17.10.1967
Efri deild: 4. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (2342)

9. mál, kjarasamningar apótekara og lyfjafræðinga

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Mér kemur ekkert á óvart þessi hógværa ræða hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er margt í henni, sem ég er honum alveg sammála um. Ég kveð mér aðeins hljóðs til þess að árétta nokkuð það, sem kynni að valda misskilningi um það, sem hann sagði um aðstöðu og afskipti mín af .þessu máli. Mér hefur auðvitað alltaf verið ljóst, að slík löggjöf eins og þessi er alltaf mjög umdeilanleg, og eins og ég gerði grein fyrir, þá hafði ég gert töluvert ítarlegar tilraunir til þess að stuðla að eðlilegri lausn þessarar deilu á milli aðilanna, en það hafði mistekizt, það gat auðvitað verið álitamál, ef talið var nauðsynlegt — sem ég skal koma að síðar — að stöðva þetta verkfall með lagasetningu, hvort hefði átt að gera það með frv. eða með þessum brbl. eins og þau eru hér að staðfesta eða ákveða, að samningurinn, sem áður gilti, skyldi gilda áfram á milli þessara aðila. Hitt gat auðvitað komið til og hlaut að koma til álita líka að skipa gerðardóm í málinu. Ég hafði sannast að segja gert mjög ítarlegar tilraunir til þess, að samkomulag gæti orðið um gerðardóm, og af þeim tilraunum mínum varð mér ljóst, að þessi lausn málsins var afskaplega öndverð eða aðilar voru mjög andstæðir henni báðir, eins og kom í ljós við atkvgr., sem fram fór um till. sáttasemjara um gerðardóm, en hún var felld nær einróma. Afstaða mín hefði sjálfsagt orðið önnur, ef t.d. lyfjafræðingarnir hefðu fyrir sitt leyti lýst sig tilbúna til þess að fara í gerðardóm í þessu máli eða apótekararnir o. s. frv. Ég skal ekki um það segja, en það hefði e. t. v. mátt segja, að ég hefði hallað á annan aðilann fremur en hinn með slíkri lausn, en þegar það lá fyrir, að báðir aðilar hefðu verið svo andstæðir þeirri lausn, hneigðist ég að þessum brbl., sem lögfestu kjarasamninginn, og er mér þá alveg ljóst, að um það má deila, hvort það hefði verið réttari úrlausn en gerðardómsákvörðunin. Ég býst nú við, að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði ef til vill verið alveg jafn andvígur þeirri lausn, og skal ekki fara um það fleiri orðum. Hv. þm. segir, að forsendur brbl. standist ekki. Maður er nú svo vanur að heyra það, að forsendurnar standist ekki fyrir lögum, og má auðvitað alltaf deila um það, en þó er eitt atriði í þessu sambandi, sem skiptir aðalmáli. Hv. þm. segir, að í raun og veru komi fram í grg. fyrir forsendum brbl., að ekkert hættuástand hafi verið fyrir hendi, en það er orðað svo : „Kann því áður en varir að skapast hættuástand, sem ekki verður við unað“. Það getur vel verið, að þetta orðalag sé kannski ekki það æskilegasta, en sannleikurinn er sá, að mér hefur borizt bréf, sem ég hef nú ekki hér við höndina, en sem sjálfsagt er að láta þingnefndinni í té, ef hún óskar eftir, sem sýnir það, að það var mikil hætta á því, að til þess kæmi, að einstaka lyfsalar, og alveg sérstaklega í stærsta apóteki höfuðborgarinnar, ynnu við það mikið álag, að stórkostlegt slys gæti stafað af. En þetta var náttúrulega mjög misjafnt hjá lyfsölunum. Og ég vildi byrgja brunninn áður en barnið datt ofan í, heldur en að grípa inn í þetta mál, þegar einhver katastrófa í sambandi við útgáfu lyfseðla eða afgreiðslu þeirra hefði ef til vill komið fyrir eða verið búin að koma fyrir, en á þessu var mikil hætta, og hvort hefði átt að segja í þeim orðum, að hætta væri þegar fyrir hendi eða eins og þarna: „Kann því áður en varir að skapast hættuástand“ finnst mér ekki skipta miklu máli í þessu sambandi. En skoðun þeirra, sem kynntu sér aðstæðurnar þarna og voru kunnir aðstæðum — og það held ég, að lyfjafræðingunum hafi verið alveg fullkomlega ljóst, enda lögðu þeir mjög mikla áherzlu á það — var sú, að þetta væri algjörlega óviðunandi hættuástand, og þeir voru mjög óánægðir yfir því, að það var látið í veðri vaka í blöðum, ekki af apótekurum, að það væri allt í lagi og svona gæti það haldið áfram, en persónulega létu þeir í ljós við mig, lyfjafræðingarnir, að það væri hvergi nærri, að þetta ástand væri viðunandi eða hættulaust. Þetta segi ég nú aðeins til skýringar.

Þar sem vitnað er í verðstöðvunarlögin, þá er það rétt hjá hv. þm., að verðstöðvunarlögin gerðu ekki ráð fyrir að hafa afskipti af launaákvörðunum, og þess vegna var heimild veitt þeirra vegna til þess að hækka laun, en hér stóð þannig sérstaklega á, að heimild verðstöðvunarlaganna hafði þegar verið beitt og m.a. gegn lyfsölum, og það hlaut auðvitað að vera verulegt atriði eins og menn skilja, þó að ég geti ekki frekar en nokkur þm. lagt dóm á deiluefnið og geri það ekki.

Í viðhorfi apótekaranna kom það skýrt fram, hvaða aðstöðu þeir höfðu til þess að ákvarða sitt lyfjaverð, en lyfjaverðið er ákvarðað með nokkuð sérstökum hætti eftir lyfsölulögunum í beinu sambandi við þann kostnað, sem þeir hafa af framleiðslu lyfjanna. Hvort þeir eru nú öðrum ríkari eða ríkustu menn landsins skiptir í sjálfu sér ekki máli í því sambandi. Sennilega er það dálítið upp og ofan og ástæðulaust út af fyrir sig að draga það inn í deiluefnið. Það eru ekki fleiri en þessar smáaths., sem ég vildi koma fram, til þess að reyna þá, ef verða mætti að girða fyrir óþarfa misskilning um afstöðu mína í sambandi við málið.