15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. hæstv. ríkisstj., frv. til laga um efnahagsaðgerðir. Þetta frv. mætti harðri andstöðu þegar við 1. umr., bæði hér í hv. deild og einnig utan þings. Mjög fljótlega, eftir að málið hafði verið lagt fram, og eftir að í ljós komu þær aðgerðir, sem því fylgdu, þ.e.a.s. niðurfelling á nokkrum hluta af niðurgreiðslum á vissar vörutegundir, þá tóku að berast mótmæli frá ýmsum stéttahópum og félagasamtökum víðs vegar að af landinu.

Þegar málið hafði verið rætt hér í nokkra daga og stjórnarandstaðan hafði leitt að því full rök og það raunar verið viðurkennt af talsmönnum hæstv. ríkisstj., að þetta frv. og þær aðgerðir, sem því fylgdu, næðu skammt til að leysa þann vanda, sem við var að glíma, og einnig það hafði verið gagnrýnt harðlega, á hvern hátt átti að leysa þau takmörkuðu viðfangsefni, sem frv. fjallaði um, þ.e.a.s. með því að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur, þá mun hæstv. ríkisstj. hafa orðið það ljóst, að það var ekki stætt á því að keyra þetta mál áfram í gegnum þingið með þeim hraða, sem upphaflega var ætlað, heldur mundi þurfa að athuga hlutina ögn nánar. Það var því orðið við þeim tilmælum stjórnarandstöðunnar að stöðva málið, a. m. k. um sinn, leggja því við stjóra, eins og einhver orðaði það, og hæstv. ríkisstj. bauð upp á viðræður um það, samninga um einstök atriði málsins, bæði utan þings og innan. Launþegasamtökin urðu við þessum tilmælum. Þau settu sameiginlega samninganefnd á fót, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og formlegar viðræður hófust milli þessara aðila og hæstv. ríkisstj. mjög fljótlega, eftir að málinu var lagt. Þær hafa svo raunverulega staðið allt til þessa, eða svo að segja.

Árangur af þeim viðræðum, sem þegar hafa farið fram, er allsendis ófullnægjandi að dómi beggja aðila. Launþegasamtökin gerðu það þegar í upphafi að höfuðkröfu sinni, að ekki yrðu rofin tengslin á milli kaupgjalds og vísitölu, en á það hefur ríkisstj. ekki viljað fallast. Hún hefur hins vegar boðið viss boð, sem launþegasamtökin telja ófullnægjandi, eins og t.d. 5% hækkun fjölskyldubóta og fleiri bóta almannatrygginga. Launþegasamtökin telja, sem von er, að þær bætur nái skammt. Hækkun fjölskyldubótanna nemur líklega eitthvað um 25 aurum á barn á dag, og má öllum vera ljóst, hversu sáralítið það hefur að segja á móti þeim hækkunum, sem þegar hafa orðið. Og þar sem talað er um í till. ríkisstj., sem nú eru komnar fram á þskj., í till. meiri hl. fjhn., að þessi hækkun á bótum muni verða skattfrjáls, þá held ég, að það sé að flestra dómi nánast broslegt. Þannig standa málin í dag.

Einnig liggur það nú fyrir, þegar á þessari stundu, að það er hafið verkfall. Verkfall á kaupskipaflotanum stendur yfir, og það er mjög alvarlegt í sjálfu sér. Víðs vegar úti um land vantar olíu og auðvitað ýmsar fleiri verzlunarvörur, sem menn geta illa án verið, og það stendur á því að flytja afurðir landsmanna o.s.frv. Þá er það áreiðanlega vægt að orði komizt, þó að sagt sé, að útlit um vinnufrið almennt talað sé mjög ótryggilegt. En þegar mál sem sagt standa þannig, þá telur hæstv. ríkisstj. einmitt hæfilegan tíma til þess að taka aftur til við afgreiðslu frv. til l. um efnahagsaðgerðir, þá telur hún hæfilegan tíma til þess að knýja fram þetta frv. sitt hér á Alþingi.

Meginefni þessa frv. er skipt í fimm kafla, Í I. kafla frv. er það raunverulega þungamiðjan að rjúfa um stund tengslin á milli vísitölu og kaupgjalds, að fella niður vísitölugreiðslu á kaup um stundarsakir, þ.e.a.s. á meðan tilteknar hækkanir eiga sér stað. Sumar eru þegar orðnar, aðrar boðaðar, eins og t.d. 18% hækkun á hitaveitugjöldum. Ef til vill má skilja orð hæstv. forsrh. áðan þannig, að þær hækkanir, sem verða kunna á tímabilinu, aðrar en þær, sem þegar eru orðnar, komi ekki þarna til greina og launþegar fái þær bættar. En ég segi: ef til vill, því að ég a. m. k. treysti mér ekki til að slá neinu föstu um það, hvernig hafi átt að skilja ummæli hæstv. forsrh. áðan, þótt ef til vill mætti skilja þau á þennan hátt. Það hefur komið í ljós og raunar ekki verið vefengt, þ. e. í grg. þeirri, sem frv. fylgir, að sá halli, sem launþegum er ætlað að bera, sé um 7.5%. Það hefur verið bent á það hér í þessum umr., að þó að ætla megi, að þannig verði það að meðaltali, þá fari það ekki á milli mála, að raunveralega verði hallinn nokkru meiri — og raunar æði miklu meiri hjá þeim tekjulægstu, sem minnst geta veitt sér, en þurfa að nota mestan hluta tekna sinna til allra brýnustu þarfa.

Fulltrúar launþegasamtakanna í samninganefndinni og hvarvetna þar, sem þeir hafa látið til sín heyra, leggja á það megináherzlu, að samband á milli vísitölu og kaupgjalds sé ekki rofið. Þeir vitna til þess, að þetta samband vísitölu og kaupgjalds var tekið upp í júnísamkomulaginu, samkomulagi, sem gert var milli þáverandi hæstv. ríkisstj. og launþegasamtakanna að undangengnum allmiklum og hörðum samningum.

Það er eiginlega nokkuð ljóst dæmi um stefnuleysi og hringlandahátt núv. hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta, hvernig staðið hefur verið að þessu máli. Því var í upphafi heitið í ágætri bók, Viðreisn, að kaupgreiðslur skyldu vera teknar úr sambandi við vísitölu. Þetta var gert og þá var því haldið fram, að þetta væri alveg höfuðnauðsyn og mundi hafa stórkostleg og heillavænleg áhrif á alla þróun efnahagsmála á Íslandi. Síðan er samið um að taka þetta samband á milli launa og vísitölu aftur upp í margnefndu júnísamkomulagi. Og það var nú ekki alveg að heyra á talsmönnum stjórnarflokkanna, að þar hefði verið um neyðarsamninga að ræða, heldur þvert á móti. Þetta samkomulag var af þeirra hálfu mjög lofað og því haldið fram, að það mundi orka mjög til blessunar á efnahagslífið, alveg eins og því hafði verið haldið fram í Viðreisn og í málflutningi fyrr, að hitt yrði til góðs, að rjúfa sambandið. Og nú kemur svo þriðja útgáfan af afstöðu stjórnarflokkanna til þessa sérstaka máls og líklega eins konar millistig á milli hinna tveggja, sem ég vék að áðan, og það er að taka vísitöluna úr sambandi um takmarkaðan tíma, á meðan vissar hækkanir fara fram, en tengja svo aftur eftir verðhækkanirnar.

Í þessum 1. kafla eru svo ákvæði um það að taka upp nýja vísitölu. Hún hefur verið undirbúin fyrir nokkru, og meginmunurinn á uppbyggingu hennar og þeirrar gömlu er sá, að inn í nýju vísitöluna eru teknir fleiri neyzluflokkar en áður og þar hafa meiri áhrif ýmsir þættir neyzlunnar, sem kosta meira og vorn ekki almennir áður. En aftur á móti matvörurnar og allar brýnustu nauðþurftir vega af þessum ástæðum minna í nýju vísitölunni heldur en þær gerðu í þeirri gömlu. Við þessu er út af fyrir sig ekkert að segja. Það er eðlilegt, að það þurfi að endurskoða uppbyggingu vísitölunnar öðru hverju, og mjög eðlilegt, að þess þurfi einmitt á þeim tímum, þegar miklar breytingar verða í lífsvenjum manna og háttum, eins og orðið hefur núna á síðustu árum.

Í II. kafla frv. er fjallað um verðstöðvun. Ég mun þá að ósk forseta og í samræmi við þann fundartíma, sem ákveðinn hefur verið, fresta minni ræðu og mun þá taka til að ræða II. kafla frv. síðar. [Frh.]