24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

11. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er trúlega rétt hjá hæstv. fjmrh., að verði þetta frv. samþ., muni þurfa að gera einhverjar breytingar á l. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en það er vitanlega hægt að gera hvenær sem er og þörf er á.

Hv. 3. þm. Sunnl. segir, að það sé ekki rétt, sem við bendum á í grg. með frv., að það sé í höfuðatriðum sniðið eftir þeim reglum um aðstöðugjöld, sem nú gilda í Reykjavík. En þetta er rétt. Það er í höfuðatriðum svo, það er lítið vikið frá þeim, og þetta getur hann séð, ef hann vill bera þetta saman, því að reglurnar eru birtar sem fskj. í grg. frv.

Hann var að tala um álag á fiskiðnaðinn, að við gerðum ekki ráð fyrir, að það væri nema ½%. Þetta er það gjald, sem Reykjavíkurborg tekur og hefur tekið af fiskiðnaði hér. Og ég sé bara enga ástæðu til þess, að fiskiðnaður utan Reykjavíkur eigi að búa að þessu leyti við allt önnur og miklu verri kjör heldur en þeir, sem reka frystihús í Reykjavík eða annan fiskiðnað. Það er engin ástæða til þess, ekki nokkur, og það er ekkert réttlæti í því. Hann heldur, að ég muni ekki hafa áttað mig á því, hvernig þetta mundi verka á launafólk, ef þetta yrði samþ. Ég hef sýnt fram á það, að eins og þetta er núna þurfa nauðsynjavöruverzlanir úti um land að borga allt upp að 300% hærri aðstöðugjöld heldur en hliðstæðar verzlanir hér í Reykjavík. Og á hverja leggst þetta? Á fólkið, sem þar býr, alveg eins launamenn eins og aðra. En ég sýndi fram á það hér áðan, að á vissum stöðum getur aðstöðugjaldið, sem bændur þurfa að borga, orðið 700% hærra heldur en á öðrum stað. Þetta er ranglæti, sem ekki er hægt að una við og ekki er hægt að þola. Eins og ég bendi á, lenda þessi háu aðstöðugjöld á fólkinu, sem verzlar á þeim stöðum, þar sem þau eru. Það verður að borga miklu hærra verð fyrir vöruna fyrir þetta, og þar að auki verður það svo víða að borga 20% ofan á útsvörin. Þetta er líklega það réttlæti, sem hv. 3. þm. Sunnl. vill viðhalda. En ég kalla þetta ranglæti.

Þá fór hann að tala um frv. mitt, sem hér er ekki á dagskrá núna, um að greiða þóknun fyrir innheimtu skatta til ríkis og bæja, greiða atvinnurekendum þóknun fyrir innheimtu skatta, sem þeir innheimta hjá því fólki, sem hjá þeim vinnur. Hvað lengi láta vissir aðilar í þjóðfélaginu bjóða sér það að vinna mikil og áhættusöm störf fyrir það opinbera án þess að fá nokkra borgun fyrir? Mál er, að slíku linni. Það er ósæmilegt að leggja þannig þegnskyldu á einstaka aðila í þjóðfélaginu, sem allir aðrir eru lausir við. Þeir, sem vilja, geta alveg losnað við þetta, þær sveitarstjórnir, með því að innheimta sjálfar útsvörin og aðra skatta til sveitarfélaganna, eins og tíðkaðist hér áður fyrr, og láta atvinnurekendur vera lausa við það og borga þeim þá heldur ekkert í því sambandi. Þetta er opin leið fyrir þá, hafa þetta eins og áður var.

En eins og ég hef sýnt fram á er þessi munur á aðstöðugjöldunum óheyrilega mikill, og við það er alls ekki hægt að una, ekki nokkur leið.