15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2310)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. viðskmrh. hér fyrr við þessa umr. — Í minni fyrri ræðu hér gagnrýndi ég það mjög, að skýrsla Efnahagsstofnunarinnar, sem lögum samkvæmt á að leggja fyrir hagráð í októbermánuði ár hvert og ræðast þar, skyldi ekki hafa verið lögð fram á réttum tíma, og benti á, að einmitt hefði verið sérstök ástæða til að ræða þar efnahagsmál þjóðarinnar nú og þá sérstaklega úrræði ríkisstj., sem eru nú til umr. í sambandi við frv. um efnahagsaðgerðir, en um þessar ráðstafanir var vitað, þegar Alþ. kom saman 10. okt. s.l. Hæstv. viðskmrh. varð illt við ummæli mín um þetta greinilega, og gaf þær upplýsingar, að skýrsla Efnahagsstofnunarinnar hefði verið gefin út í október, eins og tilskilið er í lögunum. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh. að því leyti, að á skýrslunni er dagsetningin 30. okt., utan á kápu skýrslunnar. En hitt er líka staðreynd, að skýrslan var ekki send meðlimum hagráðs fyrr en laust fyrir síðustu helgi og sumum þeirra ekki fyrr en eftir síðustu helgi. Þessu til sönnunar þykir mér rétt að segja frá því, að þessi skýrsla var lögð fram í kjaradómi í sambandi við málarekstur, sem þar fer fram nú um launakerfi opinberra starfsmanna, s. 1. mánudag, 13. nóv., með þeim ummælum málflutningsmanns ríkisstj., Jóns Þorsteinssonar alþm., sem er flokksbróðir hæstv. ráðh., eins og kunnugt er, að hann hefði fengið skýrsluna í hendur s.l. laugardag, en með þeim ummælum Efnahagsstofnunarinnar, að það mætti ekki opna hana fyrr en á mánudag 13. nóv., því að fyrr en á mánudag mundu ekki hafa fengið hana allir meðlimir hagráðs, þ. e. 13. nóv. Þetta sannar ótvírætt, að þessi skýrsla hefur raunverulega ekki komið út fyrr en laust fyrir miðjan nóv. í staðinn fyrir október, svo að hæstv. viðskmrh. hefði vel getað sparað sér þau hneykslunarorð, sem hann lét sér um munn fara út af ummælum mínum, fyrr við þessar umr. Því má svo bæta við, eins og ég sagði áðan, að þessi skýrsla var send kjaradómi á mánudaginn var, en af hálfu formanns hagráðs er hún túlkuð enn sem trúnaðarmál, þannig að það megi ekki útbýta henni hér á Alþ., en það gildir greinilega annað um kjaradóm, og er skýrslan þá vissulega ekki trúnaðarmál fyrir fjölda fólks. Þannig fara stjórnarvöldin með trúnaðarmál, og þannig birtist virðingin við Alþ.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði um þetta atriði við fyrri umr., að ég beini því eindregið til hæstv. viðskmrh., að hann láti alþm. í té þessa skýrslu, áður en þessari umr. lýkur, og í framhaldi af því verði alþm. látin í té skýrsla um umr. í hagráði um þessa skýrslu, þegar þeim hefur verið lokið. Ég veit ekki betur en að næsta föstudag hafi verið boðaður framhaldsfundur um þessa skýrslu. Það væri sannarlega mjög gagnlegt og nauðsynlegt fyrir Alþ. að heyra um afstöðu fulltrúa atvinnuveganna og fulltrúa atvinnustéttanna í hagráði um ástand atvinnuvega í dag og þörfina fyrir aðgerðir þeirra vegna. — Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, ég vildi láta þetta koma hér fram.