24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2378)

11. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. flm., 1. þm. Norðurl. v., vill afsaka — ja, ég verð að segja frumhlaup sitt með því að koma með þetta frv. að ég hygg að öðru sinni inn í þingið, með því, að það sé miðað við það, sem er hér í Reykjavík. En hvað skeður þá í öðrum sveitarfélögum, sem hafa fullnýtt skala samkv. 10. gr., aðstöðugjaldaskala? Þau verða þar allavega að færa á milli af atvinnuvegunum yfir um á launþega, þannig að ég hygg, að Alþ. eigi ekki að vera að semja hér lög, sem gilda aðeins fyrir Reykjavík eða ná tilgangi sínum miðað við Reykjavík. Tekjustofnalögin hafa alltaf og eiga alltaf að gilda fyrir allt landið. Til þess voru þau samin, og þannig voru þau samþ. Þar var enginn mismunur gerður á aðstöðu hinna ýmsu sveitarfélaga. Þau gátu öll farið eftir þeim stigum, sem þar voru notuð, bæði hvað aðstöðugjald og útsvar snertir, að því hámarki, sem þar var leyft. Það er því beinn undansláttur að ætla nú að fara að afsaka flutning þessa frv. með því, að það miðist við það, sem er í Reykjavík. Það getur vel komið að því, að Reykjavík vilji nota meiri hl. af heimildunum um aðstöðugjöldin heldur en hún gerir í dag. Aðstæður geta breytzt þannig, að hún sjái sig tilneydda til þess að gera þetta og sjái sér hag í að gera það, færa aftur á milli frá launafólki yfir um á atvinnurekendur. Þetta er matsatriði hverrar sveitarstjórnar, hvar sem er á landinu, og ég held því alveg hiklaust fram, að þetta eigi að vera matsatriði, að sveitarstjórnin að þessu marki, sem tekjustofnal. heimila, hafi aðstöðu til að meta það, hvað þau vilji láta greiða fyrir þá þjónustu og þá aðstöðu, sem þau veita til atvinnureksturs hver í sínu umdæmi.

Hv. þm. kom aftur inn á flutning þess frv., sem hér var rætt í gær, og talaði þar aftur um þegnskylduvinnu. Ég segi, að það sé gott, ef einhver aðili er í þjóðfélaginu, atvinnurekendur eða aðrir, sem vilja vinna í þegnskylduvinnu. Frá þeim hef ég ekkert heyrt um það, að það liggi nokkrar óskir um það að fá innheimt laun fyrir það, sem þeir innheimta af gjöldum launamanna. Ég hef ekkert heyrt um, að það liggi nokkuð fyrir. Það er því um beina þegnskyldu hjá hv. flm. að ræða, þegar hann eyðir tíma sínum hér utan þingsala — því að vafalaust er hann að semja þetta á kvöldin, en ekki meðan hann situr þarna við borðið — í að semja slíkt frv. Hann hefur ekki verið, mér vitanlega, beðinn um það af neinum. Það hefur ekki komið fram í hans umr., og ég segi, að það sé gott, ef hann er inni á því, að bæði hann og aðrir eigi að vinna þegnskyldu. Tel ég það mikillega til bóta og gott fordæmi frekar heldur en hitt að vera að reyna með löggjöf að þvinga menn til að taka gjald fyrir starf, gjald, sem þeir hafa aldrei beðið um.

Hann talaði um, að þetta þyrfti ekkert að kosta sveitarfélögin. Það getur vel verið. En ef hin ýmsu sveitarfélög úti um land slepptu þessu ákvæði, sem þau hafa í l., að láta atvinnurekendur innheimta gjöldin, yrðu þau vissulega að fá sér innheimtumann og greiða fyrir það, að vísu ekki nálægt því eins mikið eins og hv. flm. gerir ráð fyrir, að þau muni greiða, ef atvinnurekendum væru greidd 3% fyrir það. Ég vil taka eitt dæmi, eins og ég sagði, úr meðalstóru sveitarfélagi, þar sem álögð aðstöðugjöld og útsvör eru 50 millj. Ef það er rétt, sem ég hef haldið hér fram, að 80% af þeirri upphæð greiði launafólk, — fyrirgefið, það er inni í þessu aðstöðugjaldið, þannig að þetta verður ekki eins. Það eru 34 millj., sem launafólk greiðir þar. Þá þýðir það, að 3% af því eru 1020 þús. kr. Þetta mundi það bæjarfélag verða að greiða atvinnurekendum, sem hafa þessa innheimtu, og ef atvinnurekendur fengju 3%, mundu þeir auðvitað sækjast eftir því að fá að innheimta þessi gjöld fyrir 3%. Þetta sveitarfélag í dag hefur lögfræðing í sinni þjónustu, sem það greiðir fyrir þennan hluta af starfi hans, að annast útsvars- og gjaldainnheimtuna, um 30 þús. kr. á mánuði eða 360 þús. Þarna eru tæpar 700 þús. kr., sem liggja á milli, og ég segi bara, að 5000 manna sveitarfélagi munar um 700 þús. kr., hvort það þarf að hafa útsvörin 700 þús. kr. hærri eða lægri eða hvort það hefur 700 þús. kr. tekjur til ráðstöfunar í sambandi við framkvæmdir, þannig að ég tel, að bæði þessi frv., sem hér hafa verið flutt af þessum hv. þm., séu vanhugsuð og stefni í allt aðra átt heldur en nú ríkir hér á Alþ., þ. e. að reyna að íþyngja ekki launamönnum umfram það, sem alveg er nauðsynlegt. Og ég endurtek það, að það er erfitt fyrir Framsfl. að spila þessa plötu, sem ég hef minnzt á, beggja megin samtímis, það er erfitt fyrir hann að gera það, og ég efast um, að honum takist það.