15.12.1967
Efri deild: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það til l. um ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyt. á gengi ísl. krónu, sem hér er til 2. umr. í hv. Ed., hefur landbn. rætt á fundi. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og nál. á þskj. 152 ber með sér. Minni hl. skilar séráliti á þskj. 153 og 154.

Í ræðu hæstv. landbrh. við 1. umr. um frv. kom það ljóslega fram, hver er höfuðtilgangur þess. Í fyrsta lagi gerir frv. kleift að endurskoða kostnaðar- og tekjuliði verðlagsgrundvallar landbúnaðarafurða fyrir framleiðsluárið 1967/1968, með tilliti til þeirra verðbreytinga, sem gengisbreytingin leiðir af sér. Að sjálfsögðu fylgir þar með sú ákvörðun, að verðbreytingar af þessum sökum komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1968, og er það í samræmi við fyrri ákvarðanir Alþ. Þá er lagt til í frv., að endurskoðunin verði gerð af þeim aðilum, sem gildandi l. um framleiðsluráð o.fl. segja til um, að skuli ákveða verðlagsgrundvöll framleiðsluvaranna hverju sinni, og virðist meiri hl. n. það vera sjálfsögð og eðlileg ákvörðun.

Í öðru lagi er ákvæði um það í 2. gr. frv., að gengishagnaði þeim, sem verður vegna útfluttra landbúnaðarvara, skuli ráðstafað til þarfa landbúnaðarins eftir ákvörðun landbrh. Við 1. umr. þessa frv. hér í hv. Ed. var þetta ákvæði gagnrýnt mjög af talsmanni Framsfl., hv. 1. þm. Vesturl. Meiri hl. landbn. er honum ekki sammála, og sama máli virðist vera að gegna um fulltrúa Alþb., hv. 6. þm. Sunnl., eins og sjá má á nál. á þskj. 153. Hins vegar mætti segja, að æskilegt hefði verið að setja fram í þessu frv. nánari ákvæði um það, til hvaða þarfa landbúnaðarins þetta umrædda fjármagn skyldi ganga. En þess ber að gæta, að á þessu stigi liggur það engan veginn ljóst fyrir, hvar þörfin fyrir það verður brýnust, og mun það vart koma í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Áhrif gengisbreytingarinnar á landbúnaðinn verða ekki séð til hlítar nú þegar. Alþ. getur því ekki nú gengið frá ákveðnum till. um þetta efni, og verður þá eðlilegast, að það feli hæstv. landbrh. ákvörðunarréttinn, og það leggur meiri hl. landbn. óhikað til að gert verði og telur það þjóna vel hagsmunum framleiðenda, þar sem reynsla undangenginna ára sýnir, að skilningur hæstv. ráðh. á þörfum landbúnaðarins og samstarf hans og samtaka bænda hefur verið með þeim hætti, að til hagsbóta hefur orðið fyrir landbúnaðinn og þjóðina í heild.

Herra forseti. Meiri hl. landbn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt og því síðan vísað til 3. umr.