24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (2374)

11. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki neina ljóðabók meðferðis, svo að þetta verður mjög prósaískt, sem ég segi hér um þetta mál, en hins vegar er málið þess eðlis, að mér þykir rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar. Það er ekki mitt að hafa afskipti af því hér í þessari hv. d., hvort það fer til fjhn. eða heilbr.- og félmn. Hins vegar vil ég á það benda, að það er að ég hygg föst venja, að sveitarstjórnarmál séu í heilbr.- og félmn., og þó að hér sé um skatta að ræða, eru það ekki skattar til ríkisins, heldur skattar til sveitarfélaganna, enda er frv. um breyt. á tekjustofnal. En hvor n. sem fær þessa nýju og fallegu stílabók eða efnið í hana til meðferðar, teldi ég nauðsynlegt og sanngjarnt og sjálfsagt, að það yrði skoðað til hlítar, ekki sízt þar sem manni skilst, að það eigi að marka tímamót og upphefja einhverja óhæfu, sem nú sé í gildi.

Ég er flm. efnislega sammála um það, að það skapar vissulega oft vandkvæði, hvað mikill munur er á tekjuöflun sveitarfélaganna og mismunandi upphæðir, bæði útsvara og aðstöðugjalda, sem inn eru krafðar. Þetta er þáttur í tekjustofnamálunum, eins og þau eru upp byggð. Eins og hv. þm. er kunnugt, voru hér áður fyrr miklu rýmri hendur fyrir sveitarfélögin en í dag um útsvarsálagningu og álagningu ýmissa annarra gjalda, en þetta hefur mjög verið þrengt á síðustu árum, þó að það kunni vel að vera, að það sé ekki nægilega þrengt. En það á sínar skiljanlegu ástæður, sem þá þarf að gera sér til hlítar grein fyrir.

Það er rétt hjá hv. þm., að það getur skapað vanda fyrir atvinnurekstur að vera mismunandi skattlagður, hvort sem það eru aðstöðugjöld eða útsvör. Og það er rétt, að reynslan hefur sannað það, að heimildin um 20% álag á útsvarsstiga, sem krafizt er, til þess að sveitarfélag geti fengið framlög úr Jöfnunarsjóði, er óeðlilega hátt, og ef hún er notuð ár eftir ár, hlýtur það að leiða til þess, að vandræði viðkomandi sveitarfélaga í rauninni fari vaxandi en ekki minnkandi, vegna þess að reynslan hefur sýnt, að þá er hætta á því, að ýmsir færi búsetu sína þaðan og til annarra sveitarfélaga, þar sem gjöldin eru mun minni, þannig að það er vissulega rétt að athuga þarf þetta vandamál. Það hefur verið gert, en því er ekki að leyna, að þarna er um að ræða ágreiningsefni innan Sambands íslenzkra sveitarfélaga, og það hefur nú ekki af hálfu sveitarfélaganna verið gerð nein ályktun um það, að það þurfi að afnema þessa heimild úr l. Það er einhver misskilningur hjá hv. þm. Hins vegar hefur því verið skotið til stjórnarinnar — og nú síðast hef ég látið athuga það í félmrn, og hafa um það samráð við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga — hvort ekki sé rétt að koma þarna við einhverjum takmörkunum. Og það mál er nú sérstaklega í athugun. Hitt er aftur á móti ljóst, að eins og þetta kerfi er upp byggt nú, þarf að vera verulegt aðhald, til þess að ekki komi fram almennar kröfur frá sveitarfélögunum um framlag úr Jöfnunarsjóði, sem hlyti að leiða til öngþveitis.

Hins vegar liggur það í augum uppi, að það verður að fara mjög varlega í þessa sálma, ef menn eru þá ekki jafnframt reiðubúnir hreinlega til þess að taka upp heildarkerfisbreytingu á tekjustofnamálum sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa hingað til haldið verulega í sitt sjálfstæði, fjárhagslega sjálfstæði. Og tekjustofnalögin eru byggð á því, að þau hafi það í höndum að verulegu leyti. Þetta frv., ef að l. yrði, mundi í meginefnum leiða það af sér, að þetta sjálfstæði yrði úr sögunni. Hér er stefnt markvisst í þá átt að koma á jöfnunarútsvari um allt land, fyrst og fremst jöfnunaraðstöðugjaldi og í raun og veru einnig jöfnunarútsvari, þannig að ef þetta gerist og ef þetta verður lagt á Jöfnunarsjóðinn síðan að jafna þarna á milli, er það ljóst, að valdið í fjárhagsmálum sveitarfélaga er að töluverðu leyti í reynd af þeim tekið og færist inn í stjórnarráðið. Því fleiri sveitarfélög, sem þurfa aðstoðar við úr Jöfnunarsjóði, því þrengra verður um fyrir þau. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er um það kunnugt, að ef sveitarfélag eins og nú er í dag sækir um aðstoð til Jöfnunarsjóðs, kostar það töluvert mikla erfiðleika og mikla skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti. Þá samþykkjum við ekki fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna nema með allverulegri gagnrýni og niðurskurði, þannig að eftir að sveitarfélag er komið á þetta stig, hefur það ekki í sinni hendi nema að takmörkuðu leyti að ráða sínum eigin framkvæmdum. Það er þó hinsvegar alveg ljóst, að ef þetta yrði almenn venja, að menn gætu farið þessa braut, sem hér er opnuð, gefur það auga leið, að sveitarfélögin fara í vaxandi mæli, þau, sem nú standa ekki í miklum framkvæmdum, að leggja áherzlu á að spenna upp sínar fjárhagsáætlanir til þess að geta þó átt aðgang að Jöfnunarsjóðnum, en ekki beinlínis missa þar spón úr sinum aski. Það er alveg ljóst, að ef þessi regla yrði upp tekin, mundi verða ásókn í það í hverju sveitarfélagi, að viðkomandi sveitarfélag hækkaði svo sínar áætlanir, að komið gæti til álita greiðsla úr Jöfnunarsjóði, þannig að Jöfnunarsjóði mundi að sjálfsögðu eftir það að verulegu leyti aðeins verða varið til þess að greiða þarna á milli sveitarfélaga til jöfnunar. Út af fyrir sig er þetta ekki óframkvæmanlegt. Það er rétt. En ég vek aðeins athygli á því, ef ekki á að gera annað en það, sem hér er gert, og ekki kryfja þetta mál til mergjar, hvaða afleiðingar það hefur fyrir uppbyggingu fjárhagsmála sveitarfélaga, og þá mun ekki klessunum fækka í stílabókinni, heldur verður hún öll ein klessa. Það held ég, að sé alveg ljóst. Og þetta vildi ég biðja hv. n. sérstaklega að gera sér grein fyrir. Ég veit, að hún mun hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og leita umsagnar sambandsins um þetta efni, en það er alveg ljóst, að hér er um að ræða slíka gerbreytingu og byltingu á fjárhagsmálum sveitarfélaganna, að það er nauðsynlegt að skoða það mjög niður í kjölinn. Því til viðbótar ber svo að gæta þess, að hv. flm. hefur láðst að breyta einnig einu ákvæði tekjustofnal., sem heimilar greiðslur úr Jöfnunarsjóði í þessu skyni, vegna þess að eins og l. eru í dag eru mjög þröng mörk á því, hvað heimilt er að greiða úr Jöfnunarsjóði til þeirra þarfa, sem hér er gert ráð fyrir að verja fé til. Það er aðeins sáralítil fjárhæð og hefur naumast nægt til þess að greiða fyrir þeim örfáu sveitarfélögum, sem sótt hafa til sjóðsins til þessa, þannig að það yrði þá einnig að gera breytingu, sem heimilaði það, að Jöfnunarsjóði yrði almennt varið til þessara þarfa, en ekki eins og er í dag, að honum sé skipt upp á milli sveitarfélaganna eftir föstum reglum.

Herra forseti. Ég skal ekki fara fleiri orðum um málið. En ég taldi nauðsynlegt, að þetta kæmi fram og að athygli hv. þm. væri á því vakin, að þetta er nú ekki eins einföld hreinsun og mönnum kynni að virðast í fljótu bragði. Og enda þótt í hugsuninni, sem á bak við þetta liggur, sé margt rétt, er málið miklu flóknara heldur en hv. flm. vilja vera láta og þarf því tvímælalaust, ef við eigum ekki að komast í ógöngur með þessi mál, að fá miklu meiri athugun, ef mönnum að öðru leyti sýndist, að þeir vildu ljá hugsuninni, sem í því felst, sitt lið.