26.10.1967
Neðri deild: 9. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

16. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Skömmu fyrir lok síðasta þings tók hér sæti um stuttan tíma einn af varaþm. Sjálfstfl., Jón Ísberg sýslumaður, og flutti hann þá þetta frv., sem hér er til umr., og var ég þá meðflm. hans að því. Ég hef leyft mér að endurflytja það nú ásamt tveim öðrum hv. þm., en það fjallar um breytingar á l. um atvinnuleysistryggingar, þannig, að niður verði fellt ákvæði l. um það, að dagpeningar séu aðeins greiddir með allt að 3 börnum, eins og nú segir í l., þetta ákvæði verði fellt niður, þannig að fullar atvinnuleysisbætur verði greiddar með öllum börnum bótaþega. Eins og tekið er fram í grg., hefur þetta ákvæði að öllum líkindum komizt inn í l. fyrir misskilning vegna greiðslu fjölskyldubóta á þeim tíma, sem þessi lög voru samþ., en þá var byrjað að greiða fjölskyldubætur með 4. barni.

Í umr. um þetta mál á síðasta þingi kom það fram hjá núv. hv. 2. landsk. þm., að hann teldi enga ástæðu til að bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði stæðu í beinu sambandi við þær bætur, sem væru greiddar úr almannatryggingunum. Ég er alveg sammála þessum hv. þm. um þetta. Hér er um sérstakan sjóð að ræða, einn traustasta sjóð, sem nú er til hér á landi, ef ekki þann traustasta, og ég vildi því mjög beina því til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, hvort ekki væri athugandi að brjóta nú blað í þetta og jafnvel hækka þessar bætur fram yfir sjúkrabætur almannatrygginga, þótt ég eins og hann á sínum tíma á síðasta þingi sé ekki því fylgjandi, að slíkar eða aðrar tryggingar verði neitt eftirsóknarefni.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að loknum umr. um þetta mál að leggja til, að því verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.