18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2362)

162. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem hv. dm. er öllum kunnugt, þá er Happdrætti Háskólans ætlað það hlutverk að standa undir kostnaði við nýbyggingar Háskólans, viðhald eldri bygginga, tækjakaup og fleira, og gegnir það því grundvallarhlutverki við uppbyggingu þessarar æðstu menntastofnunar landsins. Háskólinn stækkar ört, og þarfir hans aukast mjög fyrir húsrými, þannig að það er ljóst, að þörfin fyrir byggingar á vegum Háskólans fer vaxandi. Árið 1963 heimilaði Alþingi, að Happdrætti Háskólans mætti gefa út nýjan flokk hlutamiða, B-flokk, sem er með þeim hætti, að gefin eru út sömu númer og í A-flokki og seld samhliða. Þetta hefur gefið mjög góða raun, þannig að Háskólinn eða happdrættisstjórnin leitar nú eftir því að fá heimild til þess að gefa út annan samstæðan flokk, C-flokk, þannig að stjórn happdrættisins telur, að með þessum hætti séu mestar líkur fyrir því, að hægt sé að auka sölu happdrættismiðanna. Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti viljað stuðla að þessari málaleitan Háskólans, og er þetta frv. því flutt hér að ósk háskólaráðs, og leyfi ég mér að vænta þess, að hv. deild geti fallizt á það að verða við þessum tilmælum Háskólans.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um frv. fleiri orð. Það er mjög einfalt og skýrir sig sjálft, og til viðbótar er að finna í grg. nánari skýringu á nauðsyn þess, að þessi nýja skipun verði heimiluð. Leyfi ég mér að vænta þess, að deildin geti fallizt á málið, og að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr, og hv. fjhn.