18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

83. mál, stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila opinberra gjalda

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í umr. um þetta mál, en til viðbótar við það, sem hér hefur komið fram, vildi ég benda á eitt atriði, sem mér finnst ástæða til að hafa í huga, þegar settar eru almennar reglur í l., sem snerta innheimtumál, eins og hér er til umr. Það eru raunverulega engin skilyrði fyrir því, að þessi sterki réttur verði notaður, nema þau, sem koma fram hér í frv., að um sé að ræða opinber gjöld, sem haldið er eftir af launum starfsmanna og að settur er ákveðinn frestur til skila. Hins vegar er aðeins um heimild að ræða, og heimildina má nota. Innheimtumaður hefur í hendi sér að nota hana, ef þessi tvö skilyrði eru til staðar. Ef við lítum t.d. á sveitarstjórnir, vitum við, að það hefur stundum viljað velta á ýmsu, hvernig beitt hefur verið innheimtu í framkvæmdinni. Þetta er vitað. Það er hægt að misnota svona rétt af hálfu opinberra aðila. Það eru engar sérstakar réttarfarsreglur um þessa heimild, eins og er almennt í öðrum efnum, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. minnti hér á. Þess vegna er — ef ekki er færi á því fyrir þá, sem sóttir eru eða innheimt er af, að færa fram einhverjar varnir — vissulega möguleiki á því, að svona einhliða, sterkur, ákveðinn og tillitslaus réttur verði misnotaður.

Það hefur verið minnzt á innheimtuþóknunina. Hæstv. fjmrh. sagði hér í sinni ræðu, að sér fyndist það vissulega koma til álita að greiða innheimtuþóknun fyrir innheimtustörf, sem einstakir aðilar, atvinnurekendur, hafa á hendi fyrir ríkið. Í raun og veru er um að ræða í þeim tilfellum óbeina skattaálagningu, vegna þess að innheimta af þessu tagi kostar auðvitað fé, kostar mikla vinnu, kostar vinnukraft og í sumum tilfellum hefur hún í för með sér verulegan kostnað, þannig að það er í alla staði sanngjarnt, að greiðsla sé innt af hendi fyrir þessa þjónustu og skyldu.

Ég hygg, að það væri skynsamlegt, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi alveg sérstaklega réttarfarsleg atriði í sambandi við þetta mál, því að þetta er auðvitað tvísýnt mál, sem hér er á ferðinni, sem er annars eðlis, hvað snertir réttarfarsreglur, heldur en aðrar innheimtuaðferðir.