15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Nú er liðinn tæpur mánuður, síðan frv. þetta var til 1. umr. hér í hv. þd. Á þessum tíma hafa farið fram viðræður milli sameiginlegrar viðræðunefndar frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og ríkisstj. hins vegar, þar sem kannað var, hvort grundvöllur væri fyrir breytingum á þessu frv., sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Nú er þessum viðræðum lokið, og hafa þær ekki leitt til samkomulags. Ég vil leggja áherzlu á, að í viðræðum þessum var full samstaða um öll atriði milli Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er athyglisvert með afstöðu launþegasamtakanna í þessu máli, að hún hefur verið mótuð á fullkomlega stéttarlegan hátt. Launamenn úr öllum stjórnmálaflokkum standa saman um stefnuna í þessu mikilsverða máli fyrir alla launþega í landinu. Þessi stefna hefur verið mörkuð af mjög fjölmennum hópi forustumanna launþegasamtakanna.

Það kom svo glöggt í ljós sem verða má, að launamenn sætta sig ekki við þær efnahagsráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir. Sjaldan eða aldrei hafa launþegasamtökin í landinu staðið svo einhuga saman um nokkurt mál sem þetta. Stjórn ASÍ og síðar tvær fjölmennar ráðstefnur, sem Alþýðusambandið boðaði til, stjórn BSRB og síðar aukaþing BSRB, svo og fjölmörg launþegafélög landsins hafa einum rómi lagzt gegn þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. hyggst knýja fram með þessu frv. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt opinberlega eina einustu rödd úr hópi launamanna, sem mælir þessum aðgerðum bót, og er það sannarlega óvenjulegt í okkar landi, þar sem svo skiptar skoðanir eru venjulega um landsmálin. En launþegasamtökin hafa ekki látið við það sitja að mótmæla. Þau hafa í þeim viðræðum, sem fram hafa farið undanfarið, lagt fram jákvæðar till. um, hvernig unnt sé að leysa þann vanda, sem frv. fjallar um, með öðrum hætti en þar er gert ráð fyrir.

Því hefur verið lýst yfir af hálfu þeirrar n., sem launþegasamtökin tilnefndu til viðræðna við ríkisstj., að það sé ófrávíkjanlegt, að vísitala á laun haldist óslitið. Þetta er grundvallaratriði, sem launamenn hafa löngu gert sér ljóst, að ekki má hvika frá. Vísitalan er sjálfur verðmælirinn og raunar álíka gáfulegt að taka hana úr sambandi og þegar þeir láta stöðva klukkuna í franska þinginu, til þess að fjárlagafrv. verði afgreitt fyrir tilskilinn tíma. Það hefði verið miklu heiðarlegra að koma beint framan að mönnum og krefjast tiltekinnar launalækkunar heldur en þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir. Þá hefðu menn þó vitað, að hverju þeir gengju og hvað þeim var ætlað að taka á sig. Með ráðstöfunum ríkisstj. er verið að framkvæma stórfellda kjaraskerðingu. En ríkisstj. biður ekki um tiltekna kauplækkun, heldur á að taka verðmælinn úr sambandi nokkurn tíma, og á meðan eiga að verða svo og svo miklar verðhækkanir, sem geta orðið miklu meiri en stjórnarvöldin hafa þegar tilkynnt um.

Nú er tæpur mánuður liðinn, eins og ég sagði áðan, síðan þetta frv. var til 1. umr., og ekki er nema 1½ mánuður þangað til vetrarvertíð á að hefjast. Hefur ríkisstj. á þessum mánuði gert sér nokkra grein fyrir því, hvað hún ætlar að taka til bragðs, til þess að útgerðin stöðvist ekki um áramót, m.a. vegna þess að fyrir liggur nú yfirlýsing frá eigendum hraðfrystihúsanna um, að þeir muni stöðva rekstur frystihúsanna um áramót, nema til komi gengislækkun eða aðrar þær aðgerðir í efnahagsmálum, sem bjargað geti rekstri frystihúsanna að þeirra dómi? Allir vita, að með þeim 750 millj., sem nú er verið að leggja á þjóðina, er aðeins verið að bjarga gömlum hengingarvíxli, en fram undan bíða úrlausnar hin raunverulegu vandamál atvinnuveganna. Eiga landsmenn að trúa því, að ríkisstj. landsins viti ekki sitt rjúkandi ráð, hvað til bragðs eigi að taka eftir 6 vikur til þess að koma atvinnuvegunum af stað? Hæstv. forsrh. viðurkenndi það við 1. umr., að frekari athuganir gætu gert frekari ráðstafanir nauðsynlegar. Ég held, að sá maður finnist varla, sem trúir því, að stjórnarvöldin séu ekki enn búin að gera sér ljóst, hvernig þessi mál standa.

Menn gera sér grein fyrir því, að atvinnuvegir okkar hafa orðið fyrir áfalli vegna verðfalls og erfiðleika við síldveiðarnar, en almennt vona menn, og það gerir ríkisstj. líka og segist hafa ástæðu til þess að vona, að verðlagið muni fara fremur hækkandi en lækkandi á næstunni. Ef þær vonir rætast, er hér um tímabundna erfiðleika að ræða, sem ekki hefði raunar átt að vera vandasamt að mæta eftir hvert góða árið á fætur öðru undanfarið.

Ég vil þá víkja að þeim leiðum, sem viðræðunefnd launþegasamtakanna benti á til þess að mæta þeim halla á fjárl., sem efnahagstill. ríkisstj. miða að.

Nefndin lýsti því yfir, að hún væri reiðubúin til að ganga til samkomulags um, að tekinn yrði upp hinn nýi vísitölugrundvöllur, sem efnahagsmálafrv. gerir ráð fyrir, enda yrði vísitalan ekki skert, en tengd núverandi vísitölu miðað við þá síðustu framfærsluvísitölu, sem birt hefur verið. Rök n. fyrir þessu tilboði voru þau, að hinn nýi vísitölugrundvöllur mundi í framtíðinni vera réttlátari mælir á verðlagsbreytingarnar og því launþegum hagkvæmt, að hann verði tekinn upp, þegar fram í sækir, þótt þeir tapi á því í bili 3½%. Þarna var vissulega komið mjög langt til móts við ríkisstj. og verulegum útgjöldum létt af ríkissjóði og atvinnuvegunum. Á móti átti að koma aukin trygging launþega fyrir réttari verðlagsuppbót framvegis en hingað til.

Þá taldi viðræðunefndin, að auka mætti verulega tekjur ríkissjóðs með auknu skatteftirliti og betri skattheimtu. N. fékk upplýsingar um, að svo til ekkert bókhaldseftirlit væri hér á landi, og í ljós hefur komið, að hér mun í raun ekkert eftirlit vera með gildi innkaupsreikninga innfluttra vara, en slíkt eftirlit tíðkast víða erlendis, t.d. í Danmörku. Eftirlitsleysið í sambandi við innkaupsreikningana opnar víðar gáttir til tollsvika, sérstaklega á þeim vörum, sem ekki eru háðar verðlagsákvæðum.

Þótt ekki sé unnt að leggja nein sönnunargögn fram um það, bendir allt til þess, að undandráttur á söluskatti og tekjuskatti nemi afgerandi fjárhæðum fyrir afkomu ríkissjóðs. Í löndum, þar sem eftirlit með skattheimtu er talið miklu meira en hér hjá okkur, er þó talið, að skattsvik í sambandi við tekjuskatt nemi ekki undir 15%, og má þar nefna t.d. Danmörku. Og nærri má geta, hvort það er ekki mun meira hér á landi í sambandi við innheimtu beinna skatta, þar sem ekkert bókhaldseftirlit getur talizt og vitað er, að framkvæmd skattheimtu er öll í slappasta lagi.

Í viðræðum þeim, sem fram hafa farið undanfarið, hefur komið í ljós vilji stjórnarvaldanna til þess að ræða um leiðir til þess að koma betra skipulagi á skattamálin, en ríkisstj. segist ekki hafa trú á því, að slík úrræði verki nægilega fljótt. Ég vil leggja áherzlu á, að ég tel, að eftirlit með innheimtu söluskatts og annarra lögboðinna skatta og tolla sé slíkt grundvallaratriði í sambandi við efnahagsmálin og þá sérstaklega í sambandi við kjör launþega, að þau mál beri að taka miklu fastari tökum en nú er gert og megi vænta af því raunhæfra kjarabóta fyrir launamenn í þessu landi. Það er á almannavitorði, að þau skatthlunnindi, sem löggjafinn hefur veitt fyrirtækjum, eru misnotuð, og er slíkt vafalaust algengara vegna skorts á eftirliti með bókhaldi fyrirtækja. Á undanförnum árum hafa verið gefin út vísitölutryggð spariskírteini í allstórum stíl, og eru þessi spariskírteini skattfrjáls og undanþegin framtalsskyldu. Þarna hefur verið veitt undanþága, sem augljóslega opnar möguleika til undandráttar á fleiri sviðum. Hér eru árlega gefin út handhafaskuldabréf í stórum stíl, og þessi verðbréf, sem bera venjulega vexti í samræmi við almenna bankavexti, ganga kaupum og sölum með miklum afföllum frá nafnverði þeirra, sennilega oft 35–40% afföllum. Engum dettur annað í hug en handhafaskuldabréfin séu jafnframt notuð til undandráttar á skattframtölum. Satt bezt að segja hníga öll rök að því, að almannarómur hafi rétt fyrir sér um það, að árlega séu framin hér skattsvik í mjög ríkum mæli. Þetta hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar, að þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem ekki vilja eða geta dregið undan skatti, greiða þau opinberu gjöld, sem annars ættu með löglegum hætti að koma í hlut skattsvikaranna. Auk þess gerir þetta opinberar hagskýrslur rangar og á auðvitað að valda því, að allar upplýsingar um afkomu fyrirtækja séu teknar með mikilli varúð, því að þær eru vissulega byggðar á skattframtali hlutaðeigandi aðila. Hvernig sem á málið er litið, er óhjákvæmilegt, að gert verði stórt átak til þess að bæta eftirlit með framtölum og tryggja betur en nú er gert skattheimtu og tollheimtu. Það mundi áreiðanlega valda því, að sú ofsköttun, sem hrjáir almenning í dag, gæti lagazt verulega og bætt þó hag ríkissjóða og aukið virðingu manna fyrir framkvæmd laga, sem er þó ekki þýðingarminnsta atriðið.

Viðræðunefndin taldi, að unnt væri að spara umtalsverðar fjárhæðir á gjaldabálki fjárl., og þó að nefndin teldi sig ekki hafa tíma né aðstöðu til að benda þar á einstök atriði, vil ég þó nefna hér eitt atriði, en það er varðandi lántökur til framkvæmda ríkisins. N. taldi mjög eðlilegt, að í stað þess t.d. að greiða stofnkostnað pósts og síma af eigin fé stofnunarinnar, væri tekið lán til þessara framkvæmda, en áætlað er á fjárlagafrv. fyrir næsta ár, að þessar framkvæmdir nemi á því ári tæplega 150 millj. kr. Er ástæða til þess á svona tíma, að slíkar fjárhæðir séu staðgreiddar? Ég held ekki.

N. benti á, að með víðtækari verðlagsákvæðum, þ.e.a.s. fleiri vörutegundir væru teknar undir verðlagsákvæði, og auknu verðlagseftirliti mætti breyta verðlagsþróuninni almenningi í hag. N. sýndist það alveg augljóst af þeim gögnum og upplýsingum, sem hún fékk í hendur, að þróunin hefur verið mjög í þá átt, síðan verðlagið var gefið frjálst í ríkara mæli en áður, að álagning verzlana hafi farið sífellt hækkandi, og athugun, sem hagstofan gerði fyrir n., bendir til þess, að þessi hafi reyndin einnig orðið að því er tekur til neyzluvara, er hafa áhrif á vísitöluna.

N. lagði áherzlu á, að innlend iðnaðarframleiðsla yrði efld. Þannig mætti auka atvinnu og vinnutekjur og þar með tekjur ríkissjóðs og halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum út á við. Í þessu skyni skyldi takmarkaður innflutningur á þeim vörum, sem unnt væri að framleiða með jafngóðum árangri í landinu sjálfu.

Þá lét viðræðunefndin í ljós, að hún teldi síður en svo háskalegt, miðað við núverandi samdráttarhorfur, þó að einhver halli yrði á fjárl. næsta árs.

Ríkisstj. taldi sig ekki geta fallizt á það grundvallaratriði í till. viðræðunefndar Alþýðusambandsins og BSRB, að vísitala launa héldist óslitið. Að öðru leyti gengu till. ríkisstj. í svipaða átt og þær brtt., sem fyrir liggja á þskj. 58 frá meiri hl. fjhn. Viðræðunefndin taldi, að þessar till. væru mjög veigalitlar til þess að draga úr þeirri stórfelldu kjaraskerðingu, sem launþegum er ætlað að taka á sig, og því algerlega óaðgengilegar, og var þeim því hafnað. Ég segi það alveg eins og er, að ég er alveg undrandi á því, að ríkisstj. skuli ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið með sínum nauma þingmeirihluta, þegar það nú liggur ljóst fyrir, að verkalýðshreyfingin mun ekki una þessum ráðstöfunum og verkalýðsfélögin ætla sér í verkfallsaðgerðir, verði málið keyrt í gegn.

Hv. frsm. meiri hl. lýsti því hér, hvað launþegar hefðu fengið mikið í sinn hlut á góðæristímanum. Það er sama, hve margar skýrslur verða birtar um tekjur launþega á undanförnum árum, þá hrekja þær ekki þá staðreynd, að þeir, sem höfðu góðar tekjur á þessu tímabili, öfluðu þeirra að verulegu leyti með mikilli eftirvinnu og yfirborgunum. Nú hefur hvort tveggja minnkað verulega, og sú samdráttarstefna, sem mörkuð er af ríkisstj. með þessum efnahagsaðgerðum, mun valda því, að yfirborganir og yfirvinna hverfa úr sögunni. Menn verða því að láta sér nægja dagvinnukaupið til framfæris. Það dugði mönnum ekki áður, hvað þá heldur eftir þá kjaraskerðingu, sem efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafa í för með sér.

Alvarlegast er ástandið í atvinnumálunum. Í þeim upplýsingum, sem viðræðunefnd ASÍ og BSRB fékk, kom fram, að fjárlagafrv. er byggt á því, að um verði að ræða samdrátt í byggingarstarfsemi og því sem næst stöðnun í innlendum iðnaði og þjónustustarfsemi og minnkaða eftirspurn eftir vinnuafli, þótt ekki sé reiknað með auknu framboði vinnuafls vegna fólksfjölgunar. Á slíkri samdráttarstefnu er áætlun fjárlagafrv. byggð samkv. þeim upplýsingum, sem viðræðunefndin fékk, og ekki er að furða, þótt menn óttist, að slík stefna geti hreinlega leitt til atvinnuleysis. Með þessu á m.a. að varðveita gjaldeyrissjóðinn, sem mikið var gumað af fyrir kosningar, að ætti að bjarga þjóðinni, ef að kreppti. Að dómi launþegasamtakanna verður að grípa til annarra ráða til að varðveita jafnvægi þjóðarbúskaparins út á við. En ríkisstj. fylgir í þessum efnum sömu stefnu og hún hefur frá upphafi fylgt, — stefnu, sem þegar er búin að koma atvinnuvegum landsins á kné.

Það, sem nú er mest aðkallandi, er endurreisn atvinnuveganna. En til þess að slík endurreisn geti átt sér stað, þarf að breyta um stefnu og taka upp aðrar starfsaðferðir en núv. ríkisstj. gerir. Launþegasamtökin hafa lýst yfir, að þau séu reiðubúin til samvinnu um þessi mál, og þau hafa í ályktunum bent á ákveðnar leiðir í þessum efnum. Á árinu 1966 voru sett lög um hagráð. Samkv. þeim l. eiga þar sæti tveir ráðh. tilnefndir af ríkisstj. Auk þeirra tilnefna eftirtaldir aðilar hver einn fulltrúa í hagráð: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag ísl. iðnrekenda, Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, Landssamband ísl. verzlunarmanna, Samband ísl. sveitarfélaga, Sjómannasamband Íslands, Stéttarsamband bænda, Stéttarsamband fiskiðnaðarins, stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ., Verkamannasamband Íslands, Verzlunarráð Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands.

Í 17. gr. l. um hagráð segir: „Stofna skal hagráð, er sé vettvangur, þar sem fulltrúar stjórnarvalda, atvinnuvega og stéttarsambanda geti haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum hverju sinni.“ Og áfram segir, með leyfi hæstv. forseta, í 19. gr. 1. um hagráð: „Meginverkefni hagráðs skal vera að ræða ástand og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Efnahagsstofnunin skal leggja fyrir hagráð tvisvar á ári, í apríl og október, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þ. á m. varðandi framleiðslu, fjárfestingu, greiðslujöfnuð, afkomu atvinnuveganna og verðlags- og kaupgjaldsmál. Þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir ríkisstj. skulu lagðar fyrir hagráð.“ Síðar í greininni segir, að skýrsla um umræður í hagráði skuli jafnan send ríkisstj. og sömuleiðis ályktanir, sem gerðar kunna að vera. Samkvæmt lögunum á Efnahagsstofnunin að leggja skýrslur fyrir hagráð tvisvar á ári, í apríl og október, eins og ég las hér áðan.

Í upphafi þessa þinga var af hálfu ríkisstj. gerð grein fyrir því, að vegna erfiðleika, sem steðjuðu í efnahagsmálum þjóðarinnar, yrði óhjákvæmilegt að gera róttækar aðgerðir í efnahagsmálum, sem mundu valda mikilli kjaraskerðingu hjá almenningi. Nú skyldi maður halda, að slíkar aðstæður í efnahagsmálum hefðu orðið til þess að flýta fremur en seinka því, að skýrsla, sem Efnahagsstofnuninni ber lögum samkvæmt að leggja fyrir hagráð í október hvert ár, yrði þar fram lögð og rædd og það samráð haft við hagráð um efnahagsmálin, sem hafa ber lögum samkvæmt um heildarstefnuna í þeim málum. En því fór víðs fjarri, að þetta væri gert, og það er fyrst fyrir síðustu helgi, að þessi skýrsla var lögð fram. Umræður um hana hófust í hagráði í fyrradag, eða 13. nóv. Það er fyrst eftir að frv. ríkisstj. um efnahagsaðgerðir hefur legið tæpan mánuð fyrir Alþingi, að formaður hagráðs, hæstv. viðskmrh., sér ástæðu til þess að ræða efnahagsmálin og tillögur ríkisstj. við fulltrúa atvinnuveganna og stéttarsamtakanna, sem sæti eiga í hagráði. Það er augljóst mál, að það hefur hreint ekki verið ætlunin að leggja lögboðna skýrslu Efnahagsstofnunarinnar fyrir hagráð, fyrr en þessar efnahagsaðgerðir hefðu fengið fullnaðarafgreiðslu á Alþ. Mér er spurn: Til hvers er verið að stofna nefnd eins og hagráð, ef ekki á að hafa samráð við hana, þegar eins stendur á og nú?

En hér er raunar nákvæmlega eins að unnið og um aðra þætti í afgreiðslu þessa máls. Ríkisstj. leggur frv. fyrir Alþ., og raunar höfðu afdrifaríkir þættir í efnahagsráðstöfununum þegar komið til framkvæmda, er málið kom til 1. umr. hér í hv. deild. Þá hafði verið hætt við niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum, sem teknar voru upp eftir 1. ágúst 1966, og þar með verið hækkað verðlag á fjölmörgum þýðingarmestu neyzluvörum almennings. Þegar málið var til 1. umr., lýsti hæstv. forsrh. yfir, að ríkisstj. væri reiðubúin að ræða við hvern sem væri um breytingar á frv. og tiltók sérstaklega launþegasamtökin. Þegar til kastanna kemur, er ríkisstj. ekki reiðubúin að ræða um annað en minni háttar breytingar: Það hljómar ákaflega fallega, að menn séu viljugir að hlusta á sjónarmið annarra og ræða við þá um mál, en öllu verra er, ef ætlunin hefur aldrei verið að taka neitt tillit til þeirra sjónarmiða, sem viðræðuaðilinn ber fram. En það væri sannarlega fróðlegt og gagnlegt fyrir hv. Alþ. að heyra, hvað fulltrúar atvinnuveganna í hagráði hafa um þessi mál að segja. Og hvað halda menn, að þeir segi um þessi mál? Eru þeir sammála því áliti, sem fram kemur í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar? Og vel á minnzt, ég bað forstjóra Efnahagsstofnunarinnar um eintak af skýrslu hennar um efnahagsástandið og fékk hana greiðlega. En þau skriflegu boð fylgdu með, að skýrslan væri trúnaðarmál, a. m. k. meðan umræður færu fram um hana í hagráði. Þannig er á þessum málum haldið. Á meðan Alþ. er að afgreiða efnahagsfrv., sem hæstv. forsrh. segir að sé til að rétta við hag þjóðarinnar eftir áfall, sem eigi sér ekki fordæmi síðan í heimskreppunni miklu, þegar Íslendingar misstu í einu vetfangi markaði fyrir svo til alla útflutningsframleiðslu sína, þá er skýrsla efnahagssérfræðinga ríkisstj. leyniplagg, sem ekki má birta almenningi. Ég vil beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún lyfti leyndinni af og sjái jafnframt til þess, að umr. um efnahagsmálin í hagráði verði hraðað og Alþ. send skýrsla um þær umr., til þess að skýrt komi fram álit bæði Efnahagsstofnunar ríkisins og fulltrúa atvinnustétta í hagráði, áður en þetta frv. verður afgreitt í hv. deild.

Það hefur komið fram í ræðum hæstv. ráðherra, að ríkisstj. og sérfræðingar hennar geri sér enn ekki ljóst, hvort frekari ráðstafanir þurfi að gera en frv. gerir ráð fyrir vegna rekstrar ýmissa greina sjávarútvegsins á næsta ári. Þó er, eins og ég sagði áðan, ekki nema einn og hálfur mánuður þangað til vetrarvertíð á að hefjast. Það er víst ekkert vafamál, að forsvarsmenn atvinnuveganna eru ekki þeirrar skoðunar, að ekkert þurfi annað að gera en þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir og tilkynntar hafa verið hér á Alþ. í byrjun þessa þings. Ég vil ekki trúa því, fyrr en á reynir, að ríkisstj. ætli sér að ana út í fullkomna ófæru um málefni þjóðarinnar með því að samþykkja þetta frv. Er vonandi, að þar komi til, áður en lýkur, ráð hinna gætnari manna og ábyrgari í hópi þm. stjórnarflokkanna. Ég vænti þess og trúi því, að sú órofa samstaða, sem skapazt hefur milli ASÍ og BSRB, og sá einhugur, sem mér virðist ríkja um þetta mál meðal allra launþega, verði til þess að koma í veg fyrir þá vísitöluskerðingu, sem felst í frv. ríkisstj.

Ég vil að lokum taka undir það, sem fram kemur í nál. hv. minni hl. fjhn., að þetta frv. ber að fella.