skatta, því að þegar innflutningsgjald eða álagning á einhverri vörutegund verður úr hófi fram, þá fara menn að smygla. Og þið skuluð athuga það, að svona snögg hækkun eins og varð á smjörinu núna, það er ekkert vit í því að hækka eina vörutegund svona allt í einu, ekki raunar alveg um helming, en yfir 60%. Þetta verður að smákoma. Og annað það, að þegar varan er orðin mjög dýr, meira að segja þótt það sé smjör, þá er haft fyrir að smygla því. Jafnvel kjöti hefur verið smyglað hér á landi og er jafnvel enn. Það er takmarkað, hvað hægt er að leggja á vöru, og það rak ríkisstj. sig á hér á árinu, þegar Gunnar Thoroddsen kom með lækkanir á úrum o. fl. Það var farið að smygla þeim. Þau voru ekki flutt inn, þegar tollurinn var svona hár, á annað hundrað prósent. Þá byrja menn að smygla. Það er öllum mögulegum hlutum smyglað, meira að segja matvælum, ef þau eru of dýr. Það var byrjað að smygla smjörinu, þegar það var töluvert á annað hundrað krónur kílóið, og það meira að segja í stórum stíl. Þetta verðum við að gera okkur ljóst.

Ég skal játa það, að niðurgreiðslurnar voru orðnar miklar, og ég álít jafnvel, að það væri rétt að lækka sumar þeirra, jafnvel á mjólkinni, niðurgreiðslurnar voru orðnar fullmiklar þar, og það var náttúrlega farið að leiða af sér, að engan veginn var tryggt, að þær hafi verið rétt framfærðar. Og það voru ýmsir farnir að kaupa mjólk, sem framleiddu mjólk, af því að niðurgreiðslurnar voru svona miklar. Smjörið er tvímælalaust óviturlegt að hækka svo mikið. En það var þá hægt að lækka aðrar vörur. Það er t.d. ákaflega skoplegt að leggja söluskatt á kjötið og fiskinn, sem við kaupum. M. ö. o.:

Ríkið greiðir háar niðurgreiðslur á kjötið, en skattleggur það um 7½%, alla söluna, fyrir utan svo skatt til bændahallar og fleiri kúnstir, sem eru nú lagðar á þetta allt saman, sem neytendur og framleiðendur borga í félagi. Ég álít, að það væri miklu viturlegra að afnema þennan söluskatt á þessum nauðsynjum, eins og fiski og kjöti, og lækka þær á þann hátt í verði. Þetta er bara skrípaleikur, að innheimta söluskatt af þessu og borga svo aftur háar niðurgreiðslur. Og þó að mjólkin hefði verið hækkuð dálítið í verði, ef þessar vörur hefðu annaðhvort lækkað eða staðið í stað, þá hefðu neytendur varla gert mikinn uppsteyt út af því, og mjólk er síður smyglað en smjöri og kjöti.

Viðvíkjandi því, sem hægt væri að lækka, þá eru margir fleiri liðir. Það eru t.d. atvinnuleysistryggingarnar. Ég held það séu um 170 millj., sem eru lagðar í þær núna af bæjarfélögum, atvinnurekendum og ríkinu sjálfu. Það er náttúrlega alveg sama fyrir fólkið, ef útsvörin lækkuðu. Það er ekkert betra að borga útsvörin heldur en borga þetta allt til ríkisins. Þetta er gersamlega að sliga bæjarfélögin. Og nú horfir þannig við með útsvarsgreiðslur, að ég sé engin ráð fyrir sjómennina að greiða þær. Flestir eru þeir með tryggingar, þurfa að borga fæðið sitt, ég sé ekki, að það verði neitt afgangs upp í útgjöld, þannig að það verði alveg greiðsluþrot fyrir bæjarfélögin um innheimtu á útsvörum hjá ýmsum sjómönnum, þannig að það væri sannarlega þörf á því að létta eitthvað byrðum af þeim. Ég sé ekki annað en allir aðilar geti nú sætt sig við það, að atvinnuleysistryggingasjóður hefði 90 millj. í vaxtatekjur á ári, ef gert er ráð fyrir, að verði borgaðar úr honum 5, þó að útgjöldunum væri létt af fólkinu hvað þetta snerti. Þetta er fjárplógsstarfsemi, og það hefur verið hrein árátta hjá þessari ríkisstj. að pína þessa atvinnuvegi, leggja skatt ofan á skatt, þangað til þeir sligast, og þeir eru þegar að gera það. Það er greiðsluþrot hjá útgerðinni. Og iðnaðurinn er þannig á vegi staddur, að það er á takmörkum, að sum fyrirtæki séu starfrækt.

Í viðbót við þetta allt saman er opnað fyrir öllum innflutningi. Verzlunarstéttin heimtar þetta sjálfsagt. Ég veit ekki, hvað annað vakir fyrir ríkisstj. en að þóknast henni. Við urðum ekki varir við vörulækkanir verulega af þessu, enda væri hægt að halda vöruverðinu í skefjum með ströngu verðlagseftirliti innanlands. Það er gott og blessað með allt frelsi, en við verðum að vera færir um að taka á móti því frelsi. Við verðum að haga atvinnurekstri okkar hér innanlands þannig, að við getum keppt við erlend iðnfyrirtæki. Og þó að það sé hár innflutningstollur á hér um bil öllum iðnaðarvörum, þá er það nú þannig, að íslenzku fyrirtækin geta illa keppt við það, enda er ekkert, sem tryggir það, að þessum erlendu fyrirtækjum sé ekki stórhjálpað af ríkisvaldinu með hagkvæmum lánum og annarri slíkri fyrirgreiðslu, sem ég hygg að þessi fyrirtæki hér, sem eru nú að reyna að basla eitthvað við útflutning, hafi ekki notið nema að takmörkuðu leyti.

Það er hægt að taka ótal liði aðra í fjárlögunum. Það væri svo velkomið, að ég væri nokkra daga uppi í Stjórnarráði og benti þeim á ýmislegt, ef ég fengi aðgang að plöggum. Ef ríkisstj. vildi vera svo lítillát að notfæra sér eitthvað af því, þá mundi ég alltaf vera fús til þess. Það er nú hent 10 millj. í skógrækt til ekki nokkurs skapaðs hlutar. Við eigum að fá héruðunum skógræktarmálin í hendur. Það er bara hrein vitleysa af ríkinu að vera að skipta sér af þeim málum, enda gagnslaust frá hagfræðilegu sjónarmiði. Menn geta gert sér það til gamans, það er gott og blessað. Svo ætla þeir að fara að braska við að kaupa eitthvert horn af Viðey með steinhúsi. Ég held það hefði ekki legið beint á því.

Viðvíkjandi skattheimtunni, þið munið það nú hér á árunum, þegar Gunnar Thoroddsen var fjármálaráðherra og ætlaði að fara að spara á öllum mögulegum hlutum, m.a. skattheimtunni, að færa þetta í stórkerfi. Áður var það nú þannig, að bændurnir unnu við þetta fyrir ekki neitt, ég held þeir hafi haft 100 kr. á dag. Þeir höfðu gaman af þessu og æfðu sig í reikningi á þessu. Svo var það allt fært saman, margfaldur kostnaður og miklu vitlausara, það er nú það versta.

Það má spara á öllum mögulegum hlutum. Ég skal segja ykkur, í bæði sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum má stórspara, án þess að það geri útvegsmönnum eða bændum nokkurn skapaðan hlut til, bara með dálítilli hagsýni. Og það væri heldur engin goðgá að fresta framkvæmdum eitt eða tvö erfið ár. Það mundi engum gera til. Við getum tekið tollgæzluna á Keflavíkurflugvelli, tollgæzla og lögreglustjórn kostar 17 millj., og mér er sagt af ferðamönnum, sem fara í gegn þarna, að það sé ekki litið í töskurnar þeirra. Ég held það væri betra að hafa þá heldur færri og þeir litu einstaka sinnum ofan í töskurnar. Vitanlega er ekki hægt að spara allt þetta, en ég er sannfærður um, að þarna er eitthvað hægt að spara. Úti um allt land eru lögregluþjónar, sem meiri hluta ársins hafa ekkert að gera. Við þurfum að hafa löggæzlu á samkomum, og það er hægt að fá menn dag og dag til þess. En þarna eru þeir. Það er búið að stórfjölga þessu hjá núverandi stjórn, og ég sé ekki, að þeir hafi nokkurn hlut að gera, nema eitthvað að rekast í fólki alveg að ástæðulausu. Jafnvel dýralæknar og héraðsráðunautar, það mætti fækka þeim.

Ýmislegt gætum við rekið af miklu meiri hagsýni en við gerum. Viðvíkjandi landbúnaði gætum við rekið súgþurrkunina af miklu meiri hagsýni en við gerum. Súgþurrkunarkerfi geta verið ákaflega ódýr, kosta hér um bil ekki neitt, í hæfilega mjóa hlöðu, og það er hægt að nota sama blásara við fleiri hlöður meira að segja, blása inn heyinu með honum líka, ef það er einn blásari. En menn setja þetta upp með margföldu verði miðað við það, sem þarf að vera. Og þetta er styrkt og borgað að mestu leyti. Við þurfum að hafa einhverja hagsýni í þessu. Peningshúsin eru orðin svo dýr, að þetta eru að verða hallir, með 2 metra háum kjöllurum. Þetta er gott og blessað. En það er bara engin þjóð í heiminum, sem leyfir sér að byggja þannig yfir rollurnar, og það er hægt að gera þetta miklu ódýrara. Viðvíkjandi sjávarútveginum eru fjöldamargir liðir, sem mætti spara og fresta framkvæmdum.

Og þannig er þetta á öllum mögulegum sviðum. Það væri náttúrlega engin goðgá, þó að það væri sagt við þá, sem hafa stærstu túnin, í eitt ár: Við getum ekki borgað ykkur jarðabætur núna. — Satt að segja mundi það ekki gera nokkurn skapaðan hlut til fyrir þá, sem hafa stór tún, því að það er ekki túnastærðin hjá mörgum, sem gerir það, að ekki hefur verið nóg af töðu, heldur hitt, að túnin eru ekki í nógu góðri ræktun. Ég er ekki að segja, að þetta sé allt saman gott og blessað, að gera þetta. En það verður eitthvað að gera, og við verðum að athuga það, að ef við ætlum að leysa vandamálið, þá verðum við að taka sameiginlega á okkur byrðarnar. Það er ekki hægt að leggja allt á eina stétt.

Sem sagt, það er engin leið að telja neinum trú um það, við teljum ekki fólkinu trú um það, að á 6 milljarða fjárlögum, sem hafa hækkað, — án þess að ég vilji vera með nokkra illkvittni út í þessa ríkisstjórn, þó að við tökum tillit til fólksfjölgunar, þó að við tökum tillit til gengisbreytingarinnar, þá hafa útgjöld um það bil tvöfaldazt í tíð þessarar ríkisstj., — og það er ekki hægt að ímynda sér það, það er ekki hægt að telja nokkrum einasta manni trú um það, ef þetta er tekið föstum og skynsamlegum tökum, að það sé ekki hægt að spara mörg hundruð millj. Og það er þarna, sem við eigum að byrja á að spara. Svo þegar búið er að gera það, sem hægt er af þessu, þá er hægt að koma til fólks og segja: Nú verðið þið að taka á ykkur meiri byrðar. — Og þá mun það frekar gera það möglunarlaust.

En það er engin lausn á málinu að fara í eitthvert skatta- og verkfallsstríð, að ríkisstj. skattleggi launþegana og launþegarnir geri verkfall. Við leysum ekki nokkurn vanda með því. Sannleikurinn er sá, að ástandið hjá okkur er þannig núna, að við þolum ekki verkföll. Og hvað sem launþegar segja, þá vita þeir það sjálfir, að efnaminni fjölskyldur hafa engin ráð á að vera í löngu verkfalli. Það þurfa allir að borða. Útsvörin hafa síhækkað. Það er ekki nóg að verja til félagsmála hálfum öðrum milljarði, það þarf einhvers staðar að taka þetta. Og við vitum, að það er gengið hér miskunnarlaust í bæjunum að fólkinu, ef það borgar ekki sín útgjöld, ef það borgar ekki rafmagnið, er lokað fyrir það, ef það borgar ekki útsvörin, þá er farið heim til þess og skrifaðir upp húsmunirnir eða gert lögtak í húsmunum, það er engin miskunn. Ég er alinn upp í sveit og ekki vanur við svona innheimtuaðferðir, en mér hálf ofbýður þetta, ég segi það eins og það er. En vera má, að það sé ekki hægt annað. En þetta verður fólkið að borga. Og það vita bæði launþegar og atvinnurekendur, að fólkið er ekki fært um að fara í verkfall og þjóðin þolir ekki löng verkföll. Þó að ríkisáætlunin um fjárlögin sé eitthvað jöfnuð, þá eru ótal vandamál eftir. Hitt vitum við svo ósköp vel, það vita allir vitibornir menn, að gengið er rangt skráð. Við vitum, að það er bara tímaspursmál, hvenær það lækkar. Mín skoðun er sú, að ríkisstj. bíði róleg og lofi launþegum að hækka kaupið og svo komi gengislækkun á eftir. Og það verður sagt við launþegana: Þetta er ykkur að kenna. Þið berið ábyrgð á þessari gengislækkun. En sannleikurinn er sá, — maður er ekkert að blekkja sig á því, að þó að kaupið hækki ekki neitt, þá verður að viðurkenna, að gengið er rangt skráð, og það er ekki hægt að reka þjóðarbúskap með röngu gengi í mörg ár. Gengið var of mikið lækkað 1960. Það kom skriðunni af stað. Og svo kom vaxtahækkunin. Það varð ekki til þess, að fólkið sparaði, heldur til þess, að það eyddi meiru, og nú er gengið aftur orðið rangt skráð. Ég er á móti gengislækkunum af óþörfu. En hitt skal ég játa, að það er ekki hægt að reka þjóðfélag með röngu gengi. Það er ekki hægt að gera fjármálin heilbrigð með því. Þess vegna er það aðeins tímaspursmál, 1–2 missiri, þá hlýtur gengið að lækka, nema það stórhækki verð á útflutningsafurðum okkar, sem ekki eru beinar líkur til, því að verðið 1965 var óeðlilega hátt.