15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þegar litið er á efnahagsástand íslenzku þjóðarinnar nú, eins og því er lýst af valdhöfunum, þá verður mér fyrst hugsað til þess, sem talsmenn og frambjóðendur þeirra flokka, sem stutt hafa núverandi ríkisstjórn í 8 ár og styðja hana enn, sögðu á s. l. vori í blöðum og á framboðsfundum, þegar þeir voru að leita eftir atkvæðum kjósendanna. Þá var viðlagið í viðreisnarsöngnum það, að þeir, sem vildu efast um traustan efnahag þjóðarinnar og blómlegt atvinnulíf, væru með hrunsöng og barlómsvæl, það væri allt í topplagi, blómlegt atvinnulíf á traustum fótum, fjörugt viðskiptalíf, bankar risu upp um allar byggðir eins og blóm í túni og gætu allir séð, að það bæri vott um almenna velmegun. Álit þjóðarinnar væri alltaf að styrkjast í augum þeirra, sem erlendis fylgdust með og vit höfðu á efnahags- og peningamálum, því að gjaldeyrissjóðurinn væri alltaf að gildna og væri þá orðinn um 2000 millj. kr. Nú, það fór eins og allir vita, eins og oftast vill verða, þegar fagurt er sungið, að menn renna á hljóðið, líkt og þegar sýrenurnar forðum seiddu til sín sjófarendur. En þá fyrst, þegar menn eru komnir svo langt, að ekki verður aftur snúið um sinn, þá sjá menn, að söngurinn kom úr hálsi þeirra, sem vildu villa um fyrir öðrum til þess að ná tökum á þeim. Þannig tókst stjórnarliðinu á síðasta vori að tæla meiri hluta þjóðarinnar til að trúa því, að hér væru fram undan gull og grænir skógar, sem þeir stjórnarliðarnir sjálfir hefðu skapað og þeir einir gætu viðhaldið. En nokkrum vikum eftir kosningarnar kom í ljós, að við, sem í stjórnarandstöðunni vorum og erum, höfðum í aðalatriðum sagt rétt fyrir um það, hvað koma mundi í ljós eftir kosningarnar.

Hvernig stendur nú á því, að svo skuli komið sem komið er? Þeirri spurningu þarf hver þjóðfélagsþegn að leita svars við. Stjórnarliðar hafa svarið á reiðum höndum. Þeir segja, að vond vertíð á síðasta vetri, minnkandi síldveiði og verðfall afurða eigi sökina, hins vegar sé þeirra efnahagsstefna, viðreisnin, hin eina og rétta stefna, sem allt gott beri að þakka og ein muni megna að rétta allt við aftur. Nú skal ég viðurkenna það eins og aðrir, að það hefur orðið verðfall á afurðum okkar erlendis og minni afli en í fyrra, og þess vegna neita ég því alls ekki, að það sé nokkuð mikill vandi á ferðinni. En sú þjóð, sem telur ekki nema 200 þús. sálir, en framleiddi á s.l. ári fyrir 24 milljarða kr. að markaðsverði og hefur í mörg ár haft hliðstæð framleiðsluafköst og um langt skeið hækkandi markaðsverð, þangað til það fór að lækka nú fyrir nokkrum mánuðum, hún ætti ekki að vera í vanda stödd, ef rétt stefna hefði ráðið í efnahagsmálum og dálítið meiri hagsýni verið beitt í þjóðarbúskapnum. Það er sárgrætilegt að sjá, hversu illa framleiðslutækin hafa verið notuð, þar sem sífellt er verið að leggja til hliðar dýr og góð skip t.d. og kaupa önnur í staðinn. Ekkert skipulag hefur verið á byggingu frystihúsa og fiskverkunarstöðva. Allir hafa mátt gera allt, sem þeim hefur dottið í hug, og peningar þjóðarinnar hafa farið í fjárfestingarframkvæmdir, sem áttu að verða gróðalind fyrir eigendurna, en þegar dálítið kreppir að, geta þessi fyrirtæki ekki veitt þá atvinnu, sem nauðsynleg er fyrir fólkið, vegna þess að þau bera sig ekki. Þetta hlýtur ávallt svo að fara, þegar meginatvinnurekstur landsmanna er byggður upp skipulagslaust og með það sjónarmið næstum eitt að leiðarljósi að mala eigendum sínum gróða í stað þess að hafa fyrst og fremst eða a. m. k. samhliða það markmið að veita fólki atvinnu því til lífsbjargar. Þegar þessum höfuð- og grundvallarsjónarmiðum er ekki fylgt eftir, þá mun svona fara ævinlega.

Það hefur oft verið lofað og prísað af hálfu stjórnarliða, að hér væri fullkomið viðskiptafrelsi og innflutningur hvers konar vara frjáls. Þetta hljómar mjög vel í eyrum, og þær raddir, sem þetta lofa, þykja fagrar. En hræddur er ég um, að þetta hafi orðið þjóðinni alldýrt og allt hefði getað gengið, þó að hér hefðu ekki risið á svo fáum árum allar þær verzlunarhallir, sem sjá má, og þótt nokkuð minna hefði verið flutt inn af ýmsum vörum, sem íslenzkar hendur hefðu getað búið til, eins góðar eða betri en sumt af því, sem flutt hefur verið inn í landið

Það er gamalt og gott máltæki eða málsháttur, að hollur er heimafenginn baggi, og það tel ég, að sé sannmæli. Það væri gott núna að eiga í gjaldeyrissjóði, þó ekki væri nema helminginn af því fé, sem farið hefur út úr landinu fyrir kex og tertur og fatnað og annað þvílíkt, sem hægt var að gera hér með jafngóðu móti og annars staðar er gert, því að sannleikurinn er sá, að það er alveg furða með hinn unga íslenzka iðnað, hvað hann hefur á skömmum tíma tekið skjótum framförum og aðlagað sig að þeim aðstæðum, sem fyrir hendi eru hér. Ég tel víst, að þeir, sem hafa mest flutt inn í landið á undanförnum árum af hinum eftirsóttu útlendu vörum, er selzt hafa jafnharðan, hafi grætt allmikið. A. m. k. verður ekki annað séð, þegar litið er á allar stórbyggingarnar, sem þeir hafa reist yfir starfsemi sína. Það er satt að segja dálítið kaldranalegt frá mínu sjónarmiði, þegar lagðar eru fram tillögur um jafnmikla skerðingu á lífskjörum alþýðu manna, að ekkert skuli bóla á því, að þeir verði að skila einhverju aftur til þjóðarinnar, þegar erfiðleikar fara í hönd, sem mikinn gróða hafa haft af verzlun og viðskiptum við almenning á undangengnum árum og hafa fengið að nota sparifé þjóðarinnar til að koma undir sig fótum með því að reisa hús og hallir og kaupa og selja vörur með stórgróða.

Það er alleinkennilegt, að þegar núv. ríkisstj. á í einhverju stímabraki út af efnahagsmálum, þá er alltaf ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur. Þá er farið að braska við að finna leiðir til að lækka í einhverju formi kjör þeirra, sem lægst laun hafa. Stundum er reynt að binda kaupið, eins og var hér 1963 og öllum er í fersku minni. Þá var hæstv. ríkisstj. svo skynsöm að hætta við áform sitt. Nú er það í því formi, eins og kunnugt er, að álögurnar koma harðast niður á þá, sem lægst eru launaðir. Kauptaxti verkamanna getur ekki gefið í árstekjur, ef miðað er við 8 stunda vinnu alla virka daga ársins, nema eitthvað um 140 þús. kr. Þó er önnur stétt, sem er enn lægri í tekjum, en það eru bændurnir. Þeirra meðaltekjur munu vera innan við 100 þús. kr. á ári. Ég tel, að það hefði verið eðlilegra hlutverk fyrir ríkisstj. að finna leiðir til að hækka eða a. m. k. halda í horfinu tekjum þeirra stétta, sem hér hafa verið nefndar, heldur en að leggja til kjaraskerðingu af því tagi, sem þyngst kemur niður á þeim, sem minnst hafa.

Ég vil skjóta því hér inn og taka það fram, að hringlið með niðurgreiðslurnar á landbúnaðarvörunum er bændum mjög hættulegt, því að það getur valdið miklum sveiflum á neyzlu þessara vara. Stundum eru þessar vörur greiddar svo mikið niður, að það er gjafverð næstum því á þeim, en annað kastið er niðurgreiðslan mikið til alveg afnumin. Niðurgreiðslur eiga vitanlega fullan rétt á sér að vissu marki, og ég tel sjálfsagt fyrir hverja ríkisstjórn að beita þeim að einhverju leyti, þegar þörf er fyrir. En slíkt hringl sem hér hefur átt sér stað með þetta hlýtur að vera stórhættulegt og ekki sízt fyrir þá, sem framleiða þessar vörur til sölu.

Hér í þessum umræðum hefur ekki verið minnzt á það, sem þó er full ástæða til að minna á, að í okkar landi er fjöldi af öldruðu fólki, sem er hætt að geta unnið. Þetta fólk reynir að treina í sér líftóruna með ellilífeyrinum sínum og er yfirleitt mjög þakklátt fyrir þann stuðning, sem það hefur fengið á þann hátt. En ég er hræddur um, að þegar þær ráðstafanir eru komnar í fullan gang, sem nú er verið að reyna að lögfesta hér á hinu háa Alþingi, þá verði lífskjör þessa aldraða fólks ekki þeirri ríkisstj. til sóma, sem er að lögfesta þessar tillögur.

Það hefur verið minnzt á það, sem alveg er rétt í þessum umr., að kjaraskerðingin verður því meiri hlutfallslega sem heimilin eru stærri. Það liggur í því, að slík heimili nota hlutfallslega meira af þeim vörum, sem niðurgreiðslur eru minnkaðar á. Við það bætist svo, að í flestum tilfellum eru fyrirvinnur slíkra heimila láglaunamenn, sem vísitöluskerðingin kemur þunglega við, auk þess sem hætt er við, að samdráttur í atvinnulífinu fækki vinnustundum þessara manna, og er þegar farið að bera verulega á því.

Afkoma bændanna er þannig, að þeir eru langtekjulægsta stétt vinnandi manna í landinu skv. skýrslum, sem gefnar eru út af hagstofunni, og bilið á milli þeirrar stéttar og annarra stétta hefur verið að breikka nú á síðustu missirum. Það er vitað, að bændastéttin hefur á undanförnum árum safnað lausaskuldum í stórum stíl, og er það nú að verða verulegt vandamál, hvernig þar er komið. Þar er hvoru tveggja um að kenna, erfiðleikum af völdum tíðarfars á sumum svæðum landsins og einnig versnandi afkomu vegna þeirrar efnahagsstefnu, sem hér hefur verið rekin. Og svo bætist nú þar á ofan mikið verðfall á ull og gærum og svo þær ráðstafanir, sem væntanlega með þessu efnahagsmálafrv. verða að lögum gerðar og ég geri ráð fyrir að bitna muni á bændum ekkert síður en öðrum.

Ég hef alltaf talið efnahagsmálastefnu ríkisstj. mjög óheppilega fyrir okkar þjóðfélag. Okkar þjóðfélag er ungt í vissum skilningi. Við stöndum ekki á gömlum og traustum grunni efnahagslega. Íslenzka þjóðin var eins konar hjálenda eða hjáleiga frá Danmörku fram á daga okkar, sem lifum enn. Hún var mergsogin í margar aldir, eins og tíðkast enn í dag um margar nýlenduþjóðir, sem verða að hlíta annarra yfirráðum. Við höfum orðið að gera svo að segja allt, sem gert hefur verið af varanlegum umbótum í þessu landi, á einum mannsaldri. Nágrannaþjóðir okkar ýmsar búa í dag og byggja efnahagsgrundvöll sinn á verkum, sem kynslóðir margra alda voru að skapa. Við þurfum því miklu fremur en aðrir að skipuleggja og raða nauðsynlegum framkvæmdum og byggja á þann hátt trausta undirstöðu að efnahagslegu frelsi einstaklinga og þjóða. Sú ríkisstj., sem hér ræður nú, er haldin allt of mikilli trú á einhver blind lögmál, sem eigi að ráða. Þó að ég trúi því, að viss og öflug lögmál stjórni gangi himintungla, þá tel ég, að lögmálskenningar í sambandi við efnahags- og atvinnumál eigi engan rétt á sér. Ég veit, að baráttueðli manna og eigingirni veldur því, að þeir, sem ofan á verða, hrifsa það, sem þeir ná, en hinir máttarminni hafa minna og oftast of lítið, þegar þeir sem mestu ná, hafa of mikið og oft svo mikið, að þeir af þeim völdum biða tjón á sálu sinni. Ég tel þess vegna, að stjórnmálamenn og löggjafarþing og ríkisstj. eigi að stjórna og miðla milli þegnanna þeim feng, sem þjóðarbúskapurinn gefur í arð, í stað þess að láta einhverja trú á lögmál peninga og samkeppni ráða þar úrslitum, hvernig og hvað mikið hver hreppir í sinn hlut. Ég hef ekki trú á gengisfellingum, og ég tel þær hafa valdið mikilli ógæfu í okkar landi og eiga mikla sök á því, hvernig ástandið er einmitt hjá okkur í dag, því að slíkar ráðstafanir hafa alltaf ýtt undir aukna eyðslu, æsing og óeðlilegan hraða og alls konar fjárfestingu og viðskipti, sem hollara hefði verið að vinna með minni hraða. Menn missa við slíkar sveiflur í peningamálum tiltrú til sparnaðar, og þeir telja réttast margir hverjir og allt of margir að lifa hátt og láta hverri stundu nægja sína þjáningu.

Á næstu árum tel ég, að þjóðin geti sparað mikið fé í sambandi við byggingu skrifstofu- og verzlunarhúsa, því að þar hefur svo mikið verið gert á síðustu árum, sem leitt hefur af sér gífurlegan kostnað fyrir þjóðina. Ég er líka viss um, að ef atvinnutækin verða nýtt betur en nú er, og á ég þar ekki sízt við fiskiflotann og fiskiðjuverin, þá má mikið spara og mikið græða frá því, sem nú er, og á þann hátt efla atvinnuvegina. Ég er líka viss um, að eitt nauðsynlegasta skipulagsmálið er það, að allir, sem veiða fisk úr sjó, verði að leggja megináherzluna á vörugæðin, en hætta að hugsa fyrst og fremst um að moka sem mestu magni í land á kostnað vörugæðanna. Ég tel víst, að löggjafarvaldið og ríkisvaldið verði að koma til í því máli og hafa forustu um nýja stefnu á þessu sviði. Ef skipulagshyggja tekur sér bólfestu í heilabúum þeirra, sem stjórna landinu, þá geta auðlindir landsins veitt næg verkefni og öllum sæmileg lífskjör, um það þarf ekkert að efast.

Ég skal nefna það, sem ég tel, að ekki megi spara, því að það borgar sig ekki, þótt það sé gott að spara á mörgum sviðum, þá borgar sig ekki að spara á sumum sviðum. Og ég er ekki sammála Birni Pálssyni, hv. 5. þm. Norðurl. v., um, að það sé hægt að spara í skólamálum að nokkru ráði. Ég tel, að það megi ekki spara skólabyggingar, því að ég er viss um það, að fátt er okkar þjóð nauðsynlegra heldur en að leggja fé í það að mennta uppvaxandi kynslóð. Ég hygg, að það sé rétt, sem sagt hefur verið, að það sé einhver verðmætasta og bezta fjárfesting, sem hægt er að leggja í. Þess vegna álít ég, að þar megi ekki spara. Og ég álít líka, að við megum ekki spara á því sviði að byggja upp í landinu með vaxandi hraða vegi, góða vegi og góðar hafnir. Þessar framkvæmdir tel ég að verði að ganga fyrir, og þarna megum við ekki spara að öðru leyti en því að fara vel með fé við þessar framkvæmdir. Þá þurfum við einnig að leggja áherzlu á það að rækta landið okkar og græða auðnir og uppblásin svæði nýjum gróðri. Það eru verkefni, sem þjóðin á að leggja áherzlu á að mínum dómi.

Hér þarf einnig, til þess að þjóðinni geti vegnað vel, að efla iðnað eftir mætti og reyna að vinna sem mest alla hluti í landinu sjálfu. Ég man eftir því, þegar ég var að alast upp, að þá vegnaði þeim heimilum bezt, sem reyndu að búa sem allra mest að sínu og vinna alla hluti á heimilunum sjálfum eða eins mikið og hægt var. Það mun reynast nógu erfitt í okkar skóglausa og málmsnauða landi að kaupa efni í iðnaðarvörurnar, sem ekki eru til hráefni í hér innanlands, þó að við kaupum ekki einnig vinnuna frá öðrum löndum, sem til þess þarf að breyta hráefnunum í nauðsynlega og gagnlega hluti, Gamalt og gott spakmæli, sem við kunnum öll, segir, að verður sé verkamaður launanna. Ég hef aldrei vorkennt neinum manni að vinna, sem til þess er fær, því að ég álít, að vinnan sé frumskylda hvers manns og án hennar, hvort sem hún er andleg eða líkamlegs eðlis, væri lífið lítils virði og hamingjusnautt. Þess vegna er atvinnuleysi þungt böl í hverju þjóðfélagi, þar sem svo háttar til, að atvinnuleysi verður.

Ríkir menn og höfðingjar í fornöld gerðu marga af sínum verkmönnum að leysingjum, sem kallað var, þ. e. þeir gerðu þá frjálsa menn og gáfu þeim lönd. Það sýnir, hversu mikils þeir mátu vinnuna, að þeir vildu launa vel og stórmannlega veitta þjónustu. Viðreisnarstjórnin fékk á s.l. vori traust meira en helmings þjóðarinnar eða kjósenda. Hún launar illa liðveizluna, og henni ferst ekki stórmannlega að vilja nú klípa af skammti, sem ekki var of mikill fyrir hjá þeim, sem erfiðustu störfin vinna, og meira hjá þeim heldur en hjá hinum, sem hærri laun hafa og fínni störf vinna, þó að einnig þeim muni ekki veita af sínu.

Ég hlustaði á það hér í gær, þegar forseti Alþýðusambands Íslands, hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, las hér í þessum ræðustól samþykkt, sem ráðstefna Alþýðusambandsina gerði um afstöðu sína til þess frv., sem hér liggur fyrir. Mér fannst gæta í þeim tillögum, sem þar voru birtar, mjög nýstárlegs tóns, þar sem boðizt var til þess að taka á launþega, ef ég hef tekið rétt eftir, 3% eða rúmlega 3% kjaraskerðingu með því að taka upp nýju vísitöluna, sem birt hefur verið. Ef hæstv. ríkisstj. gengur ekki að slíku boði, en vill heldur taka áhættuna af verkföllum, þá er hún heillum horfin. Ríkisstj., sem vill heldur fara í stríð við allt þetta fólk, sem þarna stendur á bak við, henni er held ég ekki sjálfrátt. Hún bauð upp á víðtæka samvinnu og fær að mínu viti kostaboð hjá fjölmennustu stéttarsamtökum í landinu. Ég hygg, að þetta boð verði lengi í minnum haft fyrir það, hversu þar, í þessu tilboði, er komið vel til móts við óskir valdhafa, sem virðast í stjórnarstefnu sinni meta ýmislegt annað meir en hagsmuni vinnandi fólks í landinu. Ég álít, að efnahags-, atvinnu- og lífskjaramál alls almennings séu á því stigi nú, að það veitti ekki af að taka hverju því boði með þökkum, sem stjórn landsins fær um hjálp til þess að leysa vandann, og þess vegna undrast ég, ef boði Alþýðusambandsráðstefnunnar verður ekki tekið. Þá skil ég ekki, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir og hvernig hún hugsar sér að fara með annan sigur betri af hólmi eftir þennan leik fyrir sjálfa sig eða þjóðina, enda heyrðist mér hér áðan í ræðu forsrh., að það séu farnar að renna tvær grímur á hann í þessu efni, og væntanlega vægir hann til, enda er það eina leiðin, sem sæmandi er fyrir hæstv. ríkisstj., þ. e. að vægja til í þessu máli, það mundi verða stjórninni sjálfri, — ég er nú ekki fyrst og fremst að hugsa um hennar heiður, og þjóðinni til gagns og blessunar, ef þannig yrði farið að. Ég vil alvarlega skora á ríkisstj. að hugsa sitt mál vandlega, áður en hún hafnar þeirri leið.