18.10.1967
Efri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

12. mál, lausn deilu stýrimanna, vélstjóra og loftskeytamanna á farskipum og eigenda farskipa

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það hlýtur nú að vera nokkur raun fyrir mann, sem alinn er upp í verkalýðshreyfingunni, fyrir hennar „prinsip“ og hennar starf, að bera fram slíkt mál eins og hér er á ferðinni, mál, sem ætlað er að svipta þrjú stéttarfélög rétti til samninga um kaup sín og kjör, og má nú vissulega segja, að ólíkt hafist þeir að, foringjar Alþfl. nú, sem gerast fyrirsvarsmenn slíks máls hér á hv. Alþ., og foringjar Alþfl. hér áður fyrr, sem gerðu það a.m.k. tvívegis að hótun um úrsögn úr ríkisstj., ef hliðstæð lög yrðu sett, og einmitt þegar sjómannastéttin átti í hlut. Um þetta vil ég aðeins segja það, að sem gamall félagi hæstv. ráðh. í verkalýðshreyfingunni finn ég til með honum í þessu hlutverki og óska þess bezta honum til handa, að hann verði sem skemmst í félagsskap, sem neyði hann til þvílíkra verka.

Um það leyti, sem þessi brbl. sáu dagsins ljós, örfáum dögum eftir alþingiskosningar, — en það var vissulega engin tilviljun, að þau voru einmitt gefin út rétt að kosningunum afstöðnum, en ekki rétt áður en þær fóru fram — þá sagði flokksblað hæstv. ráðh. í ritstjórnargrein, að það væri vissulega hægt að treysta því, að slík l. væru ekki gefin út af núv. hæstv. félmrh. með ljúfu geði og ástæðan hefði eingöngu verið sú, að hann hefði örvænt um aðra lausn málsins. Þetta m.a. vekur mann til umhugsunar um það, hvort hér hafi virkilega staðið svo á, að kröfur farmanna hafi verið í slíku hófleysi og aðgerðir hafi verið það harkalegar af hálfu þeirra samtaka, sem hér áttu hlut að máli, að það gæfi tilefni til fullkominnar örvæntingar hjá stjórnarvöldunum. Og einnig vekur þetta þá spurningu, hvort það hafi verið eingöngu þeirra sök, að deilan gat ekki leystst á friðsamlegan hátt eða hvort öðrum hafi verið um að kenna. Og sú spurning vaknar líka, hvers vegna þessum gerðardómslögum var einhliða beitt gegn farmönnum, en ekki að neinu leyti gegn hinum aðilanum, sem í deilunni stóð, því að þessi brbl. eru brennd nákvæmlega sama markinu eins og öll önnur lög, sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur borið fram í svipuðum anda, að þvingunum er einhliða beint gegn þeim, sem eru að semja um laun sín, en ekki á neinu tilviki gegn þeim, sem kröfurnar eru gerðar til. Það er vissulega eftirtektarverð staðreynd, sem ekki getur farið fram hjá neinum, sem lítur yfir farinn veg í þessum efnum hjá hæstv. núverandi ríkisstj.

Ég held, að það yrði ljóst, ef saga þessa máls er aðeins rifjuð upp, og ég tel rétt, að það verði gert við þetta tækifæri, að það hafi verið gætt af hálfu farmannanna fyllstu sanngirni bæði um alla kröfugerð og í allri meðferð málsins og sérstök tilhliðrunarsemi hafi komið fram hjá þeim varðandi alla framkvæmd málsins. Og það kom m.a. strax fram í upphafi deilunnar, að fyrirsvarsmenn þeirra samtaka, sem hér áttu hlut að máli, báru alveg sérstakt — og ég vil segja óvenjulegt — traust til hæstv. ríkisstj. og hennar stofnana. Þetta kom m.a. fram í því, að eftir að samningar runnu út í okt. á s.l. ári, þá óskuðu fyrirsvarsmenn þeirra samtaka, sem hér eiga hlut að máli, eftir því, að fræðileg rannsókn færi fram á þeirra kjörum, hlutlaus rannsókn, hvernig þau hefðu breytzt í samanburði við kjör annarra stétta, og þetta verkefni var ekki falið óvirðulegri stofnun heldur en sjálfri Efnahagsstofnun ríkisins. Niðurstaða þessarar athugunar var sú, að þarna hefði orðið verulegur misbrestur á því, að kjör þessara stétta hefðu breytzt í samræmi við breytingar á kjörum annarra launastétta í landinu á undanförnum árum.

Á þessari rannsókn byggðu svo farmennirnir sínar kröfur, sem voru upphaflega í höfuðatriðum þær, að jöfnuð yrði út 7–12% kauphnignun, sem sannanlega var orðin á launum þeirra og annarra starfsstétta, miðað við þær breytingar, sem hafa orðið á þeim á nokkrum undanförnum árum, í öðru lagi, að þeir fengju 25% vaktaálag á föst mánaðarlaun, vegna þess að þeir vinna allan sólarhringinn og geta algjörlega miðað sín hlunnindi við það, sem tíðkast hjá landverkamönnum, og í þriðja lagi, að þeir frídagar, sem þeir gátu ekki tekið vegna starfa sinna úti á sjónum, væru greiddir með 90% álagi, en allar launastéttir hafa slík ákvæði í sínum samningum. Þetta voru upphaflegu kröfurnar.

Eftir að farmennirnir höfðu rætt þessi mál við ríkisstj. og fyrirsvarsmenn hennar og þá væntanlega hæstv. ráðherra, sem hér talaði, og eftir að fyrirsvarsmenn stjórnarinnar höfðu borið fram sérstakar óskir hennar um það, að kröfunum væri stillt í hóf með tilliti til allra aðstæðna, svo að hægt væri að leysa málið með friðsamlegum hætti, þá gerðu farmennirnir þess kost, að öllum aðgerðum yrði frestað um verulegan tíma gegn fimm skilyrðum, sem þeir settu, og í þeim skilyrðum er fallið frá langveigamestu kröfunum, sem þeir gerðu, þ.e.a.s. um 25% vaktaálagið. Hins vegar kváðust þeir vera fúsir til þess að fresta aðgerðum og semja a.m.k. til bráðabirgða, ef þeim væri tryggð einnar klst. yfirvinna á dag. Í öðru lagi, ef nýliðar, sem munu vera tiltölulega lágt launaðir, fengju að byrja á hæstu launum í sínum flokki. Í þriðja lagi, ef þeir fengju 7% oflof á yfirvinnu, en þeirra hlunninda njóta svo að segja allir launamenn í landinu, a.m.k. allir, sem vinna eftir kjörum verkalýðssamtaka innan Alþýðusambands Íslands. Í fjórða lagi, að ágreiningur um hin ýmsu samningsatriði yrði jafnaður. Og í fimmta lagi, að nefnd yrði skipuð, sem athugaði laun farmanna enn betur en búið væri að gera og á hvern hátt mætti tryggja þeim kaup á við hliðstæðar stéttir í landinu.

Þarna sem sagt tel ég, að farmennirnir hafi sýnt strax í upphafi meðferðar málsins mjög mikla tillitssemi og lækkað kröfur sínar mjög verulega frá því, sem um var að ræða í upphafi og það sé þess vegna ekki hægt að segja, að þeir hafi grafið einhverja óbrúanlega gjá í samningunum með þessari afstöðu sinni.

En niðurstaðan varð, eins og hæstv. ráðh. gat um, að samningar gátu ekki tekizt á þessum grundvelli, því að farskipaeigendur vildu aðeins ganga inn á eitt atriði af þessum og það sjálfsagðasta, þ.e.a.s. að misklíðarefni út af samningum yrðu jöfnuð. En að öðru leyti gáfu þeir ýmist hófleg svör eða um algera neitun var að ræða.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, þó að það sé kannske erfitt að sanna það, að höfuðástæðan fyrir óbilgirni farskipaeigenda í málinu og fyrir því, hvað vinnustöðvunin stóð lengi, var sú, að þeir treystu á það, að þessi leið yrði farin eftir kosningar — þeir treystu á það — og ef þeir hefðu ekki gert það, held ég, að þeir hefðu hlotið að snúast talsvert öðruvísi við þeim till. til breytingar, sem fyrirsvarsmenn farmanna gerðu. En það er einmitt þetta, einmitt þessi aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert svo almenna í viðskiptum launamanna og samtaka þeirra við atvinnurekendur, að atvinnurekendur eru, jafnvel án þess að nokkrar yfirlýsingar eða bein loforð liggi fyrir um það, farnir að treysta meira eða minna á það, að slík verði endanlega lausnin. Og það gefur auðvitað alveg auga leið, að það getur ekki lengur verið um neina frjálsa samninga að ræða og neina eðlilega meðferð þessara mála eftir þeim l., sem um það eiga að gilda, ef annar aðilinn hefur þetta alltaf uppi í erminni, að ríkisstj. komi honum til hjálpar og lögfesti óbreytt kjör eða gerðardómar, sem ekki þurfa að skila áliti, fyrr en eftir dúk og disk, eins og hér er um að ræða.

Ég vil taka undir það, að ég er nákvæmlega sömu skoðunar og hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér talaði á undan mér, að auðvitað geta komið slík tilfelli, slík misnotkun á þeim rétti, sem vinnulöggjöfin veitir launþegum til samtaka um það að neita að selja vinnuafl, að það verði ekki komizt hjá opinberum aðgerðum. Slíkar aðstæður geta vissulega verið fyrir hendi, en ég held, að slík misnotkun á samningsréttinum og aðstöðu til að gera frjálsa samninga sé ákaflega fátíð og engin af þeim brbl., sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið út varðandi launadeilur, hafi verið hægt að grundvalla á slíkri staðreynd. Ég held, að það hafi verið farið það gætilega með þennan dýrmæta rétt, að ríkisstj. hafi aldrei, hvorki í þessu — allra sízt kannske í þessu — né heldur í öðrum tilfellum getað haft slíka ástæðu, þó að það vissulega sé fræðilegur möguleiki, að slíkt gæti átt sér stað. En það mætti nú kannske líka spyrja: Ef einhver þvingunarlög voru óhjákvæmileg í þessu tilfelli, sem ég tel ákaflega fjarri lagi, að hafi verið, hvers vegna var þá ekki að minnsta kosti farið bil beggja og einhver miðlunartill. lögfest? Það hefur verið gert áður í hliðstæðum tilfellum. Eða var það svo, að hæstv. ráðh., sem hér er í fyrirsvari fyrir þessu máli, hafi ekki haft neina skoðun á því, hvað var sanngjörn lausn á deilunni? Það væri vissulega ástæðu til að spyrja um það. Og ef hann hafði einhverja skoðun, hver var hún þá? En þessi lagasetning ber þess ekki vitni, að hann hafi haft neina skoðun á málinu. Og er það auðvitað auðsætt, að hafi svo verið, var málið auðvitað miklu vandasamara fyrir hann til lausnar. Það mætti líka spyrja: Ef það var óhjákvæmilegt að skipa gerðardóm í þessu máli, sem ég tel, að hafi alls ekki verið til að dreifa, hvernig stóð þá á því, að slíkum gerðardómi voru ekki settar einhverjar viðmiðunarreglur eða starfsreglur? Ég get ekki betur séð en að það hljóti að vera ákaflega örðugt fyrir slíkan gerðardóm að starfa, ef hann hefur ekki í þeirri löggjöf, sem markar honum svið, neinar leiðbeiningar um það, á hvaða grundvelli hann skuli vinna eða hvaða tillit hann skuli taka í sínum úrskurði, enda hefur nú reynslan orðið sú, að þetta verkefni, sem gerðardómnum var falið, virðist nú heldur betur standa í honum, því að hann er ekki búinn að leysa það enn í dag, að því er ég bezt veit.

Nei, það voru sem sagt ekki að neinu leyti farnar þessar leiðir, sem þó voru hugsanlegar, jafnvel þó gripið yrði til slíkra aðgerða, heldur aðeins farin gamla leiðin, að þvinga fram einhliða bann við lögmætum samtökum og lögmætum aðgerðum, og ég vil segja hóflegum aðgerðum. Árangurinn af þessu má auðvitað segja að sé sá, að málið hafi verið leyst í bili, en þó ekki nema um stundar sakir, og nú eru ekki nema örfáir dagar, þangað til farmennirnir hafa aftur fengið sinn samtakarétt, og ég man ekki betur en að þeir svöruðu þessum lögum á fundi annaðhvort samdægurs eða daginn eftir með því að ákveða, að verkfallið skyldi halda áfram, strax þegar l. gengju úr gildi 1. nóv., og það eru ekki margir dagar þangað til. Gerðardómurinn er ókominn, og maður sér ekki, að í sjálfu sér sé málið neitt nær því að vera leyst en áður. Við stöndum í raun og veru núna, eða komum þá til með að standa að örfáum dögum liðnum, í nákvæmlega sömu sporum og þegar l. voru sett. Og það er líka kannske ástæða til að minna á það, að þegar farmennirnir ákváðu þetta á sínum fundum, að brbl. útgefnum, lýstu þeir því sérstaklega yfir, að þeir mundu taka öðrum og harðari tökum á sínum kjaramálum, þegar þessi lög væru úr gildi, en þeir hefðu gert, ef deilan hefði leystst með eðlilegum hætti. Þannig eru þessar aðgerðir ekki til þess fallnar, þegar til lengdar lætur, að leysa nein mál. Það er aðeins höggvið á hnútinn í bili, en vandinn stendur eftir og biður sinnar eðlilegu lausnar.

Um leið og ég mótmæli þessu frv. með svipuðum og sömu aðalrökum og ég gerði hér í gær, þegar önnur hliðstæð lagasetning var hér til umr., vil ég að lokum spyrja ráðh. um það, hvernig hann hafi hugsað sér að fara með málið, þegar það kemur núna á dagskrá að nýju. Er það svo, að atvinnuvegirnir og þjóðin þoli nú betur átök út af þessu máli en hún gerði á s.l. vori, eða er þá meiningin að hindra það með því að leika sama leikinn og hér hefur verið leikinn í þessu máli ?