17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (2325)

91. mál, tollheimta og tolleftirlit

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef aðallega kvatt mér hljóðs til þess að beina fyrirspurn til hæstv. ráðh., ekki varðandi þetta frv., heldur mál, sem er því skylt, en áður en ég kem að því, vildi ég segja það um þetta frv., að í því eru mörg ný ákvæði, sem eru vafalaust til bóta, önnur kunna að verða umdeild. En eitt ákvæði er það í þessu frv., sem ég vil persónulega lýsa sérstaklega stuðningi við, en það er 53. gr. frv., sem felur í sér heimild til ríkisstjórnarinnar að veita innflytjendum greiðslufrest undir vissum kringumstæðum. Það vita það allir, að verzlunin hefur búið við mikinn lánsfjárskort á undanförnum árum, eins og fleiri atvinnugreinar. Ég tek undir það með ráðh., að það má ekki reikna með því, að slíkur greiðslufrestur verði notaður þannig, að hér verði um almenna lánveitingastarfsemi að ræða, en hins vegar hygg ég, að með skynsamlegri framkvæmd á þeirri reglugerð, sem hér er gert ráð fyrir, geti það tvennt áunnizt, að í sumum tilfellum fái ríkið tollana greidda fyrr en ella, vegna þess hvað vörurnar bíða oft lengi í vörugeymslunni sem ekki mundi verða, ef þetta yrði tekið upp, og auk þess gæti þetta orðið verzluninni verulega til hagræðis, en fyrir slíka fyrirgreiðslu hefur hún fulla þörf, eins og nú standa sakir.

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er hins vegar sú aðallega, að í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna var því lýst yfir af hæstv. ríkisstj., að hún mundi bera fram mjög fljótlega till. um allvíðtækar tollahækkanir í framhaldi af því, að gerð var breyting á gengi ísl. kr. Það var, má ég segja, tekið fram, annað hvort af hæstv. ráðh. eða fjvn.-mönnum meiri hlutans, að það mætti búast við tollalækkun eða till. um tollalækkun, sem fælu í sér um 200 millj. kr. lækkun miðað við þá tekjuáætlun, sem er í fjárlögum. Af hálfu stjórnarandstæðinga var því hins vegar haldið fram við fjárlagaafgreiðsluna, að möguleikar væru fyrir stórum meiri tollalækkunum heldur en þetta, vegna þess að ýmsir tekjuliðir í fjárlögunum væru of lágt áætlaðir. Það var að sjálfsögðu tekið fram af stjórninni, þegar hún tilkynnti þetta hæstv. fjmrh., að það yrði lagt mikið kapp á að afgreiða þessar tollabreytingar sem allra fyrst, enda kom það líka fram í sambandi við þingfrestunina, að hún var ákveðin, ákveðið að hún tæki styttri tíma en venjulega, og að því er manni skildist, fyrst og fremst til þess að afgreiða breytingar á tollalógunum. Sannleikurinn er líka sá, að það er eðlileg afleiðing af þessari yfirlýsingu, að margir innflytjendur, einkum þeir, sem flytja inn vörur, sem búast má við að verði tollabreytingar á, þeir draga það að flytja þær inn eða tollskrá þær í trausti þess, að tollar á þessum vörum verði lækkaðir, og mér er sagt, að það sé þegar farið að bera á því í ýmsum tilfellum, að það sé orðinn vöruskortur, sökum þess að innflytjendur, draga að sjálfsögðu að yfirfæra vöruna eða tollskrá hana, þangað til það liggur fyrir, hverjar tollbreytingarnar verði.

Nú hefði maður búizt við því, samkvæmt því sem var yfirlýst hér á þingi fyrr, áður en því var frestað, að frv. um tollabreytingar eða tollalækkanir lægi hér fyrir strax, þegar þing kæmi saman, að það lægi hér á borðinu, alveg eins og það frv., sem við erum nú að ræða um, fyrsta dag framhaldsþingsins, en því miður hefur það ekki orðið, og það hefur heldur ekki komið fram í dag, og að því er ég bezt veit ekki væntanlegt í dag. Þó hefur maður heyrt fréttir um, að þetta frv. sé þegar tilbúið af hálfu þeirra sérfræðinga og þeirrar n., sem um það hafi fjallað.

Ég vildi í framhaldi af þessu beina þeirri fyrirspurn til hv. ráðh., hvað því valdi, að þetta frv. sé ekki þegar fram komið, og hvort það megi ekki fastlega vænta þess t.d., að það verði lagt fram fyrir helgina. En eins og ég áðan sagði, er þetta orðið aðkallandi, vegna þess að margir innflytjendur draga það af eðlilegum ástæðum að tollskrá vörur, þangað til þeir fá að vita um það, hvaða fyrirætlanir ríkisstj. og Alþ. hefur í þessum efnum.