22.02.1968
Efri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

143. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Tilgangur frv. þessa um Siglingamálastofnun ríkisins er fyrst og fremst sá að byggja upp frá grunni með einum heildarlögum stofnun, sem hefur þróazt á undanförnum áratugum með því, að verkefnum hefur verið bætt við hjá stofnuninni, ýmist með sérstökum l. og reglugerðum eða með öðrum hætti. Venjulegast gengur stofnunin undir heitinu Skipaskoðun ríkisins, og er skipaskoðunarstjóri forstjóri hennar. Skipaskoðun ríkisins heyrir undir siglingamálaráðh., en skipaskráningarstofa ríkisins starfar samkv. l. um skráningu skipa, og er skipaskráningarstjóri forstjóri hennar. Í skráningarl. er sagt, að skipaskoðunarstjóri skuli einnig vera skipaskráningarstjóri. Störf skipaskráningarstjóra heyra undir yfirstjórn fjmrh., sbr. sérstök lög þar um frá 20. marz 1950 um mælingu skipa, en í þeim l. segir, að skipaskoðunarstjóri skuli fara með þau mál undir yfirstjórn ráðh. Fjmrh. fer nú með þau mál, er varða skipamælingar. Ísland er aðili að alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu frá 1954 og aftur 1962, og lög nr. 77 frá 10. maí 1966 fjalla um mál sem og reglur settar samkv. l., en þar er skipaskoðunarstjóra falin framkvæmd þessara mála.

Allt frá stofnun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMCO, hafa í reynd öll mál, er varða þá stofnun, verið afgreidd af skipaskoðunarstjóraembættinu í samráði við utanrrn., þótt efni einstakra mála heyri undir mismunandi ráðh. Mál, sem varða alþjóðasiglingareglur, hafa verið unnin og reglurnar gefnar út ásamt leiðbeiningum af skipaskoðun ríkisins, enda um IMCO-mál að ræða.

Á undanförnum árum hafa tæknilegar umsagnir um samninga um smíði fiskiskipa svo og verðmat verið unnið af skipaskoðun fyrir Fiskveiðasjóð Íslands vegna lána til skipanna samkv. beiðni sjóðsins og með samþykki siglingamálaráðh. Þetta starf hefur fallið mjög vel inn í störf skipaskoðunarinnar, vegna þess að stofnuninni ber þegar samkv. l. að fá í hendur smíðalýsingar og teikningar allra skipa 4 smíðum, sem til athugunar eru, leiðréttingar og viðurkenningar, áður en smíði hefst. Embætti skipaskoðunarstjóra, hefur á undanförnum árum verið ríkisstj. til ráðun. um siglingamál og skipasmíðar, þegar um er að ræða kaup eða smíði á skipum til opinberra aðila eða þegar ríkisstj. hefur á einn eða annan hátt veitt fyrirgreiðslu um nýsmíði skipa, enda hefur stofnunin þegar yfir að ráða sérfræðingum þeim, sem upp eru taldir í 7. gr. lagafrv.

Í 14. gr. frv. þessa eru ákvæði um, að siglingamálastofnunin skuli að jafnaði hafa starfandi umferðareftirlitsmenn, sem eru fengnir til að samræma störf skipaskoðunarmanna í samráði við skipaeftirlitsmann hvers eftirlitssvæðis. Skulu umferðareftirlitsmenn einnig framkvæma skyndiskoðanir í höfnum eða á sjó, eftir því sem aðstæður leyfa og ástæða þykir til. Þetta ákvæði er nýmæli í þessu frv., en undanfarin 2 ár hafa þó verið starfandi umferðareftirlitsmenn við stofnunina samkv. sérstakri ákvörðun þar um. Þessar skyndiskoðanir hafa gefið mjög góða raun, þótt takmarka hafi orðið ferðir vegna kostnaðarins. Fengin reynsla í þessum efnum sannar nauðsyn þess að efla verður þennan þátt starfseminnar. Þróunarsaga þessarar stofnunar er orðin alllöng. Fyrstu lög, sem gefin voru út um eftirlit með skipum, voru nr. 25 frá 1903. En samkv. l. nr. 37 frá 19. júní 1922 um eftirlit með skipum og bátum og tilskipun þar um, útgefinni í Amalíuborg 20. nóvember 1922, er hægt að segja, að skipaskoðun hafi hafizt hér á landi. Fyrsta aðalskoðun skips, sem gerð var eftir þessum l. og tilskipun hér á landi, fór fram 27. nóv. 1923.

Þróun stofnunarinnar síðan er einkennandi fyrir íslenzka tækniþróun. Verkefnum hefur verið bætt á stofnunina jafnt og þétt, þannig að nú eru þar sameinuð flest þau mál, er varða skip og siglingar, sem afgreiða þarf af hálfu opinberra íslenzkra aðila. Heildarlög eru hins vegar ekki til fyrir stofnunina, og er tilgangur þessa lagafrv. að bæta úr því og um leið að sameina og samræma starfssvið stofnunarinnar. Ekki er þó teljandi efnisbreyting fyrirhuguð á starfssviði stofnunarinnar og ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsliðs við þá breytingu, sem þetta frv. felur í sér. Nafninu er breytt til samræmis við raunverulegt verksvið stofnunarinnar eftir þróun undanfarinna áratuga. Í framhaldi þessara heildarlaga, ef frv. verður að l., yrðu síðan endurskoðuð lög um einstök verksvið stofnunarinnar, svo og reglugerðir samkv. þeim l. Þetta er orðin brýn þörf nú, ekki sízt vegna þróunar einstakra mála innanlands og á alþjóðavettvangi.

Þess má geta, að þróun hliðstæðrar stofnunar hefur orðið lík á hinum Norðurlöndunum og hér er fyrirhuguð. Skráning og mæling skipa heyrði þar einnig undir fjmrh. áður, eins og enn er hér, en hefur nú verið færð yfir, á sama hátt og hér er fyrirhugað, til Siglingamálastofnunar, sem heyrir öll undir siglingamálaráðh. Þessi breyting var gerð fyrir fáum árum, eða árið 1961, í Noregi. Embætti siglingamálastjóra og Siglingamálastofnunar í Noregi hefur nú þessi mál með höndum. Þar hefur, eins og hér hefur verið gerð tilraun til með flutningi þessa frv., verið sameinuð í einni stofnun afgreiðsla allra þeirra mála, er varða skip og siglingar, enda án efa hagkvæmast til vinnuhagræðingar, að slík mál heyri undir sömu stofnun og sama ráðh.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að gefa hér skýringar á einstökum gr. frv. Þær skýra sig sjálfar, og efni þeirra er það greitt aðgöngu, að ég tel þess ekki þörf nema sérstakt tilefni gefist til, en flestar þeirra greina eru teknar upp úr hinum ýmsu l., sem um þessa stofnun gilda í dag, en eru færðar hér í eitt frv.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.