24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (2375)

11. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. sýndi mér þá virðingu að bjóða mér að vera meðflm. sinn að þessu máli, en ég hafnaði því boði, því að mér sýndist, að hér væri um svo viðamikið mál að ræða, að ég taldi mig þurfa að kanna það örlítið betur ofan í kjölinn, áður en ég gæti gerzt flm. að þessu frv., og þá alveg sérstaklega að hafa samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þetta mál. Og ég vil leggja áherzlu á það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, leiti umsagnar Sambandsins um þetta mál. Og ég geri það að minni till., að málið fari til heilbr.- og félmn., eins og þessi mál hafa ætíð farið hér í þinginu.

Ég ætla ekki að ræða mjög mikið um frv. við þessa umr. Ég vil aðeins benda á það, að með því er ráð fyrir gert, að aðstöðugjald verði eitt og hið sama um allt land. Það stendur í l. gr., að aðstöðugjald af landbúnaði skuli vera ½%. Nú vitum við það, sem erum úti í sveitunum, að ýmsar hreppsnefndir ákveða aðstöðugjald hærra en þetta, jafnvel fara með aðstöðugjöldin upp í 2%. Og þó að ég viti ekki, hvað aðstöðugjald er ákveðið t.d. í Áshreppi í Austur-Húnavatnssýslu, gæti ég samt trúað því, að það væri hærra en þetta. En ég veit, að það er allmiklu hærra í minni sveit. Og þetta gerum við þrátt fyrir það, að við höfum gefið stórfelldan afslátt af útsvörum, allt upp í 30% af hinum lögleyfða skala eða ekki lagt á nema 70%, þannig að við hefðum ekki þurft í raun og veru að hafa aðstöðugjaldið þetta hátt. Ástæðan til þess, að við höfum gert þetta, er beinlínis sú, að það hefur komið í ljós hjá okkur, að ýmsir bændur, sem hafa þó talsvert mikið umleikis og hafa haft miklar brúttótekjur, hafa komið þannig út, að það hefur ekki verið hægt að leggja á þá útsvar. Tilkostnaður þeirra hefur verið orðinn það mikill, að þeir hafa haft svo sáralitlar nettótekjur, að þeir hafa nær því sloppið eða alveg sloppið við útsvar, þannig að sveitarfélagið hefur í raun og veru jafnvel ekki náð af þessum mönnum þeim gjöldum, sem það þeirra vegna verður að borga, t.d. til almannatrygginga, sjúkrasamlaga, sýslusjóða o. s. frv. Hefðum við haft þá aðstöðu, eins og var hér áður, að leggja á þessa menn eftir efnum og ástæðum, hefðu hvorki hreppsnefndin í mínum hreppi eða ég held í öðrum dottið það í hug að láta þessa menn sleppa algerlega við það að borga útsvar. Þess vegna höfum við nú notað þessa heimild í l. að nota aðstöðugjaldið til þess að ná einhverjum útsvörum eða gjöldum í sveitarsjóðinn af mönnum, sem ég hef hér tekið dæmi af.

Svo endurtek ég ósk mína um það, að málið fari til heilbr.- og félmn.