05.02.1968
Neðri deild: 57. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

113. mál, brunavarnir og brunamál

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Með bréfi dags. 28. okt. 1966 fól félmrn. Bárði Daníelssyni yfirumsjónarmanni brunavarna að athuga og gera till. um, hvernig skipulagi og starfsemi Brunavarnaeftirlits ríkisins skyldi háttað í framtíðinni, þannig að það gæti sem bezt gegnt þeim meginhlutverkum sínum að leiðbeina sveitarstjórnum um allar verklegar og skipulegar framkvæmdir við brunavarnir og hafa yfirumsjón með ákvæðum l. um brunavarnir og sjá um, að lögum um brunavarnir og brunamál verði hlýtt í hvívetna. Með bréfi dags. 29. des. sama ár fól rn. Páli Líndal borgarlögmanni að vinna að framangreindu verkefni með yfirumsjónarmanni brunavarna, og skyldu þeir skila rn. svo fljótt sem kostur væri umbeðnum till. í frumvarpsformi. Frv. það til l. um brunavarnir og brunamál sem hér er lagt fram, er eins og framangreindir menn gengu frá því og afhentu rn. í desemberlok s.l.

Skipulagðar brunavarnir eiga sér ekki langa sögu hér á landi. Strjálbýlið gerði ókleift að koma slíku við. Þegar eldur kom upp, urðu menn að treysta á eigið atfylgi og nágranna sinna til slökkviliðsstarfa. Fyrstu opinberar reglur, sem settar voru á Íslandi um brunavarnir eða brunamál, voru settar fyrir rúmri hálfri annarri öld, eða 1. apríl 1807, en þann dag gaf stiftamtmaður út upplýsingu um varnir gegn brunahættu í Reykjavík. Vísir að slökkviliði tók að þróast í Reykjavík á öðrum þriðjungi 19. aldar, en árið 1875 eru sett l. um brunamál í Rvík, þar sem nákvæmlega er kveðið á um meðferð brunamála. Þau l. héldu gildi sínu, unz sett voru núgildandi l. um brunamálefni í Rvík. nr. 28 frá 1945. Heildarlög um brunamálefni utan Reykjavíkur voru fyrst sett með l. nr. 85 frá 1907, og var svo mælt fyrir í 39. gr., að l. giltu fyrir kaupstaði utan Reykjavíkur, verzlunarstaði og aðra þá staði og húseignir, sem eigi féllu undir l. frá 20. okt. 1905 um vátryggingu sveitabæja og annarra húsa í sveitum utan kauptúna. Jafnhliða þessum l. giltu sérl. um slökkviliðið á Ísafirði frá 1883, Seyðisfirði frá 1901, Akureyri frá 1905 og Hafnarfirði frá 1909. Öll þessi löggjöf var afnumin með núgildandi l. nr. 37 frá 1948, en skv. þeim l. var síðan sett reglugerð nr. 167 frá 1949.

Með þessari löggjöf um brunavarnir og brunamál var vissulega stigið spor í rétta átt, því að þar er að finna allítarleg ákvæði um skipulag brunavarnamála, um slökkvilið, meðferð á eldi, ljósum og eldfimum efnum, frágangi eldfæra og eldfæraeftirlit, skyldur borgaranna, ef eldsvoða ber að höndum, um brunavarnir og gerð húsa með tilliti til brunavarna o. fl. Öllum er kunnugt um hin tíðu og miklu brunatjón hér á landi, ekki aðeins hið beina tjón á lausafé og fasteignum, heldur einnig vegna rekstrarstöðvana af völdum eldsvoða. Í febr. 1958 var samþ. þál. í Rvík um varnir gegn brunatjóni, og var skorað á ríkisstj. að láta þegar fram fara ítarlega rannsókn hinna færustu manna á orsökum hinna tíðu eldsvoða, sem valdið hafa miklu tjóni á atvinnutækjum þjóðarinnar, og gera hverjar þær ráðstafanir, sem þurfa þykir til að draga úr eldhættu í atvinnufyrirtækjum. Í sept. sama ár skipaði félmrh. 6 menn undir forsæti þáverandi umsjónarmanns brunavarna, Geirs Zoöga, í n. til að annast rannsókn þá og gera þær till., sem um er fjallað í nefndri þál. Nefndarálitið barst rn. í júní 1959. Nm. voru sammála um, að helztu orsakir eldsvoða á atvinnutækjum væru eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi slæm umgengni og vanræksla í umbúnaði tækja. Í öðru lagi lélegur og ófullkominn útbúnaður og frágangur rafmagnstækja og raflagna. Í þriðja lagi ófullkominn og trassafenginn frágangur olíukynditækja. Í fjórða lagi byggingargallar frá tæknilegu sjónarmiði eldvarna í uppsetningu þurrkofna, hitunartækja, véla o. fl. Og í fimmta lagi bráðabirgðatæki til hitunar og lýsingar, aðallega í sambandi við nýbyggingar.

Í sambandi við væntanlegar úrbætur á hinu mikla ófremdarástandi í þessum málum lögðu nm. m.a. til, að hinar 3 stofnanir, sem hafa eftirlit með öryggisútbúnaði húsa og véla, þ. e. Brunavarnaeftirlitið, Rafmagnseftirlitið og Öryggiseftirlitið, herði mjög eftirlitið í heild og gangi ríkt eftir, að fyrirmælum l. og reglugerða um frágang og öryggisútbúnað sé hlýtt. Einnig að gerðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar til að tryggja raunhæfa framkvæmd eftirlitsins. Enn fremur að tekin verði upp markviss almenn fræðslustarfsemi um þessi mál og loks, að reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að upplýsa orsakir eldsvoða og séu niðurstöður og réttarrannsóknir teknar fram í skjölum málsins. Þá gerði n. till. varðandi verksvið og stjórn Brunavarnaeftirlits ríkisins og gerði þar að sjálfsögðu ráð fyrir lagabreytingu með setningu nýrra l. í því sambandi.

Eins og vikið er að í aths. við lagafrv. þetta, hafa brunatjón á Íslandi numið geigvænlegum upphæðum hin síðari ár, og það sem verra er, að það er hér tvöfalt eða þrefalt meira en í nágrannalöndum okkar, að minnsta kosti miðað við 5–6 síðustu árin. Þó er það verst, að auðvelt mun að sýna fram á, að þessi miklu brunatjón stafa að verulegu leyti af skorti á eftirliti og fræðslu á sviði brunamála. Brunavarnaeftirlit ríkisins þarf því að efla, svo að það geti annað verkefni sínu á raunhæfan hátt, svo sem ráð er fyrir gert í þessu frv. Fræðslustarfsemi og kynningu á brunamálum og brunavörnum, hvort sem er í skólum, dagblöðum, útvarpi eða sjónvarpi, þarf og að stórefla. Einnig að efna til námskeiða fyrir slökkviliðsmenn utan að landi, enda ráð fyrir þessu gert í frv. Eins og frv. ber með sér, er hér fyrst og fremst um heildarlög að ræða, en hins vegar ætlazt til, að kveðið verði á um ýmis framkvæmdaatriði og reglur um tæknimálefni í sérstökum reglugerðum, sem settar verði síðar.

Ég vildi að þessum orðum sögðum beina þeim tilmælum til þeirrar hv. þingnefndar, sem málið fær til meðferðar, að hún hraði svo sem kostur er afgreiðslu þessa máls, því að ekki þurfum við frekar vitnanna við um megintilgang frv., og vafalítið þarf ekki að óttast nokkurn ágreining um meginefni frv. og er mikil nauðsyn á, að það fái sem skjótasta afgreiðslu, svo mörg mál, sem þá eru eftir óleyst í sambandi við setningu reglugerðar síðar, en nauðsyn á að fá settan þann lagaramma, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég geri það svo að till. minni, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.