14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki átt þess kost að fylgjast með umr. í þinginu um þessi alvarlegu mál, sem hér eru og hafa um skeið verið til umr., og ástæðan til þess er sú, að þetta mál hefur þótt mjög snúa alvarlegum fleti að verkalýðssamtökunum og þau hafa mjög í sama mund og umr. hafa farið fram um þessi mál innan þingsalanna verið að fjalla um málin innan sinna vébanda, og þar hef ég þrátt fyrir mína þingskyldu ekki komizt hjá því að vera. Mér er því allt of lítið kunnugt um, hvað fram hefur komið í umr., og kann því að vera, að ég dvelji við ýmis þau atriði, sem þegar kynnu að teljast fullrædd. En þó hygg ég, að ég haldi mig aðallega við þær hliðar málsins, sem sérstaklega snúa að verkalýðssamtökunum.

Það eru höfuðúrræði hæstv. ríkisstj. samkv. því frv., sem hér er til meðferðar, að gera ráðstafanir til þess, að brýnustu lífsnauðsynjar almennings hækki í verði. Það er augljóst mál, að það verkar á sama hátt og kaup launþega sé lækkað. Og það er öllum skiljanlegt, að slíkt er viðkvæmt mál. Aðferðin hjá hæstv. ríkisstj. við það að hækka þessar brýnustu lífsnauðsynjar almennings er að fella niður niðurgreiðslur, sem inntar hafa verið af hendi af ríkissjóði frá því á síðari hluta árs 1966 og fram að þessu, og er talið, að sú upphæð, sem ríkissjóður ætlar að létta af sér með þessu móti, sé um eða yfir 400 millj. kr. Þetta kemur auðvitað niður á landslýð öllum. En hvernig víkur því við, að sérstök ástæða er fyrir lægst launaða fólkið í landinu að kveinka sér sérstaklega undan þessu? Það er af því, að eftir því sem menn eru tekjulægri, eftir því fer meiri hluti af tekjum fólksins til þess að kaupa þessar brýnustu lífsnauðsynjar, sem hækka í verði við ráðstafanir ríkisstj., niðurfellingu niðurgreiðslnanna. Það hefur verið margsinnis á það bent, og mér virðast viðbrögð ríkisstj. sanna það, að hún fellst á þau sjónarmið, að þessar ráðstafanir, sem í frv. felast, bitna einna þyngst á láglaunafólki og stærstu fjölskyldunum í landinu, þ.e.a.s. barnmörgu fjölskyldunum. Og með viðurkenningu á þessu er í raun og veru viðurkennt, að þessi skattlagning á láglaunastéttirnar komi ranglátlega niður. Hækkunin á neyzluvöru, sem enginn kemst hjá að kaupa og sízt barnafjölskyldurnar, mjólkinni, þar er um að ræða 2 kr. hækkun á hvern lítra. Það þarf ekki að vera stærri fjölskylda en meðalfjölskylda, svona 5 manns í heimili, til þess að þarna sé um að ræða kaup á 5 mjólkurlítrum, sem hækka hver um sig um 2 kr., eða það er 10 kr. útgjaldaaukning á dag, á einum mánuði 300 kr. Þetta er kannske ekkert þungbært fyrir þann, sem er slíkur hátekjumaður, að hann verji ekki nema 10–15% af öllum tekjum sínum til þess að kaupa lífsnauðsynjar. En það getur verið erfiður baggi að taka á sig þarna 300 kr. aukin útgjöld fyrir barnmargar fjölskyldur. Hvert kjötkíló átti samkvæmt þessu að hækka um 6 kr. nú. Ég býst við, að meðalfjölskylda komist varla af með minna af kjöti og kjötvörum heldur en svo sem 20 kg á mánuði, og ef sú áætlun væri eitthvað nærri sanni, þá væri þarna um að ræða 120 kr. útgjaldaaukningu á einum mánuði vegna kjöts og kjötvara. Kartöflur eru lífsnauðsynjavara á borði hvers manns, ekki sízt hinna efnaminni, og ég geri ráð fyrir, að meðalfjölskylda komist varla af með minna en 15 kg af kartöflum á mánuði, og hvert kíló af kartöflum átti að hækka um 6 kr. samkvæmt þessum ráðstöfunum. Þetta mundi þýða 90 kr. útgjaldaaukningu á einum mánuði. Ostar áttu að hækka um 25 kr. kg, segjum, að meðalfjölskylda noti um 2 kg á mánuði af þeirri vöru. Það mundi þýða 50 kr. útgjaldaaukningu. Smjörið átti að hækka um 43.20 kr. kg, og segjum, að meðalfjölskylda noti af þeirri dýrmætu vöru um 5 kg, það mundi þá þýða 216 kr. útgjaldaaukningu. Ég vil viðurkenna það, að tóbak og tóbaksvörur eru ekki lífsnauðsyn, en almenn neyzluvara samt orðin, svo að þau heimili eru miklu færri, sem hafa ekki einhver útgjöld af þeirri neyzlu, og þó að ég færi þar mjög hóflega í sakir, af því að hér er ekki um brýna lífsnauðsyn að ræða, og segði, að meðalfjölskylda keypti sér einn pakka af sígarettum á dag, þá næmi þetta samt með 13% hækkun á verðinu um 120 kr. Enn fremur eiga sjúkrasamlagsgjöld að hækka samkvæmt þessu frv., og nú eiga hitaveitugjöld að hækka um 18%. Sá liður gæti varla numið minni upphæð en um 70 kr. En þetta samanlagt þýðir, að þær aðgerðir, sem nú er vitað um, og hækkunin á hitaveitugjöldunum, sem hefur fylgt þarna í kjölfarið, það þýðir, að þessar hækkanir, sem ég hef hér áætlað fyrir meðalfjölskyldu, eru um 1006 kr. á einum mánuði, þ.e.a.s. rétt um 1000 kr. útgjaldaaukning á mánuði. Og það er verulegt skarð í tekjur hins almenna verkamanns, svo mikið er hægt að fullyrða.

Það er því óneitanlegt, enda gerist enginn til þess að neita því, að frv. veldur mjög mikilli kjaraskerðingu fyrir láglaunafólk í landinu og kemur þungt niður á launþegastéttunum. Það er enginn, sem heldur því fram, að verkalýðshreyfingin eða forusta hennar hafi kveikt eld æsinga og mótþróa gegn þessu frv., þar er alveg um sjálfsíkveikju að ræða. Og sá, sem hefur kveikt þann eld, er vitanlega enginn annar en hæstv. ríkisstj. sjálf. Það er þess vegna hennar skylda að gerast slökkvilið á eftir, slökkva þá elda, sem ekki er hægt með öðru en að viðurkenna, að þarna er gengið of mikið á hlut hinna fátækari í landinu, ranglát leið valin, sem áreiðanlega er ekki fær. Það hefði verið rekið upp mikið ramakvein og það réttilega í landinu, ef hæstv. ríkisstj. hefði valið þá leið að segja: Erfiðleikarnir, sem steðja að þjóðinni, eru svo miklir og vandi atvinnuveganna svo alvarlegur, að við sjáum okkur ekki annað fært en lækka allt kaup, öll laun í landinu um 7½%. En samt fullyrði ég, að þetta hefði bæði verið drengilegri leið og hagkvæmari leið til launaskerðingar, umfram allt réttlátari leið. Með því að lækka allar launatekjur í landinu, jafnt ráðherralaun sem laun hinna tekjuhæstu manna í þjóðfélaginu og allt niður í þá launalægstu, þá hefðu byrðarnar lagzt allt öðruvísi á þjóðfélagsþegnana. Með þeirri aðferð, þótt hún hefði vafalaust þótt gífurlega fruntaleg og harkaleg, þá hefðu byrðarnar af aðgerðunum komið miklu réttlátlegar niður. Þeir hefðu orðið fyrir mestri tekjuskerðingu, sem hæstar tekjur hefðu í þjóðfélaginu, og hinir fengið miklu minni byrðar, sem lægst voru launaðir. En ég get ekki séð annað en álögurnar í því formi, sem þær eru í stjfrv., komi alveg þveröfugt niður, miklu fremur af meiri þunga á þá, sem minnst hafa að bita og brenna.

Þegar hæstv. ríkisstj. hafði lagt þetta frv. fram, bauð hún það, að hún væri fús til að taka upp viðræður við aðila utan þings og innan og þá ekki hvað sízt við launþegasamtökin í landinu. Við hugleiddum það, hvort ekki væri rétt að taka þessu boði. Sumir í okkar samtökum voru því að vísu andvígir, en við grennsluðumst eftir því, hvort hæstv. ríkisstj. vildi þá, ef slíkar viðræður væru upp teknar, stöðva gang frv. gegnum Alþ., á meðan viðræður færu fram, því að við töldum ekki gerlegt að hefja slíkar viðræður með málið á ferð og flugi gegnum þingið. Hæstv. ríkisstj. féllst á þetta sem eðlilegt sjónarmið og veitti slíkan frest, og af því er það, að frv. hefur legið kyrrt í n., meðan viðræðurnar fóru fram.

Viðræðurnar, sem svo hófust, beindust að því að kynna sér, hvernig bakgrunnurinn væri bak við uppbyggingu fjárlagafrv., og alveg sérstaklega að skattamálunum sem tekjustofnum í frv., framkvæmdinni á þeim málum og því kerfi, sem þar er ráðandi. Við settum í þessa athugun tvær starfsnefndir, sem störfuðu nokkra daga og fengu alla þá fyrirgreiðslu, sem nm. óskuðu, og þegar við höfðum aflað okkur þeirrar vitneskju, sem fáanleg var á svo skömmum tíma, skiluðu þessar n. áliti og heildarnefnd Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandið, sem að viðræðunum stóðu við ríkisstj., drógu upp heildarmynd af þessum niðurstöðum og gáfu ríkisstj. svar, sem síðan var rætt á sameiginlegum fundi viðræðunefndarinnar og ríkisstj.

Andsvar okkar við frv. fólst í raun og veru í 1. lið þess plaggs, sem við fengum þarna ríkisstj. í hendur, í þessum örfáu orðum: „Það er ófrávíkjanlegt af n. hálfu, að vísitala á laun haldist óslitin“. Aðferð hæstv. ríkisstj. til þess að koma byrðunum af verðhækkunum nauðsynjavaranna yfir á launþega og þeirra herðar var sú, að vísitalan átti að takast úr sambandi um ákveðið tímabil og launþegarnir þannig engar bætur að fá fyrir verðhækkanirnar á nauðsynjunum. Við töldum því í raun og veru málið allt snúast um þetta eitt, að vísitalan yrði ekki tekin úr sambandi, hvorki um skamman tíma né til frambúðar.

Það er öllum hv. alþm. í fersku minni, hvernig vísitölukerfið var aftur tekið upp og viðurkennt. Það var gert, eftir að við höfðum búið við lögbann gegn vísitölu á kaup um nokkur ár og sú reynsla fékkst af því, að þá var atvinnulífið í landinu aldrei öruggt um það, hver þróun launamálanna yrði, eiginlega stundinni lengur. Gleggsta dæmið um þessa reynslu, sem atvinnulífið hlaut af hinu vísitölulausa tímabili, er árið 1963, þegar þrisvar sinnum varð að endurnýja kaupgjaldssamninga, þrisvar sinnum að breyta kaupgjaldi, og þetta skapaði atvinnuvegunum mikla óvissu, áreiðanlega mikið óhagræði og hefur vafalaust valdið atvinnulífinu tjóni vegna þeirrar óvissu, sem þetta ástand skapaði.

Í samkomulaginu vorið 1964 féllust allir aðilar, fulltrúar atvinnuveganna, fulltrúar ríkisvaldsins og fulltrúar verkalýðssamtakanna, á, að það væri skynsamlegra að láta þróun verðlagsins vera í tengslum við kaupgjaldið hverju sinni og að þarna myndaðist jafn og sígandi straumur, ef verðlagið hækkaði, yrði kaupgjaldið að koma þar á eftir með ársfjórðungslegu uppgjöri, og vitanlega sáu menn það, að þessi tenging verðlags og kaupgjalds ætti að leggja ríkisstj. þá skyldu á herðar að reyna að leggja sig alla fram um að hefta öran vöxt dýrtíðar, því að ef það tækist ekki, kæmi kaupið sjálfkrafa þar á eftir og mundi íþyngja bæði ríkissjóði, öllum ríkisstofnunum og atvinnuvegunum. Vísitölukerfið á þannig að vera hemill á hóflausa og taumlausa dýrtíð, og það að afnema vísitölukerfið mundi létta skyldum af ríkisstj. á hverjum tíma, en þar má sízt af öllu slaka á. Ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki tekið þessa frumskyldu sína nógu alvarlega, að beita öllum ráðum til þess að draga úr dýrtíð, þó að hún vissi, að kaupgjald fylgdi þar ávallt á eftir, — ábyrgðarminni má ekki gera hana í þessu efni, — en svo mundi verða, ef vísitalan væri tekin úr sambandi, sem hún ætlar að vísu ekki að gera nema um takmarkaðan tíma.

Ég held því fram, að með meiri vinnufriði en um langt skeið annars, síðan vísitölukerfið var tekið upp, sé það staðfest, að atvinnuvegirnir hafi búið við meira rekstraröryggi einmitt síðan þetta kerfi var upp tekið og það sé þess vegna vandséð, hvort það sé gert atvinnuvegunum til eflingar eða hagsbóta að rjúfa tengslin milli kaupgjalds og verðlags. Hins vegar er það kunnugt, að verkalýðshreyfingin hefur litið á þetta samkomulagsatriði frá því í júní 1964 sem undirstöðuatriði í allri samningagerð frá þeim tíma. Þegar það ber svo að í sambandi við ráðstafanir, sem leiða af sér miklar hækkanir á brýnustu lífsnauðsynjum almennings, að kippa á vísitölukerfinu úr sambandi, er ekki nema eðlilegt, að gegn því sé risið.

Samkv. vísitölukerfinu, sem í gildi er enn í dag, mundu þessar verðhækkanir, sem þarna leiddi af stjórnmálaaðgerðum ríkisstj., hvorki meira né minna en valda 7½–8% kjaraskerðingu. Og það er — ég segi tilfinnanlegt, það er meira en það, það er ekki frambærileg leið út úr ógöngum, sem hæstv. ríkisstj. er í, því að það er fjarri því, að vinnulaunin í landinu séu nægilega há til þess, að meðalfjölskylda geti haft framfæri af dagvinnutekjunum, eins og viðurkennt er. Þá list kunna engir, hvorki utan þings né innan, og það verður aldrei skotið rökum undir það, að tekjur hins almenna verkamanns á Íslandi séu svo óhófslega háar, að þær megi skerða og hægt sé að framfleyta meðalfjölskyldu á lægri tekjum. Það er ekki hægt af tekjum af dagvinnu einni, enda hefur mjög mikill hluti af tekjum verkafólks á undanförnum árum byggzt á tekjum af yfirvinnu, helgidagavinnu og næturvinnu.

Var þá ekki verkafólk nokkuð vel undir það búið einmitt nú að taka á sig þessa kjaraskerðingu, sem í frv. felst? Nei, sérstaklega ekki, af því að mjög margir einstaklingar innan verkalýðssamtakanna hafa orðið fyrir þeim samdrætti, sem veldur þessum aðgerðum. Mikill hluti íslenzkrar sjómannastéttar er ráðinn upp á hlut. Hlutasjómennirnir eiga helming aflaverðmætisins, sem inn á skipið kemur. Þegar aflabrestur verður, bitnar það á engum fyrr en á sjómanninum. Þegar verðlækkun verður á afurðunum, verður enginn fyrir því höggi fyrr en sjómaðurinn. Í þessum tilfellum hefur sjómannastéttin því orðið fyrir þeim áföllum fyrst allra, sem hæstv. ríkisstj. segir, að ríkissjóður hafi nú orðið fyrir og þurfi að bæta sér upp með þessum stjórnmálaaðgerðum. En verkafólk, hefur það orðið fyrir nokkurri kjaraskerðingu fram að þessu? Jú, það er alkunnugt og vitað, að á síðasta ári hefur orðið samdráttur í vinnu, þannig að menn hafa nú miklu óstöðugri vinnu en áður víða á landinu og þar sem þrýstingur var mestur á vinnumarkaðinum til skamms tíma hefur ákaflega mikið dregið úr yfirvinnu og nætur- og helgidagavinnu. Þar með er fallin niður sú vinnan hjá fjöldamörgum verkamönnum, sem var borguð með álagi, bezt borguð, ýmist 50 eða 100% álagi, og af þessu er mikið skarð fyrir skildi um tekjuöflun verkafólks. Þetta vissum við ósköp vel, og við höfum nú í höndum í Alþýðusambandinu úr ýmsum landshlutum átakanlegar skýrslur um það, hvernig atvinnulífið hefur dregizt saman á árinu 1967. Þar er útlitið í atvinnumálum ekkert glæsilegt mjög víða eftir þeim skýrslum að dæma. En það er líka nýkomin út skýrsla frá kjararannsóknanefnd, sem skipuð er fulltrúum bæði frá vinnuveitendum og verkalýðssamtökum, og þar er talað um vinnutímann og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, að það kemur í ljós, að eftirvinna og næturvinna hefur minnkað mjög mikið á árinu 1967 í fiskvinnu og næturvinna minnkað verulega við afgreiðslustörf, bæjarvinnu, verksmiðjuvinnu og slippvinnu. Þarna eru talin upp nokkuð mörg starfssvið, þar sem dregið hefur mjög úr yfirvinnu og yfirvinnutekjum hjá almennu verkafólki. Það er þá enn fremur og ekki síður kunnugt, að iðnaður og iðja hafa dregizt mjög saman á undanförnum mánuðum, og það fólk, sem að iðju og iðnaði vinnur, er fjöldamargt, því að iðnaðurinn hefur nú samkv. nýjustu skýrslum á sínu framfæri um 35% af íbúum landsins og þannig fleiri en nokkur annar atvinnuvegur hefur á sínu framfæri. En varðandi iðnverkafólk og iðnaðarmenn í landinu segir í skýrslu kjararannsóknanefndar, að yfirvinna sé mun minni við skipasmíði og viðgerðir, við alla málmsmíði, trésmíði og húsgagnagerð á fyrsta ársfjórðungi ársins 1967 heldur en á sama ársfjórðungi á árinu 1966. Og nú, þegar hefur liðið lengra á árið, hefur áreiðanlega þróunin verið í sömu átt, enda hefur það borið við nú á síðustu mánuðum sumarsins og að haustinu, að nokkuð mörg iðnfyrirtæki með allmikinn fjölda fólks í þjónustu sinni hafa orðið að rifa seglin og sum iðnfyrirtæki orðið gjaldþrota. Og við það hefur fólk í sumum tilfellum algerlega misst atvinnu sína.

Í viðræðunum við ríkisstj. létum við síðan koma fram í nokkrum töluliðum ábendingar um það, hvað við teldum hægt að gera til þess, að farsællegri leiðir væru fundnar til þess að brúa bilið í fjárlagafrv. heldur en þær, sem fælust í till. ríkisstj. N. taldi, að auka mætti verulega tekjur ríkissjóðs með auknu skattaeftirliti og betri skattheimtu. Könnunin, sem fram fór um þetta atriði, gerði það að verkum, að við vorum alveg eins sannfærðir að henni lokinni og áður um það, að skattheimtan væri ekki í góðu lagi og skattaeftirlitið því síður. Við gerðum athugun á söluskattinum. Það gerðu sérfræðingar Efnahagsstofnunarinnar líka. Við vorum sannfærðir um það, áður en athugunin fór fram, og þá ekki síður að henni lokinni, að það væru mikil vanhöld á innheimtu söluskatts, þess söluskatts, sem landslýðnum er gert að greiða, og það væri miklu minni upphæð, sem kæmist til skila inn í ríkissjóðinn, heldur en lagt væri á með þessu skattgjaldi. En sérfræðingar ríkisstj., það skal upplýst og ekkert undan dregið, að þeir voru á allt annarri skoðun. Þeir gerðu athugun á þessu og kváðust komast að þeirri niðurstöðu, að þessi skattur skilaði sér mjög vel. Niðurstaðan var á blöðum, sem okkur voru sýnd, sú, að af honum mundu skila sér meira en 95%. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta sé þá einhver sá skattur, sem bezt innheimtist. Það væru um 4.2%, sem líkur væru til, að misfærist af þessum skatti, sögðu niðurstöðutölur Efnahagsstofnunarinnar. Þeir sögðu, að innheimta hans hefði batnað mjög ár frá ári að undanförnu, og töldu sig vera búna að ná þessum árangri. Ef þetta er svona, er almenningsálitið í landinu að því er varðar söluskatt og söluskattsinnheimtu mjög á villigötum, það verð ég að segja.

Nú vita allir, að söluskatturinn er mesti tekjustofn ríkissjóðs og nemur eitthvað 1300 millj. á liðnu ári. Niðurstaða efnahagsmálasérfræðinganna varð því sú, að með 4.2% vanheimtu gæti verið um 50–55 millj. kr. vanheimtu að ræða, samt það. En ef þetta væri nú svo, að það væri ekki meira en 90% af álögðum söluskatti, sem skilaði sér og 10% misfærust á leiðinni til ríkissjóðs, væri þetta um 130 millj. kr. Og það verð ég að segja, að mér finnst það ekki ólíklegt. Jafnvel gæti ég vel ímyndað mér, að það væri ekki meira en 80% af álögðum söluskatti, sem kæmist til skila í ríkissjóðinn, og ef það væri þannig 20%, sem vanheimtist, væri það á 3. hundrað millj. kr.

Og við erum þeirrar skoðunar í forustu verkalýðssamtakanna, að það beri að gera annaðhvort ráðstafanir til bættrar innheimtu eða til þess að breyta skattheimtukerfinu, til þess að þessi tekjustofn, stóri og mikli tekjustofn skili sér betur, og það beri að ná árangri í því, áður en farið sé að skattleggja bita og sopa ofan í fátækt fólk. Við upplýstum, að við hefðum spurnir af því, að til væru peningakassar eða vélar, sem notaðar væru í okkar nágrannalöndum, sem geymdu í sér innsiglaðar upplýsingar handa skattayfirvöldum, þannig að ekki væri hægt að dylja, hvað í gegnum vélina hefði farið, og ef skattayfirvöld hefðu þá árvekni að fylgjast þarna með og veita eftirlit, færi ekkert á milli mála. Enn fremur bentum við á það, að við hefðum meiri trú á því, að söluskatturinn væri lagður öðruvísi á, innheimtur á annan veg, tekinn við tollafgreiðslu af öllum innflutningi til landsins, og enn fremur tekinn af innlendu framleiðslunni við verksmiðjudyr. Í þessum tilfellum báðum teldum við, að mun væri hægt að komast nær því að fullheimta þennan skatt, eins og hann væri á lagður, og e. t. v. að taka svo upp peningakassa með þeim útbúnaði, sem ég áðan lýsti, a. m. k. varðandi öll fyrirtæki, sem veltu yfir ákveðið lágmark. Það má vel vera, að það þætti ekki ómaksins vert að leggja söluskatt á viðskipti manna á milli og hjá hinum smæstu fyrirtækjum. En með þessum lið töldum við, að við værum að benda á möguleika til betri innheimtu á þeim sköttum, sem nú hvíla á landslýðnum, og það bæri að gera allt, sem hægt væri, til þess að koma slíkri innheimtu í lag, annaðhvort með auknu eftirliti eða breyttu skattakerfi. Það er og vitað, að vanhöld á tekjuskatti fara að nokkru leyti í kjölfar þess, að stolið sé af söluskatti og þegar söluskatturinn innheimtist betur, mundu lokast ýmsar dyr til þess að svíkja ríkissjóðinn um hluta af tekjuskatti.

Þá eru í þriðja lagi háværar grunsemdir um það, að nú upp á síðkastið sérstaklega hafi mjög aukizt tollsvik eða svik á tollgreiðslu gegnum það, að kaupsýslumenn hafi flutt íslenzka peninga úr landi og notað þær upphæðir til þess að borga niður faktúrur og koma sér þannig hjá í gegnum álagningarfrelsið hér heima að borga réttan toll til ríkissjóðs. Enn fremur er talið, að umboðslaun greidd erlendis í erlendum gjaldeyri séu e. t. v. notuð í stórum stíl til þess að borga niður faktúrur í því skyni að sleppa líka við tollgreiðslur til ríkisins. Hvort tveggja svona svindilbrask verður auðvitað að reyna að uppræta, og svo mikið er víst, að þetta virðist ekki hafa tekizt enn þá. Ef það er rétt, að um 300 millj. kr. hafi komið heim aftur til Seðlabankans á þessu ári og fjöldi manns sé við talningu á því fé, virðist það vera ekki allt saman frá ferðafólkinu, sem hefur að einhverju leyti fengið skipt íslenzkum peningum erlendis. Það gæti ekki oltið á slíkum upphæðum.

Þá var það og niðurstaða okkar starfsnefndar og einnig viðræðunefndarinnar við ríkisstj., að n. teldi unnt að spara verulegar upphæðir á gjaldabálki fjárl. Við það atriði hafa ýmsir dvalið, þ. á m. síðasti ræðumaður, og ég efa ekki, að það er hægt. Á fjárlfrv. upp. á 6 milljarða kr. munar strax um sparnað, þótt ekki næmi nema 2–3% á gjaldabálkinum. Það munar verulega um það. Og það hlyti að vera hægt, ef ríkissjóður sjálfur vildi þrengja að sér í svipuðu hlutfalli og hann krefst þess, að aðrir þrengi að sér vegna utanaðkomandi erfiðleika. Það er ríkissjóði skylt.

Í þessu sambandi má minna á, að það væri engin goðgá á samdráttartímum, þó að ríkisstj. kæmist að þeirri niðurstöðu, að það hefði þrengt svo að landslýðnum, að það væri ekki hægt að innheimta með sköttum allt það, sem ríkissjóður þyrfti að taka á gjaldabálk fjárl. Það hefur verið gert áður að taka lán til vissra framkvæmda, og það mætti vel verja það að taka t.d. við skulum segja 200 millj. kr. lán til þess að standa undir framkvæmdum, sem væru á fjárlagafrv, og taldar svo bráðaðkallandi, að ekki væru tiltök að fresta þeim.

Þá var það í fjórða lagi krafa n., að verðlagsákvæði yrðu gerð víðtækari og verðlagseftirlit bætt. Við fengum upplýsingar um það frá verðlagsstjóra eða verðgæzlustjóra, að álagning á vörur hefði síðan 1959 mjög hækkað, frá því að víðtækum vöruflokkum var sleppt undan verðlagsákvæðum. Og þegar við bárum saman álagninguna á þeim vörum, sem eru undir verðlagsákvæðum, og hinum, sem sleppt er undan þeim, kom í ljós, að kaupsýslan hefur tekið sér nokkuð frjálslegt sjálfdæmi um álagninguna á þýðingarmiklum vöruflokkum og álagningin er í þeim tilfellum yfirleitt orðin miklu hærri en þar, sem verðlagsákvæðin leggja hömlur á verðlagninguna. Við báðum síðan hagstofuna að athuga, hvort það mundi verða merkjanlegt í vísitölunni, ef álagningarreglur yrðu nú settar í svipað horf og á árinu 1959 á þessum frjálsa innflutningi. Og það kom í ljós við skyndiathugun hagstofunnar, að það var talið geta valdið 2–2.4% í vísitölunni til lækkunar, ef álíka ströng verðlagsákvæði yrðu látin taka yfir meginþorrann af þessum vísitöluvörum. við töldum, að þarna væri réttlætanlegi, þegar væri svo mjög gengið á hlut launastéttanna, að kaupsýslustéttin tæki á sig byrðar í sambandi við þessar ráðstafanir. Það má vel vera, að kaupsýslan telji sig búa við mikla erfiðleika og hafi ekki of rúmt um hönd, en hún hefur fengið að skapa sér mikið olnbogarými, og þegar þrengir að, er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að einnig verði komið við á þeim bæ.

Í fimmta lagi lagði nefndin áherzlu á, að það yrði að gera ráðstafanir til þess að efla innlenda iðnframleiðslu með það fyrir augum að auka atvinnu í landinu og atvinnutekjur vinnandi fólks, en einnig til þess að bæta hag ríkissjóðs með eflingu iðnaðarins og taldi, að það ætti ekki að horfa í það að takmarka innflutning á þeim iðnvarningi, sem unnt væri að framleiða með jafngóðum árangri í landinu sjálfu. Við teljum það ekki verjandi að hrúga inn í landið erlendum iðnaði á svipuðu gæðastigi og Íslendingar geta framleitt sjálfir, þegar við erum í vandræðum með að láta gjaldeyristekjur þjóðarinnar duga fyrir því, sem nauðsynlegra er, og þetta ætti því að þjóna í raun og veru margföldum tilgangi, bæði atvinnulega séð að því er snertir tekjumöguleika ríkissjóðs og til þess að draga úr óþarfri eyðslu eða lítt verjandi eyðslu á dýrmætum gjaldeyri til kaupa á erlendum iðnvarningi. Það hafa að vísu ýmsir sagt, einkanlega fyrir síðustu kosningar: Aldrei höft, engar hömlur, engin höft. — En þeir menn hafa bara talað yfir sig. Á góðæris- og velgengnistímum er kannske hægt að draga alla slagbranda frá og auka frelsið, en þegar að þrengir, er ekki aðeins hyggilegt, heldur bara sjálfsagt að þrengja svolítið að og leyfa mönnum ekki t.d. í þessu landi að kasta gjaldeyri í að kaupa erlendar kökur eða niðursoðnar síldarvörur eða annað því líkt, sem þjóðin á á sínu matborði sjálf nægtir af.

Að lokum lét svo n. í ljós, og það hefur ekki verið látið liggja í láginni af talsmönnum og málgögnum hæstv. ríkisstj., að við teldum síður en svo háskalegt, miðað við núverandi samdráttarhorfur, þótt einhver halli yrði á fjárl. næsta árs. Það hefur ekkert verið talið óhyggilegt í góðæri, að hið opinbera og sérstaklega ríkissjóður tæki til sín í sköttum í góðærinu jafnvel meira en nauðsynlegt þyrfti til þess að reka ríkisbúskapinn og léti jafnvel sumar upphæðir af þeirri tekjuöflun ekki fara út í efnahagskerfið aftur, heldur verða þar um kyrrt sem sjóðmyndanir t.d. En alveg nákvæmlega er á sama hátt réttlætanlegt, þegar að kreppir, að taka ekki af gjaldþegnunum fulla skattheimtu til þess að standa undir öllum nauðsynlegum rekstri þjóðarbúsins, heldur slaka þá þar til og láta eitthvað á vanta um fulla gjaldheimtu.

Þessu hefur hæstv. ríkisstj. algerlega neitað sem möguleika, en til hans ætluðumst við heldur ekki að þyrfti að grípa, nema því aðeins að ekki tækist að ráða svo fram úr tekjumöguleikum ríkissjóðs með þeim ráðstöfunum, sem við höfum bent á, eða öðrum færum leiðum, að endar næðu saman.

Þessar till. okkar af hendi verkalýðssamtakanna hafði ríkisstj. hjá sér um vikutíma, en þegar hún hafði athugað þær, gaf hún okkur svör, og svörin voru á þá leið, að á þessar till. okkar og ábendingar var ekki litið, og eftir stóð þá þessi óhagganlega afstaða okkar ófrávíkjanlega, að vísitala á laun skyldi haldast óslitin. Hæstv. ríkisstj. hefur í sameiginlegri fréttatilkynningu, sem út var gefin að viðræðunum loknum, lýst till. sínum á þann veg, að ríkisstj. vilji gera þá breytingu á stjfrv., að í stað þess að engin hækkun verði á hinni nýju kaupgreiðsluvísitölu vegna lækkunar á niðurgreiðslum og annarra aðgerða, hækki þessi vísitala um 3% og komi hækkunin til framkvæmda í þremur jöfnum áföngum, hinn 1. júní n. k., í lok næsta árs, um áramótin 1968–1969, og í þriðja áfanga 1. júní 1969. Þarna er sem sé boðið, að í stað þess að allar ráðstafanir ríkisstj. áttu að bitna á gjaldþegnunum bótalaust, vísitalan alveg að takast úr sambandi, er þarna boðið að láta koma 3 vísitölustig á 1½ ári. Ekki er þarna að því vikið, að það var einnig í tilboði ríkisstj., að hin nýja vísitala, sem talið er, að næmi um 4% kjaraskerðingu, ef hún kæmi til framkvæmda, móti því, að gamla vísitalan næmi 7½% sem kjaraskerðingu, þá var það látið fylgja, að þarna ætti að taka tvö atriði út úr vísitölunni nýju, út úr þeim nýja grundvelli, þannig að sá vísitölugrundvöllur yrði í byrjun skertur um rúmlega 1%.

En auk þessa bauð svo ríkisstj. að hækka ellilífeyri um 5%, örorkulífeyri um 5% og fjölskyldubætur með tveimur börnum eða fleiri um 5%. Þetta er í raun og veru viðurkenning á því, að ellilífeyrisþegar og öryrkjar og barnmargar fjölskyldur verði þungt fyrir barðinu á þeim till., sem í frv. felast, og þarna skuli veita nokkrar bætur, og á því er sízt vanþörf. Og 6% hækkun tekur sig nokkuð vel út á pappír, því er ekki að neita. En hvað er þetta í krónutölu? Hvað er mikil hjálp í þessu fyrir barnmargar fjölskyldur og fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja? Ég komst að þeirri niðurstöðu, að meðalfjölskylda mundi verða fyrir barðinu á um 1000 kr. aukaútgjöldum á mánuði, ef kjaraskerðing frv. kæmi óbreytt, en öryrkinn fengi og ellilífeyrisþeginn, — það er víst sama upphæð, rúmlega 2700 kr. á mánuði, sem ellilífeyririnn nemur, — öryrkinn mundi fá og ellilífeyrisþeginn um 138.25 kr. á mánuði til þess að standa undir hinum auknu útgjöldum við kaup lífsnauðsynjanna. Það má segja, það er viðleitni til þess að draga úr kjaraskerðingunni gagnvart þessu fólki.

Þá kem ég að hækkun fjölskyldubótanna um 5% hjá fjölskyldu, sem hefur 2 börn á framfæri sínu. Hvað er það í krónutölu, 5% af fjölskyldubótunum? Það eru 16.50 kr. á mánuði. Fyrir þá upphæð er hægt að kaupa nokkur hundruð grömm af kjöti, og það er hægt að kaupa tæpa tvo lítra af mjólk á einum mánuði fyrir þessa hækkun. En samt sem áður, þetta er boðið til þess að taka sárasta broddinn af því höggi, sem ríður ekki hvað sízt á hinum tekjulægstu í þjóðfélaginu skv. upprunalegum tillögum ríkisstj.

Endurgreiðslan á vísitölustigunum þremur á 18 mánuðum, ég kemst að þeirri niðurstöðu, að hún mundi skila svona 50 kr. á mánuði að meðaltali á næstu 13 mánuðum, sú endurgreiðsla, miðað við verkamannatekjur.

Þegar þetta tilboð lá fyrir viðræðunefnd alþýðusamtakanna núna 9. nóv., báðum við um stutt fundarhlé og komumst fljótt að niðurstöðu um það, að við gætum ekki fallizt á, að þetta væri fullnægjandi fyrir okkar umbjóðendur, og svöruðum þessu tilboði neitandi. Það varð því ekki annað séð en að viðræðurnar milli ASÍ og BSRB annars vegar og ríkisstj. hins vegar, þótt þær hefðu tekið langan tíma, hefðu orðið tilgangslitlar. Þó er ekki því að neita, að ýmislegt hefur fengizt upplýst við þessar viðræður og ríkisstj. hefur gert breytingar á sínu upphaflega frv., þó að við teljum það ekki snerta kjarna málsins, sem sé órofna vísitölu. Við lýstum því samt yfir fyrir hönd verkalýðssamtakanna, að við vildum fallast á, að grundvöllur hinnar nýju vísitölu yrði tekinn upp óskertur og tengdur beint við gömlu vísitöluna, eins og hún var seinast birt, án þess að nokkurt vísitölulaust tímabil myndaðist. Þetta var okkar upphaflega afstaða skv. okkar fyrsta svari, og þetta var það, sem við stóðum á, þegar upp var staðið. Þegar svona stóðu sakir 9. nóv., varð samt að ráði, að ræðst skyldi við um þau atriði, sem höfðu verið til umr., eða önnur atriði, eftir því sem efni stæðu til. Þannig lauk þessum viðræðum okkar ekki með neinum hurðarskellum eða látum, heldur hné hurð að stöfum og a. m. k. þessi þáttur umræðnanna, um afstöðu til þessa frv., virðist vera búinn.

Þegar málin stóðu svona, taldi miðstjórn ASÍ rétt að kalla saman eins víðtæka ráðstefnu og unnt væri með skömmum fyrirvara, og það gerðum við, og ætluðum þar að standa reikningsskap á því að hafa hafnað tilboðum ríkisstj., veita fulltrúum verkalýðsfélaganna víðs vegar af landinu, sem gætu komið til þessarar ráðstefnu, upplýsingar um það, sem gerzt hefði í viðræðunum, og síðan fá vitneskju um það, hvað þessir forustumenn verkalýðssamtakanna teldu nú nauðsynlegt að gera. Þessi ráðstefna kom saman í gær og tók þessi mál til meðferðar. Þegar sýnt var, hver mundi verða efnisleg niðurstaða ráðstefnunnar af þeim umræðum, sem fóru fram í gærkvöld fyrir kvöldverð, þótti það vera skynsamlegt að draga upp efnisatriði þau, sem rakinn meiri hl. var fyrir á ráðstefnunni, og kjósa 5 manna nefnd til þess að ganga á fund ríkisstj. og gera henni grein fyrir því, hver verða mundi niðurstaða þessarar ráðstefnu, áður en endanlegar samþykktir hefðu verið gerðar, þannig að ríkisstj., sem hafði óskað eftir því, að viðræðum við hana væri ekki með öllu slitið, stæði ekki frammi fyrir gerðum hlut. Þetta var svo gert. Okkur var 5 falið að ganga á fund ríkisstj., og sú viðræða fór fram í morgun. Við ræddum þar um þessi mál, gerðum henni grein fyrir, hvernig ályktun ráðstefnunnar mundi verða í öllum meginatriðum. Ríkisstj. lét það í ljós, að hún gæti ekki gengið að því, að vísitölukerfið héldist óslitið, þar með var hafnað okkar meginafstöðu í gegnum allar þessar umr., en hún byði, að nánar yrði athugað, hvort hægt væri að lækka eitthvað vísitölu með því að þrengja álagningarreglur í kaupsýslunni. Það telur hæstv. ríkisstj. ekki fullkannað enn þá. Enn fremur bauð hæstv. ríkisstj. það, að viðræður gætu farið fram t.d. við hæstv. fjmrh. um það, hvort leiðir fyndust til að draga eitthvað úr gjaldabálki fjárlaga. Þessar athuganir geta því farið fram enn. En þegar þessi svör lágu fyrir, tók ráðstefnan aftur til starfa klukkan 2 í dag og ræddi málið áfram, eins og það þá blasti við, og gerði síðan sínar samþykktir, sem eru fólgnar í ályktun, sem ég tel rétt, af því að hún varðar niðurstöðu þessa máls og afstöðuna til þess frv., sem hér er til umr., að lesa, með leyfi hæstv. forseta.

Ályktunin er á þessa leið:

„Ráðstefna ASÍ um efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj., saman komin í Reykjavík dagana 13. og 14. nóv., gerir eftirfarandi ályktanir:

1) Ráðstefnan ítrekar þá grundvallarafstöðu sína til málsins, að vísitala á laun haldist óslitið.

2) Ráðstefnan lýsir sig samþykka gerðum við ræðunefndarinnar og staðfestir þá afstöðu að hafna tilboði ríkisstj. sem ófullnægjandi með öllu.

3) Þar sem ríkisstj. hefur tekið frv. sitt um aðgerðir í efnahagsmálum til afgreiðslu í þinginu án þess að fullnægja þeirri grandvallarkröfu verkalýðssamtakanna, að vísitölukerfið haldist órofið, mælir ráðstefnan eindregið með því við sambandsfélögin, að þau með nægilegum fyrirvara fyrir 1. des. n. k. boði til vinnustöðvana, hvert á sínu félagssvæði, þannig að þau hinn 1. des. verði búin til allsherjarverkfalls til að knýja fram þá meginkröfu, að launakjör haldist óskert, hafi ekki fyrir þann tíma náðst samkomulag um lágmarkskröfur samtakanna.

4) Ráðstefnan felur miðstjórn ASÍ að hafa á hendi forustu um undirbúning nauðsynlegra aðgerða og tilnefna nefnd til að koma sameiginlega fram fyrir hönd samtakanna, eftir því sem félögin veita umboð til þess. Enda telur ráðstefnan, að við núverandi aðstæður sé eðlilegt og nauðsynlegt, að samningar fari fram sameiginlega.“

Þetta er sú niðurstaða, sem ráðstefnan komst að seinni partinn í dag.

Það er auðséð af þessari ályktun, að á það er fallizt, að engar launahækkunarkröfur séu gerðar, að gengið sé inn á að taka upp hinn nýja vísitölugrundvöll, þó að hann mæli launþegum nú við þessa breytingu, eins og hana ber að, minna en gamla vísitalan, og haldið fast við þá kröfu, sem viðræðunefndin hefur alltaf staðið á, að vísitala á laun haldist óslitið. Þessa kjaraskerðingu, sem hér er um að ræða, fellst ráðstefnan á, að verkalýður landsins taki á sig í viðbót við þær fórnir, sem ég hef áður gert grein fyrir og ég tel að bæði sjómenn, verkafólk og iðnaðarmenn hafi þegar tekið á sig við samdrátt atvinnulífs og lækkun afurðaverða. Það er að vísu rétt, að þau högg ríða ekki jafnt á öllum launþegum landsins, þar er nokkur mismunur á, en mikill hluti af okkar umbjóðendum í ASÍ verður þó áreiðanlega fyrir þeirri kjaraskerðingu, og því neita sjálfsagt fáir.

Okkur er það vel ljóst, að hér er mjög mikil alvara á ferðum. En verkalýðshreyfingin neitar því, að hún hafi sýnt óbilgirni í þessu máli. Hún gerir ekki kröfur, ekki einu sinni um að halda sínu að fullu, heldur hefur boðizt til þess að taka á sig nokkrar byrðar í viðbót við þær, sem þegar hafa á henni lent, vegna þróunar atvinnulífsins. Og það er vissulega rétt, enginn græðir á verkföllum, en málin geta staðið þannig, að menn vilji ekki aðeins berjast fyrir hagabótum, heldur líka fyrir heiðri sínum. Og við teljum það, að við verðum að berjast fyrir heiðri verkalýðssamtakanna, þegar byrðar fáist ekki lagðar réttlátlega á þegnana og aðrir verði undanþegnir að bera sameiginlegar byrðar, en þeim, sem minnst burðarþolið hafi, ætlað að standa þar undir meginþunganum.

Þetta er niðurstaðan, og útlitið er ekkert bjart. Það verður að segjast, að það voru uppi raddir á okkar ráðstefnu um að gera strangari kröfur en þetta, fallast jafnvel ekki á það, sem við höfðum þó boðið, að nýi vísitölugrundvöllurinn yrði upp tekinn. En ofan á varð að sætta sig við þá kjaraskerðingu og gera engar kröfur um kjarabætur eða aukinn kaupmátt launa frá því, sem nú er. En allir voru einróma samtaka um það, að það bæri að slá órofa skjaldborg um óskertar launatekjur verkafólks, og við það hygg ég að óhætt sé að reikna með að verði staðið.

Ég þarf sjálfsagt ekki að taka það fram eftir þennan lestur minn og það, sem ég hef hér sagt, að ég mæli það í fullu umboði verkalýðssamtakanna, og það geri ég með góðri samvizku sem þm. líka, að taka undir till. minni hl. fjhn. um, að frv. verði fellt.