02.11.1967
Neðri deild: 12. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

37. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., hefur það mál, sem frv. fjallar um, verið baráttumál B.S.R.B. og ýmissa annarra launþegasamtaka og samtaka lífeyrissjóða um árabil. Ég vil taka undir það, sem hv. flm. frv. sagði til rökstuðnings fyrir þessu frv.

Eins og fram kemur í grg. frv. hafa lífeyrissjóðsfélagar ekki á undanförnum árum haft möguleika til fullra lána frá almenna veðlánakerfinu vegna þátttöku þeirra í lífeyrissjóðunum. Á árinu 1965 var það ætlun stjórnarvaldanna að útiloka lífeyrissjóðsfélaga alveg frá lánum úr almenna veðlánakerfinu. B.S.R.B. beitti sér þá fyrir því, eins og fram kom í ræðu hv. flm., að haldinn var fundur fulltrúa frá lífeyrissjóðum, og var á þessum fundi gerð mótmælaályktun gegn því að skerða þannig rétt lífeyrissjóðsfélaga til lána úr veðlánakerfinu. Þessi fundur kaus n. til að starfa að þessu máli, eins og fram kom hjá flm., og á hv. flm. sæti í þeirri n. Sá árangur náðist strax af þessu starfi, að félmrh. og húsnæðismálastjórn féllust á að veita lífeyrissjóðsfélögum húsnæðislán að nokkrum hluta eða samtals lífeyrissjóðslán og húsnæðislán 480 þús. Síðan hafa húsnæðislánin hækkað, en húsnæðislán lífeyrissjóðsfélaga þó ekki hækkað að sama skapi. Stjórn B.S.R.B. átti á s.l. vori viðræður við félmrh. um hækkun lánanna. Þá var á s.l. vori einnig borin fram till. í húsnæðismálastjórn af Hannesi Pálssyni um hækkun lána, er samtals eru veitt af húsnæðismálastjórn og lífeyrissjóðum. Sú till. var felld. Nú hefur húsnæðismálastjórn samþykkt nokkra hækkun á lánakvóta til lífeyrissjóðsfélaga. Það má því segja, að starf B.S.R.B. og samtaka lífeyrissjóðanna hafi borið nokkurn árangur í þessu mikilvæga máli, en auðvitað er hið eina rétta, að lífeyrissjóðsfélagar fái full lán úr hinu almenna veðlánakerfi, eins og aðrir landsmenn. Þeir greiða sín iðgjöld til lífeyrissjóða, og þegar rætt er um launakjör þessara aðila, er þeim reiknaður hluti vinnuveitandans af iðgjöldunum sem laun. Þess vegna verður að líta á greiðslur þeirra til lífeyrissjóðanna á sama hátt og inneign í sparisjóði. En slíkar inneignir eru, eins og kunnugt er, ekki látnar valda skerðingu á húsnæðislánum,

Þetta frv. felur í sér leiðréttingu á misrétti, sem verið hefur á undanförnum árum, og vil ég taka undir það með hv. flm. þessa frv., að ég vonast til þess, að hv. Alþ. leiðrétti nú það misrétti með því að samþykkja þetta frv.