16.11.1967
Neðri deild: 19. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta mál er orðið það mikið rætt hér á hv. Alþ., að þess vegna hefði ég getað látið hjá líða að taka þátt í þessum umr. Það er í sambandi við kafla úr ræðu hæstv. forsrh. hér í gærkvöldi og ummæli, sem fram komu í framsöguræðu hv. 1. þm. Reykn. (MÁM), er hann talaði fyrir þessu máli hér í hv. Ed. Að þessum atriðum vil ég nú víkja.

Hæstv. forsrh. ræddi um það í ræðu sinni í gærkvöldi, að rétt væri að athuga ýmis þau atriði, er fram höfðu komið í umr. á milli hæstv. ríkisstj. og fulltrúa frá stéttarfélögunum. Við skulum skoða þetta, sagði hæstv. forsrh. Rétt er nú að víkja að þessu. Og hér talaði sá, sem kunni sína lexíu og ekki þurfti að fara að lesa sér til. Hæstv. ráðh. hefði samt átt að muna það, að á vegum hæstv. ríkisstj. eru tvær stofnanir. Önnur heitir Efnahagsstofnun og hin Hagsýslustofnun. Hlutverk þessara stofnana er m. a. að undirbúa fjárlög og verða ríkisstj. til ráðuneytis í sambandi við efnahagsmál. Rétt var nú samt að dómi hæstv. ráðh. að skoða betur ýmis atriði, þó að þessar stofnanir hefðu lagt sig fram að sjálfsögðu að vinna verkið og verið ríkisstj. til ráðuneytis.

Fyrsta atriðið, sem hæstv. forsrh. ætlaði að skoða, var skattheimtan og skatteftirlitið. Er nú hæstv. ráðh. búinn að gleyma því, að eitt af fyrstu boðorðum hæstv. viðreisnarríkisstj. var að taka skattamál þjóðarinnar til gagngerðrar endurskoðunar? Og hæstv. ríkisstj. hefur gert þetta. Hún hefur tekið skattamálin til sérstakrar meðferðar. Hún lagði niður allar skattanefndir í landinu í sparnaðarskyni. Og hver er svo árangurinn af þessari skoðun þeirra stjórnarherra? Árangurinn er sá, að kostnaður við álagningu skatta í landinu hefur sexfaldazt á tímabili núverandi valdhafa. Það er eini árangurinn, sem sýnilegur er frá því, sem áður var. Og svo kom hæstv. forsrh., eftir að hafa samþ. nokkrar skattstofur og með sina Efnahagsmálastofnun og hagsýslu og ætlaði að leita til fólksins í landinu um það, hvort ekki mætti finna einhver ráð í skattheimtunni, sem betur dygðu heldur en þessum aðilum hefði tekizt. Hér var um góða játningu að ræða hjá hæstv. ráðh., en mér fannst hann gleyma því, hvað þeir hefðu gert, stjórnarherrarnir, í þessu máli.

Hæstv. ráðh. talaði um það, að nú væri betri innheimta á sköttum heldur en áður hefði verið. Hvaðan hafði hæstv. forsrh. þessar skýringar? Samkv. ríkisreikningi undanfarandi ára hefur þetta alltaf gengið á hinn veginn. Það hafa verið meiri eftirstöðvar af ríkistekjum ár frá ári heldur en ársins á undan. Og með samanburði á ríkisreikningi 1966 og 1965 eru um 20% meira útistandandi 1966 heldur en árið áður. Þetta er hin góða skattinnheimta, sem hefur farið mjög í vöxt að dómi hæstv. forsrh.

Það voru fleiri atriði, sem hæstv. forsrh. ætlaði að skoða, og það var sparnaður í ríkisrekstrinum, sem rétt væri að skoða betur heldur en enn hefði orðið. En man ekki hæstv. forsrh. eftir því, að tveir af ráðh. hæstv. ríkisstj., fyrrv. og núv. hæstv. fjmrh., hafa sameiginlega gefið þjóðinni 59 tölusett loforð um sparnaðinn? Hvað hefur orðið af framkvæmdum í þessum sparnaðarfyrirheitum? Heldur hæstv. forsrh., að það verði eitthvað raunhæfara, þó að þeir gefi nú stéttafélögunum í landinu fyrirheit um sparnað? Þeir aðilar, sem staðið hafa að ríkisstj. í 8 ár, gáfu fyrirheit um 59 sparnaðarloforð til framkvæmda, en hafa gleymt að framkvæma þau. Ætli efndirnar yrðu ekki svipaðar, þó að þeir gæfu nú ný fyrirheit um sparnað? En hæstv. forsrh. hefði átt að víkja nokkuð að útþenslunni, sem hefur orðið í ríkisbákninu hjá hæstv. núv. valdhöfum. Eitt af því, sem átti að spara í sambandi við fyrirheitin frá 1960, var í utanríkisþjónustunni.

Það átti að sameina sendiráðin á Norðurlöndum, og síðar var talað um sameiningu sendiráða í París. Og það var lítið lof sungið, þegar sú framkvæmd var gerð. En hvað hefur nú gerzt? Það eru orðin tvö sendiráð í Washington og sendiráðið í París vaknað upp hjá Atlantshafsbandalaginu í Brüssel á þessu ári, þannig að það hefur ekkert sendiráð verið lagt niður, heldur einu verið bætt við. Nú er það ljóst, að kostnaður við utanríkismál Íslendinga er að verða gífurlegur. Hann er á milli 70–80 millj. á því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ. Ekki var farið í lúsaleit í sambandi við undirbúning fjárlagafrv. nú, að reyna að spara á utanríkisþjónustunni, síður en svo. Það er ljóst, að sú stefna, sem fylgt er í utanríkismálum, verður þjóðinni óframkvæmanleg vegna þess, hve hún er dýr. Það er ekki hægt að halda uppi því kerfi sendiherra, sem nú er haldið uppi og stefnt er að hjá núv. valdhöfum, og ótal sendinefndum á ráðstefnur og alls konar þing eins og nú er gert. Við verðum að velja á milli, verðum að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna, þar sem við tökum ákvörðun um það, hvora leiðina við ætlum að fara. Það er óframkvæmanlegt að fylgja þessum leiðum báðum. Og það breytir engu, þó að hæstv. ríkisstj. gefi nú stéttarfélögunum í landinu loforð um það, að hún ætli að endurskoða þetta. Hún hefur setið í 8 ár án þess að koma því í framkvæmd.

Ég vil líka minna á það, að áður en núverandi valdhafar komu í valdastólana, sögðu þeir, að það þyrfti ekki nema réttsýni og kjark til þess að koma sparnaði við. Nú virðist hvort tveggja skorta. Það hefur verið útþensla á ríkisbákninu á fleiri sviðum heldur en í utanríkisþjónustunni og skattstofunum.

Hvað segir sagan um dómsmálin í landinu? Síðan 1960, þegar fyrstu fjárlög viðreisnarstjórnarinnar voru afgr., hefur útþenslan í dóms- og lögreglumálum í landinu fjórfaldazt. Þannig hefur verið á þeim málum haldið, og hvað halda hv. alþm., að hafi aukizt kostnaðurinn við það að setja upp 3–4 borgarfógeta, borgardómara og borgarlögmenn hér í Reykjavík? Það eru orðnar æði margar skrifstofurnar hér í höfuðborg landsins, sem eru þiljaðar innan með harðviði á kostnað íslenzka ríkisins. Og mér þætti ósennilegt, að það væri hægt að sýna fram á það, að þó að íslenzka ríkið hafi keypt Borgartún 7 og sett þar upp sínar skrifstofur, hafi dregið úr leiguhúsnæði á vegum ríkissjóðs hér í bæ. Það hefur hver stofnunin á fætur annarri verið sett upp á vegum núv. valdhafa. Auk Efnahagsstofnunar má nefna Almannavarnir og saksóknaraembættið, og það hefur verið fjölgað í stjórnum eins og húsnæðismálastjórn, útvarpsráði og bankaráðum, einnig hefur bankastjórum verið fjölgað, af því að hæstv. ríkisstj. hefur þurft að koma sinum mönnum þar fyrir. Það gildir því lítið, þó að hæstv. forsrh. komi hér og segi eftir 8 ára setu í ríkisstj. með ótal ráðum og nefndum: „Það má nú taka einhverja daga í að skoða þetta“.

Þeir eru búnir að sitja það lengi í ríkisstj., þessir háu herrar, að ef þeir hefðu viljað skoða þetta í raun og sannleika, væri eitthvað af framkvæmdum orðið. En áhuginn fyrir að skoða fjármál ríkisins og fleiri vandamál hefur ekki kvalið núverandi valdhafa. Það má líka benda á það í sambandi við meðferð fjármála ríkisins nú, að við fjárlagaafgreiðslu í fyrra var hækkað til reksturskostnaðar fjölmargra embætta og stofnana um 30–50%. Það var bent á það af okkur Framsfl.-mönnum þá, að þetta væri framkvæmd, sem ekki mætti gera, það væri ekki hægt á einu ári, — þótt það sé ekki óvanalegt í efnahagsmálum, sbr. gengisbreytingar og annað slíkt, — að láta embætti og stofnanir fá 30–50% hækkun á sínum fjárreiðum. Enda er nú komið á daginn, að nú skortir ríkissjóð um 800 millj. kr. til þess að ná saman endum. Og það er ekki gengið á það lagið að leita eftir því við þessar stofnanir, sem svona vel var við gert í fyrra, að þær dragi úr sínum kostnaði. En það má koma við sparnaði á heimilunum, þar sem börnin eru flest og fólkið hefur tekjur aðeins til að kaupa mat og föt.

Þannig er stefna hæstv. ríkisstj. Þannig hefur hún verið, og þannig hefur hún færzt í aukana ár frá ári. Allt tal hæstv. ríkisstj. um sparnað hefur orðið aukin eyðsla í framkvæmdinni. Eitt af því, sem átti að spara, var kostnaður við launaðar nefndir og undirbúning mála. Það hefur aldrei verið greitt meira til þeirra mála heldur en einmitt nú á síðustu árum. Sama er uppi um ferðalög og veizlur hæstv. ríkisstj., þó að það væri eitt af gefnum sparnaðarfyrirheitum, að úr veizlum og ferðalögum skyldi dregið. Vita þeir, sem fylgjast með útvarpi, um ferðalög ráðamanna þjóðarinnar?

Ég tek undir það, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., að ég er ekki fylgismaður þess, að fjárlög verði afgreidd með greiðsluhalla. Það álít ég, að sé óskynsamlegt og þurfti heldur ekki að gera, ef vel er á þeim málum haldið. En ég vil líka benda á það, að það er síður en svo, að það sé neitt við þá stefnu að athuga, að stofnanir eins og Póstur og sími, sem fjárfestir um 150 millj. kr. á einu ári, taki lán til þeirrar fjárfestingar að einhverju leyti. Það er allt of mikið að ætlast til þess, að það sé hægt að taka út úr rekstri slíkrar stofnunar um 150 millj. á ári hverju til fjárfestingar. Það er eðlilegt að gera það með því að taka lán, sem síðar yrði borgað og dreifa þannig framkvæmdinni. Það þýðir ekkert fyrir núverandi valdhafa að fara að tala um það við þjóðina, að þeir skuli athuga það, hvort ekki megi sparnaði við koma. Reynslan sýnir það, að þegar þeir hafa talað um sparnað, hefur framkvæmdin orðið útþensla og eyðsla. Enda hefur svo farið, að frá því að þeir sömdu sín fyrstu fjárlög 1960 til þeirra fjárlaga, sem nú á að afgreiða, eru þau meira en fjórfölduð. Það talar sínu máli.

Hæstv. forsrh. sagði: „Þjóðin verður að taka á sig einhverja kjaraskerðingu vegna þess ástands, sem orðið er“. Það er rétt. Ástandið í þjóðmálunum, m. a. fyrir ranga stjórnarstefnu, er orðið þannig, að þjóðin verður að taka á sig kjaraskerðingu. Og það gerir hún, þó að frv. ríkisstj. nái ekki fram að ganga. Það kom einnig fram í ræðu hæstv. forsrh., að nú hefur verulega dregið úr yfirvinnunni hér á landi, en það er hinn langi vinnudagur, sem hefur skapað ráðstöfunartekjur fólksins í landinu. Það vita það allir, að af 8 stunda vinnudegi hefur hinn venjulegi borgari ekki nema til hnífs og skeiðar. Það er hinn langi vinnudagur, hin mikla vinna, sem hefur gert það að verkum, að fólk hefur búið við þau kjör, sem það hefur búið við.

Nú er hins vegar svo komið, að 8 stunda vinnudagurinn er víðast hvar að verða ríkjandi, einnig hjá þeim, sem eru í föstum störfum, en þeir hafa líka notið yfirvinnu í ríkum mæli. Þess vegna tekur hinn almenni borgari í landinu á sig kjaraskerðingu og er þegar farinn að gera það og mun gera það í ríkara mæli, þó að frv. ríkisstj. verði ekki að l.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni í gær, að það mundi vera skoðun stjórnarandstöðunnar, að till. ríkisstj. leiddu út í ófæru. Þetta er rétt. Það er skoðun stjórnarandstöðunnar, að till. ríkisstj. leiði út í ófæru. Og því má bæta við: Það er skoðun stjórnarandstöðunnar, að stefna ríkisstj. sé þegar búin að leiða út í ófæru og þess vegna er stjórnarandstaðan í andstöðu við þessa stefnu. Og hæstv. forsrh. þarf ekki að undrast, þó að menn, sem hafa þá skoðun, leggist gegn þessu frv. og stefnu hæstv. ríkisstj. Ég vil máli mínu til sönnunar, með leyfi hæstv. forseta, aðeins minna á, hvernig núv. hæstv. forsrh. lagði línuna um stefnuna, sem ríkisstj. ætlaði að fara, í áramótagrein, sem hann skrifaði og birtist 31. des. 1960, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Varnarveggurinn, sem reistur var í ársbyrjun 1959, var frá upphafi einungis hugsaður til bráðabirgða. Eftir var að marka efnahagsþróuninni nýjan farveg, svo að meira jafnvægi skapaðist og þar með rénaði hættan á því, að linnulitlar, nýjar verðbólguöldur sópuðu burtu miklu af því, sem hefur áunnizt í hléunum á milli þeirra. Það er þetta verk, sem núv. ríkisstj. tók að sér, þegar hún var mynduð í nóvember 1959. Það kann ekki góðri lukku að stýra, að sjávarútvegurinn, sem framleiðir nær allar útflutningsvörur þjóðarinnar, fær ekki staðizt nema með ríkisstyrkjum.“

Þetta var stefna hæstv. ríkisstj. Þetta er stefnan, sem hv. 1. þm. Reykn. sagði í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. hér, að ekki verði deilt um góðan árangur af.

Þá höfum við það. Góður árangur af efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj., ekki er að efa það. Og svo er komið hér með frv. til þess að gera ráðstafanir í efnahagsmálum vegna vandræðanna. Nú segja þeir hv. stjórnarsinnar, að þetta stafi auðvitað af því, að árferði sé nú svo erfitt og langt frá því að vera eins og þeir höfðu nú ætlazt til, þegar þeir ákváðu sína stjórnarstefnu. En eins og kunnugt er, eru þeir ekki að stjórna í fyrsta skipti árið 1967. Þeir stjórnuðu líka á árunum 1964, 1965 og 1966, og það voru betri ár í sögu þjóðarinnar, heldur en nokkru sinni fyrr. Það var meiri afli, heldur en áður hafði þekkzt. Það var hærra verð á söluafurðum, heldur en nokkru sinni fyrr. Útflutningstekjur þjóðarinnar voru meiri, heldur en áður hafði verið. En samt var það nú svo, að í árslok 1964 þurfti að gera ráðstafanir með því að hækka söluskattinn úr 3% í 5%, vegna þess að ríkissjóðstekjurnar eða ríkissjóður náði ekki saman endunum. Og það var ekki látið við það eitt sitja. Það var farið að styðja atvinnuvegina líka á árinu 1964 í sambandi við breytinguna á söluskatti. Í ársbyrjun 1965 var farið enn á ný út til þess að styðja atvinnuvegina, og þá var það gert með því að taka 20% niðurskurð á verklegum framkvæmdum fjárl. Þessi upphæð, sem þá var flutt til atvinnuveganna, var um 120 millj. kr. Í ársbyrjun 1964 voru fluttar til atvinnuveganna um 200 millj. kr. Í ársbyrjun 1966 var svo haldið áfram, og þá voru fluttar 230 milljónir. Þetta var gert vegna atvinnuveganna, þrátt fyrir góðærin, þrátt fyrir aflametin, þrátt fyrir það, að verðlagið var betra en nokkru sinni fyrr. Og það sýnir kannske betur en margt annað stefnu hæstv. ríkisstj., að það þurfti 5 milljónir árið 1960 til þess að greiða landbúnaðinum útflutningsuppbætur, en nú þarf 248 millj., og ég hika ekki við að fullyrða, að afkoma landbúnaðarins var betri 1960 en hún verður 1968 eins og nú horfir. Þetta sýnir, hvernig dýrtíðarstefna hæstv. ríkisstj. hefur grafið grunninn undan atvinnulífinu í landinu. Það sýnir það líka, að 1960 þurfti ekki að styrkja sjávarútveginn, en nú er hann styrktur með ríkisframlögum svo hundruðum millj. nemur. Er það í samræmi við góðan árangur af stefnu hæstv. ríkisstj.

Þannig er þetta allt á eina bókina lært, stefna hæstv. ríkisstj., stefnan, þar sem fjármagnið hefur ráðið ferðinni og atvinnuuppbyggingin, fjárfestingin og annað hefur verið gersamlega stjórnlaust, hennar árangur hefur verið sá, að við stöndum í dag frammi fyrir miklum erfiðleikum í atvinnulífi Íslendinga, meiri erfiðleikum en kannske nokkru sinni fyrr. Við stöndum frammi fyrir því, að halli er á ríkissjóði, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar, og við stöndum einnig frammi fyrir því, þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar frá kosningunum í vor, að það er farið að taka gjaldeyrislán, af því að svo er á sjóðinn góða gengið. Og svo eigum við að hlusta á það rólega, að það sé sagt hér á hv. Alþingi, að ekki verði deilt um góðan árangur af efnahagsmálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er góði árangurinn, sem ekki á að deila um. Og svo kemur hæstv. forsrh. og segir, að það megi skoða þetta og hitt eftir 8 ára setu ríkisstjórnarinnar, þegar allt gleymdist af fyrirheitunum, sem gefin voru, áður en þangað var farið. Það er varla hægt að hugsa sér meiri öfugmæli en þau, að tala um góðan árangur af efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. um leið og frv. um aðgerðir í efnahagsmálum er rætt. Ég legg alltaf mikið upp úr því, sem er fyndið og skemmtilegt, og met þess vegna þennan þátt hv. frsm. á þann veg, að til skemmtunar megi verða. Þótt það verði að segja eins og er, að í svo alvarlegu máli sem þessu er varla hægt að halda skemmtun uppi.

Um það verður ekki deilt, að íslenzka þjóðin á við mikla erfiðleika að etja nú. Því veldur stjórnarstefnan, eins og ég hef þegar sýnt fram á, og því veldur einnig sú breyting, sem hefur orðið á íslenzku afurðaverði erlendis og aflatregða á s. l. þorskvertíð. Hitt er spurning, hvort þetta frv., sem hér er til umr., leysi vandann. Og hvernig á að leysa vanda atvinnulífsins í landinu með því að leggja á þjóðina meiri álögur en áður hefur verið? Er það lausn vandans? Og ekkert af tekjum af þessum álögum á að ganga til atvinnuveganna, umfram það, sem áður var. Það er fjarri öllu lagi, að þetta frv. leysi vandann heldur hitt, að það mun auka hann.

Einn þátt frv. vil ég ræða sérstaklega, en það er sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. að tólffalda fasteignaskattinn og taka tekjur af honum í ríkissjóð. Það hefur verið mikið til umræðu hjá sveitafélögunum og ekki sízt í sambandi við þá hugsun, að við hverfum frá innheimtu skatta, eins og nú er, og að staðgreiðslukerfi. Það er mín skoðun, að það sé leið, sem við verðum að fara inn á í okkar skattheimtu. Árið í ár með mikilli tekjurýrnun frá því, sem áður hefur verið, mun sýna og sanna, bæði þeim, sem skattanna eiga að njóta, og hinum, sem þá eiga að greiða, að það er mjög varhugavert að ætla sér að innheimta skatta ári eftir, að teknanna er aflað. Til þess að koma þessu máli í framkvæmd hafa sveitarfélögin stefnt að því marki að gera fasteignaskattana mikið virkari en þeir eru nú í þeirra tekjum. Það er í raun og veru forsenda þess, að það verði hægt að koma þessari skattheimtu á, að fasteignaskattarnir verði notaðir. Með þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstj., ef hún á að gilda áfram, verður ekki hægt að ganga á þennan tekjustofn, svo er að honum sorfið. Þess vegna verður hér að verða stefnubreyting, til þess að það sé hægt að hagnýta fasteignaskattana sem tekjustofna fyrir sveitarfélögin.

Það er líka annað atriði, er varðar sveitarfélögin í sambandi við þetta frv. Þegar hæstv. ríkisstj. kom með verðstöðvunarfrv. í fyrra og þau l., sem giltu nú til 1. nóv., var raunverulega það eina nýmæli í þeirri löggjöf, að sveitarfélögin máttu ekki breyta álagningarreglum sínum nema með samþ. hæstv. ríkisstjórnar. Önnur ákvæði laganna voru í gildandi l., eins og nú hefur komið á daginn. Það var svo, að sveitarfélög hafa að sjálfsögðu fylgt þessu. En þegar þeir gerðu sínar fjarstæðu áætlanir fyrir árið 1967, gerðu þeir m. a. ráð fyrir því, að óbreyttar væru þær greiðslur, sem þau þyrftu að inna af hendi, eins og t. d. framlag til Tryggingastofnunar ríkisins. Þegar hins vegar fór að líða á árið og fram kom reikningur frá Tryggingastofnun ríkisins, var hann um 20% hærri en árið áður. Sveitarfélögin höfðu ekki í sinni fjárhagsáætlun gert ráð fyrir þessu. Nú verða þau að mæta þessu á næsta ári, en eiga að nota sama tekjustofn og þau höfðu 1966. Sjá allir, hvernig þetta fer, auk þess sem það liggur nú fyrir, að sjúkratryggingar og dvöl á sjúkrahúsi muni hækka á næsta ári. Þessu geta sveitarfélögin ekki mætt, ef þau eiga að fylgja sömu reglum um útsvarsálagningu og þau gerðu 1966. Auk þess sem það er öllum ljóst, er til þekkja, að minnsta kosti úti um landsbyggðina, að ekki er hægt að gera ráð fyrir því, að tekjur manna almennt verði eins háar og verið hefur og munu þess vegna ekki gefa eins háar álagningarreglur.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., miðast við það eitt að leysa vanda ríkissjóðs, eins og það er uppsett, og auðvitað er sama hugsunin á bak við þetta frv. og alltaf hefur verið hjá núverandi valdhöfum, að hafa verulegan greiðsluafgang. Það tókst þeim mest árið 1966, þegar tekjur ríkissjóðs fóru nærri 9 hundruð millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Ég geri ekki ráð fyrir, að svo djarft sé teflt nú, en ég veit, að hugsunin á bak við þetta er einnig greiðsluafgangur. En hér er farið öfugt að. Fyrst er að tryggja afkomu atvinnuveganna, og afkoma ríkissjóðs verður ekki tryggð, nema afkoma atvinnuveganna sé á heilbrigðum grundvelli. Og það er ljóst þeim, sem vilja líta á þessi mál raunsæjum augum, að einmitt sú ákvörðun, sem tekin verður, þegar vandamál atvinnuveganna er leyst, gæti haft þau áhrif á tekjur ríkissjóðs, að þetta frv. hefði lítið um það að segja. Það gætu verið teknar þær ákvarðanir í sambandi við vandamál atvinnuveganna, að tekjur ríkissjóðs breyttust verulega við það.

Í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. talaði um í gær, að nóg væri af mönnum, sem vildu koma illu af stað í sambandi við þetta frv., og lét í það skína að minnsta kosti, þegar hann talaði til sumra þm., að illvilji réði afstöðu þeirra, þá vil ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að þegar við höfum fyrir okkur reynslu af stefnu hæstv. ríkisstj. í góðærinu, þar sem hvert árið á fætur öðru varð að gefa með atvinnuvegunum, þverbrjóta þá stefnu, sem hæstv. forsrh. lýsti yfir í áramótagreininni 1960, um að ríkisstyrkir til aðalframleiðsluatvinnuvegarins væru óæskilegir, þegar við höfum þá reynslu af framkvæmd hæstv. ríkisstj. og sjáum fyrir okkur aðgerðirnar, sem stefnt er að með þessu frv., þarf engan illvilja til þess að vera í andstöðu við það. Það væri hins vegar að bregðast sjálfum sér að leggja slíku máli lið í hendur þeirrar ríkisstjórnar, sem maður treystir ekki.

Einn af frambjóðendum hæstv. ríkisstj. hafði það að mottói í ræðum sínum í vor á framboðsfundum, að ríkisstj. óskaði eftir því einu að vera dæmd af verkum sínum. Hvernig á dómur þjóðarinnar að vera um ríkisstjórn, sem ekki hefur getað stjórnað í mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið, og ríkisstj., sem leggur til að leysa aðsteðjandi vandamál nú, með því að þeir beri byrðarnar, sem minnsta hafa möguleikana til að bera þær? Ég er sannfærður um, að sá dómur, sem þjóðin á að dæma slíkum valdhöfum, á ekki að tryggja þeim valdasetu.