09.11.1967
Neðri deild: 15. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

42. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Í grg. fyrir frv. því, sem ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Austf. og hv. 9. þm. Reykv., er vikið að því, að Alþ. hefur mjög mismikil afskipti af málaflokkum. Á sumum sviðum tekur Alþ. ákvarðanir um hin smæstu framkvæmdaatriði, og stundum fer fjarska mikill tími í það að ræða um, hvort friða eigi rjúpuna eða leyfa að skjóta hana, hvernig fara eigi að því að drepa mink og veiðibjöllu, hvort kaupa eigi eða selja tilteknar eyðijarðir, hvort alkóhólprósentan í bjór eigi að vera nokkrum hundraðshlutum meiri eða minni.

En önnur svið og engu veigaminni koma naumast til kasta Alþ., þegar undan eru skildar nokkrar meginreglur. Meðal þeirra mála, sem Alþ. sinnir tiltölulega lítið, eru utanríkismál. Stjórnarvöldin bera þau mál naumast undir Alþ., nema um sé að ræða samninga við önnur ríki, sem um er rætt í 21. gr. stjórnarskrárinnar og fela í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi. Raunar hefur ríkisstj. um langt árabil í þokkabót sniðgengið Alþ. á mjög ósæmilegan hátt með því að neita að hlíta þeim ákvæðum þingskapa, sem mæla svo fyrir, að utanríkismál skuli ávallt borin undir utanrmn. Alþ. Hafa utanrrh. reynt að réttlæta þau lagabrot með því að halda því fram, að sumir nm. hafi brugðizt trúnaði, sem þeim var sýndur, en hafa þó aldrei getað sannað þá staðhæfingu.

Ákæran um trúnaðarbrot er annars táknræn fyrir afstöðu sumra forystumanna til utanríkismála. Þeir virðast vera undir býsna sterkum áhrifum frá njósnasögum þeim, sem nú eru mjög í tízku og kenndar eru við James Bond og aðrar reyfarahetjur. Þeir virðast líta á þennan málaflokk sem einhvers konar spennandi samsæri, í stíl við njósnir og gagnnjósnir. Sumir utanrrh. hafa ekki aðeins sniðgengið Alþ. heldur hafa þeir gert utanríkismálin að einhvers konar einkamálum sínum, þeir hafa ekki einu sinni rætt þau innan ríkisstj. Þess eru mörg dæmi, að Íslendingar hafi fyrst fengið fréttir um mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum okkar í erlendum blöðum eða í erlendum útvarpsstöðvum, og stundum hafa æðstu starfsmenn utanrrn. ekki haft hugmynd um gerðir og ákvarðanir ráðh., yfirboðara síns. Allt er þetta laumuspil yfirleitt einber barnaskapur. Utanríkismál eru ekkert meiri laumuspil en önnur viðfangefni landsmanna, og ég hygg, að það komi ákaflega sjaldan fyrir, að utanrrh. okkar berist vitneskja um mál, sem raunveruleg ástæða sé til að halda leyndum. Öll er þessi afstaða sérstaklega tengd tímabili kalda stríðsins, þegar tilfinningar og ástríður voru í fyrirrúmi fyrir raunsæju mati, en nú er orðið tímabært, að því óeðlilega hugarástandi sloti.

Það er tilgangur þessa frv. að gera utanríkismálin að eðlilegu viðfangsefni Alþ. Ekki ætti að þurfa að færa rök að því hér á þessum stað, hversu mikilvæg utanríkismál eru. Þau eru tengd þjóðarhagsmunum okkar á fjölmörgum sviðum. Utanríkisviðskipti eru einn veigamesti þáttur í efnahagskerfi okkar og raunar veigameiri en hjá flestum þjóðum öðrum. Við teljum réttilega, að afstaða Íslands til ýmissa alþjóðamála sé tengd mannorði okkar og heiðri. Alla þessa málaflokka þarf að ræða gaumgæfilega og leyfa andstæðum sjónarmiðum að vegast á á eðlilegan og lýðræðislegan hátt. Það má ekki vera neitt einkamál ráðh. eða embættismanna, hvaða ákvarðanir eru teknar fyrir Íslands hönd. Það verður að binda endi á þá ósvinnu, að litið sé á sendiferðir fyrir Íslands hönd til Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana sem skemmtiferðir eða umbun. Slíkar ferðir eru trúnaðarstörf, sem þarf að rækja af alvöru og vinnusemi, og Alþ. á kröfu til þess að fá nákvæmar skýrslur um störf þvílíkra sendimanna.

Við flm. þessa frv. leggjum til, að ákvæðin um verksvið utanrmn. verði gerð skýrari og fest í l. um meðferð íslenzkra utanríkismála. Við leggjum til, að ákveðið verði í l. það sjálfsagða fyrirkomulag, að þingflokkarnir eigi beina aðild að sendin. Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Og við gerum það að till. okkar, að ráðh. birti Alþ. árlega skýrslu um viðhorf ríkisstj. til utanríkismála, svo að unnt sé að hafa um þau mál almennar umr., líkt og tíðkast á flestum þjóðþingum heims.

Frv. um þessi atriði öll var flutt á síðasta þingi, og eru þau því hv. alþm. kunn, en í þessu frv. er bætt við nýju atriði, sem sé því, að ákvarðanir um íslenzk sendiráð erlendis skuli bornar undir Alþ. Hér er vikið að ákaflega veigamiklu atriði, þar sem tvímælalaust er þörf mjög gagngerðrar endurskoðunar. Íslendingar hafa nú erlendis 11 sendimenn með ambassadorsnafnbót. Tveir þeirra eru í Bandaríkjunum, einn í Sovétríkjunum, en 8 eru í Vestur-Evrópu norðanverðri á mjög litlu svæði hnattarins. Enginn íslenzkur sendiherra hefur aðsetur í Asíu, enginn í Afríku og enginn í rómönsku Ameríku. Ég held, að þetta kerfi sé miðað við forneskjulegar og löngu úreltar hugmyndir um alþjóðamál. Sendiráðaskipulag allra þjóða er raunar arfur frá löngu liðinni tíð, þegar samgöngur og fjarskipti voru með allt öðrum hætti en nú er. Meðan ferðir milli landa voru erfiðar og tímafrekar og tíðindi spurðust ekki fyrr en eftir dúk og disk, þótti, að vonum, nauðsynlegt að hafa ríkjafulltrúa búsetta í öðrum löndum, svo að þeir gætu nægjanlega snemma gætt hagsmuna ríkisstj. sinna. Sú nauðsyn er orðin með allt öðrum hætti eftir að tíðindi spyrjast jafnóðum og þau gerast, og hægt er að senda menn heimsálfanna á milli á nokkrum klukkustundum. Ekkert ríki hefur, svo að ég viti, dregið rökréttar ályktanir af þessum gerbreyttu viðhorfum í samgöngum og fjarskiptum, heldur halda ríkin uppi sendimannakerfi, sem miðast við allt aðrar forsendur en nú eru í heiminum, en hagnýta sér engu að síður samgöngur og fjarskipti með því að senda n. til að rækja öll þau verk, sem mikilvægust eru talin. Ég held, að endurskoðun á þessu sviði sé engri þjóð nærtækari og sjálfsagðari en Íslendingum, vegna þess að við komumst ekki hjá því að spara mjög kostnað við þessa starfsemi. Ég er þess fullviss, að við gætum hagnýtt þá fjármuni, sem við verjum nú til sendiráða erlendis, á miklu árangursmeiri hátt ef við hættum að binda okkur við úrelt eða fast sendiráðakerfi, en reyndum að búa til hreyfanlegt skipulag, sem samrýmist fjarskiptatækni og samgöngum okkar tíma. Ég er þess t.d. fullviss, að hægt væri að rækja hagsmuni okkar í Vestur-Evrópu norðanverðri á mun einfaldari og kostnaðarminni hátt en nú er gert með 8 ambassadorum, ekki sízt þegar þess er gætt, að við teljum okkur nauðsynlegt að senda árlega mikinn fjölda sendin. til þessara sömu landa. Það sem unnt væri að spara með nútímalegri skipan þessara mála, mundi gera okkur kleift að framkvæma þá augljósu nauðsyn að koma okkur upp raunverulegri utanríkisþjónustu í Asíu, Afríku og rómönsku Ameríku. Í þeim heimshlutum eru að gerast atburðir, sem við verðum að afla okkur sjálfstæðrar vitneskju um, ef við viljum vera hlutgengir í alþjóðasamtökum, og í þeim heimshlutum bíða okkar markaðir, sem verða án efa æ mikilvægari, ef við kunnum að hagnýta þá.

Þar er raunar komið að atriði, sem er tvímælalaus veila í sendimannakerfi okkar erlendis. Það hefur ekki verið lögð nándar nærri næg áherzla á það, að sendimenn okkar hafi yfir þeirri sérþekkingu og starfsgetu að ráða, sem hæfir viðskiptahagsmunum okkar. Enda þótt ég aðhyllist ekki kenningar danska ráðh., sem taldi, að utanríkisstefna þjóðar sinnar ætti að vera eins konar undirdeild í viðskmrn. og mótast af verzlunarhagsmunum einum, er ég hiklaust þeirrar skoðunar, að við eigum að skipuleggja utanríkisþjónustu landsins svo, að hún geri okkur kleift að hagnýta þá markaðsmöguleika, sem beztir eru hverju sinni. Á því sviði hefur stjórn utanríkismálakerfisins verið of loppin og tilviljanakennd allt til þessa.

Ástæðan til þess, að við, flm. þessa frv., leggjum til, að ákvarðanir um sendiráð skuli bornar undir Alþ., er sú, að við teljum gagngera endurskoðun nauðsynlega á þessu sviði, og sjálfsagt er, að Alþ. taki virkan þátt í þeirri endurskoðun. Ég held, að slíkt lagaákvæði geti naumast torveldað ríkisstj. nauðsynlegt svigrúm. Ákvarðanir um slíkt efni eru það lengi í deiglunni, að ævinlega á að vera ráðrúm til að bera þær undir þm.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að þetta frv. fjallar ekki um sjálfa stefnuna í utanríkismálum og ágreiningur um hana á því ekki að þurfa að hafa áhrif á afstöðu þm. til þessara till. Hér er aðeins lagt til, að ákvörðunarvald Alþ. verði aukið á þessu mikilvæga sviði, að alþm. taki að telja utanríkismál sjálfsagt starfssvið sitt, að þau séu flutt af reyfarastiginu inn á vettvang hins rúmhelga dags. Í því sambandi tel ég ástæðu til að taka undir þau orð, sem hv. 5. þm. Reykv., Guðmundur H. Garðarsson, mælti hér í síðustu viku um nauðsyn þess, að Alþ. afsali sér ekki sjálfsögðum skylduverkum sínum til embættismanna og n. Það er raunverulegt áhyggjuefni, hversu mjög Alþ. hefur sett ofan í vitund þjóðarinnar nú um alllangt skeið vegna þess að réttilega er talið, að hinar mikilvægustu ákvarðanir séu teknar utan veggja þessarar virðulegu stofnunar. Það er tvímælalaus lýðræðisnauðsyn, að Alþ. stefni markvisst að því að endurheimta reisn sína og sjálfsákvörðunarrétt. Till. okkar er einnig ætlað að stuðla að slíkri þróun,

Ég legg svo til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. allshn.