05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

112. mál, byggingarlög fyrir skipulagsskylda staði

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. það til byggingarlaga fyrir skipulagsskylda staði er hér lagt fram í því formi, sem skipulagsstjórn ríkisins gekk endanlega frá því. Síðan hafa rn. borizt nokkrar aths. við frv., og munu þær látnar þn. í té, þegar hún hefur störf sín við frv. Á árinu 1958 fól félmrn. skipulagsstjóra ríkisins að gera drög að frv. til byggingarlaga, er gilda skyldu fyrir allt landið, og var það verk unnið í samráði og samvinnu við skipulagsnefnd ríkisins. Frv. þetta var síðan afhent rn., en þar sem ýmis atriði þess voru talin þurfa frekari athugunar við, varð það að ráði að leggja það til hliðar að sinni. Einnig var litið svo á, að rétt væri að láta samningu frv. til skipulagslaga ásamt tilheyrandi reglugerðum hafa forgang, en skipulagslögin voru eins og kunnugt er samþ. af Alþingi fyrri hluta árs 1964 og reglugerðirnar staðfestar á árinu 1966.

Eftir að skipulagsstjórn ríkisins var tekin til starfa samkv. hinum nýju skipulagslögum á miðju ári 1964, var þess óskað af félmrn., að hún tæki upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og henni jafnframt falið að ljúka verkinu svo fljótt sem unnt væri. Skipulagsstjórn fól síðan einum úr sínum hópi, Páli Líndal borgarlögmanni, að fjalla um málið og taka gamla frv. til gagngerðrar endurskoðunar. Við samningu frv. var haft náið samstarf við skipulagsstjórnarmenn og skipulagsstjóra ríkisins. Auk þess átti höfundur viðræður við fulltrúa ýmiss konar samtaka, sem hér eiga hlut að máli, svo sem frá Arkitektafélagi Íslands, Meistarasambandi byggingarmanna, Verkfræðingafélagi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna. Frv. það, sem hér er lagt fram, er miklu ýtarlegra og yfirgripsmeira en frv. það, sem skipulagsstjóri ríkisins samdi og afhenti félmrn. í ársbyrjun 1959. Auk þess inniheldur það ýmis nýmæli, svo sem um byggingarstjóra, friðun húsa, gatnagerðargjöld o. fl., sem ekki var að finna í hinu eldra frv. Má því segja, að hér sé um alveg nýtt frv. að ræða.

Í grg. með frv. til skipulagslaga, sem lagt var fram á Alþingi árið 1958, var á það bent, að heppilegt mundi að steypa saman í heildarlöggjöf öllum ákvæðum varðandi skipulagsmál og byggingarmál, svo sem gert hefur verið í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, enda mæla ýmis rök með að svo sé. Hér þótti rétt að hafa löggjöf þessa aðskilda. Langt er síðan mönnum var ljóst, að hin ófullkomna löggjöf um byggingarsamþykktir frá 1905 var orðin úrelt og mikil nauðsyn að endurskoða hana sem og önnur lög um sama eða svipuð efni hið fyrsta. Viðhorf hafa gerbreytzt í þessum málum á 60 árum og fólksfjölgunin orðið geysimikil, ekki sízt í þéttbýlinu, og öll byggingarstarfsemi margfaldazt. Frv. þessu er fyrst og fremst ætlað að koma í stað l. nr. 19 frá 1905 um byggingarsamþykktir, þ. e. að skapa heimildir til að setja almenna byggingarreglugerð og sérstakar byggingarsamþykktir, eftir því sem ástæða þykir til. Þá eru ákvæði um friðun húsa og gatnagerðargjöld, eins og áður var að vikið. Menn getur greint á, hvort slík ákvæði eigi heima í byggingarlögum, en menn ættu að geta orðið sammála um, að meðan engin önnur löggjöf er til um þessi efni, sé rétt og eðlilegt að fella hana inn í þetta frv. Meginefni frv. er um yfirstjórn byggingarmála, skipun, valdsvið og verksvið byggingarnefnda.

Fyrstu lagareglur, sem um þessi efni voru sett hér á landi, munu hafa verið um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík frá 29. maí 1839. Lög um byggingarmálefni Reykjavíkur voru sett árið 1944 og almenn lög um byggingarsamþykktir árið 1905 og gilda enn að miklu leyti a.m.k. í orði kveðnu. Alþingi hefur raunverulega engar breytingar gert á l. þessum aðrar en með í. nr. 84 frá 1943, auk ákvæða í skipulagslögum og lögum nr. 37 frá 1948 um brunavarnir og brunamál. Á árinu 1924 var frv. til byggingarlaga lagt fyrir Alþingi, en aðalhöfundur þess mun hafa verið Guðjón Samúelsson, þáv. húsameistari ríkisins, er mun hafa haft samráð við samningu þess við skipulagsnefnd ríkisins. Frv. varð ekki útrætt á því þingi og virðist ekki hafa verið lagt fram síðar. Í þessu frv. var sú stefna ríkjandi að taka sem mest af almennum reglum upp í sjálf l., enda var það í 92 gr. Við samningu þessa frv. er hins vegar fylgt hinni meginstefnunni, sem til greina kemur við samningu byggingarlagafrv., sem sagt þeirri að lögfesta fyrst og fremst nauðsynlegar heimildir til að setja byggingarreglugerð eða byggingarsamþykktir, en taka sem minnst í l. af tæknilegum fyrirmælum. Verða þá allar síðari breytingar á l. til samræmis við ný og breytt viðhorf ólíkt fyrirhafnarminni. Ljóst er, að samning nánari reglna samkv. frv. þessu, ef að lögum verður, hlýtur að taka nokkurn tíma, en benda má þó á, að fyrir liggur endurskoðuð fyrirmynd af byggingarsamþykktum, sem félmrn. gaf út með auglýsingu nr. 22 frá 1967. Hafa nú þegar verið gefnar út 45 byggingarsamþykktir og staðfestar af félmrn., sem að mestu leyti hafa verið gerðar samkv. fyrrnefndri fyrirmynd óbreyttri. Þetta er því minna verk en ella að setja nýjar reglur samkv. þeim heimildum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að hafa um frv. fleiri orð, þótt tilefni væri til, nema sérstakt tilefni gefist til, svo nákvæm grg. og fullkomin, sem fylgir frv. ásamt aths. við einstakar greinar þess. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.